Vegurinn
Vegurinn eftir Cormac McCarthy
Heimsendir hefur orðið. Vegurinn lýsir göngu feðga yfir sviðna jörð, himinninnn er grár, aska yfir öllu, dýralíf hefur liðið undir lok, mannætur ráfa um með tægjur á milli tannanna, en feðgarnir berjast við að halda lífi og reisn. Hvað stendur eftir þegar allt er hrunið? Á hvað er að treysta?
Cormac McCarthy (f. 1933) er margverðlaunaður bandarískur rithöfundur. Meðal þekktra verka hans má nefna All the Pretty Horses og No Country for Old Men.
Vegurinn hlaut Pulitzer-verðlaunin og stórblaðið The Times taldi hana bestu bók fyrsta áratugar 21. aldar.
Útgefandi: Bjartur.
ÚR UMSÖGNUM
„Bandarískir skáldsagnahöfundar hafa þann dýrmæta kost að geta komið sér beint að efninu. Þeir hafa það fram yfir marga starfsbræður sína í Englandi sem klappa viðfangsefnum sínum stundum á fullteprulegan hátt og vefja inn í einhvern fallegan búning, svolítið tilgerðarlegan en oft tæknilega fullkominn. Bandarískar bókmenntir búa yfir óútskýrðum sprengikrafti. Það er eins og þeim haldi engin bönd. Hægt væri að nefna fjölmörg dæmi frá síðustu árum um bandarískar skáldsögur sem virðast sprengja af sér allar viðjar, en við skulum ekki eyða tíma í það heldur snúa okkur beint að einum af áhugaverðustu skáldsagnahöfundunum sem hafa komið úr deiglunni sem bandarísk menning vissulega er. Hann heitir Cormac McCarthy og hefur skrifað tíu skáldsögur á 45 ára löngum ferli, en sú nýjasta kom út í íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar fyrir um það bil viku síðan. Hún heitir Vegurinn og gerist nokkrum árum eftir heimsenda.
Cormac McCarthy sló sennilega fyrst í gegn árið 1992 þegar sjötta skáldsaga hans, All the Pretty Horses, kom út en hún var sú fyrsta í þríleik sem kallaður hefur verið The Border Trylogy og inniheldur einnig The Crossing frá 1994 og Cities of the Plain frá 1998. Ein af eldri skáldsögum hans, Blood Meridian, hefur raunar vaxið mjög í vinsældum og áliti allt frá útkomu 1985 en eins og þríleikurinn gerist hún á landamærum Texas og Mexíkó. Tæp öld skilur þó sögusviðin að í tíma, og efnistök eru sömuleiðis ólík. Blood Meridian lýsir ofbeldisfullri sókn hvíta mannsins eftir landi og eignum indjána á vesturströnd Bandaríkjanna um miðja nítjándu öld en þríleikurinn segir öllu rómantískari sögur af mönnum sem verða að eins konar flækingum á mörkum þeirra tveggja heima sem urðu til á fyrri hluta tuttugustu aldar þegar suðvesturríki Bandaríkjanna voru smámsaman að skilja við menningu villta vestursins og ganga inn í allt aðra veröld tuttugustu aldarinnar.
Sennilega kannast margir við þarsíðustu bók McCarthys, No Country For Old Men, sem Cohen-bræður gerðu samnefnda kvikmynd eftir. Í henni heldur McCarthy sig við sögusvið vestrans en hefur fært sig nær samtímanum. Hér er umfjöllunarefnið einnig mót tveggja heima, nýja tímans í líki hins siðblinda, morðóða en ógnarlega yfirvegaða Antons Chigurh og gamla tímans í líki lögreglustjórans Ed Tom Bell sem er að komast á ellilífeyrisaldur og á bágt með að skilja botnlaust ofbeldið sem hann reynir árangurslaust að berjast gegn í starfi sínu. Í lok sögu standa hann og lesandinn uppi með þá tilfinningu að ógnin, einhver skelfingar kynstur bíði þeirra, innbyggð í samfélagið en hulin og algerlega óupprætanleg.
Boðskapurinn með No Country For Old Men er sá að þetta geti ekki endað vel ef fram haldi sem horfi. Ári seinna sendi McCarty frá sér Veginn, bók um endalokin og eftirleik þeirra. Þegar bókin hefst eru liðin nokkur ár frá því að ósköpin dundu yfir. Aðeins örfáar manneskjur eru enn á lífi, ráfandi um jörðina í leit að æti. Allur gróður er dauður, sömuleiðis dýr, vatn er mengað, það sést ekki til sólar fyrir stöðugu öskufalli. Forsendur mannlegrar tilveru eru brostnar. Fólk étur flest hvert annað til þess að halda tórunni. Einn og einn þráast við að halda í mennskuna og dregur fram lífið á leyfunum af lífríkinu sem var.
Sagan fylgir feðgum á leið eftir ótilteknum vegi suður á bóginn. Þeir eru að flýja vonlausar aðstæður, kuldann og myrkrið og dauðann, en hafa í raun og veru ekkert fyrir sér um það sem bíður þeirra sunnar. Það eina sem þeir eiga eftir er vonin og lífsviljinn sem þó fer þverrandi.
Á ferðalaginu vofir ógnin sífellt yfir. Í No Country For Old Men var ógnin óáþreyfanleg og tengd hinum myrku öflum í manninum en hér sækja mannæturnar að úr annarri áttinni á meðan hungurdauðinn öskrar úr hinni. Feðgarnir hafa meðferðis byssu sem lengst af geymir eitt skot sem faðirinn hefur skipað drengnum að skjóta sig með ef mannæturnar komast í tæri við hann. Þeir eiga aftur og aftur samtal um muninn á sér og hinum vondu. Faðirinn segir drengnum að þeir séu góðu mennirnir, þeir séu með eldinn í brjósti sér, og muni ekki borða annað fólk, jafnvel þótt þeir séu að deyja úr hungri. Spurningin er hvort þeir geti staðið við fögru heitin.
Það er í raun og veru hin dæmisögulegi einfaldleiki sem heillar í þessari bók. Hún fjallar um siðferðisþrek, um þanþol siðmenningarinnar, um það hvort mennskan sé náttúrunni yfirsterkari. En hún fjallar líka um tortímingarmátt mannsins og menningarinnar. Um ógnina sem öllu lífi stafar af manninum. Við vitum ekki hvað olli hamförunum í sögunni, hvers vegna svo að segja allt líf á jörðinni tortímdist, en við vitum að það sem helst ógnar hinu góða í manninum, þegar ekkert annað er eftir, er manneskjan sjálf, aðrir menn eru hættulegastir – hinir, eins og drengurinn segir. Þegar öllu er á botninn hvolft er niðurstaðan því kannski sú sama í þessum tveimur sögum McCarthys, No Country For Old Men og Veginum, að maðurinn sjálfur ógnar einna helst sinni eiginn tilveru.
Það er sennilega einfaldleiki frásagnarinnar og yfirvofandi ógnin sem gerir Veginn að einni áhrifamestu skáldsögu síðustu ára. Gagnrýnendur hafa sagt hana bera í sér boðskap fyrir 21. öldina, um leið og hún vari okkur við því sem sé yfirvofandi sé hún varnarrit fyrir umhverfið, fyrir lífið og hið góða sem búi í manninum.
Ljóðrænn en jafnframt ofureinfaldur stíll McCarthys eykur á áhrifamátt bókarinnar. Sennilega er McCarthy eitt besta dæmið um þann beinskeytta bandaríska prósa sem nefndur var í upphafi þessa pistils. Texti hans er algerlega vafninga- og tilgerðarlaus. Setningar eru einfaldar að gerð. Greinarmerkjasetningu er stillt í hóf, en McCarthy sker sig reyndar nokkuð úr hvað það varðar. Samtöl eru umbúðalaus og lifandi – persónur setja aldrei á langar ræður. Í heildina tekið er jöfn og mögnuð hrynjandi í bókinni.“
Þröstur Helgason, Víðsjá