Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu

Á dögunum kom út eftir mig ný bók, Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu. Um er að ræða memóru (tilraun nemanda til að þýða enska hugtakið memoir) sem er ein tegund sannsögu.

Aðalpersónan í þessari sannsögu er ég sjálfur á ýmsum þroskastigum. Í kjölfar #metoo og eigin tilvistarglímu ákvað ég að takast á við kynjaumræðu samtímans. Úr varð þetta rit þar sem ég tefli nýjustu rannsóknum gegn aldagömlu tregðulögmáli í samfélaginu en þó kannski ekki síst í mér sjálfum.

Það má segja að ég geri hér upp karlmennskuhugmyndir mótunaráranna um leið og ég máta sjálfsmynd mína við þær áherslur sem nú eru efstar á baugi þegar kemur að karlmönnum, karlmennsku og samskiptum kynjanna.

Þetta er fyrsta bókin sem ég skrifa í sannsagnaformi en það felur í sér að tala í fyrstu persónu og nýta miðlunarleiðir frásagnarlistarinnar. Bókin útheimti mjög mikla rannsóknarvinnu en er þó fremur auðveld aflestrar (er mér sagt), þökk sé sannsagnaforminu.

Bókin er gefin út af Græna húsinu og fæst nú í öllum helstu bókabúðum.