Í höfundabúðum í Kína
Í haust varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið að dvelja í fjórar vikur í höfundabúðum á vegum Sun Yat-sen-háskóla í Guangzhou í Kína. Þetta ku vera einu búðirnar af þessu tagi í Kína og var þetta í annað skipti sem staðið var fyrir slíkum búðum á vegum Sun Yat-sen-háskóla.
Við vorum níu höfundarnir: leikritaskáldið Barbára Colio frá Mexíkó, ljóðskáldið og þýðandinn George Szirtes frá Englandi, skáldsagnahöfundurinn Larissa Boehning frá Þýskalandi, skáldsagna- og greinahöfundurinn Daan herma van Voss frá Hollandi, ljóðskáldið og þýðandinn Ravi Shankar og smásagnahöfundurinn Katherine Nelson frá Bandaríkjunum, skáldsagnahöfundarnir og ljóðskáldin Merlinda Bobis frá Ástralíu og Alison Wong frá Nýja-Sjálandi. Allt eru þetta mikilsmetnir höfundar og flestir þeirra margverðlaunaðir í sínum heimalöndum. Tíundi höfundurinn, Fan Dai, prófessor við Sun Yat-sen-háskóla, var svo umsjónarmaður og helsti skipuleggjandi búðanna. Hún skrifar mikið af sannsögulegu efni, ýmist á kínversku eða ensku.
Búðirnar hófust í Yangshuo þar sem þúsundir karsthóla fylla dali. Okkur var komið fyrir í hæfilega stóru húsi með tignarlegan karsthól á aðra hönd og fljót á hina. Þarna gátum við sinnt ritstörfum í næði í hálfan mánuð. Inn á milli var farið með okkur í heimsóknir í skóla, við lásum upp og fórum í viðtöl en heimildarmynd var gerð um búðirnar. Stúdentar frá Sun Yat-sen-háskóla voru okkur innan handar og þýddu efni eftir okkur yfir á kínversku.
Að þessum tveimur vikum liðnum tókum við lestina til Guangzhou þar sem við lásum upp og héldum fyrirlestra í háskólum á svæðinu. Sjálfur tók ég þátt í vel sóttum upplestri í Sun Yat-sen-háskóla og flutti síðan fyrirlestur um að þýða á mál í útrýmingarhættu fyrir ritlistar- og þýðingarnema við sama skóla.
Síðustu vikuna dvöldum við í Jiangmen þar sem við fengum aftur tækifæri til að sinna ritstörfum. Eins voru tekin frekari viðtöl við okkur fyrir heimildarmyndina auk þess sem blaðamenn á svæðinu mættu í heimsókn og ræddu m.a. við mig um heitar laugar en í Jiangmen er einmitt heilsulind þar sem hveravatn er nýtt.
Ekki þarf að fjölyrða um hve mikils virði er að fá tækifæri til þess að dvelja í samfélagi við úrvalshöfunda héðan og þaðan úr heiminum í landi eins og Kína. Ég hafði ekki komið til Kína áður og má segja að þetta hafi verið frábær kynning á landinu. Prófessor Fan Dai er snjöll kona sem hefur hefur m.a. menntað sig á Vesturlöndum þannig að hún hefur góða innsýn í bæði vestræna og austræna menningu. Ekki voru gerðar neinar kröfur til okkar höfundanna um að skrifa eða skrifa ekki um Kína. Hún sagði að hver háskóli þyrfti að bjóða upp á prógramm sem væri of gott til að vera satt og það á sannarlega við um búðirnar hennar.