Steinunn skrifar um ritmennsku
Eitt af okkar bestu og afkastamestu skáldum, Steinunn Sigurðardóttir, sendi nýlega frá sér bókina Skálds saga: 74 kaflar úr höfundarlífinu. Bókin höfðar sterkt til mín enda fjallar hún um það hvernig er og hefur verið að vera íslenskur rithöfundur. Þessa bók þurfa ritlistarnemar og aðrir verðandi og verandi höfundar að lesa, já og öll þau sem eru forvitin um ritmennsku.
Það er sérlega áhugavert að fá að heyra um tilurð bóka Steinunnar. Í leiðinni skýtur hún iðulega inn ljóðum og tilvitnunum í verk sín, nokkuð sem kemur að mínu mati mjög vel út. Þessi brot eru ævinlega afbragðsvel skrifuð og fyrir vikið langaði mig að lesa allt höfundarverk Steinunnar aftur.
Margt er skarplega athugað, svo sem það sem hún segir um sköpunarferlið og kannski ekki síst það sem hún segir um form og glímuna við það. Íslenskir höfundar eru ekki alltaf mikið að spá í form og byggingu. Steinunn lýsir því vel hvað maður getur þurft að sýna mikla þolinmæði til að fá sögu til að smella í form sem hentar henni.
Mér finnst líka áhugavert að lesa um það hvernig Steinunn hefur lagt allt í sölurnar fyrir ritstörfin. Lagt á sig ómælda vinnu, þurft stundum að hokra við kröpp kjör og vondar aðstæður og mátt þola sálarkvalir af ýmsum toga. Það er nefnilega ekki alltaf tekið út með sitjandi sældinni að vera rithöfundur, jafnvel þó að manni hafi gengið vel, hlotið mörg verðlaun og bækur manns verið gefnar út tvist og bast.
Þarna eru margar pælingar um höfundarlífið og ritmennskuna sem ég gleypti í mig. Allan tímann er textinn sprelllifandi og oft óvæntur enda hefur Steinunn slíka stílfimi til að bera að hún gæti lýst kolamola á áhugaverðan og listrænan hátt. Enda vantar ekki gullkornin: „Ég er hvergi til nema á pappír.“ „Mér finnst að framúrskarandi texti hafi flutningsgetu.“ „Ég er aldrei þar sem ég er.“
Ég man ekki til þess að íslenskur höfundur hafi sent frá sér bók sem veitir jafn nána innsýn í sköpunarferli og höfundarlíf. Þessi bók er í raun einstakur vitnisburður um það hvað felst í því að vera íslenskur höfundur. Hér sést svart á hvítu hvað þarf að leggja á sig til að ná í fremstu röð.