Rökrétt mál og ekki rökrétt
15. Íslensk málrækt felst í því að viðurkenna að tungumálið er ekki og á ekki að vera fullkomlega rökrétt, og krafa um það geldir málið.
Ein algengasta röksemd sem beitt er gegn nýjungum og tilbrigðum í máli er að þau séu ekki rökrétt. Að margra áliti er það hin endanlegi dómur yfir tilbrigðum og gefur ótakmarkað veiðileyfi á þau. Meðal þess sem er talið „órökrétt“ er að segja loka hurðinni vegna þess að hurðin sé fleki sem lokast ekki – dyrunum sé lokað; tala um að fara erlendis vegna þess að erlendis merki dvöl á stað, ekki hreyfingu til staðar; segja að verslunin opni klukkan 9 vegna þess að verslunin sé ekki gerandi – einhver opni hana; segja hún kynnti Svein fyrir þessari nýjung vegna þess að Sveinn kynntist nýjunginni, ekki öfugt; tala um nýslátrað kjöt vegna þess að kjötinu sé ekki slátrað, heldur dýrinu sem það er af.
Það væri auðvelt að tína til margfalt fleiri af sama tagi, og það væri líka auðveldlega hægt að vísa í fjölda heimilda um að amast hafi verið við þessum atriðum á þeim forsendum að þau séu ekki rökrétt en það er óþarfi – þið þekkið þetta örugglega öll. Sumt af þessu byggist reyndar á misskilningi á merkingu orða. Það er t.d. ljóst að erlendis hefur alla tíð getað merkt bæði ‘í útlöndum’ og ‘til útlanda’/’frá útlöndum’. Sömuleiðis merkir slátra ekki bara ‘drepa’ heldur ‘lóga dýri til matar og tilreiða kjöt og innmat í því skyni’.
En þetta er ekki aðalatriði málsins, heldur hitt að tungumálið er ekki, hefur aldrei verið, og á ekki að vera rökrétt. Tungumálið er samskiptakerfi sem hefur þróast í hundruð þúsunda ára og mótast af alls konar aðstæðum á tilviljanakenndan hátt. Í ljósi sögunnar væri mjög undarlegt ef það væri fullkomlega „rökrétt“. Tungumálið þarf hins vegar að vera nothæft sem samskiptatæki og til þess þarf að vera sæmilegt samkomulag í málsamfélaginu um form þess og beitingu. En forsenda þess samkomulags er ekki að málið sé „rökrétt“.
Hin „órökréttu“ tilbrigði eru nefnilega yfirleitt miklu merkilegri og áhugaverðari en svo að það sé hægt að vísa þeim út í hafsauga sem tilviljanakenndum rökleysum, „málvillum“. Þvert á móti – í flestum tilvikum er hægt að sýna fram á, eða a.m.k. leiða rök að því, að tilbrigðin stafi af því að málnotendur eru – ómeðvitað – að leita að kerfi. Máltilfinning þeirra finnur eitthvað athugavert við það sem hefur verið talið „rétt“, finnst það ekki falla almennilega að því málkerfi sem þeir hafa komið sér upp, og leitast við að bæta úr því.
Sú hugmynd eða krafa að tungumálið eigi alltaf að vera rökrétt ber vott um djúpstæðan en almennan misskilning á eðli tungumálsins. Hún er vond vegna þess að hún er röng. En hún er líka vond vegna þess að hún vinnur gegn tungumálinu. Hún bannar málnotendum að leita betra samræmis í málkerfi sínu og eykur þannig á óstöðugleika sem á endanum getur ýtt undir málbreytingar í stað þess að hamla þeim. Og síðast en ekki síst – hún hamlar hvers kyns nýsköpun, frjórri hugsun, og leik með tungumálið. Tungumál sem væri fullkomlega rökrétt væri óbærilega leiðinlegt. Þá gætum við eins talað forritunarmál.