Kristín Marja talar um Karitas á Háskólatorgi
Fyrsti fyrirlestur ársins í röðinni „Hvernig verður bók til?“ fer fram fimmtudaginn 27. janúar. Það er skáldkonan Kristín Marja Baldursdóttir sem heiðrar okkur með nærveru sinni að þessu sinni og hyggst hún ræða um stórvirki sitt, bækurnar um Karitas sem hafa vakið mikla athygli heima og erlendis.
Kristín Marja hefur sent frá sér efni af ýmsu tagi, skáldsögur, smásögur og ævisögu auk hundraða blaðagreina. Bækur hennar hafa verið þýddar á mörg tungumál og hafa vakið svo mikla athygli erlendis að bókasöfn eru farin að skipuleggja ferðir í fótspor Karitasar. Karitas án titils var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2006. Margir kannast líka við bókina Mávahlátur sem vakti verulega lukku og var síðar kvikmynduð.
Ég vek athygli á því að fyrirlesturinn fer nú fram á Háskólatorgi, nánar tiltekið í stofu 105, og hefst kl. 12. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.