Category: Almennt

Annað bindi Smásagna heimsins

Annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins kom út á haustmánuðum og hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges, Clarice Lispector og Gabriel García Márquez.

Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006. Langflestar sögurnar eru þýddar úr spænsku, en einnig eru þarna sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku.

Í viðtali við DV sagði ég m.a. um þetta bindi:

„Þetta eru sögur sem rífa í, sem róta í manni en bjóða fagurkerum um leið upp á mikinn lestrarunað. Þarna er látið reyna á smásagnaformið á annan hátt en í Norður-Ameríku þar sem raunsæið er ofar hverri kröfu. Hjá smásagnahöfundum í Suður-Ameríku eru ýmsar stílfærslur algengar, töfraraunsæi er beitt og fantasíu af ýmsu tagi en þó má einnig finna þarna flottar raunsæissögur, t.d. frá Brasilíu og Jamaíka. Útkoman er ofurlítill konfektkassi þar sem lesandinn getur bragðað á ýmsum molum og fengið um leið góða tilfinningu fyrir því sem stendur hjarta fólks næst í þessum heimshluta. Það þykjumst við í ritnefndinni geta fullyrt vegna þess að við höfum lesið margfalt fleiri sögur en þær sem birtast í bókinni.“

Aðalritstjóri þessa bindis er Kristín Guðrún Jónsdóttir, en við Jón Karl Helgason erum meðritstjórar.

Styttist í stóra viðburðinn

Dagskrá hátíðarinnar má nálgast á heimasíðunni www.nonfictionow.org og í pdf-formi á Facebook-síðunni „Ritlist við Háskóla Íslands“.

Þegar þetta er skrifað er vika þar til stærsta ráðstefna sem ég hef átt þátt í að skipuleggja hefst hér við Háskóla Íslands, NonfictioNOW. Þetta er reyndar með stærri ráðstefnum sem Hugvísindasvið skólans hefur staðið fyrir. Undanfarna daga höfum við unnið hörðum höndum að því að ganga frá dagskrárbæklingi og nú liggur hann fyrir. Áhugasamir geta sem stendur séð hann á Facebook-síðunni Ritlist við Háskóla Íslands og brátt verður hann aðgengilegur á vefsíðu ráðstefnunnar.

Við eigum von á því að á fimmta hundrað manns sæki ráðstefnuna, þar af hátt í 400 erlendis frá. Í boði eru hringborðsumræður (sem við köllum húslestra), upplestrar, gjörningar, sýningar, bókmenntagöngur og yfir 60 málstofur um flesta fleti sannsögulegra skrifa. Gríðarleg undirbúningsvinna hefur farið fram, bæði af hálfu alþjóðlegu ráðstefnustjórnarinnar og heimastjórnarinnar sem ég stýri og í eru þau Gauti Kristmannsson og Ásdís Sigmundsdóttir auk mín. Þá hafa tveir verkefnastjórar komið að undirbúningnum, þær Margrét Guðmundsdóttir, verkefnastjóri á Hugvísindasviði, og Eygló Svala Arnarsdóttir sem er aðalverkefnastjóri ráðstefnunnar.

Ég þekki það af eigin reynslu að maður tekur síður frá tíma fyrir viðburð sem þennan hér heima. Maður fer jafnvel frekar til útlanda með ærnum tilkostnaði á sambærilega eða lakari ráðstefnu. Þetta er að sumu leyti skiljanlegt en þó um leið mikil synd. Þess vegna höfum við lagt mikið á okkur til að kynna viðburðinn hér heima og átt gott samstarf við hina ýmsu hagsmunahópa auk fjölmiðla. Vonandi tekst okkur að koma upplýsingum til flestra þeirra sem hafa áhuga á bókmenntum af þessu tagi.

Eins og heiti ráðstefnunnar gefur til kynna, NonfictioNOW, sem gæti útlagst ÓskáldaðNÚ, er hún helguð sannsögulegum ritsmíðum. Allir þeir sem til máls taka hafa skrifað í þessu formi, sumir meira segja orðið heimsfrægir fyrir, og margir þeirra kenna líka óskálduð skrif við ritlistarskóla. Það er von mín að með þessum viðburði getum við fært nýja hugsun um þetta vinsæla bókmenntaform heim til Íslands.

Njótið heil!

Fyrirlestur Jónasar Hallgrímssonar í ritlist – Hlín byrjar

Fimmtudaginn 23. mars heldur Hlín Agnarsdóttir fyrirlestur í nýrri fyrirlestraröð á vegum ritlistar við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Röðin er kennd við Jónas Hallgrímsson en í vetur hefur Hlín gegnt starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist.

Í fyrirlestrinum mun Hlín tala um eigin skrif, bæði birt og óbirt, og fjalla um áhrif ofbeldis á heimili og í uppeldi. Þar leikur fyrirferðarmikil rödd föðurins stórt hlutverk og verður að afgerandi afli í sjálfsmynd stúlkubarns. Fyrirlesturinn er persónulegt framhald Hlínar Agnarsdóttur af umræðu sem hefur farið fram að undanförnu um tjáningu ofbeldis í listum, vald og siðferðilega ábyrgð listamannsins.

Hlín er fjölmenntuð í leiklistar- og bókmenntafræðum, hefur lokið framhaldsnámi í leikstjórn frá Drama Studio í Lundúnum, fil.kand-próf í leiklistarfræðum frá Stokkhólmsháskóla og MA-próf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað fjölda leikrita, m.a. Konur skelfa og Gallerí Njála sem sett voru upp í Borgarleikhúsinu. Hlín hefur sent frá sér þrjár bækur, skáldsögurnar Hátt uppi við Norðurbrún 2001 og Blómin frá Maó 2009, sem og sannsöguna Að láta lífið rætast 2003 en fyrir hana var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Hlín hefur starfað sem leikstjóri og dramatúrg bæði í atvinnu- og áhugaleikhúsum um árabil, auk þess sem hún hefur verið leiklistargagnrýnandi á DV og í Kastljósi hjá RÚV. Í vetur hefur hún unnið með ritlistarnemum í grunnnámi og framhaldsnámi að ýmiss konar ritlistarverkefnum, m.a. að leikritum sem flutt voru í Útvarpsleikhúsinu fyrr á árinu.

Fyrirlestur Hlínar ber titilinn Þegar ég varð að Gregor Samsa – stúlkan og föðurröddin. Hann fer fram í stofu 422 í Árnagarði og hefst kl. 12. Allir velkomnir.

Bartleby loksins kominn til Íslands

Á dögunum kom út þýðing mín á hinni frægu smásögu (stundum reyndar flokkuð sem nóvella) Hermans Melvilles, „Bartleby, the Scrivener“. Þar með er þessi sígilda saga loksins komin út á íslensku.

„Ég kýs það síður,“ segir Bartleby skrifari hvað eftir annað í þessari sögu. Hann hefur ráðið sig til starfa á lögmannsstofu á Wall Street og þetta tilsvar hans hrindir af stað atburðarás sem er í senn skondin og sorgleg. Um leið vekur hún grundvallarspurningar um samskipti manna, spurningar sem þó fást engin endanleg svör við. Sagan hefur einnig verið rædd sem skáldleg yfirlýsing um borgaralega óhlýðni andspænis ofurvaldi samfélags sem stjórnast af lögmálum Wall Street.

Sagan af Bartleby kom fyrst út árið 1853 og er ásamt Moby Dick lífseigasta verk Hermans Melvilles. Hún telst lykilsaga í þróun smásagnaformsins vegna þess að þar koma fram persónur sem líkjast raunverulegu fólki en áður líktust sögupersónur gjarnan goðsagnaverum.

Sagan birtist hér í tvímála útgáfu á íslensku og ensku, með eftirmála þar sem fjallað er bæði um söguna og þýðinguna. Einnig fylgja ýmis umhugsunarefni fyrir lesandann sem gætu nýst við kennslu í ensku, bókmenntum og ritlist.

Þetta er fyrsta bókin í tvímála ritröð Þýðingaseturs Háskóla Íslands með klassískum textum í aðgengilegu formi fyrir nemendur og bókmenntaunnendur. Ritstjóri raðarinnar er Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði við Háskóla Íslands.

NonfictioNOW – snemmskráningu að ljúka

Snemmskráningu á alþjóðlegu ráðstefnuna NonfictioNOW lýkur 28. febrúar. Á ótrúlega hagstæðum kjörum býðst áhugafólki um óskálduð skrif að sjá og heyra marga af fremstu höfundum og hugsuðum þessarar bókmenntagreinar á fjögurra daga ráðstefnu í Reykjavík frá 1. til 4. júní 2017. Um verður að ræða einn stærsta bókmenntaviðburð sem haldinn hefur verið á Íslandi.

Yfir sextíu málstofur verða í boði þar sem ræddir verða fjölmargir fletir sannsögulegra skrifa en vinsældir bókmennta af þessu tagi hafa aukist mjög undanfarin ár og ýmsar tilraunir verið gerðar með þetta form sem ekki hafa sést hér heima. Auk þess verða fjórir boðsfyrirlesarar: Norðmaðurinn Karl Ove Knausgård, Ástralinn Maxine Benebe Clarke og Bandaríkjamennirnir Gretel Ehrlich og Wayne Koestembaum. Allt eru þetta höfundar sem hafa getið sér orð fyrir sannsöguleg skrif sem nýta miðlunarleiðir skáldskaparins.

Ráðstefnan er haldin á vegum Bókmennta- og listfræðastofnunar Háskóla Íslands og verður þetta í fyrsta skipti sem hún verður haldin í Evrópu. Áhugasömum er bent á að skrá sig hér: http://www.nonfictionow.org/.

Útvarpsleikrit eftir meistaranema í ritlist

Útvarpsleikhús Rásar 1 flytur á næstunni sjö útvarpsverk sem ritlistarnemar á meistarastigi við Háskóla Íslands sömdu. Verkin sjö, sem verða flutt í útvarpinu laugardagana 4. og 11.febrúar 2017, voru samin á námskeiðinu Gjörningatímar sem er leikritunarnámskeið í meistaranámi í ritlist undir stjórn Hlínar Agnarsdóttur.

Á námskeiðinu skrifa nemendur þrjú verk fyrir leiksvið eða leikflutning af einhverju tagi. Í einu verkanna fengu nemendur tækifæri til að velja sér miðil til að skrifa fyrir eftir að hafa fengið innsýn m.a. í útvarpsmiðilinn. Af sextán nemendum völdu sjö að skrifa fyrir útvarp og í framhaldi var efnt til samstarfs milli námsleiðarinnar og Útvarpsleikhússins um framleiðslu á verkunum.

Leikrit flutt laugardaginn 4.febrúar kl. 14.00:

  • Þýðir ekkert annað eftir Brynjar Jóhannesson. Leikarar: Arnar Jónsson, Kolbeinn Arnbjörnsson, Sigurður Skúlason.
  • Verksmiðjan eftir Stefaníu Dóttur Páls. Leikarar: Elfa Ósk Ólafsdóttir og Þór Birgisson
  • Algrímur alsjáandi eftir Brynjólf Þorsteinsson. Leikarar: Þór Birgisson, Kolbeinn Arnbjörnsson, Elfa Ósk Ólafsdóttir, Arnar Jónsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir.

Leikrit flutt laugardaginn 11.febrúar kl. 14.00:

  • Viðtal við konseptlistamann eftir Unu Björk Kjerúlf. Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir og Sigurður Skúlason
  • Hringbraut eftir Fríðu Ísberg. Leikarar: Arnar Jónsson og Þór Birgisson
  • Dansandi skuggar eftir Ólöfu Sverrisdóttur. Leikarar: Elfa Ósk Ólafsdóttir, Arndís Hrönn Egilsdóttir og Kolbeinn Arnbjörnsson
  • Blóðmenn eftir Brynju Hjálmsdóttur. Leikarar: Kolbeinn Arnbjörnsson, Þór Birgisson, Kolbeinn Orfeus Eiríksson og Áslákur Hrafn Thorarensen.

Leikstjóri allra verkanna er Hlín Agnarsdóttir og Einar Sigurðsson sér um hljóðvinnslu.

Starfið á árinu 2016

Ef einhver heldur að ungt fólk á Íslandi sé upp til hópa óskrifandi á íslenska tungu, þá er það ekki satt, a.m.k. á það ekki við um þau sem stunda nám í ritlist. Á hverju ári berast okkur tugir frambærilegra umsókna um meistaranám í ritlist og vanalega getum við einungis veit rúmum þriðjungi umsækjenda skólavist. Þar að auki eru um 40 nemendur skráðir í ritlist sem aukagrein í grunnnámi. Það er því ljóst að áhugi á ritstörfum og bókmenntum er enn mikill hér á landi og ekki annað að sjá en að ungt fólk telji það nýtast sér í lífinu að fá þjálfun í ritun, ekki síst ritun sem reynir á sköpunargáfuna.

Metfjöldi útskrifaðra

13631583_10210240975327136_4689757898808695733_n

Tryggvi Steinn

Alls útskrifuðust ellefu höfundar með MA-próf í ritlist á árinu. Ég hef þegar kynnt þau öll stuttlega fyrir lesendum þessarar síðu, öll nema Tryggva Stein Sturluson sem útskrifaðist í október sl. Lokaverkefni hans var tvíþætt, annars vegar ljóðahandrit sem hann vann undir handleiðslu Davíðs Stefánssonar, hins vegar leikrit í tveimur þáttum sem hann vann undir handarjaðri Trausta Ólafssonar. Tryggvi birti efni í bókinni Tímaskekkjur vorið 2016 og einnig átti hann efni í Jólabókum Blekfjelagsins.

 

Birt verk eftir ritlistarnema

KRG-utskrift

Kristín Ragna

Ritlistarnemar, útskrifaðir og óútskrifaðir, sendu frá sér fjölda bóka á árinu og vöktu sumar þeirra talsverða athygli. Dagur Hjartarson sendi frá sér skáldsöguna Síðustu ástarjátninguna hjá JPV í byrjun árs. Á vordögum gáfu meistaranemar út sitt árlega safnrit og hét það Tímaskekkjur að þessu sinni. Þar er að finna efni eftir tíu ritlistarnema. Hildur Knútsdóttir sendi frá sér bókina Vetrarhörkur hjá JPV og Dodda: Bók sannleikans!, sem hún samdi ásamt Þórdísi Gísladóttur, hjá Bókabeitunni. Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir gaf út myndasöguna Ormhildarsögu hjá Sölku. Benedikt, hið nýstofnaða forlag Guðrúnar Vilmundardóttur, gaf út smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita eftir Friðgeir Einarsson. Forlagið gaf út skáldsögu Sverris Norland, Fyrir allra augum. Bókabeitan gaf út barnabók Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur, Úlfur og Edda – Dýrgripurinn. Grandagallerí eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur kom út hjá Partus Press. Meðgöngumál gáfu út smásöguna Út á milli rimlanna eftir Þórdísi Helgadóttur. Meðgönguljóð gáfu út ljóðabókina Drauma á þvottasnúru eftir Þorvald Sigurbjörn Helgason. Hjá Sæmundi kom út þýðing Heiðrúnar Ólafsdóttur á smásagnasafninu Zombíland eftir  hina grænlensku Sørine Steenholdt. Hjá bókaútgáfunni Bjarti kom út bókin Perurnar í íbúðinni minni eftir Kött Grá Pjé eða Atla Sigþórsson. Vaka-Helgafell gaf út Skóladrauginn eftir Ingu Mekkin BeckSigurlín Bjarney Gísladóttir sendi frá sér ljóðabókina Tungusól og nokkrir dagar í maí sem Mál og menning gaf út. Hjá Tunglinu kom út þýðing Þórðar Sævars Jónssonar á bókinni Sönn saga, lygasaga eftir Lúkíanos frá Samósata. Í vikunni fyrir jól kom svo bókin Vættir, hin árlega jólabók Blekfjelagsins, nemendafélags ritlistarnema. Að þessu sinni voru í henni 96 orða örsögur sem jafnframt voru fluttar í Víðsjá á Rás 1. Kristian Guttesen gaf út bækurnar Englablóð og Hendur morðingjans hjá Deus. Rasspotín gaf út Lífsýni eftir Jóhannes Ólafsson. Þá flutti Útvarpsleikhúsið leikritið Svefngrím eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur í byrjun árs og Nemendaleikhúsið setti á svið leikritið Við deyjum á Mars eftir Jónas Reyni Gunnarsson. Ritlistarnemar bjuggu einnig til þrjá útvarpsþætti sem fluttir voru á Rás 1 undir heitinu Grimmdarverk.

Nemar okkar eru einnig farnir að birta verk erlendis. Bókin Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur kom út í Frakklandi, Tyrklandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum á árinu. Þá kom bókin Í hverri manneskju býr nótt eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur út hjá ljóðaútgáfu í Tyrklandi. Fleiri eru á leiðinni.

Verðlaun og viðurkenningar

hildur-knutsdottir-landscape-688x451

Hildur Knútsdóttir

Hildur Knútsdóttir varð fyrst höfunda til að hreppa tvær tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama árið en þær hreppti hún fyrir bækurnar Vetrarhörkur og Doddi: Bók sannleikans! sem hún skrifaði ásamt Þórdísi Gísladóttur (sem hefur kennt og leiðbeint hjá okkur). Doddi er einnig tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í ár. Vetrarhörkur eru framhald bókarinnar Vetrarfrí sem kom út í fyrra og hreppti Fjöruverðlaunin auk þess að vera tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Í ársbyrjun gerðist sá einstæði atburður að allir höfundarnir sem fengu viðurkenningu kennda við Jón úr Vör höfðu haft viðkomu í ritlist við HÍ, flestir þeirra m.a.s. með gráðu í ritlist. Veittar voru tíu viðurkenningar fyrir frumsamin ljóð. Aðalviðurkenninguna, Ljóðstaf Jóns úr Vör, hreppti Dagur Hjartarson. Dagur var stórtækur á árinu því hann sendi frá sér skáldsöguna Síðasta ástarjátningin, flutti reglulega pistla í Kastljósi, gaf út Tunglbækur og sló í gegn á samfélagsmiðlum.

Bók Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur, Úlfur og Edda – Dýrgripurinn, var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. Í umsögn segir að sagan af Úlfi og Eddu fari með lesendur í æsispennandi ævintýri þar sem skemmtilegum hversdagsheimi barna sé blandað saman við ævintýraheim norrænnar goðafræði á nýstárlegan og frumlegan hátt.

Birta Þórhallsdóttir hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta en slíkir styrkir eru veittir þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref. Verkið hlaut hún fyrir handritið Einsamræður, „örsögur skrifaðar í afgerandi og öguðum stíl“ eins og segir í umsögn.

Þá hlaut nýútskrifaður ritlistarnemi, Inga Mekkin Beck, Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Skóladrauginn. Í umsögn dómnefndar segir að bókin sé í senn spennandi draugasaga og trúverðug lýsing á barni sem misst hafi ástvin.

Gestir og viðburðir

Nemendur og kennarar Forfatterskolen í Kaupmannahöfn komu til landsins í apríl en skólinn fer árlega utan með nemendur sína til að kynna þeim bókmenntir og menningu annars lands. Efnt var til sameiginlegrar vinnustofu með ritlistarnemum við HÍ og nemendum Forfatterskolen. Þema vinnustofunnar var sameiginleg saga Íslands og Danmerkur og sem kveikju notuðum við ávarp sem Halldór Laxness flutti þegar hann fékk Sonningverðlaunin við Hafnarháskóla árið 1969.

Í nóvember komu líka góðir gestir frá Bandaríkjunum, ljóðskáldin Kevin Goodan, dósent við Lewis-Clark State College, og Kimberly Burwick, lektor í ritlist við Washington State University. Þau buðu ritlistarnemum upp á örsmiðju um ljóðagerð sem þau kölluðu „Orfeus og Evridís í Ameríku“.

Ólafur Gunnarsson kom til okkar og hélt fyrirlestur Í röðinni „Hvernig verður bók til?“ um Öxina og jörðina. Einnig  kom Kevin Larimer, aðalritstjóri tímaritsins Poets & Writers og talaði um hvernig ætti að bera sig að við að koma efni á framfæri í Bandaríkjunum.

Ritlistarnemar fóru í sína árlegu landsbyggðaferð. Að þessu sinni var farið í Sælingsdal með ljóðskáldinu Sigurbjörgu Þrastardóttur. Þau kalla slíkar ritsmiðjur „Blandað á staðnum“.

Meistaranemar stóðu fyrir dagskrá í Hörpu á Menningarnótt og kölluðu hana „Orp um appelsínur“. Þar að auki stóðu þau fyrir nokkrum öðrum upplestrum, auk útgáfuhófa. Ekki má gleyma leiklestri á einþáttungum nemenda sem fram fór í Iðnó skömmu fyrir jól. Þar tóku landsþekktir leikarar að sér að koma verkunum á framfæri.

Launasjóður rithöfunda

bryndis_bjorgvinsdottir707266111

Bryndís Björgvinsd.

Átta höfundar, sem ýmist eru í ritlistarnámi hjá okkur við Háskóla Íslands eða hafa lokið því, fengu úthlutun úr Launasjóði rithöfunda í ár. Þetta eru langhæstu tölur sem við höfum séð hingað til og mesti mánaðafjöldi. Bryndís Björgvinsdóttir fékk laun í níu mánuði, og þau Hildur Knútsdóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Soffía Bjarnadóttir fengu sex mánuði, svo dæmi séu nefnd.

Þá fékk Heiðar Sumarliðason styrk úr Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen hjá RÚV til að vinna að útvarpsleikriti.

 

Starf Jónasar Hallgrímssonar í ritlist

Á vormisseri gegndi Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist. Vilborg vann með ritlistarnemum að ritun sögulegra skáldsagna. Var það í fyrsta skipti sem boðið var upp á sérstakt námskeið um ritun sögulegra skáldsagna.

Veturinn 2016–17 gegnir Hlín Agnarsdóttir, rithöfundur og leikskáld, starfi Jónasar Hallgrímssonar. Hlín hefur aðallega unnið með nemendum að leikritun og mun afrakstur þeirrar vinnu m.a. heyrast í Útvarpsleikhúsinu.

NonfictioNOW

Logo Reykjavik 2017Í ársbyrjun var ákveðið að Hugvísindasvið HÍ mundi hýsa alþjóðlegu ráðstefnuna NonfictioNOW, sem eins og nafnið gefur til kynna er helguð óskálduðum skrifum. Þetta er mikill heiður fyrir sviðið og mikill fengur fyrir ritlistina að fá helstu höfunda og kennara bókmennta af þessu tagi til landsins. Ráðstefnan verður haldin 1.–4. júní í húsakynnum HÍ og Hörpu. Búist er við um 500 ráðstefnugestum. Meðal boðsfyrirlesara verða þau Gretel Ehrlich og Karl Ove Knausgaard sem bæði eru risastór nöfn í þessum geira.

Birt á árinu

Á árinu 2016 hef ég birt efni af ýmsu tagi. Það er tímanna tákn að stór hluti efnisins birtist á vefmiðlum. Stærsta einstaka birtingin er fyrsta bindið af Smásögum heimsins sem ég ritstýri ásamt Jóni Karli Helgasyni og Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur. Í fyrsta bindið, sem helgað er Norður-Ameríku, þýddi ég sex sögur, auk þess að skrifa inngang og kynningu á flestum höfundanna. Bókin fékk afar góðar viðtökur, m.a. fimm stjörnur í Morgunblaðinu. Hér má sjá viðtal við mig um bókina og vinnuna að henni. Annað bindið, sem helgað verður Rómönsku-Ameríku, er nú vel á veg komið.

Smasogur heimsins N-AmerikaAðrar birtingar eru tíundaðar hér fyrir neðan. Smella má á titla þeirra ritsmíða sem birtust á vefmiðlum.

„Skáldað og óskáldað – skáldsaga og sannsaga“. Hugrás.

„Útvistun uppeldis“. Kjarninn.

„Bletturinn“. Smasaga.is

„Ef maður þýðir enska bók yfir á íslensku og þýðir þýðinguna svo yfir á ensku, er maður þá ekki að afþýða hana?“ Vísindavefurinn.

„Hvað er ritstífla og hvernig er hægt að losna við hana?“ Vísindavefurinn.

„Hvernig skrifar maður bók?“ Vísindavefurinn.

„The Mourning Paper“. Essay Daily.

„Svolítið um samtíning“. Stína, 2. hefti.

„Hin útvalda“ e. Barbara Baynton. Áströlsk smásaga, þýdd ásamt Vilborgu Halldórsdóttur. Jón á Bægisá.

„Bletturinn“. Smásaga. Tímarit Máls og menningar, 4. hefti.

 

Í höfundabúðum í Kína

Í haust varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið að dvelja í fjórar vikur í höfundabúðum á vegum Sun Yat-sen-háskóla í Guangzhou í Kína. Þetta ku vera einu búðirnar af þessu tagi í Kína og var þetta í annað skipti sem staðið var fyrir slíkum búðum á vegum Sun Yat-sen-háskóla.

img_0332Við vorum níu höfundarnir: leikritaskáldið Barbára Colio frá Mexíkó, ljóðskáldið og þýðandinn George Szirtes frá Englandi, skáldsagnahöfundurinn Larissa Boehning frá Þýskalandi, skáldsagna- og greinahöfundurinn Daan herma van Voss frá Hollandi, ljóðskáldið og þýðandinn Ravi Shankar og smásagnahöfundurinn Katherine Nelson frá Bandaríkjunum, skáldsagnahöfundarnir og ljóðskáldin Merlinda Bobis frá Ástralíu og Alison Wong frá Nýja-Sjálandi. Allt eru þetta mikilsmetnir höfundar og flestir þeirra margverðlaunaðir í sínum heimalöndum. Tíundi höfundurinn, Fan Dai, prófessor við Sun Yat-sen-háskóla, var svo umsjónarmaður og helsti skipuleggjandi búðanna. Hún skrifar mikið af sannsögulegu efni, ýmist á kínversku eða ensku.

Búðirnar hófust í Yangshuo þar sem þúsundir karsthóla fylla dali. Okkur var komið fyrir í hæfilega stóru húsi með tignarlegan karsthól á aðra hönd og fljót á hina. Þarna gátum við sinnt ritstörfum í næði í hálfan mánuð. Inn á milli var farið með okkur í heimsóknir í skóla, við lásum upp og fórum í viðtöl en heimildarmynd var gerð um búðirnar. Stúdentar frá Sun Yat-sen-háskóla voru okkur innan handar og þýddu efni eftir okkur yfir á kínversku.

img_0310Að þessum tveimur vikum liðnum tókum við lestina til Guangzhou þar sem við lásum upp og héldum fyrirlestra í háskólum á svæðinu. Sjálfur tók ég þátt í vel sóttum upplestri í Sun Yat-sen-háskóla og flutti síðan fyrirlestur um að þýða á mál í útrýmingarhættu fyrir ritlistar- og þýðingarnema við sama skóla.

Síðustu vikuna dvöldum við í Jiangmen þar sem við fengum aftur tækifæri til að sinna ritstörfum. Eins voru tekin frekari viðtöl við okkur fyrir heimildarmyndina auk þess sem blaðamenn á svæðinu mættu í heimsókn og ræddu m.a. við mig um heitar laugar en í Jiangmen er einmitt heilsulind þar sem hveravatn er nýtt.

Ekki þarf að fjölyrða um hve mikils virði er að fá tækifæri til þess að dvelja í samfélagi við úrvalshöfunda héðan og þaðan úr heiminum í landi eins og Kína. Ég  hafði ekki komið til Kína áður og má segja að þetta hafi verið frábær kynning á landinu. Prófessor Fan Dai er snjöll kona sem hefur hefur m.a. menntað sig á Vesturlöndum þannig að hún hefur góða innsýn í bæði vestræna og austræna menningu. Ekki voru gerðar neinar kröfur til okkar höfundanna um að skrifa eða skrifa ekki um Kína. Hún sagði að hver háskóli þyrfti að bjóða upp á prógramm sem væri of gott til að vera satt og það á sannarlega við um búðirnar hennar.

Hlín Agnarsdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist 2016–'17

hlin-agnarsdottirHlín Agnarsdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist veturinn 2016–17 en til þess var fyrst stofnað árið 2015. Áður hafa þau Sigurður Pálsson og Vilborg Davíðsdóttir gegnt starfinu. Hlín kennir nú ritsmiðjur í leikritun í meistaranáminu í ritlist og í ritfærni í grunnnámi.

Hlín er fjölmenntuð í leiklistar- og bókmenntafræðum, hefur post-graduate gráðu í leikstjórn frá Drama Studio í Lundúnum, fil.kand-próf í leiklistarfræðum frá Stokkhólmsháskóla og MA-próf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað fjölda leikrita, m.a. Konur skelfa og Gallerí Njála sem sett voru upp í Borgarleikhúsinu. Í lok febrúar á þessu ári var eitt af verkum hennar, Flóttamenn (Refugees), leiklesið hjá ScandinavianAmerican TheatreCompany í New York af bandarískum og norrænum leikurum. Leiklesturinn var hluti af árlegri kynningu leikhússins á nýjum norrænum verkum en leikhúsið hefur staðið fyrir þeim sl. fimm ár. Hlín hefur sent frá sér þrjár bækur, skáldsögurnar Hátt uppi við Norðurbrún 2001 og Blómin frá Maó 2009, og sannsöguna Að láta lífið rætast 2003 en fyrir hana var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Á undanförnum árum hefur Hlín fengist við kennslu í ritlist og leiklist við Kvikmyndaskóla Íslands og Háskóla Íslands. Í lok júní kenndi hún einnig á vikulöngu þingi Interplay Europe fyrir ung leikskáld í Evrópu sem fram fór við Ljungskile-lýðháskólann í Svíþjóð. Höfundarnir sem sóttu námskeiðið komu frá 20 löndum í Evrópu. Hlín hefur ennfremur starfað sem leikstjóri og dramatúrg bæði í atvinnu- og áhugaleikhúsi um árabil, auk þess sem hún hefur verið leiklistargagnrýnandi á DV og í Kastljósi hjá RÚV.

Það er fagnaðarefni að fá Hlín til starfa enda er hún ákaflega fjölhæf og orkumikil manneskja, skapandi og vel menntuð í sínu fagi.