Posted on Færðu inn athugasemd

Tregi eða tregða?

Í frétt á vefmiðli í dag rakst ég á eftirfarandi málsgrein: „Búlgarski for­sæt­is­ráðherr­ann Kiril Pet­kov seg­ir að varn­ar­málaráðherra landsins verði lát­inn taka poka sinn í dag vegna trega til að taka afstöðu til inn­rás­ar Rússa í Úkraínu.“ Það var sambandið vegna trega sem ég staldraði sérstaklega við. Væntanlega er átt við að varnarmálaráðherrann hafi verið tregur til að taka afstöðu til innrásarinnar. En nafnorðið sem svarar venjulega til lýsingarorðsins tregur er ekki karlkynsorðið tregi, heldur kvenkynsorðið tregða.

Það virðist vissulega liggja beint við að tengja tregi við tregur, enda mun fyrrnefnda orðið leitt af því síðarnefnda. Þótt tregi merki oftast 'harmur, sorg' í fornu máli getur það líka merkt 'hindrun, erfiðleikar'. Sú merking orðsins er vissulega að mestu horfin í nútímamáli en er þó tilfærð í Íslenskri orðabók og bregður stöku sinnum fyrir: „Nú er tregi mikill í kerfinu“ segir í Iðnaðarmálum 1961, og „Hér eru því miklir tregar á“ segir Einar Ólafur Sveinsson í Íslenzkum bókmenntum í fornöld 1962 (bæði dæmin fengin úr Ritmálssafni Árnastofnunar). Þarna er ekki langt í merkinguna sem tregða hefur.

Fáein fleiri dæmi af þessu tagi frá síðustu árum má finna á netinu. Notkun orðsins tregi í fréttinni sem ég vísaði til er því skiljanleg út frá líkindum og skyldleika orðanna tregi og tregur, og á sér einnig einhverja stoð í eldri merkingu orðsins tregi. En vegna þess að sú merking er nær horfin í nútímamáli, og rík hefð er fyrir því að halda merkingu orðanna tregi og tregða aðgreindri, þá er eðlilegt að mæla gegn því að nota tregi sem samsvörun við lýsingarorðið tregur eins og gert er í fréttinni – notum heldur tregða eins og málhefðin býður.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tímabær þingsályktunartillaga – frá 1978

Á Facebook og víðar má iðulega sjá athugasemdir sem benda til þess að fjöldi fólks sé sannfærður um að íslenskan sé að fara í hundana – framsögn sé ábótavant, beygingar brenglaðar, orðaforði fari ört minnkandi og hvers kyns slettur og ensk áhrif vaði uppi. Við þessu er brugðist í tillögu til þingsályktunar þar sem lagt er til að ríkisstjórninni verði falið „að sjá svo um að sjónvarp og útvarp annist kennslu og fræðslu í öllum greinum móðurmálsins“. Í greinargerð er lýst miklum áhyggjum af stöðu íslenskunnar:

„Engum dylst, að íslensk tunga á nú í vök að verjast. Á þetta sérstaklega við um talað mál, framburð og framsögn. Einnig fer orðaforði þorra fólks þverrandi og erlend áhrif hvers konar vaxandi. Engum orðum þarf að fara um lífsnauðsyn þess, að stemma stigu við slíkri óheillaþróun, og snúa við inn á þá braut íslenskrar málhefðar, sem ein verður farin, ef íslensk menning á að lifa og dafna.“

Þessi tillaga er sannarlega tímabær ef marka má þær athugasemdir sem vísað var til í upphafi. En hún liggur reyndar ekki fyrir Alþingi núna. Hún var lögð fram – og samþykkt – árið 1978, fyrir 44 árum. En hún hefði alveg eins getað verið lögð fram fyrir hundrað árum, eða 150 árum. Allan þann tíma hefur sami söngur glumið. Hver kynslóð er sannfærð um að kynslóðirnar á eftir – börn og barnabörn – séu miklu verr máli farnar og miklu kærulausari um málfar sitt en hún sjálf.

Karlarnir sem lögðu fram áðurnefnda tillögu 1978 voru væntanlega búnir að gleyma því að 30-40 árum áður voru foreldrar þeirra, afar og ömmur örugglega alveg jafn hneyksluð á málfari fimmta áratugarins og þeir voru á málfari þess áttunda. Eða kannski ekki búnir að gleyma því – kannski tóku þeir bara ekkert eftir því á þeim tíma, voru ekki að hlusta, eða létu tuðið í fullorðna fólkinu sem vind um eyru þjóta eins og ungu fólki er gjarnt. Þannig hefur það alltaf verið.

Ef viðmiðið um vandað mál er íslenskan eins og við lærðum hana, eins og það er hjá flestum, segir það sig sjálft að litið er á öll frávik frá því viðmiði, allar breytingar á málinu, sem hnignun – eins og viðhorf margra sem skrifa hneykslunarpósta á Facebook virðist vera. En af því viðhorfi leiðir jafnframt að málinu hefur alltaf verið að hnigna. Ef það væri rétt mætti búast við að það væri fyrir löngu hætt að þjóna hlutverki sínu sem helsta samskiptatæki fólks. En þannig er það ekki.

Við verðum að leyfa málinu að leika lausum hala – leyfa því að breytast með samfélaginu og þjóna því. Með því er ekki verið að leggja blessun yfir kæruleysi í meðferð málsins eða hvers kyns frávik frá málhefð. Alls ekki. En það er mikilvægt að horfa á heildarmyndina í stað þess að hengja sig í einstök atriði sem engu máli skipta fyrir framtíð málsins. Það þarf að búa börnum á máltökuskeiði sem auðugast málumhverfi og skólakerfið þarf að ýta undir frjóa og skapandi málnotkun. Þannig stuðlum við að endurnýjun og endurnæringu íslenskunnar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Áhugi á eða áhugi fyrir?

Með nafnorðinu áhugi tíðkast tvær forsetningar, á og fyrir. Ýmist er sagt ég hef áhuga á þessu eða ég hef áhuga fyrir þessu. Þegar tíðniþróun þessara sambanda er skoðuð á tímarit.is kemur áhugavert mynstur í ljós. Um miðja 19. öld er áhugi á yfirgnæfandi en notkun áhugi fyrir eykst á síðustu áratugum aldarinnar og fram á fjórða áratug tuttugustu aldar, þegar dæmi um áhugi á eru næstum 70% af samanlögðum fjölda um orðasamböndin bæði.

En á fimmta áratugnum fer dæmum um áhugi fyrir að fækka hlutfallslega og eru komin niður í um 5% af heildinni um aldamót og hafa haldist það síðan. Eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti er kúrfan nokkurn veginn samhverf nema áratugurinn 1860-1869 ruglar hana aðeins, en heildarfjöldinn er þá svo lítill að ekki þarf mörg dæmi til að breyta myndinni.

Hvernig stendur á því að sambandið áhugi fyrir sækir svona jafnt og þétt á í 5-6 áratugi en hnignar svo álíka jafnt og þétt næstu 5-6 áratugi þar á eftir? Ég veit það ekki, en hugsanlegt er að viðsnúninginn í notkun sambandanna megi rekja að einhverju leyti til málstýringar málvöndunarmanna. Mig rámar í að hafa sagt áhugi fyrir þegar ég var strákur. En einhvern tíma heyrði ég, líklega í þættinum Daglegu máli í útvarpinu kringum 1970, að það ætti að segja áhugi á – og tók það upp, enda var ég mikill málvöndunarmaður á þeim tíma. Þótt það hafi breyst held ég mig enn við áhuga á.

Í Morgunblaðinu 1963 er rætt um orðalag „sem er orðið mjög algengt bæði í blöðum og útvarpi. Það er „áhugi fyrir einhverju". Hið rétta er auðvitað: „áhugi á“, og hefði enginn fáfróður almúgamaður sagt annað fyrir fáum áratugum, en nú segja og skrifa sprenglærðir menn „áhugi fyrir“, og virðist það í engu særa máltilfinningu þeirra. Vanti þá með öllu máltilfinningu, ættu þeir þó að reyna að hugsa rökrétt, áður en þeir tala eða skrifa.“

Í grein eftir Gísla Pálsson í Þjóðviljanum 1978 segir: „Dæmi eru þess að umsjónarmenn [Daglegs máls] hafa tekið uppá þeim stráksskap að viðurkenna daglegt mál, en einlægt hafa þeir fengið skömm i hattinn fyrir. „Fjandinn hafi það, getur maðurinn ekki skorið úr um hvað sé rétt og hvað sé rangt“, segja menn [. . .]. Um leið fyllast menn kvíða og öryggisleysi rétt eins og verið sé að taka af þeim lim: „Svona út með það, á að segja „ég hef áhuga á“ eða „ég hef áhuga fyrir“? Já eða nei!!“

En í umræðu um þetta á Facebook kom fram mjög athyglisvert atriði sem ég hafði ekki leitt hugann að. Mörgum fannst sem sé vera merkingarmunur á áhugi á og áhugi fyrir. Munurinn virðist vera sá að áhugi á sé fremur notað persónulega, um áhugaefni eða áhugasvið – ég hef áhuga á málfræði, ég hef áhuga á fuglum. En áhugi fyrir er fremur notað um eitthvað sem þykir æskilegt og oft notað ópersónulega – ég hef áhuga fyrir að fara til útlanda í sumar, það er áhugi fyrir hittingi á föstudaginn.

Þessi munur kemur mjög skýrt fram þegar tíðni sambandanna ég hef áhuga á/fyrir og það er áhugi á/fyrir er skoðuð á tímarit.is. Í ópersónulega sambandinu það er eru dæmin um áhugi á og áhugi fyrir álíka mörg. En í ég hef eru dæmin um áhuga á 25 sinnum fleiri en um áhuga fyrir. Þótt augljóslega geri ekki allir málnotendur skýran greinarmun á áhugi á og áhugi fyrir er ljóst að talsverður hluti þeirra gerir það. Þótt ég noti sjálfur alltaf áhugi á hef ég alveg tilfinningu fyrir þessum mun þegar ég hugsa málið.

Þetta er gott dæmi um það hvernig vanhugsuð barátta gegn tilbrigðum í máli getur verið til bölvunar. Þarna virðist málið vera að koma sér upp ákveðnum greinarmun – leitast við að láta mun í merkingu koma fram með notkun mismunandi forsetninga. Það hlýtur að teljast jákvætt að málið geti tjáð ýmis fíngerð merkingarblæbrigði. En með því að kalla áhugi fyrir rangt mál er þessi tilhneiging barin niður og málnotendur ruglaðir í ríminu. Það er ekki málrækt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þáverandi eða þáverðandi?

Í dag sá ég í blaði auglýsingu um skráningu á viðburð sem á að fara fram í mars. Í auglýsingunni stóð: „Tekið verður mið af þáverandi sóttvarnarreglum hvað fjölda gesta í sal varðar.“ Ég staldraði við orðið þáverandi. Það er svo sem augljóst hvað það merkir í þessu samhengi – sem sé þær reglur sem verða í gildi þegar viðburðurinn fer fram, hverjar sem þær verða. En er hægt að nota orðið þáverandi á þennan hátt?

Skýringin á þáverandi í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'í stöðu eða hlutverki á vissum tíma, sem nú er liðinn'. Þetta held ég að samræmist venjulegri notkun orðsins – það vísar til þess sem er liðið eins og orðið þá gerir venjulega í samsetningum. Við erum ekki í vafa um að þátíð vísar til liðins tíma og sama held ég að gildi um þágildandi, þálifandi, þáþrá og fleiri orð. Í Íslenskri orðabók er atviksorðið þá skýrt 'á þeirri stund, í það skiptið (einkum um liðinn tíma)'.

En þótt þá virðist oft tengjast liðnum tíma í huga málnotenda getur það auðvitað vísað til ókomins tíma líka. Ég get t.d. sagt ég varð fimmtugur árið 2005 og þá hélt ég veislu en einnig ég verð sjötugur árið 2025 og þá ætla ég að halda veislu. Er þá nokkuð að því að nota þáverandi um ókominn tíma þegar samhengið sýnir glögglega að ekki er vísað til liðins tíma eins og í dæminu sem ég nefndi í upphafi? Væri sú notkun ekki fullkomlega rökrétt?

Jú, vissulega væri hún það. En eins og hér hefur oft verið lögð áhersla á er tungumálið alls ekki alltaf „rökrétt“ – og á ekki að vera það. Það sem hér skiptir máli er að þessi notkun orðsins styðst ekki við málvenju. Það er málvenja að þáverandi vísi til liðins tíma og eðlilegt og æskilegt að halda sig við það. Finnist fólki æskilegt að hafa sérstakt orð fyrir þá merkingu sem um er að ræða í áðurnefndri auglýsingu kæmi alveg til greina að búa til orðið þáverðandi til að ná henni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ég þakka þeim sem hlýddu

Síðasta þætti Verbúðarinnar lauk með kveðju Jóns Hjaltalín, „Ég þakka þeim sem hlýddu“. Þessi kveðjuorð heyrðust oft áður fyrr, ekki síst í þáttunum Um daginn og veginn sem voru á dagskrá útvarpsins um áratuga skeið og í útvarpsumræðum frá Alþingi. Fólk virðist reyndar hafa tengt þau sérstaklega við útvarpið eins og sést á því að í Morgunblaðinu 1947 segir: „Og þökkum þeim sem hlýddu, eins og menn segja, sem tala í útvarpið.“ Í sama blaði segir 1951: „Svo þakka jeg þeim, sem hlýddu, eins og útvarpslesararnir segja, og kveð með kurt og pí.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1965 segir: „Ég segi eins og kallarnir í útvarpinu: Ég þakka þeim sem hlýddu.“

Þessi kveðjuorð voru sem sé mjög kunnugleg í eyrum mínum og minnar kynslóðar en ég veit ekki hversu vel ungt fólk þekkir þau, enda hefur Um daginn og veginn ekki verið á dagskrá síðan 1999, og á tímarit.is eru nánast engin dæmi frá þessari öld um þakka þeim sem hlýddu. Notkun alþingismanna á þessum kveðjuorðum í útvarpsumræðum virðist líka hafa dregist mjög saman. Ég held samt að sú tvíræðni sem kveðjuorðin höfðu í samhengi Verbúðarinnar hafi náð til fólks á öllum aldri. Það hafði reyndar aldrei hvarflað að mér að sögnin hlýða hefði aðra merkingu en 'hlusta á' í þessari kveðju, en þarna fór ekki hjá því að hin merking sagnarinnar, 'gera það sem manni er sagt að gera', kæmi einnig upp í hugann.

En í umræðum um þetta kom fram að sumum fannst eitthvað vanta á kveðjuorðin – töldu að þeim sem hlýddu hlyti að vera stytting á þeim sem hlýddu á. Þetta er skiljanlegt því að í merkingunni 'hlusta á' tekur hlýða alltaf með sér forsetninguna á. Við getum ekki sagt *ég hlýddi ræðunni heldur verðum að segja ég hlýddi á ræðuna. Það má líka finna nokkur dæmi í þingræðum og á netinu um að sagt sé ég þakka þeim sem hlýddu á og þó frekar ég þakka þeim sem á hlýddu. Vitanlega er ekkert að því, en hins vegar er rétt að athuga að áður var hægt að nota hlýða án forsetningar í merkingunni 'hlusta á'. Það eru t.d. um 300 dæmi um sambandið hlýða messu á tímarit.is, og rúm 30 um að hlýða máli einhvers.

Um þetta eru þó sárafá dæmi frá síðustu 30-40 árum þannig að sá möguleiki að nota hlýða í merkingunni 'hlusta á' án forsetningar virðist vera horfinn úr málinu. En þetta þýðir að kveðjuorðin ég þakka þeim sem hlýddu eru ekki stytting, heldur er sögnin hlýða þar notuð eins og hægt var að gera þegar þessi kveðja mótaðist, þótt það sé varla hægt lengur. Eins og iðulega gerist með föst orðasambönd heldur kveðjan sínu formi þótt hún sé ekki lengur í samræmi við venjulega málnotkun. Sem betur fer – annars hefði sú stórkostlega tvíræðni sem hún hafði í Verbúðinni ekki skilað sér.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málið hefur alltaf verið að breytast

Eins og ég skrifaði hér um í gær er bæði vonlaust og vitlaust að reyna að berja niður málbreytingar sem hafa komið upp fyrir nokkrum áratugum, eru orðnar útbreiddar og nokkrar kynslóðir hafa tileinkað sér á máltökuskeiði. En það þýðir ekki að það eigi að láta allar málbreytingar sem upp koma afskiptalausar. Í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum frá 1986 segir að það sé „í samræmi við meginstefnuna í málvernd að reyna að sporna gegn nýjum málsiðum með því að benda á að þeir séu ekki í samræmi við gildandi málvenjur.

Þetta tek ég fyllilega undir, og sjái ég í fjölmiðlum örla á einhverri breytingu sem ég tel að ekki sé orðin útbreidd skrifa ég stundum greinarhöfundi til að benda á að brugðið hafi verið út af málhefð – og fæ undantekningarlaust þakkir fyrir. Það er mun líklegra til árangurs en að vekja opinbera athygli á „villunni á Facebook og jafnvel hneykslast á henni eða hæðast að höfundinum eins og kemur fyrir. Slíkar aðferðir eru aðeins til að skemmta skrattanum. Hins vegar dytti mér aldrei í hug að skrifa út af „þágufallssýki eða öðrum áratuga gömlum og útbreiddum tilbrigðum.

Það er alkunna að við viljum að málið haldist eins og það var frá því að við tileinkuðum okkur það á máltökuskeiði og fram undir tvítugt – eða eins og okkur var kennt að það ætti að vera. Fólk eins og ég sem er komið yfir miðjan aldur getur fundið ýmislegt í máli samtímans sem víkur frá því sem það ólst upp við – og finnst það oft merki um að málinu sé að hnigna. En fæst gerum við okkur grein fyrir því að málið sem við tileinkuðum okkur á síðustu öld, t.d. kringum 1960 eins og ég, var í fjölmörgum atriðum frábrugðið því sem var fyrr á öldinni.

Meðal orða sem ég hef fjallað um í pistlum mínum og hafa nú ýmist aðra merkingu eða aðra setningafræðilega eiginleika en þau höfðu fyrr á öldinni eða á 19. öld eru meðvirkur, spá í, gluggakista, byrla, fljúga, forða og versla. Þótt ég þykist vera sæmilega að mér um íslenskt mál vissi ég ekki um þær breytingar sem hafa orðið á þessum orðum og finnst því ólíklegt að venjulegir málnotendur sem ekki eru að hugsa um málfræði og málbreytingar dags daglega hafi áttað sig á þeim. En í öllum tilvikum er þarna um að ræða breytingar sem eru fullkomlega viðurkenndar og aldrei amast við svo að ég viti.

Þetta er samt aðeins brot af þeim breytingum sem ég veit um, og það sem ég veit um er örugglega aðeins brot af því sem raunverulega leynist þarna. Og hér er ég aðeins að tala um breytingar á síðustu öld eða rúmlega það – ef farið er allt aftur til fornmáls eru breytingarnar miklu meiri. Málið er nefnilega alltaf og hefur alltaf verið að breytast. Það er eðlilegt og nauðsynlegt – lifandi mál þarf að vera í stöðugri endurnýjun til að þjóna samfélaginu á hverjum tíma.

Það er samt sem áður æskilegt að breytingarnar verði ekki of örar. En besta leiðin til að hægja á þeim er ekki að berjast gegn þeim, nema þá þeim sem rétt örlar á og hafa ekki náð fótfestu. Besta leiðin er að nota málið sem mest, tala við börn og lesa fyrir þau þannig að þau verði öruggir málnotendur með sterka málkennd. Óöryggi í málnotkun og veik málkennd leiðir til örari málbreytinga.

Posted on Færðu inn athugasemd

1980

Frá því að þessi hópur var stofnaður fyrir hálfu öðru ári hef ég skrifað hér hátt á fjórða hundrað pistla. Í verulegum hluta þeirra, a.m.k. 250, hef ég verið að fjalla um notkun og þróun tiltekinna orða, orðasambanda og setningagerða. Meginheimild mín hefur langoftast verið fjársjóðskistan tímarit.is, þótt Risamálheildin hafi einnig nýst vel til að skoða allra síðustu ár.

Auðvitað er tímarit.is ekki fullkomin heimild – þetta er ritað mál og við vitum að flestar nýjungar koma upp í talmáli og vel getur liðið langur tími uns þær fara að sjást á prenti, sérstaklega ef um óformlegt mál af einhverju tagi er að ræða, ekki síst slettur og einhvers konar bannorð. Samt sem áður er þetta langbesta heimildin sem við höfum um þróun málsins undanfarna áratugi – og raunar tvær síðustu aldir.

En ég er sem sagt búinn að skoða uppruna og þróun margvíslegra nýjunga og málbreytinga á tímarit.is – leita að elstu dæmum, skoða tíðniþróun o.fl. Vissulega er þetta stundum frekar yfirborðsleg athugun og ef ég væri að skrifa grein til birtingar í fræðiriti hefði ég orðið að leggja mun meiri vinnu í rannsóknina. Samt sem áður held ég að þessar athuganir gefi oftast sæmilega góða mynd af því sem til skoðunar er hverju sinni.

Það rann allt í einu upp fyrir mér að furðu margar nýjungar í orðanotkun og setningagerð virðast koma upp eða breiðast út um og upp úr 1980. Ég fór lauslega gegnum pistlana og ártölin kringum 1980 koma mjög oft upp. Hugsanleg skýring er sú að breytingar hafi orðið á fjölmiðlum um það leyti þannig að nýjungar í máli eða óformlegra mál hafi átt greiðari leið á prent. Fólk sem þekkti til á fjölmiðlum á þessum tíma gæti kannski sagt eitthvað um þetta.

En önnur skýring er sú að breytingatímabil í sögu málsins hafi hafist fyrir u.þ.b. 40 árum. Auðvitað þurfa þessar tvær skýringar ekki að vera ósamrýmanlegar og í raun finnst mér líklegast að þær eigi báðar við að einhverju marki – upp úr 1980 fór þjóðfélagið smátt og smátt að opnast og slakna á formlegheitum og það gæti hafa komið fram bæði í almennri málnotkun og í því að fjölmiðlar yrðu opnari fyrir óformlegra máli.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að yfir 60% þjóðarinnar eru yngri en 45 ára. Það fólk hefur því alist upp við þær breytingar sem hafa orðið á málinu eftir 1980 og a.m.k. sumt af því hefur tileinkað sér a.m.k. sumar breytinganna á máltökuskeiði. Jafnframt er rétt að athuga að yfir 60% félaga í þessum hópi eru yfir 45 ára aldri og höfðu því tileinkað sér málið að einhverju eða öllu leyti fyrir 1980. Því er ekki að undra að stundum komi upp ósamræmi milli málkenndar félaga í hópnum og þess máls sem nú tíðkast.

Það er ekkert undarlegt að við sem eldri erum kippumst stundum við, verðum pirruð og hneyksluð þegar við heyrum ný orð eða setningagerðir, eða orð og orðasambönd notuð í annarri merkingu en við erum vön. En þá er rétt að hafa í huga að í mörgum tilvikum hefur yngri hluti þjóðarinnar, jafnvel allt að 60% hennar, alist upp við þessi orð, orðasambönd og setningagerðir, og þessa notkun þeirra, og þekkir jafnvel ekki annað. Erum við þess umkomin að segja að málnotkun þessa stóra hóps sé röng?

Ég held ekki. En jafnvel þótt við viljum berja höfðinu við steininn og berjast gegn breytingunum yrði það í flestum tilvikum barátta við vindmyllur að reyna að breyta málnotkun sem nokkrar kynslóðir fólks hafa alist upp við. Höldum áfram að nota málið eins og við lærðum það, en sýnum málnotkun annarra umburðarlyndi þótt hún sé öðruvísi en okkar. Þannig vinnum við íslenskunni mest gagn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að stíga á stokk

Orðasambandið stíga á stokk var algengt þegar í fornu máli og kom áður fyrr eingöngu fyrir í tengslum við heitstrengingar – talað var um að stíga á stokk og strengja þess heit að … Jón G. Friðjónsson segir í Merg málsins: „Stokkur kann að merkja hér 'frambrún öndvegis' […] og vísar þá líkingin til þess að er menn kveðja sér hljóðs standa þeir upp og taka sér gjarnan stöðu á einhverri upphækkun. Annar kostur er sá að stokkur vísi til þröskulds sem tákns heimilis […].“ Hvort sem heldur er vísar stíga á stokk til þess að staðið er á einhvers konar upphækkun.

Undanfarna áratugi hefur þetta samband þó iðulega verið notað án tengsla við heitstrengingar, um það að 'stíga á svið' eða 'hefja einhvern viðburð'. Elsta dæmi sem ég hef fundið um þetta er í Skólablaðinu 1944: „Það stendur heima, að við erum rétt nýsetzt, þegar Hallgrímur Lúðvíkss. formaður Fjölnis, stígur á stokk og setur dansleikinn.“ Þetta er þó einstakt dæmi því að það næsta kemur ekki fyrr en í Alþýðublaðinu 1975: „Síðan opnaðist aðalsviðið, líkt og blóm, og Mick Jagger steig á stokk.“

Auk þessa má nefna dæmi úr myndatextum. Í Alþýðublaðinu 1958 er sagt frá tónleikum Vincenzo Maria Demetz (sem síðar hét Sigurður Demetz Franzson) á Raufarhöfn og birt mynd af honum þar sem hann stígur á borðstokk báts – í myndatexta segir „Demetz stígur á stokk“. Í Vísi 1970 er sagt frá þátttöku Nixons þáverandi Bandaríkjaforseta í kosningabaráttu og birt mynd af honum standandi á einhverri upphækkun með textanum „Nixon stígur á stokk“. Í Vestfirska fréttablaðinu 1987 er mynd af manni standandi á kassa eða steini og í myndatexta segir: „Kristján Jónsson stígur á stokk að Svarfhóli í Álftafirði og útlistar búskaparhætti á uppvaxtarárum sínum.“

Eftir 1980 fer dæmum um nýja merkingu sambandsins að fjölga – í Þjóðviljanum 1983 segir „Stuðmenn munu stíga á stokk að nýju í Atlavík um Verslunarmannahelgina en það er í fyrsta sinn sem hljómsveitin kemur fram síðan um áramót“ og í DV 1984 segir „Gammarnir, eða réttar sagt meirihluti þeirra, stigu á stokk og fluttu mönnum nokkra ópusa“. Dæmum um stíga á stokk fer sífellt fjölgandi á níunda og tíunda áratugnum og á fyrsta áratug þessarar aldar eru þau 20 sinnum fleiri en á áttunda áratugnum. Varla hefur heitstrengingum fjölgað svo mjög og sennilegt að meginhluti dæmanna sé um nýju merkinguna.

Ég skil vel að þeim sem ólust upp við hefðbundna merkingu sambandsins stíga á stokk – eins og ég gerði – hugnist ekki þessi merkingarbreyting. En hér þarf að hafa í huga að hefðbundna merkingin er ekki upprunaleg – hún er líking. Heitstrenging felur ekki í sér að stigið sé á neinn stokk í bókstaflegri merkingu. Nýja merkingin er einnig líking, bara öðruvísi líking, og í raun má segja að sambandið hafi þar bókstaflegri merkingu en í hefðbundnu merkingunni. Úr því að sambandið stíga á stokk mátti fá breytta merkingu í formi líkingar á sínum tíma, er þá eitthvað á móti því að merkingin breytist aftur?

Það sem er á móti því er auðvitað hefðin. Það er margra alda hefð fyrir eldri merkingunni og skiljanlegt að mörgum sé eftirsjá í henni. En nú er komin a.m.k. 40 ára hefð fyrir nýju merkingunni. Það þýðir að búast má við að meginhluti fólks undir fimmtugu, og þar með meirihluti landsmanna, hafi alist upp við hana. Fyrir því fólki hefur stíga á stokk fyrst og fremst merkinguna 'stíga á svið' þótt trúlegt sé að margt af því kannist líka við eldri merkinguna. Þetta fólk hefur fullan rétt á að nota sambandið í þeirri merkingu sem það ólst upp við – eins og við hin höfum rétt á að halda áfram að nota það í eldri merkingunni. En það er bæði ástæðulaust og vonlaust að reyna að berja gömlu merkinguna inn í fólk.

Posted on Færðu inn athugasemd

Finnast vænt um

Á morgunyfirferð minni um vefmiðla rakst ég á fyrirsögnina „Lykilatriði að finnast vænt um starfsfólkið“ á Vísi. Þegar ég leit aftur á síðuna nokkru seinna var búið að breyta fyrirsögninni – nú er hún „Lykilatriði að þykja vænt um starfsfólkið“. Upphaflega gerð má þó enn sjá í slóðinni á fréttina. Þetta virðist ekki mikil breyting – sagnirnar finnast og þykja eru svipaðrar merkingar og oft hægt að skipta annarri út fyrir hina, þótt mörgum finnist/þyki þykja heldur formlegri. Þegar að er gáð er þó ýmislegt sem greinir þær að.

Það er ekki hægt að nota finnast ópersónulega – við segjum þetta þykir gott en ekki *þetta finnst gott. Það er hægt að nota finnast um bæði andlega og líkamlega tilfinningu, en þykja bara um andlega – við getum sagt mér fannst ég heyra hljóð og mér fannst vera komið við mig en setningar eins og mér þótti ég heyra hljóð eða mér þótti vera komið við mig hljóma eins og þær séu úr þjóðsögum. Ýmis föst orðasambönd eru líka bundin við aðra sögnina – við segjum nú þykir mér týra en ekki *nú finnst mér týra. Ýmislegt fleira mætti nefna.

En hvers vegna var Vísir að skipta um sögn í áðurnefndri fyrirsögn? Ég hef ekki fundið dæmi um það í málfræðibókum eða málfarspistlum að mælt sé með því að segja þykja vænt um frekar en finnast vænt um. Einu dæmin sem ég hef fundið um að amast sé við finnast vænt um eru frá Kristjáni skáldi frá Djúpalæk. Í viðtali í Lesbók Morgunblaðsins 1969 sagði hann: „Þá hefur fleira sært mig mjög, svo sem „mér finnst“ allur fjandinn, „mér finnst vænt um“.“ Og í grein í Degi 1983 sagði hann: „Hættið að segja „mér finnst vænt um e-ð“, segið heldur „mér þykir vænt um e-ð“.“

Svo er gaman að sjá fyrirsögnina „Fólki finnst vænt um íslenskuna“ í frásögn DV af Málræktarþingi 2002. Þetta virðist vera endursögn á orðum Ara Páls Kristinssonar, þáverandi forstöðumanns Íslenskrar málstöðvar – en í fréttinni sjálfri, þar sem haft er orðrétt eftir Ara, segir hann: „Meðan almenningur í landinu hefur áfram svona mikinn áhuga á íslensku, þykir vænt um hana og finnst hagfelldara að nota hana en önnur tungumál þá er ekki ástæða til að óttast um framtíð tungunnar“.

Vissulega er þykja vænt um mun eldra, a.m.k. frá 16. öld, en elstu dæmi um finnast vænt um eru frá því upp úr 1940. En sambandið finnast vænt um stríðir ekki gegn málkennd minni og ég hef grun um að ég hafi notað það sjálfur áður fyrr en hætt því vegna þess að einhvers staðar hafi verið amast við því – annaðhvort í skóla eða kannski í þættinum Daglegt mál í útvarpinu. En nú finnst mér sjálfsagt að fólk haldi því máli sem það er alið upp við og hefur vanist. Þess vegna fannst mér vænt um að sjá finnast vænt um í upphaflegu fyrirsögninni og hefði viljað halda því.

(Aukinn og endurskoðaður pistill frá 2020.)

Posted on Færðu inn athugasemd

Skjáumst!

Haustið 2020 birti DV stuttan pistil eftir ritstjórann, Tobbu Marinós, undir fyrirsögninni „Nýyrðin sem veiran hefur alið af sér – Smitbit og faðmflótti“. Þar voru talin upp „alls kyns undarleg nýyrði eins og smitbit (samviskubit yfir að hafa smitast), smitskömm, sóttkvíði, margmennisskömm, faraldursþreyta, faðmflótti, samkomusýki, Sóttólfur, bannbugun, skjáumst og kófið“. Klykkt var út með því að segja: „Spurning hvað landsmenn þurfa að muna þessi orðskrípi lengi“. Mörg þessara orða hafa vissulega orðið til á tíma covid-19 en ekki öll – a.m.k. ekki skjáumst.

Í Fréttablaðinu stóð nefnilega 16 árum fyrr, haustið 2004: „„Skjáumst“ er kveðja sem er að skjóta upp kollinum hér á landi vegna mikillar aukningar í rafrænum samskiptum. Fólk segir þá ekki „sjáumst“ heldur „skjáumst“ og vísar til þess að það muni hittast fyrir framan sitthvorn tölvuskjáinn. Þetta er hrikalega ópersónuleg og leiðinleg kveðja sem á vonandi ekki eftir að síast inn í hið fallega tungumál okkar.“ En jafnvel þá var orðið ekki nýtt. Elsta dæmi sem ég hef fundið er í Alþýðublaðinu 1995, þar sem segir: „Við skjáumst þótt síðar verði …“ Orðið er nú skráð á Nýyrðavef Árnastofnunar.

Það er hins vegar ljóst að aðstæður undanfarin ár hafa valdið því að notkun orðsins hefur margfaldast. Hvers kyns fundir og kennsla hefur farið fram gegnum netið í stað þess að vera augliti til auglitis. Orðið skjáumst er auðvitað eins konar afleiðsla eða útúrsnúningur úr kveðjunni sjáumst vegna hljóðlíkingar við orðið skjár. Fólki finnst ekki hægt að nota sjáumst þegar það sér ekki hvert annað nema á skjá og þá hefur einhver dottið niður á þennan augljósa blending úr skjár og sjáumst. E.t.v. liggur þetta líka svo beint við að það gæti hafa komið upp hjá fleiri en einum, án beinna tengsla.

Svo geta auðvitað verið skiptar skoðanir um hversu gott þetta orð sé. Í Fréttablaðinu 2004 var það talið „hrikalega ópersónuleg og leiðinleg kveðja“ og í DV 2020 var það flokkað sem „orðskrípi“. Orð af þessu tagi þar sem tvö orð eru brædd saman eru stundum kölluð sambreiskingar og slík orðmyndun á sér vissulega ekki mikla hefð í íslensku. Um hana eru hins vegar þekkt dæmi í ýmsum málum, t.d. ensku – meðal þeirra þekktustu eru líklega brunch sem er sambreiskingur úr breakfast og lunch og smog sem er sambreiskingur úr smoke og fog.

Kveðjan sjáumst sem liggur að baki skjáumst er vitanlega beygingarmynd (fyrsta persóna fleirtölu í miðmynd) af sögninni sjá. Kveðjan skjáumst er hins vegar ekki leidd af neinni sögn, heldur mynduð með hliðsjón af sjáumst. En í slíkum tilvikum má oft búast við „öfugri orðmyndun“ – í stað þess að aðrar beygingarmyndir séu leiddar af stofni eru þær búnar til út frá einni beygingarmynd, með hliðsjón af öðrum orðum. Um þetta má finna einstöku dæmi á netinu: „Þurfum að heyrast/skjást fljótlega“ og „Þegar þið eruð komin inn á fundinn skuluð þið endilega prófa að tala og kveikja á myndavélinni ykkar, skjá aðra og skjást!“

Það er alveg hugsanlegt að skjá þróist upp í að verða fullburða íslensk sögn sem beygist í persónum, tölum, háttum, tíðum og myndum. Það væri hægt að segja við skjáðumst lengi í gær, þið skjáist kannski á morgun, þau hafa skjáðst á hverjum degi í vikunni, o.s.frv. En í ljósi þess að skjáumst er aðallega notað sem kveðja er þetta kannski ekki mjög líklegt. Aðalatriðið er að skjáumst er smellið orð sem fellur að málinu, myndað úr íslensku hráefni, og myndun þess er skemmtilegur leikur með tungumálið. Það er ekkert við það að athuga að segja skjáumst!