Áslaug Björt hlaut fyrstu og önnur verðlaun

Áslaug Björt

Ritlistarneminn Áslaug Björt Guðmundardóttir hlaut á dögunum fyrstu og önnur verðlaun í ástarsagnasamkeppni Vikunnar. Fyrstu verðlaun hlaut hún fyrir söguna „Leyndarmál Viktoríu“ og önnur verðlaun fyrir söguna „Krydd í tilveruna“. Báðar fjalla sögurnar á kímilegan hátt um samskipti kynjanna og báðar hafa þær óvæntan endi. Að baki skopinu er samt lúmsk ádeila á samlíf kynjanna.

Dómnefnd segir um verðlaunasöguna: „Húmorísk saga með tragískum undirtón sem státar af skondnum myndum af aðstæðum, skemmtilegu orðalagi og tvíræðum endi.“ Og um silfursöguna segir: „Ágætlega uppbyggð saga sem lýsir á gamansaman og hlýjan hátt þroskaferli konu þegar hún rankar við sér í nýjum aðstæðum.“ Dómnefndina skipuðu Halldór Högurður, sem varð hlutskarpastur í sams konar samkeppni árið 2009, Auður Jónsdóttir rithöfundur og Kristof Magnusson, þýskættaður rithöfundur og þýðandi.

Þess má geta að Jónína Óskarsdóttir hlaut þriðju verðlaun en hún hefur einnig setið ritlistarnámskeið. Þá var saga eftir Kristínu Arngrímsdóttur einnig valin til birtingar; Kristín hefur líka tekið þátt í ritlistarnámskeiðum.

Ég óska höfundunum til hamingju með árangurinn og vona að hann verði þeim hvatning til frekari dáða á ritvellinum.