Villimennska eða kærkomið vopn?

Í 2. hefti Tímarits Máls og menningar 2021 getur að líta grein eftir mig um útilokunarmenningu, hatursorðræðu og málfrelsiskreppuna sem mér finnst einkenna samtímann.

Í greininni reifa ég einkenni og afleiðingar útilokunarmenningar. Einnig ræði ég skilgreiningar á hatursorðræðu og löggjöf Ísleninga um hana og bendi á að margt sem skrifað er á samfélagsmiðlum geti varðað við lög. Á þá að banna hatursorðræðu? Ekki eru allir á eitt sáttir um það og kynni ég nokkur sjónarmið hvað það varðar. Sumir trúa því að málfrelsið sjálft muni á endanum kveða hatursorðræðu í kútinn, í því sé fólginn sjálfvirkur leiðréttingarbúnaður, en aðrir benda á að ekki hafi allir sem verða fyrir barðinu á slíkri orðræðu burði eða aðstöðu til að svara fyrir sig og telja að ef ríkisvaldið aðhafist ekkert megi líta svo á að það leggi blessun sína yfir hatursorðræðu.

Stöðu og hlutverk fjölmiðla ræði ég talsvert enda eru þeir sumpart meðvirkir í útilokunarmenningunni vegna þess að þeir sækja sér oft efni í krassandi útilokunaratlögur sem gerðar eru á netinu. Í þessu sambandi bendi ég á hve mikilvægt sé að þeir hafi burði til þess að stunda öflugan og vel ígrundaðan fréttaflutning svo að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir og ráðist ekki að öðrum á röngum forsendum.

Málfrelsið er mikið til umræðu í greininni enda er það undirstaða lýðræðis og reyndar líka lýðheilsu í víðasta skilningi. Til þess að málfrelsi fái þrifist þurfum við að líta svo á að það sé í allra þágu að sem flest sjónarmið fái að njóta sín í umræðunni. Minnihlutaskoðanir þurfi að virða í stað þess að þagga þær vegna þess að þær hjálpi okkur að skilja málefnin betur og auki þannig líkur á að réttar og farsælar ákvarðanir verði teknar, þjóðfélaginu öllu til heilla.