Eftirbátur
Ægir leitar að sjómanninum föður sínum eftir að bátur hans finnst mannlaus út af Vestfjörðum. Leitarleiðangrar Ægis vekja spurningar um faðernið sjálft í þessum harðbýla heimshluta. Hver er hinn raunverulegi faðir og hvað mótaði hann? Er nauðsynlegt að þekkja söguna til að vita hver maður er?
Þetta vefst fyrir Ægi sem lifir og hrærist í núi auglýsingaheimsins og veit „andskotann ekkert um fortíðina“. Í leit sinni fer hann vítt og breitt um stórbrotna náttúru og sögu Vestfjarða þar sem rætur hans sjálfs liggja. Á sama tíma eru teikn á lofti í fjölskyldulífinu og brestir komnir í hina hefðbundnu karlmennskuímynd.
Rúnar Helgi Vignisson hefur sent frá sér skáldsögur og smásagnasöfn sem hlotið hafa afbragðs viðtökur og viðurkenningar. Fyrir síðustu bók sína, Ást í meinum, hlaut hann Menningarverðlaun DV. Hann er einnig afkastamikill og verðlaunaður þýðandi, auk þess að hafa um árabil haft veg og vanda af ritlistarnámi við Háskóla Íslands.
Dimma 2018
U M F J Ö L L U N O G U M S A G N I R
„Ég er að reyna að hugsa um þetta hverjir eru að vinna úr þessari módernísku hefð, t.d. af höfundum sem eru nú að gefa út. Mér flaug það bara í hug af því þú nefndir Hornstrandir, ég var að lesa bók Rúnars Helga Vignissonar núna um daginn sem heitir Eftirbátur og þarna finnst mér mjög skemmtilegt hvernig dansað er á mörkum, annars vegar svona raunsæisskáldsögu og hins vegar einhvers annars sem að . . .“ (TT) „Já, vissulega, sem er ákveðinn módernismi og hugsanlega mætti kalla það töfraraunsæi, það hugtak er nú notað um býsna margt en það er samt þar sem rofin eru ákveðin veruleikalögmál og hleypt inn einhverju sem ætti ekki að vera þarna samkvæmt okkar veraldarhyggju. Hann opnar fyrir það mjög listilega í þessari sögu þannig að þetta er gott dæmi um að það er enn hægt að stunda ákveðnar tilraunir með frásögnina.“ (ÁE) – Spjall Torfa Tuliniusar og Ástráðs Eysteinssonar í þættinum „Samtal“ á Rás 1 20. jan. 2019.
„takk fyrir bokina þina, eg er mjööög hrifin af henni.“ – Oddný Eir Ævarsdóttir, rithöfundur, Facebook.
„Ég er stórhrifin og sérstaklega af tímaflakkinu.“ Svanhildur Þórðardóttir, lestrarhestur, Facebook.
„meistaraleg byrjun á bókinni, Rúnar Helgi Vignisson, hlakka til að lesa áfram!“ – Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur, Facebook.
„Las Eftirbátinn, hann var góður. Spennandi svona með fljótandi tímann og faðernið og allt. Um það hvað við heldur að sé fast undir fótum er í raun og veru í lausu lofti. Til hamingju!“ – Tapio Koivukari, rithöfundur, Facebook.
„Las EFTIRBÁT Rúnars Helga Vignissonar, skáldsögu sem of lítið hefur farið fyrir í jólabókaflóðinu. Titillinn er skemmtilega margræður, vísar í alþekkta yfirfærða merkingu sem og bókstaflega – í fleiri en einum skilningi. Rúnar Helgi er sá íslenski höfundur sem hvað mest hefur lagt sig eftir að skrifa um ‚nútímakarlmanninn‘ og stöðu hans í heiminum og sögumaður Eftirbáts er þar engin undantekning. Bókin fjallar um feðgasamband, hjónalíf, föðurhlutverk, sjómennsku og leit að rótum sínum, svo fátt eitt sé talið. Hún er mjög vel skrifuð og hefur ágæta flettiorku. En það sem gerir þessa bók sérstaka er tímaflakkið sem sögupersónan lendir í og hefur ýmislegt óvænt í för með sér. Í síðustu skáldsögu Rúnars Helga, Feigðarflani, segir á einum stað að fortíðin sé ef til vill „jafn framandi og önnur lönd“ og í Eftirbáti má segja að höfundur taki þessa hugsun bókstaflega þegar hann lætur aðalpersónu sína, Ægi, ferðast inn í hin framandi lönd fortíðarinnar með ýmsum ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“ – Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur, Facebook
Eftirbátur
★★★★
Rúnar Helgi Vignisson
Útgefandi: Dimma
Fjöldi síðna: 226
Það er sitt hvað Faðirvor og faðir vor,“ segir sögupersónan Ægir þegar hann fréttir af því að faðir hans Sævar hefur týnst á sjó vestur á fjörðum. Þar með hefst leitin að föðurnum sem á vissan hátt er „faðir allra feðra“. Það er leitin að upprunanum, rótunum, arfleifðinni, sjálfum sér.
Leiðin liggur um votar slóðir á sögusviði aldanna þar sem lífsbaráttan við sjóinn markast af viðureign við náttúruna, lífið og dauðann. Sagan er fantasía þar sem stuðst er við þá ævagömlu aðferð þjóðsagna og ævintýra að ferðast milli „heima“ – af einu tíma- og sögusviði yfir á annað. Skilin þar á milli eru táknuð með þoku. Aðalpersónan lifir í nútíðinni en bregður sér um sögusvið forfeðranna á litlum báti. Draumur fléttast við veruleika. Fortíðin gengur aftur í nútímanum. Sjómaðurinn gamli sem fer með Ægi í leitarleiðangra hans ber með sér útlit allra bátsformanna um aldir og draga má í efa að hann sé raunveruleg persóna. Stöðugur stendur hann við stýrið á sjónum en eins og þegar múkkanum fatast flugið yfir landi, lamast fætur hans um leið og hann stígur á þurrt. Verður þá „hálfur maður“.
Eftirbátur er áttunda skáldsaga Rúnars Helga Vignissonar (f. 1959). Sjórinn hefur áður verið honum hugleikinn, eins og til dæmis í fyrstu bók hans Ekkert slor (1984), enda er hann borinn og barnfæddur við Ísafjarðardjúp líkt og efnistök bókarinnar gefa til kynna. Á köflum getur að líta hressilegt sjómannamál en ekki er víst að allir lesendur tengi jafn vel við málfarið sem höfundi virðist tamt á tungu – orðatiltæki á borð við „það skal ekki skarða“ eða veðurfarslýsinguna „kaldaskít“ svo dæmi séu tekin. Samanborið við sjómennskutalið skýtur því skökku við, þegar ástir og kynlíf koma til tals, að sjá gripið til rósamálsins. Er engu líkara en höfundur vilji gera því efni skil en veigri sér samt við því (hjónin eru „í góðum gír“, það lifnar yfir honum „neðanþilja“ o.s.frv.). Útkoman verður tilgerð sem á illa heima í andrúmi sögunnar og er óþörf því sumu hefði einfaldlega mátt sleppa.
Á öðrum sviðum tekst betur til með húmor og stílfimi. Núningur milli fortíðar og nútíðar er undirstrikaður með (vísvitandi) ósamræmi orðræðu og andrúmslofts, þar sem aðalpersónan Ægir botnar ekkert í því sem fyrir augu ber enda veit hann „andskotann ekkert um fortíðina“. Ekkert frekar en börnin sem skilja ekki orðið „hégómi“ heldur „halda að þetta sé eitthvert tannlæknamál“.
Hér er sögð saga allra sjómanna (og raunar fleiri) sem lifað hafa og dáið við Ísafjarðardjúp en ganga aftur í afkomendum sínum kynslóð eftir kynslóð. Synir hafsins – eins og nöfnin votta – sækja sjóinn mann fram af manni, þó með þá von í brjósti að afkomendurnir hljóti annað hlutskipti. „Farðu aldrei á sjó,“ segir faðirinn við soninn. „Sama hvað þér býðst gott pláss.“ Sonurinn daufheyrist við. Nauðugur viljugur er hann dreginn áfram af dularöflum fortíðar sem eru eins og „óljós marglyttuþráður kominn úr undirdjúpunum“. Ástæðan er „ekki svar heldur kennd“ sem fyrir löngu var orðuð í hendingu sálmsins góða og leiðarstefi bókarinnar: Föðurland vort hálft er hafið – helgað þúsund feðra dáð.
Niðurstaða: Það er sitt hvað saga og Sagan – en þær systur fléttast þó býsna vel saman í þessari áhugaverðu bók.
18. október 2018
FÖÐURLEITIR
Rúnar Helgi Vignisson hefur að öllum líkindum verið á kafi í smásögum undanfarin ár. Skrifað þær nokkrar, örugglega farið yfir ókjörin öll í sínu þýðingarmikla brautryðjendastarfi sem ritlistarkennari, að ótöldu hinu mikla verki við að velja og ritstýra smásögum heimsins í samnefndri ritröð. Það þarf því ekkert að koma á óvart að það sé smásagnablær yfir upphafi skáldsögunnar Eftirbáts. Þar er gengið hreint og fumlaust til verks við að kynna til sögunnar aðalpersónuna, sjómannssoninn og auglýsingagerðarmanninn Ægi, og meginatburð sögunnar og drifkraft, hvarf föður hans, trillukarlsins Sævars, af bát sínum við minni Ísafjarðardjúps. Síminn hringir í miðjum ástarleik Ævars og Sirrýar með fréttirnar og þremur blaðsíðum síðar er Ægir á leið vestur ásamt eiginkonu og syni. Til að veita móður sinni stuðning, en einkum að leita föður síns. Fljótlega leggja þeir úr höfn á trillu föðurins, Ægir og Skarpi, meðeigandi bátsins, sem er svo mikill sjóhundur að hann getur ekki stigið í fæturna á landi og notar hjólastól til að koma sér á milli, en fær máttinn um leið og um borð er komið.
Þessi eiginlega leit bætir fljótlega við sig óeiginlegri vídd. Í fyrstu ferð á slysstaðinn hverfur Ægir nefnilega aftur í tímann þegar hann bregður sér í land í Aðalvík, illa haldinn af sjóveiki, og hittir fyrir samfélag frá síðustu öld. Þar hittir hann stúlkuna Melkorku sem hann sængar hjá og gerir að öllum líkindum barn. Í síðari ferðum heldur Ægir áfram að vera „óstöðugur í tímanum“ eins og annar bókmenntalegur flökkumaður orðaði það, Billy Pilgrim í Sláturhúsi fimm eftir Kurt Vonnegut. Þau ferðalög snúast að miklu leyti um að hafa uppi á Melkorku og fylgjast með framgangi óléttunnar, en Ægi grunar að þar hafi faðir hans komið undir. Inn í leitina að Melkorku blandast ýmis fræg söguleg atvik sem Ægir verður þátttakandi í strand Goðafoss við Straumnes 1916 og hinsti leiðangur Sumarliða landpósts 1920, en í þá för slæst Ægir þegar hann fréttir að kasólétt Melkorka hafi lagt á sömu heiði nokkru fyrr.
Það er nokkuð töfraraunsæislegur svipur yfir þessu tímaflakki Ægis, að því leyti að hér er yfirnáttúrulegum hlutum lýst sem næsta sjálfsögðum, óvenjulegum en ásættanlegum hluta hversdagslegs veruleika. Lesandinn verður ekki mikið var við að þetta uppbrot hafi mikil áhrif á Ægi, þó að í fyrstu gruni auglýsingamanninn að verið sé að taka kvikmynd þegar Melkorka og hennar fólk verður á vegi hans. Eftir það gengur hann nokkuð heils hugar inn í hlutverk sitt sem tímaflakkari og jafnvel eigin forfaðir. Það er miklu frekar að hann hafi eitthvað við framvinduna sjálfa að athuga út frá sjónarhóli fagurfræðinnar:
„Faðir minn er ekki minn raunverulegi faðir. Hann var bara látinn taka við mömmu þegar hún var orðin ófrísk.
Óttalega er þetta klisjukennt, hugsa ég með mér“ (bls. 83).
„Mátti maður ekki leita að pabba sínum án þess að lenda inni í enn einni moðsuðunni eftir þessa leikstjóra sem sérhæfðu sig í ömurlegri fortíð?“ (bls. 129)
Þessi léttúðuga nálgun Rúnars Helga á sinn þátt í að ýta lesandanum í þá átt að hugsa óhlutbundið, jafnvel heimspekilega um söguna. Skoða hana sem hugleiðingu um karlmennsku og föðurhlutverkið. Um sjálfsmynd karlmannsins í nútímaheiminum. Í heimi Eftirbáts er nokkuð ljóst að staða karlmannsins einkennist af talsverðu óöryggi sem birtist á flestum sviðum sögunnar. Jafnvel í nafninu sjálfu, því er auglýsingamaður á mölinni ekki nánast augljóslega „minni maður“, eftirbátur hetju hafsins fyrir vestan? Óöryggið verður síðan varla meira en þegar faðirinn hverfur, sem setur alla atburðarásina af stað.
Reyndar má segja að athygli höfundar og lesenda sé minnst á föðurHLUTVERKINU, sambandi föður og barna, þætti feðra í uppeldi barna sína. Hér er sjónum miklu fremur beint að þætti karla í getnaði, og hinum eilífu áhyggjum þeirra af því að vera aldrei alveg vissir um að eiga þar hlut að máli. Þegar sagan hefst hafa Ægir og Sirrý lengi reynt að eignast annað barn, og undir lokin kvikna efasemdir um að getnaður Hávars litla, hafi átt sér stað í hjónasænginni. Meginþráður bókarinnar er síðan sá möguleiki að ástarfundur Ægis og Melkorku hafi gert Ægi að eigin afa.
Margt er skilið eftir í lausu lofti í viðburðaríkri stuttri skáldsögu, bæði stórt og smátt. Það á við um faðernin, um hvernig nýaldarhugmyndir dr. Helga Pjeturs tengjast atburðunum, sem er skemmtilegur útúrdúr, lömun Skarpa og hlutur hans í tímaflakkinu (er hann mögulega valdur af því, eins og Ægir sakar hann um á einum stað?) og andlitslausu mennirnir á árabátnum sem verða tvívegis á vegi Ægis og farmur þeirra. Sú tilfinning læðist að lesandanum að Rúnar Helgi hafi færst of mikið í fang, viðað að sér of miklu efni, spunnið úr of mörgum þráðum. Á sama tíma er hinn þröngi fókus á „tæknilegri“ hliðar karlmennsku og föðurhlutverks, þátt karlmannsins í getnaði, í það minnsta óvenjulegur en líka eilítið „gamaldags“, vekur t.d. frekar upp hugrenningatengsl við kokkálsþráhyggjuna í sumum kómedíum Shakespeares en stöðu karlmannsins í flóknum og vonandi aðeins réttlátari nútímaheimi. Engu að síður er Eftirbátur forvitnileg bók með óvenjulegum efnistökum á mörkum furðusagna, fagurbókmennta, sögu og nútíma. Það er á þannig slóðum sem best fiskast.
Þorgeir Tryggvason, 2018, Bókmenntaborgin: https://bokmenntaborgin.is/umfjollun/eftirbatur
ER EFTIRBÁTUR SÖGULEG SKÁLDSAGA?
„Magnað hvernig maður gengur sisvona inn í söguleg hlutverk,“ segir sögumaðurinn Ægir í Eftirbát, nýrri skáldsögu Rúnars Helga Vignissonar sem er nýkomin út hjá Dimmu. Tilefni þessara orða er lýsing sögumannsins á þeirri miklu hrakningaför sem Sumarliði landpóstur Brandsson hélt í árið 1920 yfir Snæfjallaheiðina við Ísafjarðardjúp. Í verunni varð Jón Kristjánsson samferða Sumarliða í þessari ferð en í skáldsögu Rúnars Helga hefur Ægir, sem starfar á auglýsingastofu í samtímanum, ferðast (eða öllu heldur siglt) aftur í tímann á einhver illskiljanlegan hátt og gengið inn í hlutverk samferðamannsins. Ekki er nóg með að hann hafi nútímalegri sýn á ferðalagið en Jón miðlar í sinni frásögn af viðburðum (sem birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga 2001 og svo aftur í Morgunblaðinu árið 2010) heldur veit Ægir fyrirfram um þau örlög sem bíða Sumarliða pósts á heiðinni:
„Ég reyni að fá Sumarliða ofan af því að leggja á Snæfjallaheiðina í þessu veðri, veit að það á eftir að versna þó að ég kunni ekki mikið að skyggnast til veðurs að hætti fornmanna. Sumarliði þumbast auðvitað við. Gömlu hjónin, sem geymdu hestinn, reyna líka að fá Sumarliða ofan af því að fara og bjóða okkur gistingu. Það er ekki við það komandi, rétt eins og funheit meyjarlæri bíði Sumarliða hinum megin við heiðina. …Við erum vart lagðir af stað þegar gengur yfir kafaldsél með skafrenningi svo vart sér út úr augum.“
Slysin við Bjarnarnúp eru einn af mörgum þekktum viðburðum úr sögu Vestfjarða sem Rúnar Helgi fléttar með þessum óvenjulega hætti inn í skáldsögu sína. Þeir eru jafnan séðir með augum hins nútímalega sögumanns og bera af þeim ástæðum jafnríkan vott um bjagað skynbragð hans á fortíðina og það sem hugsanlega átti sér stað, endur fyrir löngu. Frásögnin er óvenjulegt afbrigði hinnar sögulegu íslensku skáldsögu sem hefur verið í örri og spennandi þróun á síðustu árum og áratugum.
Sögulegar skáldsögur hafa átt ríkan sess í íslenskri skáldsagnagerð nútímans, allt frá því að Torfhildur Hólm reið þar á vaðið með verkum á borð við Brynjólf Sveinsson biskup (1882), Eldingu (1889) og framhaldssögum sínum um Jón biskup Arason og Jón biskup Vídalín. Hið klassíska form þessarar vinsælu bókmenntagreinar (með alvitrum 3. persónu sögumanni) mótast í meðförum Gunnars Gunnarssonar, Halldórs Laxness og Björns Th. Björnsson en á seinni árum hafa margir íslenskir höfundar endurskapað það með athyglisverðum 1. persónu sögumönnum sem flytja lesendum vitnisburð úr fortíðinni, ýmist á tungutaki sem er sláandi nútímalegt eða skemmtilegur sambræðingur eldri og yngri ritstíla. Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, Einar Kárason, Sjón, Ófeigur Sigurðsson og Sölvi Björn Sigurðsson eru í hópi þeirra mörgu höfunda sem skilað hafa af sér verkum í þessum anda en segja má að Hermann Stefánsson hafi snúið enn frekar upp á hefðina með skáldsögu sinni Bjargræði (2016) þar sem hin flugmælska Látra-Björg lætur dæluna ganga á kaffihúsi í Reykjavík samtímans.
Rúnar Helgi fer hins vegar þveröfuga leið; hann sendir sögumann sinn í ferðalag aftur í tímann, ekki bara til eins tiltekins staðar og árs heldur á marga og ólíka áfangastaði vestfirskrar fortíðar. Sumir þeirra, þar á meðal Bjarnarnúpur anno 1920, eru þekktir – þess má geta að Jón Kalman Stefánsson sækir einnig innblástur í ferð Sumarliða pósts í skáldsögu sinni Harmur englanna, eins og Rúnar Helgi hefur sjálfur bent á. En aðra er erfiðara að kortleggja og tímasetja enda virðast þeir fremur tilheyra persónulegri fortíð höfundarins en þjóðarinnar. Ekkert er fjær þessum sögumanni en að rómantísera viðfangsefnið; frásögnin einkennist á köflum af nístandi (sjálfs)íróníu og jafnvel galgopaskap, sem er um leið fullur af alvöru. Og því verður hún furðu snúin, þessi annars einfalda spurning: Er Eftirbátur söguleg skáldsaga?
Bókaskápur Ástu S.: https://bokaskapurastus.wordpress.com/2018/10/02/er-eftirbatur-soguleg-skaldsaga/
Ísfirski rithöfundurinn Rúnar Helgi Vignisson gaf út sína fyrstu skáldsögu, Ekkert slor, árið 1984 en auk skáldsagna hefur hann sent frá sér smásögur og þýtt fjölda erlendra bókmenntaverka, meðal annars verk eftir bandaríska, ástralska og suður-afríska höfunda. Í kynningartexta um Eftirbát segir, „Ægir leitar að sjómanninum föður sínum eftir að bátur hans finnst mannlaus út af Vestfjörðum. Leitarleiðangrar Ægis vekja spurningar um faðernið sjálft, hver er hinn raunverulegi faðir og hvað mótaði hann? Er nauðsynlegt að þekkja söguna til að vita hver maður er?“
Þau Kolbrún Bergþórsdóttir og Sigurður Valgeirsson voru ánægð með vissa hluta bókarinnar en vildu meina að sumt hefði mátt fara betur eða kafa hefði mátt dýpra í aðra þætti sögunnar. „Ég var í smá vanda með þessa bók, ég átti ekki nógu auðvelt með að tengja við þennan mann og ef ég hefði verið að fara að hitta móður mína og faðir minn væri týndur, þá hefði ég farið og hugað að henni, jafnvel fjölskyldunni og syni mínum. Hann fer hins vegar beint út á sjó,“ segir Sigurður Valgeirsson og segir að mögulega hafi Rúnari Helga færst of mikið í fang og ekki náð til lands í sögunni.
Bókin fjallar að miklu leyti um faðernið í mjög breiðum og víðum skilningi og í leit sögupersónunnar fer hann um víðar lendur í tímaflakki. Þau Kolbrún og Sigurður voru sammála um það flakk væri vel heppnað. „Ég hafði gaman að þessu tímaflakki, það sem tekst með því er skemmtilegur tónn. Kæruleysislegur á köflum. Þannig að ég keypti það alveg að hann væri kominn þarna aftur í tímann, að hitta ömmu sína meðal annars,“ segir Kolbrún.
Kolbrún segir jafnframt að hún hafi saknað harmrænunnar og hefði viljað sterkari tengingu við þá sögulegu atburði sem koma fram í bókinni. „Ég fann aldrei fyrir harmrænunni. Mér fannst frekar gaman að lesa bókina vegna ákveðins léttleika í stílnum. Það hefði mátt vinna aðeins betur í einstaka þáttum en það breytir samt ekki því að mér fannst þetta nokkuð skemmtilegt. Það hefði þó mátt kafa dýpra en mér fannst þessar ferðir til fortíðar bestu hlutar bókarinnar.“
RÚV: http://www.ruv.is/frett/vel-heppnad-timaflakk-en-hefdi-matt-kafa-dypra
EFTIRBÁTUR: RÚNAR HELGI VIGNISSON
Þetta er ekki bók fyrir mig, hugsaði ég eftir að hafa hlustað á kynningu á bókinni. Bók um sjómennsku og karlmaður að leita að sjálfum sér. Og ég rýndi í daufgráa kápumyndina. Er þetta ekki örugglega mynd af sæðisfrumu þarna fyrir miðri mynd?
Söguþráður
Ungur maður, sem er búinn að koma sér vel fyrir í lífinu, fær upphringingu um nótt. Móðir hans segir honum að föður hans sé saknað, bátur hans hafi fundist mannlaus. Ungi maðurinn ákveður strax að fara vestur til Ísafjarðar og leita að föður sínum. Hann fer í róðra með samstarsfmanni hans og þeir fara á þær slóðir sem hann var vanur að stunda veiðarnar.
En auðvitað er þetta engin venjuleg leit. Hann leitar hans í sjálfum sér, eiginlega hafði hann ekki þekkt hann. Hann villist inn í horfna veröld. Veröld liðins tíma.
Tímaflakk
Ég var örlitla stund að fatta að þetta var tímaflakk en eftir að mér var það ljóst gekk allt betur. Ég hef nefnilega gaman af tímaflakki, þótt það sé pirrandi að það gengur aldrei röklega upp, þá er gaman að hugsa en hvað er ef þetta eða hitt hefði gerst.
Höfundur hefði ekki getað valið betri stað fyrir flakk en Hornstrandir og Jökulfirði fyrir mig. Ég hef ekki tölu á ferðunum sem ég hef gengið og leiðunum sem ég hef þrætt. Alltaf með hugann fullan af sögum og sögnum af lífi fólksins sem bjó þarna forðum. Ég þekki t.d. vel Jónmund prest á Stað í Grunnavík og gremst hversu illa er um hann talað. Tek afstöðu með presti,og hugsa um tóftina af steinhúsinu, líklega fyrsta fjölbýlishúsinu á landinu, sem hann lét byggja fyrir sveitunga sína.Ég gleymi mér í tímaflakkinu og gleymi sögunni. Getur ungi maðurinn sem er að leita föður síns fiktað í ættartölu sinni og orðið afi sjálfs sín? Nei,tímaflakksævintýri ganga aldrei upp.
Og í þetta skipti eru þau órafjarlægð frá því sem hinn leitandi maður ætti að vera á útkikk eftir. Hvað er að gerast hjá hans litlu fjölskyldu? Strax í upphafi bókarinnar er tónn sleginn sem boðar að það sé eitthvað sem hafi týnst í sambandi hans og konu hans.
Ég er ekki viss um að mér finnist þetta fullkomlega heppnuð bók en ég hafði ánægju af því að lesa hana og hún rifjaði upp fyrir mér smásögu sem ég las eftir Rúnar Helga fyrir mörgum árum, SAMFERÐA, úr bókinni Ást í meinum sem kom út 2012. Í þeirri sögu er líka lýst löskuðu sambandi. Frábær saga. En kannski er ég ekki fyllilega dómbær því merkilegt nokk, vísar þessi saga einnig til Hornstranda og gönguslóða sem mér eru kærar.
Nú sit ég hér og læt mig dreyma um enn eina gönguferð á Hornströndum. Er meira að segja búin að ræða um það við manninn.
Bókablogg Bergþóru Gísladóttur: https://bergthoraga.blog.is/blog/bergthoraga/entry/2226604/