Aðalpersónan í þessari sannsögu er höfundurinn sjálfur á ýmsum þroskastigum. Í kjölfar #metoo og eigin tilvistarglímu ákvað hann að takast á við kynjaumræðu samtímans. Úr varð þetta rit þar sem hann teflir nýjustu rannsóknum gegn aldagömlu tregðulögmáli í samfélaginu en þó kannski ekki síst í honum sjálfum.
Höfundur gerir hér upp karlmennskuhugmyndir mótunaráranna um leið og hann mátar sjálfsmynd sína við þær áherslur sem nú eru efstar á baugi þegar kemur að karlmönnum, karlmennsku og samskiptum kynjanna.
UMSAGNIR
„Í þessari markverðu bók gerir Rúnar Helgi Vignisson upp sakirnar við kynjaumræðu síðustu áratuga. Sannsaga hans er ekki einhliða boðskapur um réttar og rangar niðurstöður. Frekar mætti segja að hér sé á ferðinni þaulhugsað umræðuverk.“ Kristján Jóhann Jónsson, Morgunblaðinu, 27. sept. 2024 / ★★★★½
*
„Snemma í haust heyrði ég af bókaklúbbi sem hafði svo margt að segja og ræða um þessa sannsögu að bókin var tekin fyrir tvo fundi í röð. Það skil ég vel. Þú ringlaði karlmaður er örlát atlaga að stóru og áríðandi efni og það er undarlegt að ekki hafi komið út fleiri bækur sem skipta sér af boltanum sem lenti í fangi karlmanna eftir metoo.“ – Sölvi Halldórsson, Víðsjá
*
„Þú ringlaði karlmaður er í senn ákaflega læsileg bók og þrauthugsað rit. Einn stærsti kostur hennar er sá að hún tekur fyrir á skipulegan og yfirvegaðan hátt áleitin umræðuefni um jafnrétti kynjanna sem oft eru viðfangsefni mjög tætingslegrar umræðu á samfélagsmiðlum. Hún færir þá umræðu upp á hærra plan.“ Ágúst Borgþór Sverrisson, DV
*
„Mér áskotnaðist bókin hans Rúnars Helga um Ringlaða karlmanninn og las hana mér til ánægju og fróðleiks. Hann er mjög ærlegur í þessari bók, gengur oft nærri sér og þarna er margt kunnuglegt fyrir roskinn karl eins og mig, hvað varðar upplifanir og pælingar.
Einn helsti kostur bókarinnar er að maður fer að hugsa um sjálfan sig í þessu samhengi. Við Rúnar erum reyndar held ég frekar ólíkir menn og með ólíkan bakgrunn þó að við höfum báðir lifað og hrærst í heimi bóka og skáldskapar. Ég held að ég sé í senn meiri extróvert en hann og dulari en hann – og mínar karllegu fyrirmyndir í uppvextinum meira á reiki – án þess að fara nánar út í það, hér. En það var margt þarna sem ég átti auðvelt með að tengja við.
Ég kem ekki auga á forréttindablindu í bókinni – eiginlega frekar forréttinda-skarpskyggni. Þetta er ferðasaga um mis-greiða leiðina að því að horfast í augu við forréttindi sín, eigin vanmátt og eigin styrk. Mér finnst það til fyrirmyndar hjá Rúnari að skrifa bók frekar en að gnísta tönnum. Ég held að hún eigi eftir að gagnast mörgum körlum því að þarna reynir hann takast á við breyttan veruleika karla af heiðarleika og án þess að reyna að slétta yfir þær mótsagnakenndu tilfinningar sem vakna með flestum körlum sem á annað borð reyna að horfast í augu við hlutskipti sitt í samanburði við líf annars fólks.“ – Guðmundur Andri Thorsson, Facebook 10. okt. 2024
„Var að ljúka við Þú ringlaði karlmaður eftir hann Rúnar Helga. Mikið er ég ánægð með afraksturinn af þessari þörfu rannsókn hans; tilrauninni til kerfisuppfærslu eins og hann orðar það svo vel. Rúnar er bæði ærlegur og hugrakkur í þessari greining á veröld og sálarlífi sinnar kynslóðar karlmanna, en einnig glöggur í að rýna í aðstæður kvenna í gegnum Guðrúnu konu sína. Margir kaflar bókarinnar eru aukinheldur fullir af forvitnilegum vísunum í rannsóknir og skrif annarra, sem sannarlega er ástæða til að skoða nánar í samhengi samfélagsumræðunnar.
Það er nefnilega svo mikil þörf fyrir slíka umræðu, einmitt á þessum einlægu - og oft á tíðum berskjaldandi - nótum. Mér finnst að allir ættu að fá sér eintak og lesa sér og vonandi um leið öðrum í lífi sínu til gagns. Veröldin væri betri ef fleiri sæktu sér uppfærslu á gömlum úreltum kerfum í sínu persónulega sem og opinberlega lífi!
Svo er bókin líka fyrirtaks skemmtilestur - bæði vel skrifuð og hnyttin. Takk Rúnar Helgi!“ – Fríða Björk Ingvarsdóttir, Facebook 10. okt. 2024
*
„Mér fannst þetta merkileg bók og hún er merkileg inn í jafnréttisumræðuna og inn í kynjaumræðuna, alveg gríðarlega merkileg því það eru ekkert margir karlmenn sem hafa vogað sér inn á þennan vettvang og það er líka sorglegt.“
Fyrir þau sem vilja kynna sér umræðuna betur þá fer hér á eftir uppskrift úr hluta spjallsins og hlekkur í fyrstu athugasemd:
„Ég held það hefðu allir gott af því að fara í gegnum þessa bók, hvers kyns svo sem þeir eru vegna þess að hún fjallar um valdastrúktúra í raun og veru alveg svona ofan í grunninn. Og hún fjallar dálítið mikið um það hvernig umhverfið mótar mann miklu meira en maður kannski gerir sér grein fyrir sjálfur og heldur en maður vill viðurkenna. Við viljum öll trúa því um okkur sjálf að við tökum sjálfstæðar ákvarðanir og við höfum fundið upp öll hjól í okkar lífi sjálf en svo er bara reyndin einhvern veginn allt önnur, við erum svo miklu plagaðri af umhverfinu og gömlum klisjum og hefðum – og jafnvel einhverju inspírerandi líka sem lyftir lífi okkar og anda upp á annað plan – heldur en við viljum viðurkenna. Og hann talar um uppfærslu, kerfisuppfærslu, tilraun til kerfisuppfærslu sem ég held að sé bara hárrétt orð yfir þetta, þetta er það sem þarf að gerast og við þurfum öll einhvern veginn að ganga í gegnum þetta. Þetta er ekkert nýtt í bókmenntasögunni að tala um þetta, Voltaire talar um þetta í Birtingi, allir eigi bara að rækta garðinn sinn, þetta er í grunninn sú hugmynd, en hann snertir á svona flötum í daglegu lífi og í því hvernig við drögum ályktanir um eigið verðmæti og eigið framlag til bæði einkalífs og opinbers lífs sem eru mjöög vel ígrundaðar. Og hann er það óöruggur þegar hann er að byrja að skrifa þessa bók og hefjast handa – hann segir það bara beinlínis í opnunarköflum bókarinnar – að hann leitar sér heimilda mjög víða sem skapar ákveðinn trúverðugleika, í það minnsta í mínum huga, og margt af því sem hann bendir á og er að draga saman og hefur verið að lesa er eitthvað sem ég ætla bara að fara og lesa líka. Og hann gerir mjög vel grein fyrir því í lok bókarinnar hvar hann náði sér í efnivið og sumt af þessu er bara alveg ótrúlega athyglisvert þegar búið er að draga þetta saman í eina heild.
Melkorka Ólafsdóttir [umsjónarmaður þáttarins]: „En færðu á tilfinninguna þegar þú lest bókina að þessi uppfærsla hafi tekist, hefur orðið eitthvað svona kaþarsis. Maður sem lesandi kallar kannski eftir því að afstaðan breytist eftir alla þessa ígrundun og rannsóknarvinnu.“
„Hann þarf kannski að skrifa aðra bók um það [hlátur]. Það er bindi tvö. Ég náttúrlega veit það ekki en það væri alveg forvitnilegt að heyra í honum með það og kannski líka bara í konunni hans sem er svona aukapersóna í bókinni, hvort þetta hafi tekist. En þetta er allavegana eins og hann segir, tilraun til kerfisuppfærslu og ég held að þegar við erum að bylta lífi okkar, ég tala nú ekki um þegar það er innra með okkur, þá höfum við öll tilhneigingu til að falla aftur í sama pyttinn og þurfum svolítið að hysja okkur upp á ný, þetta er svolítið eins og alkóhólismi af því maður fellur nokkrum sinnum áður en manni tekst að vera edrú. En þetta er merkileg bók og ég held að eiginlega allir geti haft gagn af henni.“ – Fríða Björk Ingvarsdóttir,
Endastöðinni, Rás 1
*
„Rúnar Helgi fékk að mér þótti ósanngjarna útreið í Kiljunni fyrir bók sína Þú ringlaði karlmaður. Nú má fólki auðvitað finnast það sem því finnst um bækur og þótt ég væri ósammála niðurstöðu Þorgeirs og Árna Matt var það fyrst og fremst lýsing þeirra á bókinni – að þetta væri samantekt á kynjafræði sem allir ættu að þekkja (og eiginlega geta meðtekið með því einu að spyrja næstu konu), og að Rúnar kæmist að þeirri niðurstöðu helst að konur þyrftu bara að vera meira næs við karla – sem var einfaldlega röng, rangur lestur, röng túlkun og röng útlegging. Ég bara skil ekki hvar þeir fundu þessa niðurstöðu. Ef hún er í bókinni fór hún framhjá mér.
Sjálfum þótti mér þetta góð bók og ekki síst af því hún er heiðarleg og einlæg og hún fjallar um mann sem er að mörgu leyti öðrum ólíkur – bæði er persónuleg upplifun hans á kynjahlutverkum í gegnum tíðina mjög oft á ská – og svo er hann örgeðja og krítískur að eðlisfari, ólíkur fólki að upplagi, tilbúinn til þess að þrátta en líka gjarn á að verða sár í þrætunum, og í ofanálag býsna góður í að sjá þessa þætti í eigin fari og díla með þá. Hann berst eiginlega á tveimur vígstöðvum – annars vegar til þess að verja sig og hins vegar til þess að fella sig. Og hann er alltaf bæði lítill og stór – og leyfir þeirri mótsögn að spíra án þess að vilja beinlínis leysa úr henni.
Ég er líka ósammála því að þetta sé bók fyrir karlakarla, án þess að ég sé endilega viss um að ég viti hvað það er – þetta er allavega ekki bók fyrir Brynjar Níelssonar týpurnar. Ég held þetta sé bók fyrir fólk sem vill eiga í heiðarlegum samræðum við sjálft sig og aðra – en geri lítið fyrir þá sem vilja helst alltaf flauta leikinn af áður en hann hefst. Og þetta er ekki bók fyrir fólk sem vill bara vera sammála – einfaldlega vegna þess að þetta er ekki bók sem er einu sinni alltaf sammála sjálfri sér.“ – Eiríkur Örn Norðdahl
*
„Þetta er góð bók...þetta er ekki skemmtilestur...þetta virkar ekki fyrir mig.“ – Árni Matthíasson, Kiljunni
*
„Rúnar Helgi Vignisson er sigurvegari haustsins, algjörlega,“ sagði tíðindamaður Kaktussins í stuttu bréfi til ritstjórnar. „Bókin hans, Þú ringlaði karlmaður, er mikið í umræðunni og flestir sammála um að Rúnari hefur tekist að skrifa fína bók um eldfimt efni.“ – KAKTUSINN
„Þú ringlaði karlmaður – Tilraun til kerfisuppfærslu“
Ég hafði beðið spennt eftir að fá hana í hendur. Bókina: „Þú ringlaði karlmaður – Tilraun til kerfisuppfærslu“ eftir Rúnar Helga Vignisson.
Loksins kom að því… og ég drakk hana í mig.
Hún stóð sannarlega undir væntingum og gott betur.
Nú brenn ég í skinninu að heyra umræður um hana.
Og ekki bara það – mig langar svo til að hún verði til þess að skapa umræður.
Um samskipti kynjanna
Um áhrif me too á okkur öll
Konur – stúlkur
Karla – drengi
Ég hef beðið eftir bók af þessu tagi lengi. Kannski ævina alla ef grannt er skoðað. Bók þar sem íslenskur karlmaður – með sérstakri áherslu á þjóðernið – opnar sig með þeim hætti sem Rúnar Helgi gerir í þessari bók. Hann er einlægur og leyfir manni að skyggnast inn í kvikuna – kvikuna á sjálfum sér – sem gerist sannarlega ekki á hverjum degi þegar íslenskir karlmenn eru annars vegar. Og tilefnið – hvað fær hann til að skrifa – er svo rosalega áhugavert um leið og það er fyrir mér svo eðlilegt – svo fullkomlega lógískt. Áhrif og afleiðingar me too byltingarinnar hljóta augljóslega að vera svo margvísleg en um þau hefur ríkt þöggun eins og svo margt annað í nútíma samfélagi.
Konur hafa mátt benda. Benda á þennan og hinn og útskúfa honum og segja að hann megi ekki „vera memm“! Nota sömu aðferð og Donald Trump í Apprentice – ota fingrinum að einstaklingum og útskúfa þeim – slaufa þeim. Og við eigum öll að hlýða og játa í blindni. Stórmerkilegt að einhverjum detti það í hug að þetta fyrirkomulag geti leitt til góðs fyrir einhvern. Samfélag eða einstaklinga.
Þegar staða mála er sú að umræðan hefur þvílík áhrif á „síðmiðaldra“ karlmann eins og Rúnar Vignir lýsir í bókinni – hvaða áhrif getum við þá ímyndað okkur að hún hafi haft á unga menn?
Ungt fólk?
Mér finnst hún svo rosalega merkileg þessi háværa krafa í nútímanum um að ungir menn skuli kunna fullkomlega að haga sér gagnvart kynhvöt sinni frá fyrstu stundu og mér finnst hún líka svo rosalega merkileg þessi þróun að tala um kynþroska stúlkuna sem ósnertanlegt púritanskt barn fram á fullorðinsár. Barn sem skuli vernda frá svo illu afli eins og kynhvötinni með öllum ráðum.
Ég er hreint ekki sannfærð um að vegurinn frá upphafningu klámvæðingarinnar sem Gilzenegger stóð fyrir í upphafi aldarinnar til þess púritanisma sem við upplifum í dag sé okkur hollur.
Ég er hinsvegar sannfærð um að bók af því tagi sem Rúnar Helgi Vignisson skrifar hér sé okkur holl lesning og ég óska þess innilega að hún leiði til hressandi opinnar umræðu - um gildi kynhvatarinnar í lífi manneskjunnar
stúlkunnar jafnt sem stráksins
Um samskipti stráka og stelpna í nútímasamfélagi.
Já og bara almennt um tilfinningalega líðan okkar allra – ungra sem aldinna
Karla sem kvenna
Ástarþakkir Rúnar Helgi Vignisson!
Get ekki beðið eftir að sjá lokið tekið af pottinum!“ – Signý Sigurðardóttir, Facebook 25. sept. 2024
*
„123 bls. komnar í haus. Gott dagsverk og frábær bók! Klára á morgun. Samtíma íslensk hugmyndasaga um okkar viðkvæmustu mál, skráð sem æviminningar.“ – Þórunn Valdimarsdóttir, Facebook 23. sept. 2024
*
„KARLMAÐURINN OG HNÍFURINN (VARÚÐ: villandi fyrirsögn)
Undanfarið hef ég lesið tvær bækur sem brjóta þá meginreglu mína að lesa aldrei neitt nema skáldskap. Sem er auðvitað ekki rétt að ég geri en þó ekki fjarri sanni.
Þessar tvær bækur eiga þó fleira sameiginlegt en að hafa brotið þetta prinsipp mitt. Báðar skrifaðar af körlum, öðrum á sjötugsaldri og hinum langt á áttræðisaldri, sem báðir hafa helgað sig bókmenntum alla sína starfsævi. Og báðar þessar bækur eru sannsögur sem kviknað hafa af þörf til að takast á við áföll og reyna að öðlast skilning eða að minnsta kosti einhvers konar frið. Báðir nota sjálfa sig og sínar ferðir gegnum lífið til að varpa ljósi á það sem þeir vilja koma á framfæri. Báðir skrifa af miklu öryggi flottan og „bókmenntalegan“ texta.
Þar lýkur líkindum þessara bóka sem eru Hnífur eftir Salman Rushdie og Þú ringlaði karlmaður eftir Rúnar Helga Vignisson.
Ég ætla ekki að fjalla meira um Hníf en langaði til að nefna þessa þræði sem mér finnst liggja milli þessara tveggja annars ólíku bóka sem fyrir tilviljun komu út á nánast sama tíma.
En ég verð að segja að í mínum huga sætir bók Rúnars Helga verulegum tíðindum og held að hún sé tímamótaverk í kynjaumræðu á Íslandi (án þess ég þykist mjög kunnugur þeirri umræðu). Höfundurinn berskjaldar sig gjörsamlega til að geta komð því frá sér sem hann þarf að segja og honum er mikið niðri fyrir. Hefur þaulkannað viðfangsefnið og komið því á bók með aðdáanlega skipulegum og auðskiljanlegum hætti – textinn ber með sér að þar fer hæfileikaríkur og þrautreyndur rithöfundur. Að síðmiðaldra karlmaður á Íslandi hafi skrifað með þessum hætti og gefið út á bók er stórmerkilegt og ekkert minna en afrek. Til þess þarf kjark.
Mjög oft, eiginlega allan tímann, hitti ég sjálfan mig fyrir í þessari bók og það var misgaman.
En vona að þetta kveiki í einhverjum – og þá ekki síst körlum á öllum aldri – áhuga á að lesa þessa frábæru bók. Hún á erindi við okkur.“ – Aðalsteinn Svanur Sigfússon, Facebook 28. sept. 2024
*
„Ég vil mæla með nýútkominni bók Rúnars Helga Vignissonar.
"Þú ringlaði karlmaður
- tilraun til kerfisuppfærslu"
Þetta er afskaplega vel skrifuð bók og bæði áhugaverð og áhugavekjandi. Það er ekki oft sem ég les bók þannig að ég legg hana ekki frá mér fyrr en ég er búinn. En það gerðist núna.
Í bókinni glímir Rúnar á opinskáan hátt við karlmennskuna, kynhvötina og hlutverkaarf feðraveldisins í umgjörð nútímans. Hann glímir við hvað það er að vera karl sem vill vel og er jafnréttissinnaður. Hann beinir jafnframt sjónum okkar að því að jafnrétti (feminismi) snýr ekki bara að bættum hag kvenna heldur opnar líka gáttir sem við höfum verið blinduð gagnvart og styrkja karla um leið. Hann horfist opinskátt í augu við fyrirvara og kvíða karla frammi fyrir herskárri samfélags leiðréttingu Metoo og spyr einlægt: hvað hef ég lagt til alls þessa?
Bókin sýnir glögg efnistök og viðamikla rannsóknar og undirbúningsvinnu sem hann hefur unnið við gerð bókarinnar. Oft er jafnvel eins og maður sé kominn inn í áhugaverða kennslustund um málefni tengd feminisma, kynhlutverkum, mismunun, hlutgervingu, ofbeldi, umhyggju, ást og kynlíf elskhuga. Þá fjallar hann um slaufun gerenda og sár þolenda á nærfærinn og virðandi hátt. Hann notar sjálfan sig, eigin upplifanir og samtöl við konu sína til að gera umfjöllunina bæði persónulega og trúverðuga. Hann treður engu upp á annan en skrifar þannig að gott er að ganga með honum um þessar síður, spegla sig og horfa fram á veg.
Útgefandi bókarinnar er útgáfan Græna Húsið og má þess geta að lokum að það er unaður að lesa bók sem er svo vel prófarkalesin sem þessi er, nokkuð sem því miður gerist æ sjaldnar.“ – Gunnar Rúnar Matthíasson, Facebook
Takk fyrir mig.“
*
„Helsti kostur bókarinnar er annars afvopnandi einlægni höfundar sem er persónulegur frá upphafi til enda, áttar sig greinilega á að það er enginn annar möguleiki fyrir hann en að nálgast málið sem málsaðili og gerir það líka svikalaust og heldur þeirri línu allt verkið í gegn. Þannig nær hið persónulega að varpa ljósi á hið almenna. Hitt sem gefur bókinni gildi er „kerfisuppfærslan“, raunverulegur vilji höfundar til að átta sig á nýjum tíma, hinni eitruðu karlmennsku og hugsanlegri ábyrgð alls karlkynsins á henni. Hann lýsir eigin „tregðulögmáli“ og hiki gagnvart málefninu rækilega og fer í gegnum allar forsendur sínar, frá frumbernsku til nútímans. Bæði þessi persónulegi þráður og leit höfundar að uppfærslunni gera bókina skemmtilega ólíka hefðbundnum debattbókum og tryggir að hún hefur gildi óháð því hversu sammála maður kann að vera höfundi eða hve reynslunni svipar saman.“ – Ármann Jakobsson,
Bókmenntir og listir
*
„Ég las á einni beit nýjustu bók fyrrum kennara míns og vinar, Rúnars Helga Vignissonar, sem ber þann ágæta titil „Þú ringlaði karlmaður“.
Rúnar Helgi skrifar á einlægan og fræðandi hátt um stöðu karlmanna í samtímanum og sækir óspart í eigin reynslu. Bók sem er mér einmitt að skapi: nonfiksjón sem segir persónulega sögu höfundar en fléttar alls kyns heimildir og fróðleik saman við frásögnina. Stundum er maður ekki 100% sammála höfundi en það er hið besta mál; að lesa er samtal. Annað: að þora að segja hug sinn, gangast við veikleikum sínum og breyskleika og viðra hugmyndir sem hljóta ekki undir eins lófatak - slík er áskorunin fyrir alvöru rithöfund. Rúnar Helgi þorir að gera það. Er þetta besta bókin hans? Þið lesið og metið það!“ – Sverrir Norland, Facebook, 1. sept. 2024