Færslan er enn í vinnslu og verður uppfærð eftir þörfum
Inngangur
Það var ekki fyrr en á nítjándu öld, sem hinar ýmsu verkfræði- og raunvísindagreinar urðu almennt að sjálfstæðum námsgreinum við helstu háskóla í Evrópu og Ameríku. Breytingin olli því meðal annars, að menn gátu nú loksins útskrifast með háskólagráðu á sviðum eins og verkfræði, stærðfræði, stjörnufræði, eðlisfræði, efnafræði og náttúrufræði.
Í Danmörku var þetta nýja fyrirkomulag fyrst innleitt með tilkomu Fjöllistaskólans (Den Polytekniske Læreanstalt) árið 1829 og síðan með stofnun Stærðfræði- og náttúruvísindasviðs (Det Matematisk-naturvidenskabelige Fakultet) við Háskólann í Kaupmannahöfn árið 1850. Kennsla þessara tveggja skóla í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði var að mestu sameiginleg, að minnsta kosti til ársins 1921, þegar Niels Bohr stofnunin tók til starfa. Stjörnufræðikennslan fór hins vegar fram að hluta við Stjörnuturn skólans (Astronomisk Observatorium), eins og tíðkast hafði allt frá 1642.
Háskólinn í Kaupmannahöfn er hér nefndur sérstaklega, þar sem hann var í raun þjóðarháskóli Íslendinga allt frá siðaskiptum til ársins 1911, þegar Háskóli Íslands var stofnaður. Dönsk áhrif héldu þó áfram að vera sterk hér á landi, vel fram yfir seinni heimstyrjöldina, ekki síst á sviðum eins og verkfræði og raunvísindum. Vegna styrjaldarinnar neyddust Íslendingar til að hefja verkfræðikennslu að danskri fyrirmynd hér heima árið 1940, en BA-nám í raungreinum hófst ekki fyrr en um 1950 og þá í Heimspekideild. BS-nám í raunvísindum, að bandarískum og enskum sið, var svo sett á laggirnar við Verkfræði- og raunvísindadeild í kringum 1970.
Að mati færsluhöfundar má greinilega má sjá þrjú meginskeið í sögu raunvísinda hér á landi:
Fyrsta skeiðið nær frá siðaskiptum til miðrar nítjándu aldar. Á því tímabili lögðu ýmsir hæfileikaríkir Íslendingar, einkum Hafnarstúdentar, sig sérstaklega eftir stærðfræðilegum lærdómslistum (m.a. stærðfræði, stjörnufræði, ljósfræði, aflfræði) og/eða náttúruspeki (þ.e. kenningum um gerð heimsins, eiginleika efna og efnasambanda og eðli og hegðun náttúrulegra hluta og fyrirbæra, jafnt á himni sem á jörðu). Oftast virðist þetta hafa stafað af hreinni fróðleiksfýsn, því flestir þessara námsmanna (þó ekki allir) lögðu fyrst og fremst stund á aðrar vænlegri greinar (til dæmis guðfræði, lögfræði og læknisfræði) sem gáfu umtalsverða von um starf að námi loknu.
Næsta skeið nær frá seinni hluta nítjándu aldar og fram yfir miðja tuttugustu öld, eða til upphafs geimaldar. Hér verður miðað við tímabilið 1850-1960. Á þessum árum gátu menn útskrifast frá háskólum með prófgráður í hinum ýmsu náttúruvísindum og verkfræði, sem olli því að nokkrir Íslendingar tóku að sækja sérstaklega í slíkt nám í Kaupmannahöfn, fyrst í náttúrufræði og verkfræði, en nokkru síðar í eðlisfræði, stærðfræði og stjörnufræði. Ýmsar ástæður ollu því þó, að Ísendingar náðu ekki að ljúka lokaprófi í þessum greinum fyrr en á tíunda áratugnum. Þegar fram liðu stundir átti stofnun stærðfræðideildar við Reykjavíkurskóla, árið 1919, svo eftir að hafa mikil áhrif í þessum efnum.
Eftir seinni heimsstyrjöldina ollu margvíslegar hræringar á álþjóðavettvangi og aukinn bjartsýni og trú á vísindi og framfarir því meðal annars, að víða erlendis var auðveldara en áður að fá fjármagn til vísindarannsókna og kennslu framhaldsnema. Á Íslandi voru þó allir innviðir á sviði raunvísinda vanþróaðir og langt á eftir því, sem tíðkaðist í nágrannalöndum. Fyrir tilstilli framsýnna einstaklinga tók þó smám saman að örla á breytingum til hins betra. Þar komu ýmsir við sögu, þar á meðal Þorbjörn Sigurgeirsson, sem varð prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands árið 1957 og setti fljótlega á fót Eðlisfræðistofnun Háskólans. Þótt aðstaða til rannsókna væri mjög takmörkuð í fyrstu, varð þessi starfsemi ein af helstu ástæðum þess, að Raunvísindastofnun Háskólans var sett á laggirnar með góðri hjálp Bandaríkjamanna árið 1966. Þróunin hér heima, í bland við sívaxandi iðkun raunvísinda á alþjóðavettvangi, varð svo meðal annars til þess, að á sjöunda áratugnum tóku mun fleiri íslenskir námsmenn en áður að leggja fyrir sig háskólanám í raunvísindum.
Þriðja og síðasta skeiðið, „nútíminn“, hefst um og uppúr 1960. Því verða ekki gerð skil hér með nafnaskrá, og slíkt verk er ekki heldur á dagskrá hjá færsluhöfundi á næstunni - til þess er viðfangsefnið allt of flókið og viðamikið. Í eftirmála er hins vegar stuttlega minnst á nokkur almenn atriði varðandi nútíma raunvísindi á Íslandi og nefndar gagnlegar heimildir, sem gætu nýst við frekari rannsóknir á sögu þeirra.
Hvað varðar nafnaskrárnar fyrir tvö fyrstu skeiðin eru, auk ávaxtanna af eigin sögugrúski (sjá einnig hér), helstu heimildir mínar þessar:
- Þorvaldur Thoroddsen, 1892 -1904: Landsfræðissaga Íslands: Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun þess og rannsóknir, fyrr og siðar I, II, III og IV. Önnur útgáfa ásamt lykilbók kom út, fallega myndskreytt, hjá forlaginu Ormstungu á árunum 2003-2009.
- Páll Eggert Ólason, 1948-52 og Jón Guðnason, 1976: Íslenzkar æviskrár I-VI.
- Ólafur Þ. Kristjánsson og Sigrún Harðardóttir ritstj., 1985-88: Kennaratal á Íslandi I-V.
- Jón E. Vestdal, 1981: Verkfræðingatal.
- Lárus H. Blöndal og Vilmundur Jónsson, 1970: Læknar á Íslandi. Með fróðlegum sögulegum inngangi.
- Heimir Þorleifsson, ritstj., 1975: Saga Reykjavíkurskóla I, bls. 208-220 (eðlisfræði og efnafræði), 220-232 (stærðfræði) og 233-236 (stjörnufræði).
- Timarit.is
- Vísindavefurinn
- Wikipedia
- Google
Í nafnaskránni er notuð aldursröð, frekar en stafrófsröð, þar sem aldursröðin bregður skýrara ljósi á sögulega þróun viðkomandi greina. Lögð er áhersla á að nefna menntun einstaklinga, en jafnframt er vísað í frekari heimildir, þar á meðal æviskrár, um nánari smáatriði. Áhugasamir geta notað þessar tilvísanir til að rekja sig áfram.
Skráin er væntanlega ekki tæmandi og hún er enn í vinnslu. Ég bið menn því um að hnippa í mig, ef ég hef gleymt einhverjum, sem hlutu æðri háskólagráður (cand. mag., dr. phil., eða aðrar jafngildar) á sviðum stærðfræði, eðlisfræði og stjörnufræði á árunum 1850 til 1960. Rétt er að taka fram, að hér eru tryggingastærðfræðingar ekki hafðir með, því ég þekki lítið sem ekkert til þess hóps. Hins vegar eru ýmsir af öðrum sviðum en stærðfræði, eðlisfræði og stjörnufræði í skránni, þar sem þeir lögðu talsvert af mörkum til þessara þriggja greina, til dæmis með kennslu, alþýðufræðslu eða rannsóknum.
Nafnaskrá
1. Tímabilið frá miðöldum til 1850
Víkingaöld
Þorsteinn surtur Hallsteinsson bóndi (uppi um miðja 10. öld)
Kaþólskar miðaldir
Sæmundur fróði Sigfússon prestur (d. 1133)
Stjörnu-Oddi Helgason vinnumaður (uppi um 1100)
- Setti fram reglur um tímasetningu sólhvarfa og vikulega breytingu á sólarhæð. Miðaði átt dögunar og dagseturs.
- Íslenzkar æviskrár: Oddi Helgason.
- Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson, 2011: Stjörnu-Oddi.
- Einar H. Guðmundsson, 2018: Stjörnu-Oddi Helgason, heimildaskrá.
Bjarni prestur Bergþórsson hinn tölvísi (d. 1173)
Styrmir fróði Kárason prestur, lögsögumaður og príor (d. 1245)
Siðskipta- og lærdómsöld (1550 - 1750)
Guðbrandur Þorláksson biskup (1542-1627)
Oddur Einarsson biskup (1559-1630)
Brynjólfur Sveinsson biskup (1601-1675)
Runólfur Jónsson skólameistari (um 1619 - 1654)
Páll Björnsson prófastur (1620-1706)
Vísi-Gísli Magnússon sýslumaður (1621-1696)
Gísli Einarsson skólameistari og prestur (1621-1688)
Þórður Sveinsson prestur (1623-1667)
Þorkell Arngrímsson prestur og læknir (1629-1677)
- Vel að sér í náttúruspeki.
- Wikipedia: Þorkell Arngrímsson Vídalín.
- Vilmundur Jónsson, 1949: Lækningar – Curationes – séra Þorkels Arngrímssonar.
- Sjá Læknatalið.
Gísli Þorláksson biskup (1631-1684)
Þórður Þoráksson biskup (1637-1697)
Þórður Þorkelsson Vídalín læknir og kennari (1662-1742)
Jón Árnason biskup (1665-1743)
Hjalti Þorsteinsson prestur og málari (1665-1754)
Jónas Daðason Gam rektor í Danmörku (1671-1734)
- Vel að sér í stærðfræðilegum lærdómslistum, m.a. ljósfræði.
- Íslenzkar æviskrár: Jónas Gam.
Þorleifur Halldórsson skólameistari (1683-1713)
Magnúa Arason landmælingamaður (1683-1728)
Upplýsingartímabilið (1750-1850)
Bjarni Pálsson náttúrufræðingur og læknir (1719-1779)
Stefán Björnsson reiknimeistari (1721-1798)
Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld (1726-1768)
Eyjólfur Jónsson stjörnumeistari (1735-1775)
Rasmus Lievog stjörnumeistari (1738-1811)
Hannes Finnsson biskup (1739-1796)
Pétur Þorsteinsson læknir og kennari (1752-1792)
Ólafur Ólafsson húsameistari og kennari (1753-1832)
Jón lærði Jónsson bóndi (1759-1846)
Magnús Stephensen dómstjóri og alþýðufræðari (1762-1833)
Sveinn Pálsson náttúrufræðingur og læknir (1762-1840)
Björn Gunnlaugsson kennari og landmælingamaður (1788-1876)
Jón Bjarnason bóndi (1791-1861)
Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur og skáld (1807-1845)
Jón Thorlacius Einarsson prestur (1816-1872)
Magnús Grímsson prestur (1825-1860)
2. Tímabilið frá 1850 til 1960
Benedikt Gröndal skáld og kennari (1826-1907)
Halldór Guðmundsson kennari (1826-1904)
Nikulás Runólfsson eðlisfræðingur (1851-1898)
Björn Jensson kennari (1852-1904)
Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur og alþýðufræðari (1855-1921)
Frimann B. Arngrímsson (1855-1936)
Sigurður Thoroddsen verkfræðingur og kennari (1863-1955)
Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur (1876-1961)
Ólafur Dan Daníelsson stærðfræðingur (1877-1957)
Sturla Einarsson stjörnufræðingur (1879-1974)
Trausti Ólafsson efnaverkfræðingur og kennari (1891-1961)
Vilhjálmur Ögmundsson bóndi (1897-1965)
Teresía Guðmundsson veðurfræðingur (1901-1983)
- Cand. mag. í stærðfræði, stjörnufræði og efnafræði frá Hásk. í Osló 1925. Cand. real. í veðurfræði frá sama skóla 1937.
- Viðtal í Aþbl. 3. nóv 1963.
- Minningargrein í Mbl. 24. ágúst 1983.
- Minning í Mbl. 15. mars 2012.
- Sjá einnig Sögu Veðurstofu Íslands.
Eftir stofnun stærðfræðideildar MR 1919
Sigurkarl Stefánsson stærðfræðingur (1902-1995)
- Cand. mag. í stærðfræði frá Hásk. í Khöfn 1928.
- Ýmsar minningargreinar.
- Sjá Kennaratal og Verkfræðingatal.
Leifur Ásgeirsson stærðfræðingur (1903-1990)
Steinþór Sigurðsson stjörnufræðingur (1904-1947)
Trausti Einarsson stjörnufræðingur (1907-1984)
Sveinn Þórðarson eðlisfræðingur (1913-2007)
Guðmundur Arnlaugsson stærðfræðingur (1913-1996)
- Cand. mag. í stærðfræði frá Hásk. í Khöfn 1942.
- Minningargreinar í Mbl. 15. Nóv. 1996.
- Sjá Kennaratal.
Gunnar Böðvarsson verkfræðingur og jarðeðlisfræðingur (1916-1989)
Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur (1917-1988)
Björn Bjarnason stærðfræðingur (1919-1999)
- Cand. mag. í stærðfræði frá Hásk. í Khöfn 1945.
- Minningargreinar í Mbl. 15. Maí 1999.
- Sjá Kennaratal.
Bjarni Jónsson stærðfræðingur (1920-2016)
Eysteinn Tryggvason jarðeðlisfræðingur (1924-2021)
Ári Brynjólfsson eðlisfræðingur (1926-2013)
Magnús Magnússon eðlisfræðingur (f. 1926)
Sigurður Helgason stærðfræðingur (f. 1927)
Skarphéðinn Pálmason stærðfræðingur (f. 1927)
Jón Hafsteinn Jónsson stærðfræðingur (1928-2018)
Guðmundur Pálmason jarðeðlisfræðingur (1928-2004)
Páll Theodórsson eðlisfræðingur (1928-2018)
Steingrímur Baldursson efnaeðlisfræðingur (1930-2020)
Örlítið um tímabilið eftir 1960
Ég reikna með, að flestir íslenskir raunvísindamenn geri sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að halda utan um sögu sinna eigin fræðigreina og festa hana á blað fyrir komandi kynslóðir. Sumir líta jafnframt á vísindasöguritun í stærra samhengi, svo sem félagslegu og menningarlegu. Slíkt viðhorf er til dæmis að finna í ágætri grein, On science in a small country, sem welski vísindasagnfræðingurinn Iwan Rhys Morus birti árið 2018 í Physics Today. Hann kemst meðal annars svo að orði:
Historians of science have tended not to pay much attention to little countries like [Iceland], just as [Icelandic] historians have paid little attention to science. Historians of science, when they study national context, tend to focus on the big, ambitious, and powerful nation-states. Plenty of histories cover US science or Soviet science, for instance. Much has been written about science in imperial Victorian Britain. Philosophers of science tend to hold that science belongs to no particular place—that its origins are irrelevant to its content.
Looking at science in a small country is a good way of getting at why place does matter. It matters because where science gets done and how scientific ideas circulate through culture are critical to the way people understand it. What science means to people and how people think about their own relationship with it depend in part on where science is seen to be done. If our view and focus are firmly fixed on the great names and on science’s role in making powerful nations more powerful, we can easily miss the range of ways in which people understand science and what they think it means for them.
Og í lokin:
If recovering its scientific heritage is important to [Iceland], putting [Iceland] and other small countries like it back in the history of science is also important for how we think about science. Looking at the place science occupies in such countries reminds us, paradoxically, of the universality of science and the variety of ways in which it is and has been understood in different cultures and places.
We tend to think of science as moving from the center to the periphery. Looking at [Iceland] shows us that the process of exchange is rather more complex than that picture suggests.
Science clearly flowed into [Iceland] from elsewhere, but it was also made in [Iceland] and molded by the [Icelanders] to suit their own purposes. As in other cultures, science in [Iceland] has meant different things at different times to different people. Recovering the variety is an important historical task that matters for contemporary science. Looking where science belonged in a country like [Iceland] should remind us that science is common cultural property. It belongs to all of us and matters for all our futures.
Ég tek eindregið undir þessi orð, og eins og sjá má í hornklofunum, hef ég í áhersluskyni gert örlitlar breytingar á textanum.
Þróun nútíma raunvísinda hér á landi er nátengd sögu Háskóla Íslands. Í því sambandi er vert að nefna, að hinum samfélagslega og menningarlega bakgrunni háskólastarfs á Íslandi eru gerð ágæt skil í Aldarsögu Háskóla Íslands frá 2011. Þar er reyndar ekki farið djúpt í sögu fræðigreina, stofnana eða einstaklinga, enda var það aldrei ætlunin.
Ekki má heldur gleyma því, að við Háskólann í Reykjavík hafa nú um skeið verið stundaðar rannsóknir í nokkrum greinum raunvísinda ásamt viðeigandi kennslu.
Nú þegar hefur hefur talsvert verið birt um vissa kafla í sögu nútíma raunvísinda hér á landi, einkum þó fyrstu fjóra áratugina eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar. Vandinn er bara sá, að verulega erfitt er að fá góða yfirsýn, þar sem mikið af efninu liggur grafið á vefsíðum, í afmælisritum, minningargreinum, ráðstefnuritum, tímaritum, skýrslum, fréttabréfum og dagblöðum. Enn sem komið er, vantar okkur Íslendinga því sárlega yfirlitsrit um sögu þessara fræða. Kannski mæti bæta úr því í tilefni af 75 ára afmæli Raunvísindastofnunar Háskólans árið 2041, eða þá á hundrað ára afmælinu 2066? Mín vegna mætti það gerast mun fyrr.
Þeim, sem vilja fara að huga að þessum málum, má benda á eftirfarandi úrval af fróðlegum ritsmíðum um sögu raunvísinda hérlendis fram eftir tuttugustu öldinni. Einnig á nokkrar gagnlegar vefsíður stofnana og fagfélaga:
Greinar og samantektir
- Þorsteinn Vilhjálmsson, 1987: Verkfræði og raunvísindi við Háskóla Íslands: Fyrstu skrefin.
- Ritröð Verkfræðingafélags Íslands.
- Þorbjörn Karlsson,1987: Verkfræðikennsla í Háskóla Íslands. Tímarit Háskóla Íslands, nr. 2, 1.tbl., 2.árg. 1987, bls. 6-22.
- Sveinbjörn Björnsson, 1996: Menntun íslenskra verkfræðinga. Verkfræðingatal (4.útg.; tvö bindi), 1996, bls. 12-22. Ritstj. Þorsteinn Jónsson, Sigvaldi júlíusson og Benedikt Jónsson.
- Leó Kristjánsson: Um Raunvísindastofnun Háskólans og raungreinar við H.Í.
- Steindór Erlingsson, 2006: Raunvísindi og kalda stríðið. Ágætis yfirlit um flókna atburðarás. Greinin vakti reyndar óánægju sumra raunvísindamanna með aðra og persónulegri sögusýn en vísindasagnfræðingurinn.
- Helgi Sigvaldason, 2012: Minningabrot tengd tölvuvæðingu á Íslandi.
- Oddur Benediktsson, 2003: Early Curricula in Computer Science at the University of Iceland.
- Magnús Magnússon, 2007: Fyrstu ár Reiknistofnunar Háskóla Íslands, RHÍ.
- Magnús Magnússon hefur einnig skrifað um sögu Kjarnfræðanefndar Íslands og aðdragandinn að Raunvísindastofnun Háskólans í afmælisritum og víðar.
- Páll Theodórsson skrifaði heilmikið um sögu rannsókna við Eðlisfræðistofnun Háskólans og eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar. Getið er um sumar af þeim ritgerðum í samantekt Leós Kristjánssonar.
- Leó Kristjánsson: Heimasíða.
- Einar H. Guðmundsson: Saga stjörnufræði og eðlisfræði á Íslandi frá miðöldum fram á tuttugustu og fyrstu öld.
Ævisögur, afmælisrit og minningarrit
- Helga Þórarinsdóttir, Ólafur H. Óskarsson, Sigurður Steinþórsson og Þorleifur Einarsson ritstj., 1982: Eldur er í norðri. Afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni sjötugum.
- Þorsteinn I. Sigfússon ritstj., 1987: Í hlutarins eðli - Afmælisrit til heiðurs Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor.
- Björn Birnir, Jón Ragnar Stefánsson, Ottó J. Björnsson og Reynir Axelsson ritstj., 1998: Leifur Ásgeirsson – Minningarrit.
- Hilmar Garðarsson, 1999: Saga Veðurstofu Íslands. (Gefin út í tilefni af 75 ára afmæli stofnunarinnar)
- Guðmundur G. Haraldsson ritstj., 2006: Vísindin heilla: Afmælisrit til heiðurs Sigmundi Guðbjarnasyni 75 ára.
- Ásdís Ármannsdóttir ritstj., 2014: Þekkingin beisluð - Nýsköpunarbók: Afmælisrit til heiðurs Þorsteini Inga Sigfússyni prófessor og forstjóra.
- Sigrún Helgadóttir, 2021: Sigurður Þórarinsson – Mynd af manni I- II.
Vefsíður stofnana
Vefsíður fagfélaga
Verkfræðingafélag Íslands
Íslenska stærðfræðafélagið
Jöklarannsóknafélag Íslands
Jarðfræðafélag Íslands
Eðlisfræðifélag Íslands
Stjarnvísindafélag Íslands
Efnafræðifélag Íslands
Upplýsingar um fleiri rit um sögu nútíma raunvísinda á Íslandi sem og vefsíður stofnana og fagfélaga eru vel þegnar.