Ástfóstur

Skáldsaga. Forlagið 1997.

„Ég ligg í minni fósturstellingu og horfi fram í heim. Þótt sjónarhóll minn sé holdlaust ríki, sé ég og skil betur en margur . . .“

Það er fóstrið sjálft sem segir söguna af tilurð sinni, eyðingu og áratuga flakki um hugarkima foreldra og siðmenningar. Nafnlaust rekur það sögu sína og kynlaust ferðast það um órannsakanlega stigu fortíðar og nútíðar, að lokum lítið annað en hugarfóstur.

„Enda munar ekki nema nokkrum vikum að ég sé hreinn skáldskapur.“

Rúnar Helgi Vignisson býður lesendum að hreiðra um sig í vistarveru fóstursins og lifa sig inn í margslungið samband veruleika og skáldskapar. Þetta er skáldsaga um ástir, draumsýnir og blindu – áleitin og ástleitin saga um stormasama sambúð mannanna barna við siðmenningu sína, um þá baráttu dýrs og mennsku sem enginn kemst undan að heyja.

Útgefandi: Forlagið.

Ritdómar
„Formið sem Rúnar Helgi hefur valið sögu sinni er vandmeðfarið, en hann hefur á því fullkomið vald...Stíll sögunnar er vel heppnaður . . . Í heild er útkoman fantagóð og grípandi skáldsaga, tvímælalaust besta bók Rúnars Helga til þessa.“
Jón Yngvi Jóhannsson, DV„...í þessari ferð fann ég einn góðan höfund sem ég hafði ekki heyrt mikið um. Hann heitir Rúnar Helgi Vignisson og bókin hans Ástfóstur finnst mér ægilega góð.“
Inge Knutsson, DV

„Bókin er þannig hin læsilegasta; bók með söguþráð, spennu, óvæntum lokahnútum og afar verðugum viðfangsefnum...“
Berglind Steinsdóttir TMM

„The wordplay on fóstur, ástfóstur, and hugarfóstur is woven through the novel with refreshing ingenuity, and the fetus-narrator who can move within historical time and imagination is as unusual as it is compelling. Ástfóstur is a truly remarkable novel.“
Kirsten Wolf, World Literature Today