Category: Almennt

Bryndís Björgvinsdóttir tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Hafnfirdingabrandarinn-175x275Ritlistarneminn Bryndís Björgvinsdóttir hefur verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2014 í flokki barna- og ungmennabóka. Tilnefninguna fær hún fyrir bókina Hafnfirðingarandarinn sem Vaka-Helgafell gefur út. Bókin hefur undanfarið fengið afbragðsgóða dóma, þykir bæði fyndin og spennandi. Eiríkur Örn Norðdahl segir t.d. í umsögn á Starafugli að þetta sé bók af því tagi sem „gæti kannski bjargað heilli kynslóð frá ólæsi“.

Þess má geta að bókin er byggð á meistaraverkefni í ritlist sem Bryndís vann undir handleiðslu Ármanns Jakobssonar, sem sjálfur er tilnefndur í sama flokki fyrir bókina Síðasti galdrameistarinn.

Þetta er í fyrsta skipti sem ritlistarnemi er tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Með þessu hafa ritlistarnemar komið við sögu flestra bókmenntaverðlauna landsins. Dagur Hjartarson og Hjörtur Marteinsson hafa hreppt Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, Kjartan Yngvi Björnsson hefur fengið Íslensku barnabókaverðlaunin og Bóksalaverðlaunin og Heiðrún Ólafsdóttir fékk í fyrra tilnefningu til Fjöruverðlaunanna. Þá hafa ritlistarnemar hreppt ýmis smærri verðlaun og viðurkenningar, s.s. Nýræktarstyrki, Ljósvakaljóð fyrir stuttmyndahandrit, fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni Vikunnar og verið útnefndir Háskólaskáld af Stúdentablaðinu.

Metfjöldi útskrifast með meistarapróf í ritlist

Flaedarmal

Þetta rit kom út í maí 2014 og geymir efni eftir átta ritlistarnema.

Hinn 21. júní útskrifuðust níu nemendur með meistarapróf í ritlist. Þetta er mesti fjöldi sem hefur útskrifast með meistarapróf í ritlist í einu síðan kennsla hófst á meistarastigi haustið 2011. Alls hafa nú átján hlotið þessa gráðu.

Atli Sigþórsson skilaði nóvellu sem lokaverkefni, vann hana undir minni leiðsögn. Hann hefur þess utan gefið út bókina Stálskip á námstímanum, birt efni í Jólabók Blekfjelagsins (Blekfjelagið er nemendafélag ritlistarnema) og tímaritinu Stínu. Þá átti hann einn helsta smell síðasta árs, rapplagið Aheybaró sem hann flytur undir listamannsnafninu Kött Grá Pé.

Ásdís Þórsdóttir skrifaði einnig nóvellu undir minni leiðsögn. Hún átti efni í safnritinu Hvísli, Jólabók Blekfjelagsins og hefur auk þess gefið út efni í tímaritinu Stínu.

Björk Þorgrímsdóttir skrifaði leikrit undir handleiðslu Hlínar Agnarsdóttur. Björk gaf enn fremur út tvær bækur á námstímanum, Bananasól og Neindarkennd, auk þess sem hún átti efni í Hvísli og Jólabók Blekfjelagsins.

Ellen Ragnarsdóttir skrifaði kvikmyndahandrit undir leiðsögn Marteins Þórssonar og birti örsögur í jólabókum Blekfjelagsins.

Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifaði útvarpsleikrit undir handleiðslu Hrafnhildar Hagalín. Hún á einnig efni í hinu nýútkomna safnriti ritlistarnema, Flæðarmál, auk þess sem hún átti örsögur í jólabókum Blekfjelagsins.

Harpa Arnardóttir skrifaði leikrit undir handarjaðri Sigurðar Pálssonar. Hún birti einnig efni í jólabókum ritlistarnema á námstímanum.

Kristian Guttesen orti ljóðabók undir handleiðslu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar. Hann gaf jafnframt út aðra ljóðabók á námstímanum, Veginn um Dimmuheiði, og átti efni í Hvísli og öðrum safnritum ritlistarnema.

Þór Tulinius skrifaði stutta skáldsögu hjá mér. Hann birti einnig efni í Hvísli og jólabókum Blekfjelagsins meðan á náminu stóð.

Æsa Strand Viðarsdóttir skrifaði nóvellu undir minni leiðsögn. Hún birti efni í Hvísli, jólabókum Blekfjelagsins og víðar á námstímanum.

Ég þakka þessu ágæta fólki fyrir gefandi samstarf og óska þeim alls góðs í framtíðinni.

Sex útskrifuðust með MA-gráðu í ritlist

Screen Shot 2014-03-12 at 11.27.44Sex útskrifuðust með meistaragráðu í ritlist nú í febrúar. Þetta eru þær Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Soffía Bjarnadóttir og Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir og er þeim öllum óskað til hamingju með gráðuna.

Lokaverkefni Guðrúnar Ingu var smásagnasafn sem hún vann undir minni handleiðslu. Meðan á náminu stóð birti hún smásögu í bókinni Hvísl sem og örsögur í Jólabók Blekfjelagsins 2012 og 2013.

Lokaverkefni Höllu Margrétar Jóhannesdóttur var tvískipt, annars vegar ljóðahandrit sem hún vann undir handleiðslu Sigurðar Pálssonar og hins vegar saga fyrir unga lesendur sem hún vann með Önnu Heiðu Pálsdóttur. Halla, sem einnig hefur BA-gráðu í ritlist, hefur birt talsvert af efni á námstímanum, í nokkrum safnritum ritlistarnema, jafnt ljóð sem lausamálstexta. Í fyrra gaf hún út ljóðahluta meistaraverkefnisins undir titlinum 48.

Lokaverkefni Hrafnhildar Þórhallsdóttur var þýðing á skáldverki sem hún vann í samvinnu við mig. Hún birti einnig lausamálstexta í Hvísli og örsögur í Jólabókum Blekfjelagsins á námstímanum.

Lokaverkefni Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur var annars vegar nóvella sem hún vann undir minni handleiðslu og hins vegar leikrit sem hún vann með Sigurði Pálssyni. Sigurlín Bjarney birti örsögur og smásögur í Hvísli sem og í  Jólabók Blekfjelagsins 2012. Þá gaf hún út ljóðabókina Bjarg á námstímanum og var valin í höfundasmiðju Leikskáldafélags Íslands og Þjóðleikhússins.

Lokaverkefni Soffíu Bjarnadóttur var tvískipt, annars vegar leikrit, hins vegar ljóðasafn; hvort tveggja unnið undir handleiðslu Sigurðar Pálssonar. Soffía birti á námstímanum örsögur í Jólabókum Blekfjelagsins. Þá hreppti hún einnig nýræktarstyrk frá Bókmenntasjóði og var boðið að taka þátt í höfundasmiðju Leikskáldafélags Íslands og Þjóðleikhússins.

Lokaverkefni Þóreyjar Mjallhvítar var myndasaga sem hún vann undir handleiðslu Úlfhildar Dagsdóttur. Þórey birti smásögur í Hvísli í fyrra og átti örsögu í Jólabók Blekfjelagsins 2012.

Ég þakka þessum ágætu konum fyrir samstarfið undanfarin ár og óska þeim alls hins besta.

 

 

 

Neindarkennd og Stálskip

NeindarkenndÞað var óþarfi að efast; ritlistarnemar eru þegar farinn að setja svip sinn á bókmenntalífið og þau ykkar sem eru á höttunum eftir nýjabrumi ættu að fylgjast vel með þeim.

Í vikunni hafa komið út tvö ný verk eftir ritlistarnema.

Á miðvikudaginn kom út ljóðabók Bjarkar Þorgrímsdóttur, Neindarkennd, á vegum Meðgönguljóða. Þetta er önnur bók Bjarkar en í fyrra kom út bókin Bananasól. Í stuttu viðtali í Fréttablaðinu segir Björk bókina fjalla um eftirköst ástarinnar. Eins og aðrar bækur Meðgönguljóða verður Neindarkennd prentuð í takmörkuðu upplagi og er hver bók einstök, sérmerkt og handsaumuð, eins og segir í Fréttablaðinu.

Stalskip

Í dag kemur svo út bókin Stálskip – nokkur ævintýri eftir Atla Sigþórsson á vegum bókaútgáfunnar Tunglsins en sú útgáfa spratt  upp úr ritlistinni. Atli birtir hér lausamálstexta en útgefendur hafa eftir Hermanni Stefánssyni að Atli sé „Julio Cortázarokkar daga, okkar tungu“. Þess má geta að Atli komst á topp vinsældarlista sl. sumar með laginu Aheybaró með sveit sinni Kött Grá Pjé.

Í kvöld verður haldið útgáfuteiti á vegum Tunglsins forlags í Nýlistasafninu og hefst það kl. 20:30. Í kvöld er nefnilega fullt tungl og bækur þessa sérstaka forlags koma eingöngu út þegar þannig háttar til. Þær eru einungis gefnar út í 69 eintökum svo það er betra að hafa hraðan á enda hafa fyrri bækur iðulega selst upp í útgáfuteitinu.

Andri Snær talar um höfundarverk sitt

Andri Snær Magnason, wtiter.Andri Snær Magnason, sem hlaut á dögunum Íslensku bókmenntaverðlaunin í þriðja sinn, talar um tilurð verka sinna í fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? fimmtudaginn 13. febrúar kl. 12. Hann mun m.a. staldra við Söguna af bláa hnettinum, Lovestar og Draumalandið.

Andri Snær er Árbæingur í fjórða lið. Hann hóf rithöfundarferil sinn árið 1995 með ljóðbókinni Ljóðasmygl og skáldarán, þar sem hann segir fuglunum að snauta því hann sé að yrkja ljóð um vorið. Síðan hefur hann sent frá sér ritverk af ýmsu tagi; ljóð, smásögur, skáldsögur, leikrit, kvikmyndahandrit og fleira. Verk hans hafa vakið fádæmi athygli og borið hróður hans yfir á tugi tungumála.

Fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? hefur verið haldið úti af námsbraut í ritlist og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands frá 2009. Þar hafa margir af virtustu höfundum þjóðarinnar rætt um ritverk sín. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 101 í Lögbergi milli 12 og 13 fimmtudaginn 13. febrúar.

Aðgangur ókeypis. Allir velkomnir.

Þrír ritlistarnemar fá úthlutun úr Launasjóði rithöfunda

bryndis bjorgvinsdottir

Við úthlutun úr Launsjóði rithöfunda, sem kynnt var á dögunum, kom í ljós að þrír ritlistarnemar fá úthlutun úr sjóðnum, þrjá mánuði hver. Það eru þær Bryndís Björgvinsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Soffía Bjarnadóttir. Þarna sýnir sjóðurinn ákveðna viðleitni til að styðja við bakið á upprennandi höfundum.

Í ritlist sækir oft fólk sem einnig er vel liðtækt í öðrum listgreinum enda mörk listgreina orðin óljósari en áður var. Margrét Bjarnadóttir, sem hefur getið sér gott orð sem dansari og danshöfundur, fær níu mánaða úthlutun úr Launasjóði sviðslistafólks.

Ég óska þessum nemendum mínum innilega til hamingju og hlakka til að sjá afraksturinn af vinnu þeirra í framtíðinni.

Þar sem bananasólin skín – annáll 2013

Björk Þorgrímsdóttir les upp í útgáfuhófi sem haldið var í tilefni af útkomu bókarinnar Hvísl.

Björk Þorgrímsdóttir les upp í útgáfuhófi sem haldið var í tilefni af útkomu bókarinnar Hvísl.

Ritlistarnemar hafa verið í banastuði þetta árið. Þeir hafa hamrað lyklaborðið af miklum móð og þar að auki verið duglegir að gefa út bækur og efna til bókmenntaviðburða.

Fyrstu meistaranemarnir í ritlist útskrifuðust í júní og tveir til viðbótar á haustmánuðum. Nokkuð hefur borið á því að ritlistarnemar vilji helst ekki hætta námi og sækist jafnvel eftir því að fá að taka umframeiningar.

Mikil aðsókn var að meistaranáminu sem fyrr og komust færri að en vildu. Inntökunefnd valdi að lokum tuttugu nema úr hópi umsækjenda og hafa þeir látið hendur standa fram úr ermum. Þeir dvöldu m.a. á Laugarvatni í rúma tvo daga og stunduðu ritstörf í húsinu þar sem Halldór Laxness vann að Sjálfstæðu fólki fyrir margt löngu.

Ritlist sem aukagrein var endurvakin sl. haust og er að komast á flug. Hana er æskilegt að taka meðfram aðalgrein til BA-prófs á tveimur árum. Ný lína, Ritfærni, hóf líka göngu sína og mun hún tengjast Ritveri Hugvísindasviðs sem verður opnað um áramótin. Mikill áhugi reyndist vera á þessari nýju línu og luku yfir 40 manns fyrsta smiðjunámskeiðinu sem boðið var upp á.

Jolabok blekfjelagsins 2013Talsverð útgáfustarfsemi hefur farið fram á vegum meistaranema í ritlist þetta árið. Í vor var efnt til sérstaks smiðjunámskeiðs um útgáfu sem Guðrún Sigfúsdóttir, ritstjóri hjá Forlaginu, stýrði. Afrakstur þess varð bókin Hvísl sem er nokkurs konar útskriftarsýning ritlistarnema, safn lengri og styttri verka sem unnin höfðu verið á námstímanum. „Lesendur geta gengið um bókina eins og hverja aðra sýningu,“ segir á kápu. Sjaldan hefur nokkru verki verið ritstýrt af jafn mikilli natni því fyrir utan Guðrúnu komu fimm ritstjórnarnemar að þeirri vinnu.

Rétt fyrir jól tóku meistaranemar sig saman og bjuggu til Jólabók Blekfjelagsins 2013. Þar er að finna 37 jólasögur eftir 37 höfunda og er hver saga nákvæmlega 99 orð. Nemendur lásu sögurnar í Víðsjá á Rás 1 í desembermánuði og um jólin voru svo allar sögurnar teknar saman í þátt sem fékk heitið Þegar hvískrið þagnaði.

Tveir ritlistarnemar og einn ritstjórnarnemi stofnuðu í sumar útgáfufélagið Tunglið. Gáfu þeir út sex bækur á fullu tungli, tvær í senn, og voru fjórar þeirra eftir ritlistarnema: Bréf frá Bútan eftir Ragnar Helga Ólafsson, Bananasól eftir Björk Þorgrímsdóttur, Líf mitt, til dæmis eftir Margréti Bjarnadóttur og Kvíðasnillingurinn, skáldsaga í hæfilegri lengd eftir hinn útskrifaða Sverri Norland. Auk þeirra fengu Kristín Ómarsdóttir og Pétur Gunnarsson inni í ritröðinni. Með stuðningi Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO var efnt til útgáfuhófs á fullu tungli og einungis þar var hægt að nálgast bækurnar. Þær voru aðeins gefnar út í 69 eintökum og eru nú allar uppseldar að því er fram kemur í Bókatíðindum. Þessi gjörningur lífgaði upp á bókmenntalífið yfir sumarmánuðina.

Einstakir ritlistarnemar hafa líka verið iðnir við að gefa út bækur. Á vormánuðum gaf Mál og menning út ljóðabókina Bjarg eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur og var henni vel tekið. Halla Margrét Jóhannesdóttir sendi einnig frá sér ljóðabók, 48 hét hún og var henni líka vel tekið. Þá sendi Heiðrún Af hjaranumÓlafsdóttir frá sér ljóðabókina Af hjaranum í haust og var hún tilnefnd til Fjöruverðlaunanna skömmu fyrir jól. Á vormánuðum sendi Daníel Geir Moritz frá sér nýstárlega sjálfshjálparbók sem ber heitið Að prumpa glimmeri. Þá sendi  Kjartan Yngvi Björnsson frá sér bókina Draumsverð sem hann skrifaði ásamt Snæbirni Brynjarssyni og varð hún í öðru sæti yfir bestu táningabækurnar hjá starfsfólki bókaverslana. Bragi Páll Sigurðarson, sem er með BA-gráðu í ritlist, gaf út ljóðabókina Hold rétt fyrir jól og vakti kápa hennar sérstaka athygli enda tjaldar höfundurinn þar öllu sínu. Þá gaf bókaútgáfan Rúnatýr út skáldsöguna Flóttinn til skýjanna eftir Kristján Má Gunnarsson, sem er einnig með BA-gráðu í ritlist. Bókin er sögð vera fyrsta íslenska gufupönkssagan en í fréttatilkynningu segir að gufupönk sé vaxandi bókmenntagrein þar sem vísindaskáldskapur rennur saman við fantasíu.

Bjartur gaf í vor út rafbókina Eldhafið yfir okkur eftir Dag Hjartarson og var hún síðan gefin út í prentuðu formi í haust. Þar er að finna þrettán smásögur en fyrir þær hlaut Dagur Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs. Nokkur umræða spratt upp um eðli ritlistarnáms í kjölfar þeirra ummæla gagnrýnandans Friðriku Benónýsdóttur í Kiljunni að Dagur væri undir áhrifum frá undirrituðum kennara sínum. Ritaði Dagur bloggpistilinn „Til varnar ritlistinni“ af því tilefni og hrakti þar meintar ávirðingar Friðriku. Dagur sagði m.a.:

„Auðvitað munu einhverjir ritlistarnemar einhvern tíma skrifa miðlungsgóðar og ófrumlegar bækur (þá kannski sérstaklega ég) en það segir ekkert um ritlistarnámið. Aldrei í náminu hef ég upplifað það að einhver kennari hafi reynt að veita mér í einn sérstakan farveg. Sá sem setið hefur tíma í ritlist áttar sig fljótt á hverslags fásinna það væri. Það hefur verið mikil aðsókn í námið þessi fyrstu tvö ár sem það hefur verið kennt á meistarastigi og nemendahópurinn er mjög fjölbreyttur. Þeir sem nenna að kynna sér það sem þetta fólk hefur verið að bralla munu fljótt sjá að allt tal um að eitthvað sé „ritlistarlegt“ er aðeins vísbending um leti þess sem lætur slíkt frá sér.“

Að lokum má geta þess að ritlistarkennararnir hafa ekki setið auðum höndum heldur. Sigurður Pálsson sendi frá sér bókina Líf annarra en mín þar sem hann snarar verki eftir Emmanuel Carrère. Einnig kom út ljóðasafnið Ljóðtímasafn þar sem þrír ljóðabálkar eftir hann koma saman. Magnea J. Matthíasdóttir var að vanda mikilvirk á þýðingavellinum og sendi m.a. frá sér þýðinguna Afbrigði eftir Veronicu Roth sem bóksölum þótti besta þýdda táningabókin í ár. Þá var hin kunna bók hennar, Hægara pælt en kýlt, endurútgefin á árinu með nýjum eftirmála Dagnýjar Kristjánsdóttur. Undirritaður gaf svo út þýðingu á hinni þekktu bók Williams Faulkner, As I Lay Dying, og heitir hún Sem ég lá fyrir dauðanum í minni útgáfu. Henni fylgir líka allítarlegur eftirmáli.

Hér hefur frjóvgandi bananasólin sem sagt skinið skært þetta árið og þakka ég jafnt ritlistarnemum sem samkennurum ánægjulegt samstarf á árinu. Það er einmitt samfélagið í ritlistinni sem er svo dýrmætt.

Fyrstu meistaranemarnir í ritlist útskrifast

Í dag náum við þeim merka áfanga að útskrifa fyrstu meistaranemana í ritlist. Það eru þau Bryndís Emilsdóttir, Daníel Geir Moritz og Heiðrún Ólafsdóttir. Ég óska þeim til hamingju með áfangann og velfarnaðar í framtíðinni.

Bryndís, Daníel og Heiðrún tóku mismunandi áfanga á leið sinni að meistaragráðunni en eiga það þó sammerkt að þau skrifuðu öll lokaverkefni í sagnagerð undir minni handleiðslu. Þau eiga það einnig sammerkt að hafa öll birt frumsamið efni meðan á náminu stóð.

Bryndís hefur birt sögur í þremur safnritum ritlistarnema, nú síðast í Hvísli sem meistaranemar gáfu út í vor í samvinnu við nema í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

Daníel Geir hefur birt efni í tveimur safnritum ritlistarnema auk þess sem hann gaf nýverið út bókina Að prumpa glimmeri sem er sjálfshjálparbók í léttum dúr. Daníel er einnig þekktur sem uppistandari.

Heiðrún hefur birt efni í einu safnriti ritlistarnema og í fyrra gaf hún út ljóðabókina Á milli okkar allt en fyrir hana fékk hún Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs. Heiðrúnu var einnig boðið á norrænt þing í Svíþjóð nú í vor, ætlað þeim sem gáfu út sína fyrstu bók í fyrra.

Bryndís, Daníel og Heiðrún eru úr 24 manna hópi sem tekinn var inn haustið 2011. Flestir úr þeim hópi eru langt komnir með námið og munu útskrifast í haust og næsta vetur.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af glaðlegum útskriftarnemum, frá vinstri: Heiðrún, Bryndís og Daníel. Ég á eftir að sakna þeirra. Vonandi halda þau öll áfram að skrifa.

Screen Shot 2013-06-22 at 16.47.01

Bryndis

Daniel 2

Ritlistin kynnt

Picture 1Laugardaginn 9. mars verður allsherjar námskynning við Háskólann, nánar tiltekið milli 12 og 4. Þar verða allar námsgreinar skólans kynntar, líka sú sem ég hef umsjón með, ritlist. Ég verð á staðnum ásamt nokkrum af nemendum mínum og veiti upplýsingar um námið. Þá má búast við óvæntum gjörningi.

Ritlist er nú í boði sem aukagrein í grunnnámi og sem meistaranám. Allir sem skrá sig í Háskólann geta sótt námskeið í ritlist og ritfærni (nýtt) í grunnnáminu. Með þessu svörum við í Íslensku- og menningardeild kalli margra háskólakennara um að auka þurfi þjálfun í ritun. Það er jú eins með hana og annað sem mannfólkið tekur sér fyrir hendur, æfingin skapar meistarann.

Til að komast inn í meistaranám í ritlist þarf að sækja um fyrir 15. apríl. Með umsókn þurfa að fylgja sýnishorn af ritsmíðum umsækjanda og á grundvelli þeirra velur þriggja manna dómnefnd inn í námið. Fram að þessu hefur ekki verið unnt að taka inn nema tæplega helming umsækjenda. Nú eru 38 virkir nemar í meistaranáminu. Tekið er inn árlega.

Ritlistarnemum hefur vegnað vel á undanförnum árum. Í haust hlutu tveir þeirra virt bókmenntaverðlaun, Dagur Hjartarson hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og Kjartan Yngvi Björnsson hreppti ásamt félaga sínum Íslensku barnabókaverðlaunin. Fleiri smærri verðlaun hafa komið í hús. Þá fengu nokkrir ritlistarnemar listamannalaun við síðustu úthlutun.

Nám í ritlist er mjög persónulegt. Þar gefur fólk mikið af sér, jafnt í skrifum sem umræðum. Við leggjum mikið upp úr samtalinu. Þess vegna kynnist fólk vel og mikil samkennd skapast í hópnum. Ekki furða þótt oft sé gaman hjá okkur.

Ef þú ert tilfinning heimsins, eins og Laxness sagði um rithöfunda, þá átt þú heima hjá okkur – ef þér þykir gaman að skrifa.

Loftbrú frá Berlín

Steinunn SIGURDARDOTTIR 1 © David Ignaszewski-koboySteinunn Sigurðardóttir kemur beint frá Berlín og talar um nýjustu skáldsögur sínar, Jójó og Fyrir Lísu, á Háskólatorgi (stofu 105) fimmtudaginn 7. mars klukkan tólf. Steinunn bætist þar með í hóp þeirra góðu höfunda sem hafa talað í fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til?

Um leið og Steinunn Sigurðardóttir fer yfir sköpunarsögu skáldsaganna tveggja, kemur hún einnig inn á tengslin við íslenskan veruleika og nýlegar afhjúpanir um kynferðisbrot, gegn drengjum sérstaklega.

Hvaða erindi eiga tveir Berlínarbúar, þýskur geislalæknir og franskur róni, sem aðalpersónur í íslenska skáldsögu?  Hvernig datt Steinunni Sigurðardóttur í hug - eftir að hafa sent frá sér Reykjavíkurskáldsögur með ívafi ljóða eins og Tímaþjófinn og Sólskinshest, íslenska ferðasögu fjögurra kvenna, eins og Hjartastað - að fjalla um sameiginlega lífsreynslu og vináttu Martins læknis og Martins róna í Berlín? En þeir reynast vera þjáningarbræður sem glíma báðir við afleiðingar af því að hafa verið gert mein þegar þeir voru börn.

Skáldsagan Jójó kom út 2011, og fékk afar lofsamlega dóma.  Hún fjallar um leyndarmálið meðan það er enn leyndarmál og maðurinn ber það einn.  Framhaldið, Fyrir Lísu, kom út 2012.  Þar er leyndarmálið opinberað og reynt er að afhjúpa barnaníðing, virðulegan borgara, sem hefur stundað sína iðju í áratugi.  Hvernig lifir þolandinn í nýju lífi eftir að hann hefur ljóstrað upp um leyndarmál sitt?

Steinunn bjó um árabil í Frakklandi, en hefur undanfarin ár átt heima í Berlín.  Jójó og Fyrir Lísu eru fyrstu skáldsögur hennar sem gerast alfarið utan Íslands.  Andrúmsloft Berlínarborgar skiptir miklu máli í báðum sögunum.  Í fyrirlestrinum svarar Steinunn því hvers vegna hún færði sig á þetta sögusvið.

Mikil umræða hefur spunnist um skáldsögurnar Jójó og Fyrir Lísu, og hefur leikurinn borist í læknadeild HÍ, sem hluti af námskeiði um „narrative medicine“.  Þá fjallaði Dagný Kristjánsdóttir prófessor í bókmenntafræði um skáldsögurnar tvær á læknadögum, ásamt tveimur læknum.  Í nýjasta tölublaði Tímarits máls og menningar er grein um Jójó eftir Þröst Helgason.

Verið er að þýða Jójó á ensku, frönsku, og á þýsku.  Jójó er sjöunda skáldsaga Steinunnar sem kemur út hjá Rowohlt, einu helsta útgáfufyrirtæki í Þýskalandi. Fjöldi bóka eftir hana hefur einnig verið þýddur á frönsku og norðurlandamál, og á þessu ári koma tvær skáldsögur Steinunnar út í enskri þýðingu.

Steinunn Sigurðardóttir á að baki langan og glæsilegan höfundarferil, en fyrsta bók hennar,  ljóðabókin Sífellur, kom út 1969.  Nýjasta ljóðabók hennar, Ástarljóð af landi, var þýdd á þýsku og frönsku og ljóð eftir hana hafa birst í tímaritum og safnbókum á mörgum tungumálum, nú síðast á japönsku.