Þýðing á Rip Van Winkle
Út er komin þýðing mín á einni þekktustu smásögu bandarískra bókmennta, „Rip Van Winkle“ eftir Washington Irving. Sagan er frá 1819, árdögum smásagnagerðar í Vesturheimi og reyndar í heiminum. Í henni nýtir Irving þýska þjóðsögu til þess að segja sögu af manni sem sofnar í tuttugu ár og sefur af sér byltinguna sem leiddi til stofnunar Bandaríkja Norður-Ameríku.
Þýðing mín er ekki sú fyrsta sem birtist á íslenskri tungu því að árið 1966 birtist sagan í Vikunni en án þess að þýðanda væri getið. Sú þýðing er þó gjörólík minni og ætli munurinn á þeim sýni ekki með ótvíræðum hætti þá breytingu sem orðið hefur á íslensku máli en þó ekki síður á þýðingahefðinni. Oft á tíðum er þýðingin í Vikunni mjög frjálsleg og sums staðar er hún endursögn.
Með þýðingu minni fylgir inngangur þar sem ég fjalla um Irving og söguna. Hvort tveggja birtist í tímaritinu Milli mála sem gefið er út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Söguna má nálgast hér og innganginn hér.
Meðfylgjandi mynd er af styttu sem var afhjúpuð í Irvington, New Jersey, árið 2002 og sýnir Rip Van Winkle. Hann er með hálfopin augun eins og hann sé nývaknaður og hlutar af honum virðast renna saman við jörðina. Rip hefur gengið aftur í ýmsum gerðum allar götur, svo sem í bíómyndum, teiknimyndum, teiknimyndasögum og leikritum, enda eftirminnileg persóna sem hefur lifað með þjóðinni. Þess má geta að borgin Irvington heitir eftir Washington Irving.