Ófeigur ræðir um Öræfi

OfeigurSugursdsson2014JPV_litÓfeigur Sigurðsson ræðir um hina umtöluðu bók sína, Öræfi, sem hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir árið 2014, í fyrirlestraröðinni „Hvernig verður bók til?“ 19. mars.

Ófeigur er með yngri verðlaunahöfum, fæddur 1975. Fyrsta bók hans, Skál fyrir skammdeginu, kom út árið 2001. Áður en skáldsagan Öræfi kom út hafði hann vakið einna mesta athygli fyrir bókina Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma. Fyrir hana hreppti Ófeigur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins.

Fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? hefur verið haldið úti af námsbraut í ritlist og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands frá 2009. Þar hafa margir af virtustu höfundum þjóðarinnar rætt um ritverk sín. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, milli 12 og 13 fimmtudaginn 19. mars.

Aðgangur ókeypis. Allir velkomnir.

Lóa Hlín tilnefnd til Menningarverðlauna DV

Loa-Hlin-HjalmtysdottirLóa Hlín Hjálmtýsdóttir, meistaranemi í ritlist, er tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir bók sína Lóaboratoríum. Í umsögn dómnefndar segir:

„Eins og svo margar verulega góðar myndir segja teikningar Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur stóra sögu. Í einu vetfangi, einni setningu, einni mynd nær hún að fanga tíðaranda, samfélag og manneskjur – breyskar og grátbroslegar í öllu sínu veldi. Lóaboratoríum hreinsar hismið frá kjarnanum og afhjúpar okkur öll – hún er dásamlega fyndin og óþægilega sönn en merkilega laus við mannfyrirlitningu.“

Áður hefur Lóa Hlín hlotið tilnefningu til Fjöruverðlaunanna fyrir þessa frábæru bók. Ég óska henni til hamingju enn og aftur með verðskuldaða viðurkenningu.

Blaðamenn með ritlistargráðu verðlaunaðir

Bladamannaverdlaun 2014

Jón Bjarki er þriðji frá vinstri, Ólöf önnur frá hægri. Myndin er af vef Vísis.

Blaðamannverðlaun ársins voru afhent í Gerðarsafni á dögunum. Þá bar það til tíðinda að tveir blaðamenn með BA-gráðu í ritlist voru verðlaunaðir. Annars vegar Jón Bjarki Magnússon sem var útnefndur blaðamaður ársins ásamt félaga sínum Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir umfjöllun sína um lekamálið í DV. Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Þrátt fyrir harða gagnrýni og ótal tilraunir til þöggunar stóðu blaðamennirnir í ístaðinu. Þolgæði þeirra varð til þess að ljósi var varpað á það sem raunverulega gerðist á bakvið tjöldin. Það minnir á mikilvægi gagnrýninnar blaðamennsku og að trúnaður blaðamanna sé fyrst og síðast við almenning í landinu og engan annan.“

Jón Bjarki skrifaði BA-verkefni undir handleiðslu Sigurðar Pálssonar, ljóðahandrit sem bar heitið Bútasaumsteppi. Bók byggð á verkefninu kom út hjá Útúrdúr árið 2011 undir heitinu Lömbin í Kambódíu (og þú). Fyrir hana fékk Jón Bjarki Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs 2010.

Hinn blaðamaðurinn sem um ræðir er Ólöf Skaftadóttir en hún hlaut verðlaun fyrir besta viðtalið árið 2014. Það var viðtal við tvíburabræðurna Kára og Halldór Auðar- og Svanssyni um baráttu þeirra við geðræna sjúkdóma. Ólöf útskrifaðist með BA í ritlist árið 2013. Lokaverkefni hennar hét Þvinguð þögn og þar lagði hún drög að fimm sjónvarpsþáttum undir handleiðslu Silju Hauksdóttur. Í umsögn dómnefndar um verðlaunaviðtalið segir m.a.: „Viðtalið er einstaklega hispurslaust um baráttu þeirra bræðra við geðræna sjúkdóma. Þrátt fyrir erfitt umfjöllunarefni nær Ólöf að viðhalda léttleika í gegnum viðtalið en gefur samt ekkert eftir í raunsönnum lýsingum.“ Smellið á hlekkinn hér fyrir ofan til að lesa viðtalið.

Ég óska þeim Jóni Bjarka og Ólöfu til hamingju með verðlaunin en ekki síst með að vera svo skapandi manneskjur.

Þóra Karítas og Jóhanna Friðrika útskrifast með MA-próf

Jóhanna Fridrika

Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir

Laugardaginn 21. febrúar útskrifuðust tveir ritlistarnemar með MA-próf í ritlist við hátíðlega athöfn í Háskólabíói. Það eru þær Þóra Karítas Árnadóttir og Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir.

Lokaverkefni þeirra beggja var í formi sannsögu, þ.e. sannsögulegrar frásagnar þar sem aðferðum skáldskaparins var beitt til að miðla efninu. Þóra Karítas skrifaði undir handleiðslu Vigdísar Grímsdóttur rithöfundar og Jóhanna Friðrika undir handleiðslu Auðar Jónsdóttur rithöfundar. Þær birtu jafnframt frumsamið efni á námstímanum, m.a. í Jólabókum Blekfjelagsins og í bókinni Flæðarmál sem ritlistarnemar unnu í samvinnu við nema í hagnýtri útgáfu og ritstjórn og kom út í fyrra. Þess má geta að þær stöllur eru líka báðar leikkonur að mennt.

Þóra Karítas Árnadóttir

Þóra Karítas Árnadóttir

Um leið og ég óska Jóhönnu Friðriku og Þóru Karítas til hamingju með þennan áfanga þakka ég þeim góða viðkynningu. Þeim er jafnframt árnað heilla á skáldabrautinni. Ef ég þekki þær rétt er ekki ólíklegt að við eigum eftir að sjá meira af frumsömdu efni í einhverju formi frá þeim í framtíðinni.

Þrenna hjá Bryndísi

bryndis_bjorgvinsdottir707266111Bryndís Björgvinsdóttir hefur nú afrekað það að fá þrenn verðlaun fyrir bókina Hafnfirðingarbrandarinn sem er að stofni til meistaraverkefni hennar í ritlist. Fyrst Bóksalaverðlaunin, þá Fjöruverðlaunin og loks Íslensku bókmenntaverðlaunin. Þetta er mikið afrek, ekki síst í ljósi þess að Bryndís er bara rétt rúmlega þrítug.

Ritlistarnemar hafa nú unnið til eða fengið tilnefningu til fjölmargra verðlauna. Þar má nefna, fyrir utan ofangreind verðlaun, Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og Íslensku barnabókaverðlaunin.

Til hamingju, Bryndís!

Sigurður fyrstur til að gegna starfi Jónasar Hallgrímssonar

SP-Jonasarstada 17.2.2015

Sveinn Yngvi Egilsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, Sigurður Pálsson, undirritaður og Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, við athöfn þar sem tilkynnt var um hið nýja starf.

Hugvísindasvið Háskóla Íslands hefur stofnað til starfs sem kennt er við Jónas Hallgrímsson, eitt ástsælasta ljóðskáld Íslendinga fyrr og síðar. Starfið er ætlað rithöfundum sem taka að sér að vinna með nemum í ritlist eitt eða tvö misseri í senn. Tilgangurinn með stöðunni er að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar og að efla ritlistarnám við Háskóla Íslands.

Fyrstur til að gegna starfi Jónasar Hallgrímssonar verður Sigurður Pálsson rithöfundur og þýðandi.

Sigurður er fæddur á Skinnastað í N-Þingeyjarsýslu árið 1948. Að loknu stúdentsprófi frá MR stundaði hann nám við Sorbonne-háskóla í leikhúsfræðum, bókmenntum og kvikmyndum og lauk þaðan meistaranámi og síðan DEA-gráðu í leikhúsfræðum.

Sigurður hefur verið mikilvirkur rithöfundur um langt skeið. Hann hefur m.a. sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur, endurminningabækur, leikrit og þýðingar. Ljóð námu völd var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993 og fyrir Minnisbók hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2007. Þá hlaut hann Grímuverðlaunin árið 2008 fyrir leikritið Utan gátta. Frakkar hafa heiðrað hann fyrir þýðingar sínar og Reykvíkingar hafa gert hann að borgarlistamanni. Nýjasta bók Sigurðar er Táningabók, þriðja bindið í endurminningabálki hans. Þýðingar á ljóðum hans hafa birst á rúmlega tuttugu tungumálum. Ljóðasöfn með úrvali ljóða hans hafa komið út á frönsku, ítölsku, ensku, spænsku, arabísku, búlgörsku, bengölsku og hindí.

Sigurður hefur um árabil komið að kennslu í ritlist við Háskóla Íslands, einkum ljóðagerð. Hann hefur verið vinsæll og virtur kennari sem er vel að því kominn að gegna þessu nýja starfi fyrstur manna.

Fyrsta verkið selt til útlanda

Screen Shot 2015-02-06 at 08.48.31Höfundur með meistaragráðu í ritlist frá HÍ hefur nú í fyrsta skipti selt bók til útlanda. Sagt var frá því á dögunum að franska forlagið Zulma, sem m.a. hefur gefið út verk Auðar Ólafsdóttur, hygðist gefa út frumraun Soffíu BjarnadótturSegulskekkju. Bókin kom út hjá Máli og menningu síðastliðið haust og fékk afar lofsamlega dóma; var þess t.a.m. gjarnan getið hve vel stíluð bókin væri. Hún var að hluta til unnin í meistaranámi Soffíu.

Segulskekkja fjallar um konu sem fær óvænt símtal er sendir hana í ferðalag frá Karijoki til Flateyjar um miðjan vetur til að mæta í jarðarför. Í vetrareyjunni rekur sálma, drauma og minningar á land sem þvinga hana til að rýna í sitt eigið sár og horfast um leið í augu við hina goðsagnakenndu Siggý – móðurina sem rís reglulega úr ösku með sólina í höfðinu, eins og segir í kynningartexta Máls og menningar.

Auk þess að hafa MA-gráðu í ritlist er Soffía menntuð í bókmenntafræðum og leikhúsfræðum. Hún hefur m.a. starfað við skriftir, háskólakennslu og bókmenntarýni. Soffíu er óskað til hamingju með þennan áfanga.

Kanadískt lárviðarskáld heimsótti okkur

mary-pinkoskiMary Pinkoski, borgarlistamaður Edmonton í Kanada, heimsótti okkur í dag. Mary er ungt ljóðskáld sem sérhæfir sig í að flytja ljóðin sín blaðalaust. Hún skrifar þau að vísu á blað fyrst en miðar ljóðagerðina við að flytja ljóðin í eigin persónu. Þá þarf að hafa í huga að þau séu ekki of flókin til að áheyrendur geti numið þau við einn flutning.

Mary flutti okkar þrjú ljóða sinna í heimsókninni og má segja að hún hafi flutt þau með öllum líkamanum, beitti hrynjandi, svipbrigðum og handapati til þess að miðla ljóðunum. Í kjölfarið gaf hún ritlistarnemum góð ráð varðandi flutning á ljóðum.

Mary er á Íslandi í tengslum við Vetrarhátíð og kom til okkar í boði Reykjavíkur Bókmenntaborgar.

Ritlistarárið 2014

Ritlistarnemar héldu sig vel að verki þetta árið, skrifuðu verk af ýmsu tagi og tóku þátt í mörgum viðburðum. Aðsókn að meistaranáminu er enn jöfn og góð. Í haust voru teknir inn átján nýnemar en því miður urðu fleiri að ganga bónleiðir til búðar. Eru þau hvött til að bæta umsóknir sínar og reyna aftur.

soffiabjarnadottir

Soffía Bjarnadóttir

Í febrúar útskrifuðust sex ritlistarnemar með meistarapróf og í júní bættust níu við. Hafa þá alls tuttugu lokið MA-prófi í ritlist frá því nám hófst á meistarastigi haustið 2011.

Í upphafi árs kom í ljós að þrír ritlistarnemar höfðu hlotið úthlutun úr Launasjóði rithöfunda, þær Bryndís Björgvinsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Soffía Bjarnadóttir. Tvær þeirra gáfu út bækur á árinu eins og nánar verður vikið að síðar.

Þrír nýlega útskrifaðir ritlistarnemar fengu Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta, Atli Sigþórsson fyrir Stálskip, Guðrún Inga Ragnarsdóttir fyrir Plan B og Sverrir Norland fyrir Kvíðasnillingana.

Alzheimertilbrigdin

Hjörtur hreppti Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Bækur streymdu frá ritlistarnemum, fyrrverandi og núverandi, sem aldrei fyrr og eru nú komnar á fimmta tug frá því ritlist varð að fullgildri námsgrein árið 2008. Björk Þorgrímsdóttir gaf út ljóðabókina Neindarkennd hjá Meðgönguljóðum, Atli Sigþórsson gaf út Stálskip hjá Tunglinu forlagi, Kristian Guttesen gaf út ljóðabókina Í landi hinna ófleygu fugla, Hrafnhildur Þórhallsdóttir gaf út ljóðsöguna Saltvatnaskil hjá Nikkunni, Sæmundur gaf út nóvelluna Leið eftir Heiðrúnu Ólafsdóttur, JPV gaf út skáldsöguna Kvíðasnillingana eftir Sverri Norland, Mál og menning gaf út skáldsöguna Segulskekkju eftir Soffíu Bjarnadóttur, Tunglið forlag gaf út ljóðabókina Alzheimertilbrigðin eftir Hjört Marteinsson, Vaka-Helgafell sendi frá sér ungmennasöguna Hafnfirðingabrandarann eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, Meðgönguljóð sendu frá sér ljóðabókina Sjósuðu eftir Bergþóru Einarsdóttur, Ókeibæ gaf út Lóaboratoríum eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur, Andlag gaf út Hrímland eftir Alexander Dan Vilhjálmsson og síðast en ekki síst komu út tvö safnrit ritlistarnema, bókin Flæðarmál leit dagsins ljós í maí sem afrakstur af smiðjunni Á þrykk og í byrjun desember kom Jólabók Blekfjelagsins með 98 orða örsögum sem höfundarnir lásu jafnframt í Víðsjá. Þá var útvarpsleikritið Rökrásin eftir Ingibjörgu Magnadóttur frumflutt á Rás 1 á árinu. Þar að auki birtist efni eftir ritlistarnema í ýmsum tímaritum, m.a. í sérstöku grasrótarhefti Tímarits Máls og menningar.

Ritlistarnemar tóku þátt í mörgum upplestrum og héldu mörg útgáfuhóf. Einþáttungar eftir þau voru leiklesnir bæði í Þjóðleikhúsinu og Iðnó á haustmisseri. Þá tóku þau þátt í að skrifa texta á skáldabekki í garði í Englandi og var það samstarfsverkefni við þarlendan skóla.

Loa-Hlin-Hjalmtysdottir

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir

Nokkrar viðurkenningar komu í hús á árinu. Hjörtur Marteinsson, sem hóf ritlistarnám í haust, hreppti Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Alzheimertilbrigðin, Bryndís Björgvinsdóttir var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna fyrir Hafnfirðingabrandarann og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í flokki fagurbókmennta fyrir Lóaboratoríum sem er teiknimyndabók. Ritlistarnemar urðu einnig hlutskarpir í bókmenntasamkeppnum á vegum Stúdentablaðsins.

Í september stóð ritlistin ásamt öðrum að ráðstefnunni Art in Translation, alþjóðlegri ráðstefnu þar sem listir og fræði mætast. Á hana kom m.a. hin heimskunna skáldkona Amy Tan og var húsfyllir á hennar opinskáa erindi í Hörpu.

Við héldum áfram með fyrirlestraröðina „Hvernig verður bók til?“ Þrír höfundar héldu þar opna fyrirlestra um verk eftir sig, þau Andri Snær Magnason, Þórarinn Eldjárn og Auður Jónsdóttir. Voru fyrirlestrar þeirra vel sóttir og vöktu mikla lukku. Segja má að þessi fyrirlestraröð sé orðin að föstum lið í bókmenntalífinu.

Ég þakka ritlistarnemum öllum fyrir samstarfið á árinu og óska þeim góðs gengis við að auðga íslenskar bókmenntir enn frekar í framtíðinni.

Lóa Hlín og Bryndís tilnefndar til Fjöruverðlaunanna

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Bryndís Björgvinsdóttir, sem báðar stunda nú meistaranám í ritlist, hafa verið tilnefndar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna.

Lóa Hlín er tilnefnd í flokki fagurbókmennta fyrir bókina Lóaboratoríum. Í umsögn dómnefndar um bókina segir:

loaboratoriumbok-175x184„Rannsókn Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur  á þjóðarsálinni hefur heppnast sérstaklega vel í bók hennar, Lóaboratoríum. Teikningarnar í bókinni hafa sterk höfundareinkenni og textinn er meinhæðinn og beittur og vísar beint í nútímann.

Lóa reynir ekki að fegra veruleikann og gerir óspart grín að hversdagsleika íslenskra kvenna. Lóa snertir sammannlegan streng með teikningum af ófrýnilegu, illa tenntu fólki og nöktum skrokkum sem við þekkjum vel og þykir vænt um. Henni tekst einkar vel að fanga tíðarandann og erkitýpur úr daglega lífinu sem flestir kannast við einsog: alkann, hollustu-fasistann, ástarsjúklinginn, afskiptasömu frænkuna og bjartsýna Eurovisionaðdándann.

Það er einkennileg fegurð í ljótleikanum því myndirnar eru bæði fallegar og gróteskar í senn og svo sannar að það er stundum óþægilegt að spegla sig í þeim.  Lóa sýnir okkur í þessu verki að hún er ótrúlega nösk að greina íslenska þjóðarsál í sinni rannsóknarstofu.“

Bryndís er tilnefnd í flokki barna- og unglingabóka fyrir Hafnfirðingabrandarann og um hana segir dómnefndin:

Hafnfirdingabrandarinn-175x275„Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur er vel skrifuð og skemmtileg. Hún kemur inn á samskipti kynslóða og dregur upp óvenju margbrotnar og flóknar sögupersónur af eldri kynslóðinni, sem flóknu og skemmtilegu fólki sem væri gaman að kynnast. Heimur eldri borgara er gerður merkingarbær og spennandi fyrir ungt fólk og veitt er ný og óvenjuleg innsýn í líf þeirra, sem aðalsöguhetjan Klara getur notað til að máta sig og sín lífsgildi við. Höfundur lýsir hreyfingum á skemmtilegan hátt og oft minna karakterarnir á teiknimyndapersónur. Þessi bók snertir á viðkvæmum málefnum eins og einelti, kvíðaröskun unglinga, ástina og ástarsorgina og fjallar um þessi mál á rausæislegan hátt, án þessa að bjóða upp á einfaldar lausnir. Átakafletir sögunnar eru ekki settir upp eins og vandamál sem þurfi að sigrast á heldur áskoranir til að lifa með. Engin stendur uppi sem sigurvegari. Sagan fjallar í raun fyrst og síðast um það að taka ábyrgð á eigin lífi og sínum nánustu og horfast í augu við sjálfan sig.“

Þess má geta að fyrir nokkrum dögum var Bryndís jafnframt tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir sömu bók. Þeim stöllum er óskað til hamingju með þennan heiður.