Afmælisárið í hnotskurn

Haustið 2008 hóf fyrsti hópurinn nám í ritlist sem aðalgrein til BA-prófs við Háskóla Íslands. Þá um sumarið hafði verið ráðinn fastur kennari til þess að byggja upp nám í ritlist. Í fyrsta hópum voru nokkrir höfundar sem nú hafa náð fótfestu, s.s. Hildur Knútsdóttir, Dagur Hjartarson og Alexander Dan Vilhjálmsson. Í umfjöllun um ljóðabók eftir nýútskrifaðan ritlistarnema, Ásdísi Ingólfsdóttur, segir dr. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur undir millifyrirsögninni „Árangursríkt nám“:

„Ásdís er meðal þeirra fjölmörgu hæfileikaríku skálda sem farið hafa gegnum ritlistarnám Háskóla Íslands, en segja má að það nám sé farið að hafa stórtæk áhrif á íslenskt bókmenntalíf, þar fær fólk að rækta hæfileika sína undir leiðsögn góðra rithöfunda og skálda, og undanfarin ár hafa flætt inn á bókamarkaðinn athyglisverð bókmenntaverk frá þeim sem hafa útskrifast úr náminu – mörg þeirra hafa hlotið verðlaun og enn fleiri tilnefningar til ýmis konar verðlauna og viðurkenninga.“

Fyrsti hópurinn sem ég kenndi eftir að ritlist var gerð að aðalgrein haustið 2008.

Þetta má til sanns vegar færa því að hátt í þrjátíu verk eftir núverandi og fyrrverandi nemendur litu dagsins ljós á árinu; skáldsögur, smásagnasöfn, ljóðabækur, sannsögur, þýðingar og leikrit. Viðurkenningar streymdu líka inn og nálguðust tvo tugi bara á árinu 2018. Í heildina eru útgefin verk eftir ritlistarnema síðustu tíu árin komin vel á annað hundraðið. Verðlaun og viðurkenningar af ýmsu tagi á þessu tímabili nálgast nú hundraðið.

Í október síðastliðnum héldum við upp á tíu ára afmæli ritlistar með þremur dagskrám undir yfirskriftinni „Pár í tíu ár“. Sú síðasta þeirra var viðamest en þar stigu verðlaunaðir ritlistarnemar á stokk auk þess sem frumflutt var myndband sem gert var í tilefni af afmælinu.

Á árinu útskrifaðist metfjöldi með meistarapróf í ritlist eða þrettán. Það voru þau Eyþór Gylfason, Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, Birta Þórhallsdóttir, Brynjólfur Þorsteinsson, Melkorka Ólafsdóttir, Ragnheiður Erla Björnsdóttir, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, Arndís Þórarinsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir, Brynja Hjálmsdóttir, Ingimar Bjarni Sverrisson, Lárus Jón Guðmundsson og Sigurður Fjalar Sigurðarson.

Þá útskrifuðust tveir með BA-próf í ritlist, þeir Bragi Páll Sigurðarson og Gunnar Jónsson. Ekki er þó lengur boðið upp á ritlist sem aðalgrein til BA-prófs. Ritlist er hins vegar í boði sem aukagrein til BA-prófs og brautskráðust á árinu 14 nemendur með ritlist sem aukagrein.

Kristín Helga Gunnarsdóttir

Fjölmargir kennarar komu við sögu á árinu, flestir þeirra úr rithöfundasamfélaginu. Sumir hafa verið í lykilhlutverki á undanförnum áratug, s.s. Hlín Agnarsdóttir sem á haustmisseri kenndi 15 eininga námskeið í leikritun. Þar var gerð tilraun til þess að bjóða viðameira námskeið en áður og voru atvinnuleikarar m.a. fengnir til þess að leiklesa verk nemenda og vinna með þeim. Í upphafi árs tóku nemendur frá okkur einnig þátt í samstarfsnámskeiði með sviðslistadeild Listaháskólans. Afraksturinn af þessu er m.a. sá að 30 mínútna verk eftir Þórdísi Helgadóttur var valið til frekari vinnslu og verður sýnt í Borgarleikhúsinu snemma á næsta ári.

Kristín Helga Gunnarsdóttir gegndi starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist á haustmisseri. Hún vann með ritlistarnemum að ritun barna- og ungmennabókmennta.

Ég þakka ritlistarnemum, kennurum og öðru samstarfsfólki fyrir vel unnin störf og ánægjulegt samstarf á árinu, já og reyndar síðustu tíu árin. Nú höldum við inn í annan áratug full af skapandi eftirvæntingu.