Kristín Svava Tómasdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist
Ljóðskáldið og sagnfræðingurinn Kristín Svava Tómasdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist veturinn 2021–‘22. Hún mun vinna með meistaranemum að ljóðagerð og síðar í vetur mun hún flytja opinberan fyrirlestur kenndan við Jónas. Til starfs Jónasar Hallgrímssonar í ritlist var stofnað árið 2015 og varð Sigurður Pálsson skáld fyrstur til að gegna því.
Kristín Svava hefur tekið virkan þátt í íslensku ljóðalífi frá unga aldri og sent frá sér fjórar ljóðabækur, síðast Hetjusögur sem hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2020. Hún hefur komið fram á fjölda ljóðahátíða hérlendis og erlendis og ljóð hennar hafa verið þýdd á ýmis tungumál. Ljóðabókin Stormviðvörun kom út í Bandaríkjunum undir titlinum Stormwarning árið 2018 í þýðingu K.B. Thors, sem vinnur nú einnig að enskri þýðingu á Hetjusögum. Fyrir Stormwarning var Thors tilnefnd til PEN-verðlaunanna bandarísku í flokki þýddra ljóðabóka. Kristín Svava hefur sjálf fengist við þýðingar og meðal annars hefur komið út eftir hana þýðing á hinu klassíska femíníska verki SORI: manifestó eftir bandaríska höfundinn Valerie Solanas og á ljóði kúbanska skáldsins Virgilio Piñera, Þungi eyjunnar. Kristín Svava var listrænn stjórnandi Alþjóðlegrar ljóðahátíðar Nýhils um tveggja ára skeið og síðar einn af ritstjórum ljóðabókaseríunnar Meðgönguljóða.
Auk þess að vera ljóðskáld er Kristín Svava sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Árið 2018 sendi hún frá sér bókina Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar og hlaut fyrir hana Viðurkenningu Hagþenkis. Hún er einn af höfundum bókarinnar Konur sem kjósa: Aldarsaga, sem hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka árið 2020, en vinnur nú að bók um sögu Farsóttahússins við Þingholtsstræti 25 í Reykjavík.