Ritlistarannáll 2017

Jöfn og góð aðsókn hefur verið að meistaranámi í ritlist frá því að það var tekið upp árið 2011 og hefur einungis verið unnt að taka inn rúman þriðjung umsækjenda á ári hverju. Umsóknir eru metnar af sérstakri inntökunefnd, sem greinarformaður situr í ásamt tveimur fulltrúum sem Rithöfundasamband Íslands tilnefnir. Þá er einnig mikill áhugi á ritlist sem aukagrein í grunnnámi.

Á árinu útskrifuðust níu nemendur með MA-próf í ritlist, þrír karlar og sex konur. Í febrúar fengu þeir Janus Christiansen og Kristinn Árnason prófskírteini sín afhent, í júní þær Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sigrún Elíasdóttir og Þuríður Elfa Jónsdóttir og í október þau Einar Leif Nielsen, Eygló Jónsdóttir, Fríða Jóhanna Ísberg og Þóra Hjörleifsdóttir. Útskriftarverkefni þeirra voru hin fjölbreyttustu, sum þýddu skáldverk, önnur skrifuðu fyrir unga lesendur, ortu ljóð, skrifuðu sannsögur og smásögur.

Okkar fólk lét líka mikið að sér kveða í bókmenntalífinu á árinu, efndi til viðburða, sendi frá sér verk af ýmsu tagi, var tilnefnt til eða hlaut verðlaun og kom oft fram í fjölmiðlum til að kynna verk sín og ræða um bókmenntir. Sum þeirra gerðu líka útvarpsþætti.

 

Birt verk

Ritlistarnemar sendu frá sér á þriðja tug verka sem mér er kunnugt um. Kenndi þar ýmissa grasa en ljóðabækur voru áberandi. Hér getur að líta lista yfir birt eða flutt verk:

  • Soffía Bjarnadóttir. Ég er hér. Ljóð. Mál og menning 2017.
  • Fríða Ísberg, Melkorka Ólafsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Þóra Hjörleifsdóttir, Þórdís Helgadóttir (svikaskáld): Ég er ekki að rétta upp hönd, 2017.
  • Í hverju ertu? Sýnisrit ritlistarnema 2017.
  • Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir. Why are We Still Here. Ókeibæ 2017.
  • Jóhannes Ólafsson. Uggur og andstyggð í Las Vegas e. Hunter S. Thompson. Þýðing og eftirmáli. Forlagið 2017.
  • Heiðrún Ólafsdóttir. Why are Icelanders so Happy? Á ensku. 2017
  • Áslaug Björt Guðmundardóttir. Your Inner Iceland. 2017.
  • Tryggvi Steinn Sturluson. Vatnsstígur. Ljóð. Partus 2017.
  • Jóhanna María Einarsdóttir. Pínulítil Kenopsía. Skáldsaga. Sæmundur 2017.
  • Jónas Reynir Gunnarsson. Leiðarvísir um þorp. Ljóð. Partus 2017.
  • Jónas Reynir Gunnarsson. Millilending. Skáldsaga. Partus 2017.
  • Jónas Reynir Gunnarsson. Stór olíuskip. Ljóð. Partus. 2017
  • Heiðrún Ólafsdóttir. Ég lagði mig aftur. Ljóð. 2017
  • Fríða Ísberg. Slitförin. Ljóð. Partus 2017.
  • Dagur Hjartarson. Heilaskurðaðgerðin. Ljóð. JPV 2017.
  • Kristín Ragna Gunnarsdóttir. Úlfur og Edda: Drekaaugun. Bókabeitan 2017.
  • Eygló Jónsdóttir. Ljóti jólasveinninn. Barnabók. 2017.
  • Bergþóra Snæbjörnsdóttir. Flórída. Benedikt 2017.
  • Ragnar Helgi Ólafsson. Handbók um minni og gleymsku. Bjartur 2017.
  • Veisla. Jólabók Blekfjelagsins 2017.
  • Hildur Knútsdóttir (ásamt Þórdísi Gísladóttur). Doddi – Ekkert rugl. Bókabeitan 2017.
  • Brynjar Jóhannesson, 12 ljóðakver, eitt í hverjum mánuði ársins: Ég, Flugvél, Og, Stríð, Suð, Kraká, Afturför, Flótti, Hár, Kraðak, Mæri, Endalok.
  • Halla Þórlaug Óskarsdóttir. Hún pabbi, leikrit (ásamt Köru Hergils). Borgarleikhúsið.
  • Brynjar Jóhannesson. Þýðir ekkert annað. Útvarpsleikhúsið.
  • Stefanía dóttir Páls. Verksmiðjan. Útvarpsleikhúsið
  • Brynjólfur Þorsteinsson. Algrímur alsjáandi. Útvarpsleikhúsið.
  • Una Björk Kjerúlf. Viðtal við konseptlistamann. Útvarpsleikhúsið.
  • Fríða Ísberg. Hringbraut. Útvarpsleikhúsið.
  • Ólöf Sverrisdóttir. Dansandi skuggar. Útvarpsleikhúsið.
  • Brynja Hjálmsdóttir. Blóðmenn. Útvarpsleikhúsið.
  • Margrét Bjarnadóttir. Orðið á götunni. 2017

Margir áttu síðan efni í tímaritum, safnritum, vefritum og blöðum.

Verðlaun og viðurkenningar

Það er nánast með ólíkindum hvað okkar fólk hreppti margar viðurkenningar á árinu, þar á meðal Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir barna- og unglingabækur, Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og Bóksalaverðlaunin.

  • Hildur Knútsdóttir: Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna og ungmennabóka fyrir Vetrarhörkur.
  • Hildur Knútsdóttir: Tilnefning til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur fyrir Vetrarhörkur og Dodda – bók sannleikans.
  • Þórey Mjallhvít Ómarsdóttir: Tilnefning til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur fyrir Ormhildarsögu.
  • Kristín Ragna Gunnarsdóttir: Tilnefning til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir bókina Úlfur og Edda: Dýr­grip­ur­inn.
  • Dagur Hjartarson: Tilnefning til European Union Prize for Literature handa nýjum höfundum (bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins) fyrir Síðustu ástarjátninguna.
  • Brynjar Jóhannesson: Vann dvöl í Kraká 2017 (residensía) á vegum UNESCO City of Literature.
  • Sigurlín Bjarney Gísladóttir: Tilnefning til Maístjörnunnar, ljóðaverðlauna, fyrir Tungusól og nokkrir dagar í maí.
  • Þorvaldur S. Helgason: Fyrstu verðlaun í smásagnakeppni Stúdentablaðsins 2017 fyrir söguna „Eftir veisluna“.
  • Þórdís Helgadóttir: 2. verðlaun í smásagnasamkeppni Stúdentablaðsins 2017 fyrir söguna „B5-M“.
  • Brynjólfur Þorsteinsson: 3. verðlaun í smásagnakeppni Stúdentablaðsins 2017 fyrir söguna „Rússneska saga“.
  • Jónas Reynir Gunnarsson: Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Stór olíuskip.
  • Lárus Jón Guðmundsson: Fyrstu verðlaun fyrir ljóðið „Ég kaus“. Stúdentablaðið.
  • Bergþóra Snæbjörnsdóttir: Flórída. Tilnefning til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta.
  • Ragnar Helgi Ólafsson: Handbók um minni og gleymsku. Tilnefning til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta.
  • Bergþóra Snæbjörnsdóttir: Flórída. Tilnefning til Fjöruverðlaunanna.
  • Fríða Ísberg: Slitförin. Tilnefning til Fjöruverðlaunanna.
  • Fríða Ísberg: Slitförin. Bóksalaverðlaunin 2017.
  • Dagur Hjartarson. Heilaskurðaðgerðin. 2. sæti í Bóksalaverðlaununum 2017.

Þeim fjölgar stöðugt úr okkar röðum sem fá listamannalaun. Í ár voru það þau Dagur Hjartarson, Soffía Bjarnadóttir, Hildur Knútsdóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Sverrir Norland, Alexander Dan Vilhjálmsson, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir, Kjartan Yngvi Björnsson, Ragnar Helgi Ólafsson, Sigurlín Bjarney Gísladottir og Þóra Karítas Árnadóttir. Ragnar Helgi fékk einnig úr Launasjóði myndlistarmanna, Jóhanna Friðrika einnig úr Launasjóði sviðslistafólks, sem og Harpa Arnardóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Margrét Bjarnadóttir og Ingunn Lára Kristjánsdóttir.

Þá fengu Þórdís Helgadóttir, Jónas Reynir Gunnarsson, Heiðrún Ólafsdóttir og Friðgeir Einarsson starfsstyrki úr hinum nýja Höfundasjóði Rithöfundasambands Íslands.

Viðburðir

Ritlist stóð fyrir allmörgum viðburðum á árinu. Þar ber hæst ráðstefnuna NonfictioNOW, alþjóðlega ráðstefnu um óskálduð skrif. Yfir 400 manns sóttu ráðstefnuna og vinsælasta viðburðinn, fyrirlestur Karls Ove Knausgaards, sóttu á sjötta hundrað manns. Nánast allir ráðstefnugestirnir komu erlendis frá. Við hefðum gjarnan viljað sjá fleiri úr íslenska höfunda- og fræðasamfélaginu en þó verður að geta þess að fjölmiðlar gerðu ráðstefnunni góð skil, m.a. tók Sjónvarpið upp viðtal við Knausgaard og sýndi í sérstökum þætti. Ritlistarnemar lásu úr verkum sínum á ráðstefnunni og út úr því kom birting í bandarísku tímariti síðar á árinu.

Af öðrum viðburðum má nefna nýlundu sem við efndum til, fyrirlestur kenndan við Jónas Hallgrímsson. Það var Hlín Agnarsdóttir sem flutti þar fyrirlestur um líf og list. Við efndum líka til hádegismálstofu um líf og list undir heitinu „Er allt leyfilegt í listum?“ Sú málstofa sló í gegn og komust færri að en vildu enda hafði efnið komist í hámæli í tengslum við sýningu í Þjóðleikhúsinu. Ritlistarnemar frá Michigan-háskóla komu í heimsókn og var efnt til sameiginlegs upplestrarkvölds með þeim. Margir aðrir gestir litu inn í tíma til okkar, m.a. Alda Sigmundsdóttir, Einar Már Guðmundsson, Ása Helga Hjörleifsdóttir og danskur bókaútgefandi sem hingað kom á vegum Bókmenntahátíðar. Sú hefð hefur skapast að efna til helgarvinnustofu með íslenskum rithöfundi utan Reykjavíkur á vorin og að þessu sinni var farið í Hveragerði þar sem Guðrún Eva Mínervudóttir leiddi vinnuna.

Fráfall Sigurðar Pálssonar

Sigurður Pálsson, sem kennt hafði árlegt námskeið í ljóðagerð hjá okkur frá því ritlist varð að fullgildri námsgrein, lést úr krabbameini 19. september. Hann hafði þá kennt tvö námskeið hjá okkur eftir að hann greindist, án þess að  missa úr eina einustu kennslustund. Sigurður var mikils metinn ritlistarkennari og við hann átti ég margt spjallið. Hann var talandi skáld því listræn hugsun var honum samofin og gerði það að verkum að hvert samtal við hann varð að ljóðrænni upplifun. Við lok útfarar Sigurðar mynduðu ritlistarnemar og kennarar hring um kistuna þar sem hún stóð fyrir utan Hallgrímskirkju. Það var falleg og eftirminnileg kveðjustund.

Kennarar á árinu

Allmargir komu að kennslu og leiðsögn. Smiðjur kenndu Huldar Breiðfjörð, sem gegndi starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist á haustmisseri, Sigurður Pálsson, Sveinn Yngvi Egilsson, Haraldur Jónsson, Hrefna Lind Lárusdóttir, Trausti Ólafsson, Halla Margrét Jóhannesdóttir og Hlín Agnarsdóttir, auk undirritaðs. Fjölmargir aðrir, einkum rithöfundar, tóku að sér að leiðsegja nemendum með lokaverkefni eða ritdæma þau. Öllu þessu fólki eru færðar þakkir fyrir vel unnin störf.

 

Annað bindi Smásagna heimsins

Annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins kom út á haustmánuðum og hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges, Clarice Lispector og Gabriel García Márquez.

Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006. Langflestar sögurnar eru þýddar úr spænsku, en einnig eru þarna sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku.

Í viðtali við DV sagði ég m.a. um þetta bindi:

„Þetta eru sögur sem rífa í, sem róta í manni en bjóða fagurkerum um leið upp á mikinn lestrarunað. Þarna er látið reyna á smásagnaformið á annan hátt en í Norður-Ameríku þar sem raunsæið er ofar hverri kröfu. Hjá smásagnahöfundum í Suður-Ameríku eru ýmsar stílfærslur algengar, töfraraunsæi er beitt og fantasíu af ýmsu tagi en þó má einnig finna þarna flottar raunsæissögur, t.d. frá Brasilíu og Jamaíka. Útkoman er ofurlítill konfektkassi þar sem lesandinn getur bragðað á ýmsum molum og fengið um leið góða tilfinningu fyrir því sem stendur hjarta fólks næst í þessum heimshluta. Það þykjumst við í ritnefndinni geta fullyrt vegna þess að við höfum lesið margfalt fleiri sögur en þær sem birtast í bókinni.“

Aðalritstjóri þessa bindis er Kristín Guðrún Jónsdóttir, en við Jón Karl Helgason erum meðritstjórar.