Mikið af fólki

Iðulega er amast við því að talað sé um mikið af fólki og sagt að þess í stað eigi að tala um margt fólk. Þetta kom t.d. margoft til umræðu í þáttum Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu, og svipaðar athugasemdir má finna í ýmsum öðrum málfarsþáttum. Í Málfarsbankanum segir: „Illa getur farið á því að nota orðasambandið mikið af einhverju um það sem er teljanlegt og eðlilegra væri að nota lýsingarorðið margur: Margir bílar (síður: „mikið af bílum“), margar flugvélar (síður: „mikið af flugvélum“). Einnig þykir mörgum sem lýsingarorðið margur fari betur með orðinu fólk: Margt fólk (síður: „mikið af fólki“).“

Orðið fólk er safnheiti og ekki til í fleirtölu frekar en t.d. sykur, mjólk, mjöl. Venjulega getur lýsingarorðið margur ekki staðið með slíkum orðum – það er ekki hægt að segja *margur sykur, *mörg mjólk, *margt mjöl eða slíkt. Þess í stað verður að segja mikið af mikið af sykri, mikið af mjólk, mikið af mjöli. Því mætti virðast sem mikið af fólki væri hliðstætt við þetta, en í athugasemdum við það samband er stundum sagt að um það gegni öðru máli vegna þess að þótt fólk sé safnheiti sé það teljanlegt, sbr. tilvitnun í Málfarsbankann hér að framan. En frá málfræðilegu sjónarmiði er það ekki rétt. Þótt fyrirbærið fólk sé vitanlega teljanlegt er orðið fólk það nefnilega ekki.

Vissulega er hægt að afmarka hóp menna, kalla hópinn fólk og telja einstaklingana í hópnum, sem ekki er hægt í sykri, mjólk og mjöli. En hins vegar er fólk ekki teljanlegt orð í þeirri merkingu að hægt sé að hafa töluorð með því – það er ekki hægt að segja *eitt fólk, *tvö/tvennt fólk o.s.frv. (þótt hugsanlega sé það að breytast).  Hér má líka benda á orðið grjót sem er safnheiti þar sem einingarnar, steinarnir, eru sæmilega stórar og vel aðgreindar – eins og er með fólk. Það er hægt að safna steinum í hrúgu, kalla hrúguna grjót og telja einstaklingana í henni. Það er samt ekki hægt að tala um *eitt grjót, *tvö/tvennt grjót, frekar en fólk – en öfugt við fólk er ekki hægt að tala um *margt grjót, heldur verður að segja mikið af grjóti.

Það er ljóst að sambandið margt fólk er mun eldra en mikið af fólki – það fyrrnefnda kemur fyrir í fornu máli en elstu dæmin um hið síðarnefnda eru frá lokum 19. aldar, og notkun þess virðist hafa aukist verulega á síðustu áratugum. Ástæðan fyrir því að sambandið margt fólk kemur upp er sú að þrátt fyrir að orðið fólk sé málfræðileg eintala er það merkingarleg fleirtala, og við hugsum um fólk sem mismunandi einstaklinga – sem við gerum ekki um steina í grjóthrúgu. Þess vegna finnst okkur eðlilegt að tala um margt fólk, og þetta er það sem raunverulega er vísað til þegar sagt er að fólk sé teljanlegt. En ef horft er á þetta frá hreinu málfræðilegu sjónarmiði er í raun órökrétt málnotkun að tala um margt fólk.

Miðað við eðli orðsins fólk og hegðun sambærilegra orða er mikið af fólki í raun það sem við væri að búast. Það væri því fráleitt að kalla það samband rangt – enda er það svo sem yfirleitt ekki gert, heldur talið „síðra“ en margt fólk. En þótt það samband sé strangt tekið órökrétt væri auðvitað jafnfráleitt að amast við því vegna þess hvað það á sér langa hefð. Þetta eru tvær aðferðir til að orða sömu merkingu, og engin ástæða til að gera upp á milli þeirra. Málið er ekki alltaf rökrétt – og á ekki að vera það.