Bryndís Björgvinsdóttir tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Hafnfirdingabrandarinn-175x275Ritlistarneminn Bryndís Björgvinsdóttir hefur verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2014 í flokki barna- og ungmennabóka. Tilnefninguna fær hún fyrir bókina Hafnfirðingarandarinn sem Vaka-Helgafell gefur út. Bókin hefur undanfarið fengið afbragðsgóða dóma, þykir bæði fyndin og spennandi. Eiríkur Örn Norðdahl segir t.d. í umsögn á Starafugli að þetta sé bók af því tagi sem „gæti kannski bjargað heilli kynslóð frá ólæsi“.

Þess má geta að bókin er byggð á meistaraverkefni í ritlist sem Bryndís vann undir handleiðslu Ármanns Jakobssonar, sem sjálfur er tilnefndur í sama flokki fyrir bókina Síðasti galdrameistarinn.

Þetta er í fyrsta skipti sem ritlistarnemi er tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Með þessu hafa ritlistarnemar komið við sögu flestra bókmenntaverðlauna landsins. Dagur Hjartarson og Hjörtur Marteinsson hafa hreppt Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, Kjartan Yngvi Björnsson hefur fengið Íslensku barnabókaverðlaunin og Bóksalaverðlaunin og Heiðrún Ólafsdóttir fékk í fyrra tilnefningu til Fjöruverðlaunanna. Þá hafa ritlistarnemar hreppt ýmis smærri verðlaun og viðurkenningar, s.s. Nýræktarstyrki, Ljósvakaljóð fyrir stuttmyndahandrit, fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni Vikunnar og verið útnefndir Háskólaskáld af Stúdentablaðinu.