Fyrirlestur Jónasar Hallgrímssonar í ritlist – Hlín byrjar

Fimmtudaginn 23. mars heldur Hlín Agnarsdóttir fyrirlestur í nýrri fyrirlestraröð á vegum ritlistar við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Röðin er kennd við Jónas Hallgrímsson en í vetur hefur Hlín gegnt starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist.

Í fyrirlestrinum mun Hlín tala um eigin skrif, bæði birt og óbirt, og fjalla um áhrif ofbeldis á heimili og í uppeldi. Þar leikur fyrirferðarmikil rödd föðurins stórt hlutverk og verður að afgerandi afli í sjálfsmynd stúlkubarns. Fyrirlesturinn er persónulegt framhald Hlínar Agnarsdóttur af umræðu sem hefur farið fram að undanförnu um tjáningu ofbeldis í listum, vald og siðferðilega ábyrgð listamannsins.

Hlín er fjölmenntuð í leiklistar- og bókmenntafræðum, hefur lokið framhaldsnámi í leikstjórn frá Drama Studio í Lundúnum, fil.kand-próf í leiklistarfræðum frá Stokkhólmsháskóla og MA-próf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað fjölda leikrita, m.a. Konur skelfa og Gallerí Njála sem sett voru upp í Borgarleikhúsinu. Hlín hefur sent frá sér þrjár bækur, skáldsögurnar Hátt uppi við Norðurbrún 2001 og Blómin frá Maó 2009, sem og sannsöguna Að láta lífið rætast 2003 en fyrir hana var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Hlín hefur starfað sem leikstjóri og dramatúrg bæði í atvinnu- og áhugaleikhúsum um árabil, auk þess sem hún hefur verið leiklistargagnrýnandi á DV og í Kastljósi hjá RÚV. Í vetur hefur hún unnið með ritlistarnemum í grunnnámi og framhaldsnámi að ýmiss konar ritlistarverkefnum, m.a. að leikritum sem flutt voru í Útvarpsleikhúsinu fyrr á árinu.

Fyrirlestur Hlínar ber titilinn Þegar ég varð að Gregor Samsa – stúlkan og föðurröddin. Hann fer fram í stofu 422 í Árnagarði og hefst kl. 12. Allir velkomnir.

Bartleby loksins kominn til Íslands

Á dögunum kom út þýðing mín á hinni frægu smásögu (stundum reyndar flokkuð sem nóvella) Hermans Melvilles, „Bartleby, the Scrivener“. Þar með er þessi sígilda saga loksins komin út á íslensku.

„Ég kýs það síður,“ segir Bartleby skrifari hvað eftir annað í þessari sögu. Hann hefur ráðið sig til starfa á lögmannsstofu á Wall Street og þetta tilsvar hans hrindir af stað atburðarás sem er í senn skondin og sorgleg. Um leið vekur hún grundvallarspurningar um samskipti manna, spurningar sem þó fást engin endanleg svör við. Sagan hefur einnig verið rædd sem skáldleg yfirlýsing um borgaralega óhlýðni andspænis ofurvaldi samfélags sem stjórnast af lögmálum Wall Street.

Sagan af Bartleby kom fyrst út árið 1853 og er ásamt Moby Dick lífseigasta verk Hermans Melvilles. Hún telst lykilsaga í þróun smásagnaformsins vegna þess að þar koma fram persónur sem líkjast raunverulegu fólki en áður líktust sögupersónur gjarnan goðsagnaverum.

Sagan birtist hér í tvímála útgáfu á íslensku og ensku, með eftirmála þar sem fjallað er bæði um söguna og þýðinguna. Einnig fylgja ýmis umhugsunarefni fyrir lesandann sem gætu nýst við kennslu í ensku, bókmenntum og ritlist.

Þetta er fyrsta bókin í tvímála ritröð Þýðingaseturs Háskóla Íslands með klassískum textum í aðgengilegu formi fyrir nemendur og bókmenntaunnendur. Ritstjóri raðarinnar er Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði við Háskóla Íslands.