Hin feiga skepna
Listin í þágu lostans
HIN FEIGA SKEPNA
EINS og kemur fram í eftirmála Rúnars Helga Vignissonar að vandaðri þýðingu hans á Hinni feigu skepnu eftir bandaríska rithöfundinn Philip Roth, er Roth "einn mesti helgimyndabrjótur í bandarískum bókmenntum fyrr og síðar [...] enda er hvatalífið eitt helsta viðfangsefni hans". Frægð hans byggir ekki síst á glöggskyggnum rannsóknum hans á þeirri hræsni er þrifist hefur í bandarísku samfélagi í gegnum tíðina varðandi siðferðisleg gildi. Það kemur því ekki á óvart þegar Roth í Hinni feigu skepnu vísar til verka Nathaniels Hawthornes er einnig krufði siðferðisvitund landa sinna með afar næmum hætti fyrr á tímum, ekki síst í sögum er áttu sér stað í samfélagi púrítana (bls. 54).
Í Hinni feigu skepnu kynnumst við gamalli söguhetju Roths, David Kapesh, sem er aðdáendum Roth að góðu kunnur úr bókunum The Breast (1972) og The Professor of Desire (1979). Þegar hér er komið við sögu er Kapesh kominn af léttasta skeiði og rifjar upp ástarsamband við fyrrum nemanda sinn, stúlkuna Consuelu Castello, sem er tæpum 40 árum yngri en hann sjálfur. Kynni þeirra endurnýjast með óvæntum hætti eftir nokkurra ára hlé og Kapesh neyðist til að horfast í augu við þær hugsanir er nú sækja að honum með vaxandi þunga, þ.e. dauðleikann eða "feigð skepnunnar".
Kapesh er atvinnumenningarviti í stórborginni New York og eiginhagsmunaseggur sem stöðugt leitar nýrra leiða til að svala fýsnum sínum undir yfirskyni kynferðislegrar frelsunar og hömluleysis. Hann er yfirlýstur andstæðingur allra þeirra borgaralegu gilda sem duttu úr tísku í kynlífsbyltingunni margumtöluðu, staðráðinn í að fylgja rökum þeirrar byltingar "til enda og það án þess að verða fórnarlamb hennar" (bls. 59), en hefur mistekist að þróa lífssýn sína áfram á þann hátt að hann geti lifað í þokkalegri sátt við þá sem eru honum nánastir. Kynlíf er það sem hvetur hann til að takmarka sjálfstæði sitt sem allra minnst, hjónabandið er "búr" í hans huga (bls. 24), og börn eru á ábyrgð kvenna (bls. 73). Honum verður tíðrætt um konu að nafni Janie Wyatt, sem var e.k. táknmynd þess kvenfrelsis 7. áratugarins þar sem konur tóku líf sitt í eigin hendur, en aðdáun hans á henni kemur samt ekki í veg fyrir að hann lítilsvirði hina ungu Consuelu 30 árum seinna í ofbeldisfullu kynlífi þar sem engin leið er til að "komast hjá drottnuninni sem fylgir því, sem verður að fylgja því..." (bls. 32).
Segja má að listin stjórni opinberu lífi Kapesh, en lostinn einkalífinu. Þessir tveir þættir tvinnast saman í sambandi hans við Consuelu, sem hann hlutgerir hreinlega sem listaverk; "...hún er listaverk, ein af þessum fágætu konum sem eru svo heppnar að vera listaverk, sígilt listaverk, fegurð af klassískum toga, en lifandi, lifandi" (bls. 44). Vegna þess hvernig Kapesh hefur hlutgert konur eru tengsl hans við þær að sjálfsögðu mjög óraunveruleg.
Roth afhjúpar Kapesh sem listneytanda er nýtir sér aðdráttarafl listarinnar í þágu lostans, svo sem er hann táldregur Consuelu með því að sýna henni myndir Velázquez; "það var áhrifamikill stundarfjórðungur þar sem við urðum bæði margs vísari - hún um Velázquez og ég, enn á ný, um hina dásamlegu heimsku lostans" (bls. 18). Gleði Kapesh er þó löngu horfin í þessum leik, því skömmu seinna ljóstra hugrenningar hans upp um löngun til að "losna við þennan hluta [samskiptanna]. Ég þarf ekki aðra töfra en kynlíf" (bls. 19).
Þar reynist þó rótin að sjálfsblekkingu Kapesh liggja, því Hin feiga skepna er í raun uppgjör Philip Roth við hugmyndafræðileg umrót kynlífsbyltingarinnar og svipar hvað það varðar töluvert til verks Michels Huellebecqs, Öreindanna. Hvörfin í verkinu eiga sér stað á táknrænum þúsaldarmótum er marka ekki einungis lok ákveðins tímabils hendur einnig endalok hans úreltu lífsviðhorfa - tíma hinnar "frelsuðu karlmennsku" (bls. 98). Uppgjörið er samtvinnað örlögum hans og Consuelu á þeim tímapunkti þar sem kynlíf er óhugsandi fyrir bæði, og Kapesh neyðist til að horfast í augu við þann mannlega kjarna er þau eiga sameiginlegan. Consuela afhjúpar fullkominn líkama sinn í síðasta sinn til þess eins að Kapesh geti fest hann á filmu, og Roth afhjúpar um leið táknræn hlutverk þessara tveggja sögupersóna með óyggjandi hætti; Consuelu sem (list)munar í samfélagi þar sem konur eru ofurseldar skefjalausri fegurðardýrkun og Kapesh sem (list)neytanda í samfélagi sem sniðið er að óábyrgum losta karlmanna. Þegar upp er staðið er Consuela búin að uppgötva það sem Kapesh þráast í lengstu lög við að viðurkenna - enda nær feigðinni en hann þrátt fyrir sinn unga aldur - að hún syrgir mest þau gildi sem hún hafði áður hafnað (bls. 132).
Fríða Björk Ingvarsdóttir, Morgunblaðinu 12. mars 2003.
Umfjöllun
Viðtal við Rúnar Helga og Hallgrím Helgason um Philip Roth, Rás 1 23. maí 2018.
Viðtal við Rúnar Helga í Lesbók Morgunblaðsins 20. des. 2003