Category: Almennt

Tímamót í sögu ritlistar við HÍ

Hinn 1. júlí 2020 urðu tímamót í sögu ritlistar við Háskóla Íslands. Þá hóf Huldar Breiðfjörð, rit- og handritshöfundur, störf sem lektor í ritlist og nú eru því í fyrsta skipti tveir fastir kennarar í greininni. Það eflir starfið og skapar ný sóknarfæri. Eftir sem áður munu þó stundakennarar koma við sögu og séð verður til þess að bæði karlar og konur komi að kennslunni.

Huldar lauk meistaraprófi í kvikmyndagerð og handritaskrifum fyrir kvikmyndir og sjónvarp frá New York háskóla árið 2007. Hann er viðurkenndur höfundur fagurbókmennta, hefur m.a. birt ljóðasafn, samið leikrit sem sett hafa verið á svið í atvinnuleikhúsi, og skrifað prósaverk sem hlotið hafa hylli gagnrýnenda. Sömuleiðis hefur hann samið handrit að sjónvarpsþáttum, og enn fleiri kvikmyndum og hefur m.a. unnið til Eddu-verðlauna fyrir handrit að kvikmyndinni Undir trénu, sem hann vann í samstrfi við leikstjóra myndarinnar, Hafstein Gunnar Sigurðsson.

Ég býð Huldar velkominn til starfa og hlakka til þess að ýta námsgreininni enn lengra í samvinnu við hann.

Beðið eftir barbörunum

Íslensk þýðing á verkinu Waiting for the Barbarians eftir suður-afríska Nóbelsskáldið J. M. Coetzee er nú komin út á vegum bókaútgáfunnar Unu. Bókina þýddum við Sigurlína Davíðsdóttir í sameiningu.

Beðið eftir barbörunum, eins og bókin heitir á íslensku, er sígilt samtímaverk enda hefur það enn mikla skírskotun til atburða samtímans. Bókin kom fyrst út árið 1980 og er að mínu mati eitt af allrabestu verkum höfundar og ein merkasta skáldsaga síðari hluta 20. aldar.

Í áratugi hefur dómari stjórnað rólegum bæ á mærum heimsveldis. Þegar orðrómur berst um barbara (þannig vísa stjórnvöld til innfæddra) handan bæjarmúranna taka fulltrúar heimsveldisins völdin. Í kjölfarið gerist dómarinn gagnrýninn á alræði þeirra og ofbeldi, en þarf samhliða að horfast í augu við eigin takmörk, fýsnir og siðferði. Sagan er áleitin gagnrýni á nýlenduveldi og aðskilnaðarstefnu líkt og fjallað er um í eftirmála Einars Kára Jóhannssonar.

Ættartalan birt í erlendu safnriti

Nýlega birtist eftir mig smásaga í safnritinu Where We Started, Stories of Living Between Worlds sem gefið er út í Hamborg í Þýskalandi og inniheldur smásögur eftir átta höfunda hvaðanæva úr heiminum. Ritstjórar eru Ana-Maria Bamberger og Alicia McKenzie en sú síðarnefnda á sögu í rómanska bindi Smásagna heimsins. Sagan mín heitir „Ættartalan“ á íslensku og kom fyrst út í bókinni Ást í meinum árið 2012.

Hugmyndina að sögunni má rekja til þess að á háskólaárum mínum í Reykjavík bað Guðrún amma mín mig að skrá fyrir sig í stílabók alla afkomendur sína. Þeir voru þá þegar orðnir fjölmargir enda hafði hún eignast sextán börn. Hún mundi flesta afmælisdaga þessara afkomenda sinna. Stór kona og eftirminnileg, hún amma Guðrún, og nú skiptum við hundruðum sem berum erfðavísa frá henni. Rétt er þó að taka fram að söguþráðurinn er uppspuni.

Minn gamli kennari, Julian M. D'Arcy, þýddi söguna af mikilli list. Bókina má m.a. nálgast á Amazon.

Nú eru það afrískar smásögur

Fjórða bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins er nú komið út hjá bókaforlaginu Bjarti. Bindið geymir nítján sögur frá sautján löndum Afríku. Sú elsta er frá 1952 en sú yngsta frá 2017. Meðal þekktra höfunda sem eiga sögu í bindinu má nefna Nadine Gordimer, J. M. Coetzee, Naguib Mahfouz og Chimamanda Ngozi Adichie.

Flestir höfundanna hafa hins vegar aldrei komið við sögu á íslenskum bókamarkaði áður. Fyrir mig persónulega er sérstaklega gaman að geta birt Íslendingum sögur frá löndum eins og Marokkó, Tansaníu, Botsvana, Simbabve, Fílabeinsströndinni, Angóla, Kamerún, Sómalíu, Líbíu, Alsír og Túnis, svo dæmi séu nefnd, enda er afar sjaldgæft að sögur frá þessum löndum séu þýddar á íslensku.

Fyrir milligöngu J. M. Coetzees bauðst mér að dvelja í þekkingarsetri í Suður-Afríku í mánaðartíma við undirbúning bindisins. Þar hafði ég aðgang að góðu bókasafni sem var ómetanlegt þegar kom að því að semja inngang og kynningar á höfundum. Auk þess gat ég þar borið sagnavalið undir ýmsa sem höfðu sérþekkingu á afrískum bókmenntum. Einnig sótti ég bókmenntahátíð og hitti þá m.a. einn af höfundum bindisins, Lauri Kubuitsile frá Botsvana.

Ég segi í innganginum að í sögum bindisins endurspeglist margt af því sem Afríka og íbúar hennar hafi gengið í gegnum undanfarnar aldir. Eitt af því veigamesta er nýlendusaga álfunnar en næstum öll lönd Afríku hafa á einhverju tímabili lotið stjórn evrópskra nýlenduherra. Það skýrir af hverju svo margir höfundanna í þessu bindi hafa kosið að skrifa sögur sínar á málum sem eru upprunnin í Evrópu. Nýlenduarfleifðin er daglegt viðfangsefni í flestum löndum álfunnar og ekki alltaf auðveld viðfangs.

Ellefu þýðendur leggja okkur lið í þessu bindi og þýða þeir úr fjórum tungumálum, arabísku, portúgölsku, frönsku og ensku. Það eru, auk okkar ritstjóranna, þau Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Freyja Auðunsdóttir, Heiður Agnes Björnsdóttir, Ingunn Snædal, Janus Christiansen, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Sindri Guðjónsson og Þórir Jónsson Hraundal. Við þökkum þeim kærlega fyrir alúðina sem þau hafa lagt í vinnu sína. Sjálfur þýddi ég sögur frá Egyptalandi, Simbabve, Tansaníu og tvær frá Suður-Afríku. Í þeim fáu tilfellum þar sem ekki tókst að þýða beint úr frummáli voru fengnir lesarar sem gátu borið íslensku þýðinguna saman við frumtextann.

Ritstjórar ritraðarinnar með mér eru þau  Jón Karl Helgason og Kristín Guðrún Jónsdóttir og hefur samstarfið verið einstaklega gefandi. Fjögur bindi eru nú komin út á jafn mörgum árum og enginn bilbugur á ritstjórunum sem vinna nú hörðum höndum að síðasta bindinu, því evrópska.

Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur

Steinunn Sigurðardóttir skáld flytur hátíðarfyrirlestur Jónasar Hallgrímssonar 23.október klukkan fjögur í Veröld, húsi Vigdísar. Fyrirlesturinn er haldinn í tilefni af því að Steinunn gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands á haustmisseri 2019.

Í fyrirlestrinum, sem hefur yfirskriftina „Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur“, veltir Steinunn fyrir sér nýyrðum í ljóðmáli nokkurra íslenskra skálda, frá Jónasi Hallgrímssyni til Sigfúsar Daðasonar. Um leið beinir hún sjónum að ofnotkun valinkunnra orða, sem gerir þau tæp í skáldskaparskyni.

Steinunn á fimmtíu ára skáldafmæli um þessar mundir, en hún sendi frá sér fyrstu ljóðabók sína, Sífellur, þegar hún var nítján ára, þá við háskólanám í Dublin. Nú í október kemur út ljóðabók hennar, Dimmumót, sem er bálkur um hörfandi Vatnajökul, með sjálfsævisögulegu ívafi. Dimmumót er tíunda ljóðabók Steinunnar, en hún hefur sent frá sér ljóð og skáldsögur jöfnum höndum síðan 1986, þegar fyrsta skáldsaga hennar, Tímaþjófurinn, kom út.

Tímaþjófurinn er ein umræddasta skáldsaga síðari áratuga á Íslandi. Bókin naut einnig hylli fyrir utan landsteinana, í Frakklandi sérstaklega, þar sem hún var kvikmynduð með þarlendum stjörnum. Þá var Tímaþjófurinn settur á svið Þjóðleikhússins 2017, með Nínu Dögg Filippusdóttur í aðalhlutverkinu, Öldu Ívarsen, sem kölluð hefur verið tragískasta kvenpersóna íslenskra nútímaskáldsagna.

Meðal annarra skáldsagna Steinunnar má svo nefna Sólskinshest, Ástina fiskanna, Jöklaleikhúsið, Jójó, og Gæðakonur. Skáldsögur Steinunnar hafa um langt árabil komið út í þýðingum í helstu Evrópulöndum og hlotið frábæra dóma.

Meðal ljóðabóka Steinunnar eru Verksummerki, Hugástir og Að ljóði munt þú verða.

Steinunn hefur einnig sent frá sér smásagnasöfn, barnabók og leikverk.  Meðal þeirra er sjónvarpsmyndin Líkamlegt samband í norðurbænum. Tvær af bókum Steinunnar eru sannsögur, um Vigdísi Finnbogadóttur, meðan hún gegndi embætti forseta Íslands, og bókin um Heiðu sauðfjárbónda á Ljótarstöðum sem kom út árið 2016.

Steinunn var fréttamaður útvarps um tíu ára skeið. Hún vann að þáttagerð fyrir sjónvarp og tók meðal annars viðtal við Halldór Laxness í tilefni af áttræðisafmæli hans, svo og viðtöl við Svövu Jakobsdóttur, Guðberg Bergsson og Iris Murdoch.

Steinunn hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2014 og ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar árið 2017. Hún hlaut verðlaun íslenskra bóksala fyrir skáldsöguna Jójó og fyrir bókina um Heiðu. Sú síðarnefnda hreppti einnig Fjöruverðlaunin. Steinunn fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Hjartastað og hafa fimm aðrar bækur hennar verið tilnefndar til sömu verðlauna.

Náttúra Íslands hefur lengi verið veigamikill þáttur í ritmennsku Steinunnar og hún hefur látið náttúruvernd og loftslagsmál til sín taka á ýmsum vettangi. Væntanleg bók hennar, Dimmumót, er bálkur um hörfandi Vatnajökul, veröld sem var og verður. Þess má geta að Steinunn á heiðurinn af nýyrðinu hamfarahlýnun, sem nú hefur fest sig í sessi.

Fyrirlestur Steinunnar verður í sal 023 í Veröld. Allir velkomnir. Léttar veitingar í boði að fyrirlestri loknum.

Steinunn Sigurðardóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist

Steinunn Sigurðardóttir, skáld og rithöfundur, gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands í vetur. Steinunn mun einkum vinna með meistaranemum að ljóðagerð. Til starfsins var stofnað árið 2015 til að efla starf í ritlist við Íslensku- og menningardeild sem og til að gefa starfandi rithöfundum kost á að vinna með nemendum.

Steinunn er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún lauk háskólaprófi í sálarfræði og heimspeki frá University College Dublin. Steinunn var í skáldhópnum Listaskáldin vondu, ein kvenna, á áttunda áratug síðustu aldar. Hún hafði þá þegar sent frá sér tvær ljóðabækur, hina fyrstu, Sífellur, þegar hún var nítján ára, og fagnar Steinunn nú 50 ára rithöfundarafmæli.

Steinunn hefur síðan sent frá sér fjölmörg verk og af ýmsu tagi. Tólf skáldsögur hafa komið frá hennar hendi. Hin fyrsta var Tímaþjófurinn, sem er ein umræddasta skáldsaga síðari áratuga á Íslandi. Bókin naut einnig hylli fyrir utan landsteinana, í Frakklandi sérstaklega, þar sem hún var kvikmynduð með þarlendum stjörnum. Þá var Tímaþjófurinn settur á svið Þjóðleikhússins 2017, með Nínu Dögg Filippusdóttur í aðalhlutverkinu, Öldu Ívarsen, sem kölluð hefur verið tragískasta kvenpersóna íslenskra nútímaskáldsagna. Meðal annarra skáldsagna Steinunnar má nefna Sólskinshest, Ástina fiskanna, Jöklaleikhúsið, Jójó, og Gæðakonur. Skáldsögur Steinunnar hafa um langt árabil komið út í þýðingum í helstu Evrópulöndum og verið vel tekið.

Meðal ljóðabóka Steinunnar eru Verksummerki, Hugástir og Að ljóði munt þú verða. Á næstunni kemur út tíunda ljóðabók hennar, Dimmumót.

Steinunn hefur einnig sent frá sér smásagnasöfn, barnabók og leikverk. Meðal þeirra er sjónvarpsmyndin Líkamlegt samband í norðurbænum. Tvær af bókum Steinunnar eru sannsögur, um Vigdísi Finnbogadóttur, meðan hún gegndi embætti forseta Íslands, og bókin um Heiðu sauðfjárbónda á Ljótarstöðum sem kom út árið 2016.

Steinunn var fréttamaður útvarps um tíu ára skeið. Hún vann að þáttagerð fyrir sjónvarp og tók meðal annars viðtal við Halldór Laxness í tilefni af áttræðisafmæli hans, svo og viðtöl við Svövu Jakobsdóttur, Guðberg Bergsson og Iris Murdoch.

Steinunn hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Hún hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2014 og ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar árið 2017. Henni voru veitt verðlaun íslenskra

bóksala fyrir skáldsöguna Jójó og fyrir bókina um Heiðu sem hlaut einnig Fjöruverðlaunin. Steinunn fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Hjartastað og hafa fimm aðrar bækur hennar verið tilnefndar til sömu verðlauna.

Verk Steinunnar hafa lengi verið efni í umfjöllun bókmenntafræðinga. Árið 2011 kom út bókin Hef ég verið hér áður? eftir Guðna Elísson prófessor og Öldu Björk Valdimarsdóttur dósent, þar sem fjallað er um ljóð hennar og skáldsögur.

Náttúra Íslands hefur lengi verið veigamikill þáttur í ritmennsku Steinunnar og hún hefur látið náttúruvernd og loftslagsmál til sín taka á ýmsum vettangi. Væntanleg bók hennar, Dimmumót, er bálkur um hörfandi Vatnajökul, veröld sem var og verður. Þess má geta að Steinunn á heiðurinn af nýyrðinu hamfarahlýnun, sem nú hefur fest sig í sessi.

Steinunn kenndi ritlist við Háskólann í Strassborg, en hún var fyrsti rithöfundurinn sem boðið var til prógrammsins Ecrire L’Europe. Af því tilefni flutti hún einnig opinbera fyrirlestra um bókmenntir, þ.á m. um Halldór Laxness og Thomas Mann, um Samuel Beckett og Edith Södergran. Þá hefur Steinunn haldið námskeið á vegum Heilsustofnunar í Hveragerði um skapandi skrif til sálrænnar uppbyggingar.

Steinunn hefur meðal annars búið í Stokkhólmi, Dublin, París, Suður-Frakklandi og Berlín, og nú síðustu ár í Strassborg. Hún heldur fyrirlestra um bókmenntir og les úr verkum sínum víðar en á Íslandi, einkum í Þýskalandi. Í október mun Steinunn halda sérstakan hátíðarfyrirlestur við Háskóla Íslands, kenndan við Jónas Hallgrímsson.

 

Afmælisárið í hnotskurn

Haustið 2008 hóf fyrsti hópurinn nám í ritlist sem aðalgrein til BA-prófs við Háskóla Íslands. Þá um sumarið hafði verið ráðinn fastur kennari til þess að byggja upp nám í ritlist. Í fyrsta hópum voru nokkrir höfundar sem nú hafa náð fótfestu, s.s. Hildur Knútsdóttir, Dagur Hjartarson og Alexander Dan Vilhjálmsson. Í umfjöllun um ljóðabók eftir nýútskrifaðan ritlistarnema, Ásdísi Ingólfsdóttur, segir dr. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur undir millifyrirsögninni „Árangursríkt nám“:

„Ásdís er meðal þeirra fjölmörgu hæfileikaríku skálda sem farið hafa gegnum ritlistarnám Háskóla Íslands, en segja má að það nám sé farið að hafa stórtæk áhrif á íslenskt bókmenntalíf, þar fær fólk að rækta hæfileika sína undir leiðsögn góðra rithöfunda og skálda, og undanfarin ár hafa flætt inn á bókamarkaðinn athyglisverð bókmenntaverk frá þeim sem hafa útskrifast úr náminu – mörg þeirra hafa hlotið verðlaun og enn fleiri tilnefningar til ýmis konar verðlauna og viðurkenninga.“

Fyrsti hópurinn sem ég kenndi eftir að ritlist var gerð að aðalgrein haustið 2008.

Þetta má til sanns vegar færa því að hátt í þrjátíu verk eftir núverandi og fyrrverandi nemendur litu dagsins ljós á árinu; skáldsögur, smásagnasöfn, ljóðabækur, sannsögur, þýðingar og leikrit. Viðurkenningar streymdu líka inn og nálguðust tvo tugi bara á árinu 2018. Í heildina eru útgefin verk eftir ritlistarnema síðustu tíu árin komin vel á annað hundraðið. Verðlaun og viðurkenningar af ýmsu tagi á þessu tímabili nálgast nú hundraðið.

Í október síðastliðnum héldum við upp á tíu ára afmæli ritlistar með þremur dagskrám undir yfirskriftinni „Pár í tíu ár“. Sú síðasta þeirra var viðamest en þar stigu verðlaunaðir ritlistarnemar á stokk auk þess sem frumflutt var myndband sem gert var í tilefni af afmælinu.

Á árinu útskrifaðist metfjöldi með meistarapróf í ritlist eða þrettán. Það voru þau Eyþór Gylfason, Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, Birta Þórhallsdóttir, Brynjólfur Þorsteinsson, Melkorka Ólafsdóttir, Ragnheiður Erla Björnsdóttir, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, Arndís Þórarinsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir, Brynja Hjálmsdóttir, Ingimar Bjarni Sverrisson, Lárus Jón Guðmundsson og Sigurður Fjalar Sigurðarson.

Þá útskrifuðust tveir með BA-próf í ritlist, þeir Bragi Páll Sigurðarson og Gunnar Jónsson. Ekki er þó lengur boðið upp á ritlist sem aðalgrein til BA-prófs. Ritlist er hins vegar í boði sem aukagrein til BA-prófs og brautskráðust á árinu 14 nemendur með ritlist sem aukagrein.

Kristín Helga Gunnarsdóttir

Fjölmargir kennarar komu við sögu á árinu, flestir þeirra úr rithöfundasamfélaginu. Sumir hafa verið í lykilhlutverki á undanförnum áratug, s.s. Hlín Agnarsdóttir sem á haustmisseri kenndi 15 eininga námskeið í leikritun. Þar var gerð tilraun til þess að bjóða viðameira námskeið en áður og voru atvinnuleikarar m.a. fengnir til þess að leiklesa verk nemenda og vinna með þeim. Í upphafi árs tóku nemendur frá okkur einnig þátt í samstarfsnámskeiði með sviðslistadeild Listaháskólans. Afraksturinn af þessu er m.a. sá að 30 mínútna verk eftir Þórdísi Helgadóttur var valið til frekari vinnslu og verður sýnt í Borgarleikhúsinu snemma á næsta ári.

Kristín Helga Gunnarsdóttir gegndi starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist á haustmisseri. Hún vann með ritlistarnemum að ritun barna- og ungmennabókmennta.

Ég þakka ritlistarnemum, kennurum og öðru samstarfsfólki fyrir vel unnin störf og ánægjulegt samstarf á árinu, já og reyndar síðustu tíu árin. Nú höldum við inn í annan áratug full af skapandi eftirvæntingu.

 

Kristín Helga Gunnarsdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundurKristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist í vetur. Hún mun leiðbeina meistaranemum í ritlist um ritun þess sem hún hefur kallað fjölskyldubókmenntir en það eru sögur sem höfðað geta til allra aldurshópa. Til starfs Jónasar Hallgrímssonar í ritlist var stofnað árið 2015 og varð Sigurður Pálsson skáld fyrstur til að gegna því.

Kristín Helga hefur verið mikilvirkur höfundur áratugum saman. Hún hefur einkum helgað sig fjölskyldubókmenntum en einnig sent frá sér bækur sem eingöngu eru ætlaðar fullorðnum. Útgefin skáldverk eru nú komin á fjórða tuginn og hafa þau notið mikilla vinsælda. Meðal þekktustu verka hennar má nefna bækurnar um Fíusól en þær hafa jafnframt verið settar á svið. Kristín Helga hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir verk sín, m.a. Fjöruverðlaunin, Bóksalaverðlaunin, Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar, Bókaverðlaun barnanna, Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins, Sögusteininn og verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þá hefur hún tekið virkan þátt í félagsstörfum fyrir hönd rithöfunda og lét fyrr á árinu af störfum sem formaður Rithöfundasambands Íslands.

Kristín Helga hefur áður kennt ritlist, bæði við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands, og hafa þau störf skilað okkur nýjum barnabókahöfundum. Hún er vel að því komin að gegna starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Smásögur heimsins – Asía og Eyjaálfa

Þriðja bindi Smásagna heimsins er komið út. Það er helgað Asíu og Eyjaálfu. Í því eru 20 sögur frá jafn mörgum löndum en markmið ritraðarinnar er að birta góðar sögur frá eins mörgum löndum og kostur er.

Asía og Eyjaálfa spanna marga menningarheima eins og bindið endurspeglar. Þar getur að líta smásögur allt frá arabísku og persnesku ríkjunum í vestri, til Indlands og Japans í austri og Ástralíu og Nýja-Sjálands í suðri. Frá sumum þeirra landa sem eiga fulltrúa í bókinni berast sjaldan sögur til Íslands. Má þar nefna Kúveit, Íran, Norður-Kóreu, Malasíu, Pakistan, Víetnam og Filippseyjar. Stundum er fengist við stóra og átakanlega atburði í þessum sögum, s.s. þjóðarmorð og hreinsanir, en þess á milli sjáum við höfundana glíma við hversdagslegan veruleika.

Sumir vilja helst sjá þekkta höfunda í svona safni. Mér finnst hins vegar enn skemmtilegra þegar maður finnur frábæra höfunda sem enginn hér hefur heyrt um og þá ekki síst frá löndum sem sjaldan eiga fulltrúa á íslenskum bókamarkaði. Hér hefur hvort tveggja gerst og fyrir vikið hefur heimurinn stækkað. Okkur hefur að mínu viti tekist að finna spennandi sögur frá öllum þeim löndum sem eiga fulltrúa í safninu: Líbanon, Ísrael, Sýrlandi, Kúveit, Tyrklandi, Íran, Indlandi, Pakistan, Indónesíu, Malasíu, Singapúr, Víetnam, Kína, Norður-Kóreu, Suður-Kóreu, Taílandi, Japan, Filippsseyjum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Margar sagnanna voru þýddar úr frummáli, s.s. arabísku, taílensku, ensku, kóresku og japönsku, aðrar hafa verið þýddar úr millimáli en íslenska þýðingin síðan borin saman við frumtexta. Alls koma tólf þýðendur við sögu: Dagbjört Gunnarsdóttir þýddi úr japönsku, Jón Egill Eyþórsson þýddi úr kóresku, Sindri Guðjónsson þýddi úr arabísku, Hjörleifur Rafn Jónsson þýddi úr taílensku. Úr ensku þýddu Freyja Auðunsdóttir og Þórir Jónsson Hraundal gátaði, Heiður Agnes Björnsdóttir, Ingunn Snædal, Lárus Jón Guðmundsson, þar sem Xinyu Zhang gátaði, Steingrímur Karl Teague, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir og fyrir hana gátaði Anh-Dao Tran víetnömsku þýðinguna, og ofanritaður en Ali Amoushahi og Svanhildur Konráðsdóttir gátuðu með mér írönsku söguna.

Í útgáfuhófi 23. október klykkti ég út með þessum orðum: „Með því að flytja bókmenntir frá öllum heimshornum yfir á íslensku verðum við þátttakendur í heimsmenningunni. Við getum þá notið þessara gersema annarra landa án þeirrar tálmunar og truflunar sem tillært tungumál hefur í för með sér. Og þar sem smásagan er oft mjög nákomin höfundunum, hún er iðulega sjálfsprottið viðbragð við áhrifaríkri ef ekki átakanlegri reynslu, fáum við í gegnum hana huglæga innsýn í þessa menningarheima.“

Ritstjórar auk mín eru Jón Karl Helgason og Kristín Guðrún Jónsdóttir.

Eftirbátur kominn á flot

Ný skáldsaga eftir mig, Eftirbátur, kom út 22. september sl. Dimma gefur út og er þetta fyrsta bókin sem kemur út eftir mig hjá því góða forlagi. Ég leitaði þangað vegna þess að ég þekki eigandann af góðu einu. Hann er smekkmaður á bókmenntir, gengur vel og fallega frá útgáfubókum sínum og svo er maðurinn sjálfur líka einkar traustur.

Á bókarkápu segir:

Ægir leitar að sjómanninum föður sínum eftir að bátur hans finnst mannlaus út af Vestfjörðum. Leitarleiðangrar Ægis vekja spurningar um faðernið sjálft í þessum harðbýla heimshluta. Hver er hinn raunverulegi faðir og hvað mótaði hann? Er nauðsynlegt að þekkja söguna til að vita hver maður er?

Þetta vefst fyrir Ægi sem lifir og hrærist í núi auglýsingaheimsins og veit „andskotann ekkert um fortíðina“. Í leit sinni fer hann vítt og breitt um stórbrotna náttúru og sögu Vestfjarða þar sem rætur hans sjálfs liggja. Á sama tíma eru teikn á lofti í fjölskyldulífinu og brestir komnir í hina hefðbundnu karlmennskuímynd.

Bókin var lengi í smíðum, heilan aldarfjórðung, aðallega vegna þess að ég var lengi að móta hugmyndina og finna henni farveg. Í bókinni læt ég tímana tvenna flæða saman í eina frásögn og það tók tvo áratugi að finna aðferðina. En nú er þetta komið og fyrstu viðbrögð eru jákvæð: „Bókin er frumleg, ég hef aldrei lesið svona bók áður,“ sagði einn sjóaður lesandi við mig á dögunum.