Robin spjallar um minningabækur (memoir)
Robin Hemley, sem gegnir nú starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, flytur fyrirlestur um ritun minningabóka í Eddu 24. október kl. 16:30. Í spjalli sínu mun Robin fjalla um þær þrjár minningabækur sem hann hefur sent frá sér og hefðu allt eins getað verið skrifaðar (og voru það í vissum skilningi) af ólíkum manneskjum eða að minnsta kosti af ólíkum útgáfum af honum sjálfum.
Robin Hemley hefur skrifað fjölda bóka af ýmsu tagi, skáldsögur, smásögur, sannsögur og kennslubækur í ritlist. Hann hefur kennt ritlist í áratugi, nú síðast í New York. Í níu ár stýrði hann námi í sannsagnaskrifum við Iowa-háskóla og er stofnandi alþjóðlegu ráðstefnunnar NonfictioNOW sem var haldin við Háskóla Íslands árið 2017. Robin nam á sínum tíma við rithöfundasmiðjuna Iowa Writers Workshop og lauk doktorsprófi í ritlist frá New South Wales-háskóla í Sydney. Fyrir skrif sín hefur hann hlotið fjölda viðurkenninga.
Minningabækurnar þrjár sem Robin hyggst fjalla um eru Nola (1998), um eldri systur hans sem var greind með geðrof og lést af völdum of stórs lyfjaskammts, Do-Over (2008) þar sem hann endurtekur ýmislegt sem honum fannst sér hafa mistekist í æsku, s.s. í leikskóla, í sumarbúðum og á skóladansleik, og Oblivion (2022) þar sem hann kemur sjálfum sér fyrir í eftirlífinu en er að öðru leyti trúr lífsreynslu sinni.
Fyrirlesturinn verður á ensku og fer fram í sal Eddu, húss íslenskra fræða, 24. október kl. 16:30. Öll velkomin.