Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur
Steinunn Sigurðardóttir skáld flytur hátíðarfyrirlestur Jónasar Hallgrímssonar 23.október klukkan fjögur í Veröld, húsi Vigdísar. Fyrirlesturinn er haldinn í tilefni af því að Steinunn gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands á haustmisseri 2019.
Í fyrirlestrinum, sem hefur yfirskriftina „Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur“, veltir Steinunn fyrir sér nýyrðum í ljóðmáli nokkurra íslenskra skálda, frá Jónasi Hallgrímssyni til Sigfúsar Daðasonar. Um leið beinir hún sjónum að ofnotkun valinkunnra orða, sem gerir þau tæp í skáldskaparskyni.
Steinunn á fimmtíu ára skáldafmæli um þessar mundir, en hún sendi frá sér fyrstu ljóðabók sína, Sífellur, þegar hún var nítján ára, þá við háskólanám í Dublin. Nú í október kemur út ljóðabók hennar, Dimmumót, sem er bálkur um hörfandi Vatnajökul, með sjálfsævisögulegu ívafi. Dimmumót er tíunda ljóðabók Steinunnar, en hún hefur sent frá sér ljóð og skáldsögur jöfnum höndum síðan 1986, þegar fyrsta skáldsaga hennar, Tímaþjófurinn, kom út.
Tímaþjófurinn er ein umræddasta skáldsaga síðari áratuga á Íslandi. Bókin naut einnig hylli fyrir utan landsteinana, í Frakklandi sérstaklega, þar sem hún var kvikmynduð með þarlendum stjörnum. Þá var Tímaþjófurinn settur á svið Þjóðleikhússins 2017, með Nínu Dögg Filippusdóttur í aðalhlutverkinu, Öldu Ívarsen, sem kölluð hefur verið tragískasta kvenpersóna íslenskra nútímaskáldsagna.
Meðal annarra skáldsagna Steinunnar má svo nefna Sólskinshest, Ástina fiskanna, Jöklaleikhúsið, Jójó, og Gæðakonur. Skáldsögur Steinunnar hafa um langt árabil komið út í þýðingum í helstu Evrópulöndum og hlotið frábæra dóma.
Meðal ljóðabóka Steinunnar eru Verksummerki, Hugástir og Að ljóði munt þú verða.
Steinunn hefur einnig sent frá sér smásagnasöfn, barnabók og leikverk. Meðal þeirra er sjónvarpsmyndin Líkamlegt samband í norðurbænum. Tvær af bókum Steinunnar eru sannsögur, um Vigdísi Finnbogadóttur, meðan hún gegndi embætti forseta Íslands, og bókin um Heiðu sauðfjárbónda á Ljótarstöðum sem kom út árið 2016.
Steinunn var fréttamaður útvarps um tíu ára skeið. Hún vann að þáttagerð fyrir sjónvarp og tók meðal annars viðtal við Halldór Laxness í tilefni af áttræðisafmæli hans, svo og viðtöl við Svövu Jakobsdóttur, Guðberg Bergsson og Iris Murdoch.
Steinunn hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2014 og ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar árið 2017. Hún hlaut verðlaun íslenskra bóksala fyrir skáldsöguna Jójó og fyrir bókina um Heiðu. Sú síðarnefnda hreppti einnig Fjöruverðlaunin. Steinunn fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Hjartastað og hafa fimm aðrar bækur hennar verið tilnefndar til sömu verðlauna.
Náttúra Íslands hefur lengi verið veigamikill þáttur í ritmennsku Steinunnar og hún hefur látið náttúruvernd og loftslagsmál til sín taka á ýmsum vettangi. Væntanleg bók hennar, Dimmumót, er bálkur um hörfandi Vatnajökul, veröld sem var og verður. Þess má geta að Steinunn á heiðurinn af nýyrðinu hamfarahlýnun, sem nú hefur fest sig í sessi.
Fyrirlestur Steinunnar verður í sal 023 í Veröld. Allir velkomnir. Léttar veitingar í boði að fyrirlestri loknum.