Björn Gunnlaugsson lauk öðru lærdómsprófi við Kaupmannahafnarháskóla árið 1818, eftir að hafa meðal annars lært stærðfræði hjá C.F. Degen, stjörnufræði hjá H.C. Schumacher og eðlisfræði hjá H.C. Ørsted. Hann hélt síðan áfram að kynna sér stærðfræðilegar lærdómslistir við skólann, að mestu á eigin spýtur, en hefur þó sennilega notið góðrar aðstoðar Degens. Björn stefndi þó ekki að lokaprófi í raunvísindum, enda var slíkt ekki í boði í Kaupmannahöfn á þeim tíma. Landmælingar lærði hann hjá Schumacher og vann undir hans stjórn við þríhyrningamælingar á Holtsetalandi á árunum 1820 og 1821.
Björn Gunnlaugsson (1788-1876) árið 1859, þá 71 árs gamall. Hann var ekki aðeins fremsti stærðfræðingur, stjörnufræðingur og eðlisfræðingur Íslendinga um sína daga, heldur áhrifamikill náttúruguðfræðingur. Teikningin er eftir Sigurð Guðmundsson málara.
Vorið 1822 virðist Birni hafa þótt tímabært að snúa aftur heim til föðurlandsins og hinn 2. apríl 1822 sendi hann eftirfarandi bréf til skólayfirvalda í Danaveldi (Den Kongelige Direction for Universitetet og de lærde Skoler). Bréfið er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands (Skólastjórnarráð 1928-012 | SK/3 Örk: 27):
Det er en saavel af ældre som yngere almindelig erkendt Sandhed, at blandt de Kundskaber, der í særdeleshed vekke Tænkningen øve Dømmekraften og derved aabne Vejen til Forstandens Dannelse, indtage de mathematiske en særdeles høj, om ikke den øverste Plads. Det er derfor almindelig vedtaget, at Mathematiken udgiør en væsentlig Deel af Undervisningen, ikke alene i de lærde, men endog i de for Almuen indrettede Undervisnings Anstalter. Islands eneste saa kaldte lærde Skole, er maaske den eneste, der gandske mangler dette Gode; en Mangel som for Island er saa meget meere føleligt, som der ikke gives nogen Maade, hvorved den kan erstattes, thi der haves i Landets Sprog ingen egenlig mathematiske Skrifter, og endnu vanskeligere at forstaa, for dem der ikke have nogen mundtlig Veiledning. Disse Vanskeligheder have hidtil saaledes forhindret det mathematiske Studium Opkomst og Fremgang i Island, at uagtet der gives mange Islændere, der af Naturen synes fødte til deslige Beskiæftigelser, og som derved meget kunde gavne deres Fædreland, saa gives der dog i Island, næsted ingen som kan give den lærebegiærlige Yngling, den fornødne Veiledning i dette Henseende. Denne Mangel af mathematiske Kundskaber bliver da isærdeeleshed følelig for dem, hvis Evner tillade dem, efter fuldendte Skolestudier at reise hertil Universitetet, for videre at forsætte disse, og som derfor í deres første Aar maa anvende uforholdsmæssig Tid paa at giøre sig bekiændt med de for dem gandske fremmede mathematiske Videnskaber.
Den Overbevisning at det derfor vilde være særdeles nyttigt for Island, om der ved den værende lærde Skole, oprettedes en Lærerplads for Mathematik, giver mig Dristighed til underdanigst at tilbyde den Højkongelige Direction for Universitetet, og de lærde Skoler, - ifaldt Højsamme kunde finde fornøden Adgang til at oprette en mathematisk Lærerplads ved bemeldte Skole – min Tieneste i denne Henseende, hvor til jeg troer mig at besidde den fornødne Duelighed, da jeg næsten udelukkende har anvendt mit 4 Ars Ophold her ved Universitetet til deels theoretisk deels practisk paa Reiser med Hr. Professor Schumacher at udvide mine mathematiske Kundskaber, hvilket til nærmere Bekræftelse jeg underdanigst torde beraabe mig paa at have vundet den academiske Pris for 2 mathematiske Prisopgaver.
København den 2 April 1822, underdanigst, B. Gunløgsen
Skólayfirvöld vissu mæta vel, að lýsing Björns á ástandinu á sviði stærðfræðilegra lærdómlista á Íslandi var sannleikanum samkvæm, og að kennsla í stærðfræðigreinum í skólum landsins hafði til þessa öll verið meira og minna í skötulíki. Þeim var jafnframt kunnugt um mikla hæfileika Björns á þessu sviði og tóku því boði hans fegins hendi. Með bréfi dagsettu 18. maí 1822 var hann skipaður fjórði kennarinn við Bessastaðaskóla (Lovsamling for Island, 8. bindi (1819-1825), bls. 334-335). Hinir þrír lærimeistararnir voru þá þeir Jón Jónsson „lektor“ (1777-1860), Hallgrímur Scheving (1781-1861) og Sveinbjörn Egilsson (1791-1852).
Fullyrða má, að með ráðningu Björns Gunnlaugssonar í kennarastöðu við Bessastaðaskóla, árið 1822, hafi í fyrsta sinn verið lagður grunnur að formlegri raunvísindakennslu í íslenskum skólum.
Björn hóf kennaraferil sinn með miklum glæsibrag. Við skólasetninguna í október 1822 hélt hann magnaða ræðu um nytsemi stærðfræðilegra lærdómslista (sjá bls. 54-66) og sagði meðal annars:
Til þess að geta lifað, og lifað þægilegu lífi, verðum vér að nota þau gæði sem guð hefur oss í náttúrunni fyrirbúið, til að nota náttúrunnar gæði verðum vér að þekkja hennar gang; til að geta þekkt hennar gang verðum vér eða að minnsta kosti nokkrir af oss að rannsaka hann; til að rannsaka hann verðum vér að reikna hann út oft og tíðum með mathesi applicata; til að reikna með mathesi applicata verðum vér að þekkja mathesin puram og það til hlítar; og til þess að þekkja hana að gagni verðum vér að kynna oss öll veltingabrögð hennar að svo miklu leyti sem oss er mögulegt; og höfum vér ekki allir tækifæri og tómstundir til þess, þá verðum vér að senda nokkra njósnarmenn út sem gjöri það fyrir oss. Sérhvör þjóð ætti því að hafa sína mathematicos til að senda þá út í náttúruna sem njósnarmenn á undan sér til að rannsaka hennar leyndardóma og sem vísi síðan þjóðinni á eftir hvört hún leita skuli til að finna þau gæði sem í henni eru fólgin.
Á þeim tæpa aldarfjórðungi, sem Björn kenndi mælifræði (þ.e. stærðfræði) við Bessastaðaskóla notaði hann eingöngu danskar kennslubækur, meðal annars í talnareikningi og algebru eftir H.O. Bjørn (1777-1843) og G.F. Ursin (1797-1849) og í rúmfræði eftir Ursin og C. Svenningsen (1801-1853). Kennslubækur þessar komu í fleiri en einni útgáfu og færsluhöfundur hefur litlar sem engar upplýsingar um það, hvaða útgáfur rötuðu til Bessastaðaskóla frá skólayfirvöldum í Kaupmannahöfn. Hins vegar má ætla, að eftirfarandi kennslubók gefi allgóða hugmynd um framsetningu og dýpt námsefnisins, alla vega fyrstu árin:
Björn þurfti, auk stærðfræðinnar, að kenna greinar eins og dönsku og landafræði, en hvorki stjörnufræði né eðlisfræði voru kennd með formlegum hætti við Bessastaðaskóla. Það var ekki fyrr en lærði skólinn var fluttur til Reykjavíkur árið 1846, sem síðastnefndu greinarnar urðu hluti af námsefninu. Það var að sjálfsögðu Björn Gunnlaugsson, sem sá um kennslu þeirra, auk stærðfræðinnar, allt þar til hann lét af störfum við Reykjavíkurskóla, 74 ára gamall, árið 1862. Þess má og geta, að samhliða þessum greinum þurfti hann um tíma að kenna skólapiltum náttúrusögu.
Í þessari stuttu færslu verður ekki fjallað nánar um ævi Björns Gunnlaugssonar, né heldur um störf hans sem kennara, vísindamanns, heimspekings og rithöfundar. Í staðinn er fróðleiksfúsum lesendum vísað á ritaskrá Björns og verk, sem talin eru upp í sérstakri heimildaskrá. Þó er rétt að minnast hér á hið merka ljóð Björns, Njólu, sem var ein víðlesnasta bók á Íslandi á seinni hluta nítjándu aldar. Verkið kom fyrst út 1842, sama árið og Jónas Hallgrímsson sendi frá sér þýðingu sína á Stjörnufræði eftir áðurnefndan G.F. Ursin og tileinkaði Birni með orðunum „Þessa tilraun dirfist jeg að tileinka kjennara mínum, herra Birni Gunnlaugssini, stjörnuspekingi, í virðingar og þakklætis skini.“
Ég tel, að það yrði íslenskum raunvísindamönnum og raungreinakennurum til mikil sóma, ef þeir notuðu nú tækifærið til að halda veglega upp á tveggja alda afmæli opinberrar og formlegrar stærðfræðikennslu í íslenskum skólum. Sennilega væri skynsamlegast, að fagfélög eins og Íslenska stærðfræðafélagið, Eðlisfræðifélag Íslands, Stjarnvísindafélag Íslands, Félag raungreinakennara, Flötur - Samtök stærðfræðikennara, Stjörnuskoðunar-félag Seltjarnarness og fleiri slík félög tækju sig saman um að halda upp á afmælið haustið 2022.
Meðal þess, sem komið gæti til greina, er að bjóða upp á erindi, halda sýningu, skrifa stutta pistla fyrir fjölmiðla og/eða samfélagsmiðla, halda málþing, gefa út afmælisrit og fleira í þeim dúr. Ef átak sem þetta reynist hópnum ofviða, gefst fljótlega annað tækifæri, því árið 2026 verða nefnilega liðin 150 ár frá því Björn Gunnlaugsson lést.
Sýningarkassa með landmælingaverkfærum Björns Gunnlaugssonar má finna nálægt suðurdyrunum á gangi fyrstu hæðar í VRII, byggingu Háskóla Íslands við Hjarðarhaga. Kannski væri gangurinn kjörinn fyrir veggspjaldakynningu á Birni og verkum hans, og kannski mætti finna þar stofu fyrir erindi og fleira? – Þess má einnig geta, að á Þjóðminjasafninu er varðveitt falleg sjónpípa á þrífæti og ýmsir aðrir gripir úr eigu Björns. Útgefin rit hans og handrit er að finna á Landsbókasafni-Háskólabókasafni.
Að lokum þetta: Björn Gunnlaugsson er grafinn í Hólavallagarði (gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu). Á sínum tíma þurfti ég að hafa talsvert fyrir því að finna leiðið, þar sem legsteinninn reyndist bæði látlaus og mosavaxinn. Að auki hvílir Björn í fjölskyldugrafreit. Kannski væri við hæfi, að núlifandi raunvísindamenn íslenskir ættu frumkvæði að því að snyrta steininn og lagfæra, og þá í samvinnu við afkomendur Björns?
Legsteinninn á leiði Björns Gunnlaugssonar í Hólavallagarði árið 2003 (reitur: L-512C).
Til frekari fróðleiks: