Lóa Hlín og Bryndís tilnefndar til Fjöruverðlaunanna

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Bryndís Björgvinsdóttir, sem báðar stunda nú meistaranám í ritlist, hafa verið tilnefndar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna.

Lóa Hlín er tilnefnd í flokki fagurbókmennta fyrir bókina Lóaboratoríum. Í umsögn dómnefndar um bókina segir:

loaboratoriumbok-175x184„Rannsókn Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur  á þjóðarsálinni hefur heppnast sérstaklega vel í bók hennar, Lóaboratoríum. Teikningarnar í bókinni hafa sterk höfundareinkenni og textinn er meinhæðinn og beittur og vísar beint í nútímann.

Lóa reynir ekki að fegra veruleikann og gerir óspart grín að hversdagsleika íslenskra kvenna. Lóa snertir sammannlegan streng með teikningum af ófrýnilegu, illa tenntu fólki og nöktum skrokkum sem við þekkjum vel og þykir vænt um. Henni tekst einkar vel að fanga tíðarandann og erkitýpur úr daglega lífinu sem flestir kannast við einsog: alkann, hollustu-fasistann, ástarsjúklinginn, afskiptasömu frænkuna og bjartsýna Eurovisionaðdándann.

Það er einkennileg fegurð í ljótleikanum því myndirnar eru bæði fallegar og gróteskar í senn og svo sannar að það er stundum óþægilegt að spegla sig í þeim.  Lóa sýnir okkur í þessu verki að hún er ótrúlega nösk að greina íslenska þjóðarsál í sinni rannsóknarstofu.“

Bryndís er tilnefnd í flokki barna- og unglingabóka fyrir Hafnfirðingabrandarann og um hana segir dómnefndin:

Hafnfirdingabrandarinn-175x275„Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur er vel skrifuð og skemmtileg. Hún kemur inn á samskipti kynslóða og dregur upp óvenju margbrotnar og flóknar sögupersónur af eldri kynslóðinni, sem flóknu og skemmtilegu fólki sem væri gaman að kynnast. Heimur eldri borgara er gerður merkingarbær og spennandi fyrir ungt fólk og veitt er ný og óvenjuleg innsýn í líf þeirra, sem aðalsöguhetjan Klara getur notað til að máta sig og sín lífsgildi við. Höfundur lýsir hreyfingum á skemmtilegan hátt og oft minna karakterarnir á teiknimyndapersónur. Þessi bók snertir á viðkvæmum málefnum eins og einelti, kvíðaröskun unglinga, ástina og ástarsorgina og fjallar um þessi mál á rausæislegan hátt, án þessa að bjóða upp á einfaldar lausnir. Átakafletir sögunnar eru ekki settir upp eins og vandamál sem þurfi að sigrast á heldur áskoranir til að lifa með. Engin stendur uppi sem sigurvegari. Sagan fjallar í raun fyrst og síðast um það að taka ábyrgð á eigin lífi og sínum nánustu og horfast í augu við sjálfan sig.“

Þess má geta að fyrir nokkrum dögum var Bryndís jafnframt tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir sömu bók. Þeim stöllum er óskað til hamingju með þennan heiður.