Tímamót í sögu ritlistar við HÍ

Hinn 1. júlí 2020 urðu tímamót í sögu ritlistar við Háskóla Íslands. Þá hóf Huldar Breiðfjörð, rit- og handritshöfundur, störf sem lektor í ritlist og nú eru því í fyrsta skipti tveir fastir kennarar í greininni. Það eflir starfið og skapar ný sóknarfæri. Eftir sem áður munu þó stundakennarar koma við sögu og séð verður til þess að bæði karlar og konur komi að kennslunni.

Huldar lauk meistaraprófi í kvikmyndagerð og handritaskrifum fyrir kvikmyndir og sjónvarp frá New York háskóla árið 2007. Hann er viðurkenndur höfundur fagurbókmennta, hefur m.a. birt ljóðasafn, samið leikrit sem sett hafa verið á svið í atvinnuleikhúsi, og skrifað prósaverk sem hlotið hafa hylli gagnrýnenda. Sömuleiðis hefur hann samið handrit að sjónvarpsþáttum, og enn fleiri kvikmyndum og hefur m.a. unnið til Eddu-verðlauna fyrir handrit að kvikmyndinni Undir trénu, sem hann vann í samstrfi við leikstjóra myndarinnar, Hafstein Gunnar Sigurðsson.

Ég býð Huldar velkominn til starfa og hlakka til þess að ýta námsgreininni enn lengra í samvinnu við hann.