Smásögur heimsins – Norður-Ameríka
Í SMÁSÖGUM HEIMSINS er safnað saman góðum smásögum úr öllum heimsins hornum. Fyrst kemur Norður-Ameríka, síðan sögur frá Rómönsku-Ameríku og svo álfurnar hver af annarri. Þarna verður til ný leið til að skoða innviði mannheima.
Með mér í ritstjórn eru þau Jón Karl Helgason og Kristín Guðrún Jónsdóttir. Þýðendur þessa bindis eru, auk okkar Jóns Karls, þau Ágúst Borgþór Sverrisson, Árni Óskarsson, Ástráður Eysteinsson, Guðrún Inga Ragnarsdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir.
Í bókinni er að finna sögur eftir þrettán höfunda, sú elsta er eftir Sherwood Anderson, sú yngsta eftir Alice Munro. Þarna eru líka sögur eftir William Faulkner, Ernest Hemingway, Joyce Carol Oates, Raymond Carver, Flannery O'Connor, Susan Sontag, Amy Tan, Jhumpa Lahiri, Sherman Alexie, Ralph Ellison og Philip Roth. Sögurnar eru allar í nýjum eða nýyfirförnum þýðingum. Bjartur gefur út.
UMFJÖLLUN
Einar Falur Ingólfsson: Vandað og hrífandi sagnasafn
Magnús Halldórsson: Heilindin á bak við hvíta fíla
Ekki veit ég hvað það er með mig og smásögur. Það er einhver fyrirstaða og ég dreg það alltaf í lengstu lög að lesa þær, jafnvel þótt um uppáhaldshöfunda sé að ræða. Ég þarf að herða mig upp, tala í mig kjark.
Þegar ég heyrði um hina bráðsnjöllu hugmynd að gefa út smásagnasöfn, þar sem hvert hefti væri helgað hverri heimsálfu, hugsaði ég, þetta skal ég lesa. Engu að síður lét ég það dragast í meira en hálft ár.
Í bókinni eru 13 sögur frá Norður-Ameríku. Suma höfundanna þekki ég en aðra ekki. Þetta er fjölbreyttur hópur, konur og karlar, fólk af ólíkum uppruna og með mismunandi bakgrunn. Hver saga er brot af lífi og saman mynda þær heilan heim. Margar sögur komu mér á óvart, líklega er það eðli smásagna.
Ég ætla ekki að fjalla efnislega um bækurnar, til þess eru þær of margar og ég get ekki eða vil, gera upp á milli þeirra.
Það er ekki bara að bókin færi okkur þessar sögur, í henni er líka fjallað um smásöguna sem slíka, auk þess fær lesandinn nokkurn fróðleik um hvern og einn höfund sagnanna og aftast er örlítið sagt frá þýðendum. Í hinu knappa formi smásögunnar veldur hver heldur á . Reyndar er þýðendur alltaf mikilvægir.
Ég hóf þennan pistil á að tala um vandamál mitt gagnvart smásögum. Mig grunar ástæðuna. Engar sögur ganga eins nærri mér og góð smásaga og ég er ekki alltaf tilbúin til að takast á við það.
Í þetta skipti ákvað ég að lesa tvær sögur á kvöldi, hvorki meira né minna. Það gekk vel og þær meiddu mig ekki óbærilega en næst ætla ég að lesa eina á dag. Og ég hlakka til.
Lokaorð
Mér finnst útkoma þessarar bókar eitt það merkasta sem lengi hefur gerst í bókaheiminum. Rúnar Helgi Vignisson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Jón Karl Helgason önnuðust þessa útgáfu. Ég þakka þeim.