Metfjöldi útskrifast með meistarapróf í ritlist
Hinn 21. júní útskrifuðust níu nemendur með meistarapróf í ritlist. Þetta er mesti fjöldi sem hefur útskrifast með meistarapróf í ritlist í einu síðan kennsla hófst á meistarastigi haustið 2011. Alls hafa nú átján hlotið þessa gráðu.
Atli Sigþórsson skilaði nóvellu sem lokaverkefni, vann hana undir minni leiðsögn. Hann hefur þess utan gefið út bókina Stálskip á námstímanum, birt efni í Jólabók Blekfjelagsins (Blekfjelagið er nemendafélag ritlistarnema) og tímaritinu Stínu. Þá átti hann einn helsta smell síðasta árs, rapplagið Aheybaró sem hann flytur undir listamannsnafninu Kött Grá Pé.
Ásdís Þórsdóttir skrifaði einnig nóvellu undir minni leiðsögn. Hún átti efni í safnritinu Hvísli, Jólabók Blekfjelagsins og hefur auk þess gefið út efni í tímaritinu Stínu.
Björk Þorgrímsdóttir skrifaði leikrit undir handleiðslu Hlínar Agnarsdóttur. Björk gaf enn fremur út tvær bækur á námstímanum, Bananasól og Neindarkennd, auk þess sem hún átti efni í Hvísli og Jólabók Blekfjelagsins.
Ellen Ragnarsdóttir skrifaði kvikmyndahandrit undir leiðsögn Marteins Þórssonar og birti örsögur í jólabókum Blekfjelagsins.
Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifaði útvarpsleikrit undir handleiðslu Hrafnhildar Hagalín. Hún á einnig efni í hinu nýútkomna safnriti ritlistarnema, Flæðarmál, auk þess sem hún átti örsögur í jólabókum Blekfjelagsins.
Harpa Arnardóttir skrifaði leikrit undir handarjaðri Sigurðar Pálssonar. Hún birti einnig efni í jólabókum ritlistarnema á námstímanum.
Kristian Guttesen orti ljóðabók undir handleiðslu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar. Hann gaf jafnframt út aðra ljóðabók á námstímanum, Veginn um Dimmuheiði, og átti efni í Hvísli og öðrum safnritum ritlistarnema.
Þór Tulinius skrifaði stutta skáldsögu hjá mér. Hann birti einnig efni í Hvísli og jólabókum Blekfjelagsins meðan á náminu stóð.
Æsa Strand Viðarsdóttir skrifaði nóvellu undir minni leiðsögn. Hún birti efni í Hvísli, jólabókum Blekfjelagsins og víðar á námstímanum.
Ég þakka þessu ágæta fólki fyrir gefandi samstarf og óska þeim alls góðs í framtíðinni.