Smásögur heimsins – Evrópa

Þetta er fimmta og síðasta bindið í ritröðinni Smásögur heimsins og er helgað smásögum frá Evrópu. Bindið hefur að geyma 20 smásögur eftir jafnmarga evrópska höfunda. Sú elsta, „Dómurinn“ eftir Franz Kafka, er frá árinu 1913 en sú yngsta, „Þegar ég var Pila gamla, dauð en í blóma lífsins“ eftir Króatann Zoran Malkoč, er frá 2008.

Þýðendur í þessu bindi eru: Ana Stanićević, Arndís Þórarinsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir, Áslaug Agnarsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Eysteinn Þorvaldsson, Bjarni Jónsson, Brynja Cortes Andrésdóttir, Jón Hallur Stefánsson, Jón Karl Helgason, Kristinn R. Ólafsson, Pétur Gunnarsson, Rúnar Helgi Vignisson, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Sigurður A. Magnússon, Soffía Auður Birgisdóttir, Tinna Ásgeirsdóttir, Veska A. Jónsdóttir og Zophonías O. Jónsson.

Ritstjórar voru sem fyrr Jón Karl Helgason, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Rúnar Helgi Vignisson. Við erum öll kennarar við Háskóla Íslands. Bjartur gaf út.

Með Smásögum heimsins: Evrópu lýkur viðamikilli kortlagningu á heimi smásögunnar undanfarna öld. Sögurnar eru orðnar 94 talsins og hafa vonandi víkkað sjóndeildarhring lesenda enda hafa í ritröðinni verið kynntir margir áður óþýddir höfundar og birtar sögur frá löndum sem sjaldan eru uppi á pallborðinu hérlendis.

 

 

 

UMSAGNIR

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Smásögur heimsins, Evrópa.

Bókakonan, ég, fylgist með útkomu nýrra bóka og bíð í ofvæni eftir því að þær verði lesnar inn og komi út sem hljóðbók. Ég reyni að vera þolinmóð.

Smásögur heimsins, Evrópa, er síðasta bókin af fimm, sem koma út í ritröðinni smásögur heimsins. Mér finnst þessi útgáfa afar merkileg fyrir margra hluta sakir. Sögunum er ætlað að spegla hundrað ára tímabil. Val höfunda miðast við að fá fram fjölbreytileika. Í bókinni eru þekktir og minna þekktir höfundar, konur og karlar.

Núna  þegar ég hef lesið  allar þessar bækur líður mér eins og ég hafi verið á góðum kúrsi í bókmenntafræðum. Hverri bók  fylgir   stuttur inngangur um eðli og tilurð smásögunnar og hverri sögu fylgir stutt greinargerð um höfundinn.

Lækning

En það gleðilegasta fyrir mig er að viðhorf mitt til smásögunnar sem bókmenntaforms hefur breyst. Áður en ég tók til við þetta „námskeið“ sneyddi ég hjá smásögum. Mér fannst þær oft skilja eftir ónotalegan eftirkeim, koma við ný og gömul kaun, gera mig dapra og leiða. Þetta viðhorf mitt hefur sem sagt gufað upp en auðvitað eru smásögurnar enn vægðarlausar  og stinga á kýlum.

Smásögur heimsins Evrópa

Þegar maður er búinn að lesa smásögur frá framandi álfum er svolítið eins og að vera komin heim að lesa/hlusta á evrópskar smásögur. Ég þekki 9 höfunda af 20.

Það væri allt of langt að skrifa um 20 sögur,það eina sem þær eiga sameiginlegt er að þær eru hver annarri betri. Það hvarflaði að mér að velja nokkrar til að skrifa um en fann þá að það er eins með bækur og börnin mín, það er bannað að gera upp á milli. Hver og ein saga verðskuldar að vera metin á sínum forsendum.

Hljóðbókin

Þar sem ég er sjónskert, hlusta ég á bækur í stað þess að lesa. Þótt ég sé þakklát fyrir að geta hlustað, sakna ég bókarinnar. Ég sakna hennar mikið. Það er ekkert sem kemur í stað þess að handleika bók. Blaða í henni. Þess vegna kaupi ég enn bækur eða fæ þær að láni í bókasafninu. Þessi bókaflokkur, Smásögur heimsins er fallegur og fer vel í hendi.

Sögurnar eru líka vel lesnar af úrvalslesurum. Það eina sem ég hef út á lesturinn er, að upplesarinn skuli ekki vera kynntur við hverja sögu.

Lokaorð

Eins og alltaf þegar ég kveð voldugar bækur sem hafa tekið hug minn allan finn ég til aðskilnaðarkvíða. Hvað næst? Nægar eru bækurnar.

Bergþóra Gísladóttir