Posted on Færðu inn athugasemd

Svar ráðuneytis

Ég hef tvisvar skrifað Mennta- og barnamálaráðuneytinu vegna verkefnisins TEAM-Iceland en það var ekki fyrr en grein mín um málið, og frétt unnin upp úr henni, birtist á Vísi í morgun sem ég fékk viðbrögð frá ráðuneytinu í eftirfarandi tölvupósti:

„Takk fyrir góða athugasemd og áhuga á þessu málefni. Á ráðstefnunni Vinnum gullið verður fjallað um nýja stefnu í afreksíþróttum á Íslandi og ýmsa þætti sem tengjast því verkefni. Team Iceland er fyrst og fremst vinnuheiti sem notað er í erlendum samskiptum og ekki hefur verið fastsett viðeigandi nafn á íslensku á væntanlega afreksmiðstöð. Ráðuneytið mun einnig velja íslenskt vinnuheiti til notkunar á ráðstefnunni og til framtíðar og væri gott að geta leitað til þín í því sambandi.“

Ég svaraði og sagði:

„Það er gott að til stendur að finna íslenskt heiti á verkefnið. En skýringin „Team Iceland er fyrst og fremst vinnuheiti sem notað er í erlendum samskiptum“ lítur satt að segja út eins og dæmigerð eftiráskýring. Tilkynning ráðuneytisins undir fyrirsögninni „Vinnum gullið – TEAM-Iceland til árangurs“ er enn á vef stjórnarráðsins og í henni segir m.a:

  • TEAM-Iceland er framtíðarsýn starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um íþrótta- og afreksmiðstöð.
  • Lagt er upp með að innan TEAM-Iceland verði fremstu sérfræðingar á sviði íþrótta sem vinni saman að því markmiði að hámarka árangur íslensks íþróttafólks.
  • TEAM-Iceland verkefnið verður til umfjöllunar á ráðstefnunni Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi […].
  • Með verkefninu TEAM-Iceland er stefnt að því að bæta umhverfi afreksíþróttafólks, s.s. líkamlega þjálfun þeirra og heilsu, efla þátt mælinga og stöðumata, og efla jafnframt þjónustu næringarfræðinga.
  • […] markmið TEAM-Iceland væri jafnframt að styðja við framgang og faglega umgjörð Afrekssviða og -brauta í framhaldsskólum landsins.

Þarna er alls staðar verið að tala um framkvæmd verkefnisins innanlands. Erlend samskipti koma þessu máli ekki við – og jafnvel þótt ætlunin væri að nota þetta heiti einkum í erlendum samskiptum á það vitanlega ekki við á þessari ráðstefnu sem væntanlega fer að miklu leyti fram á íslensku. Það er reyndar athyglisvert að í titlum erinda sem fjalla um hliðstæður í öðrum löndum eru heiti þeirra íslenskuð – „Afreksíþróttamiðstöð Lúxemborgar“ og „Afreksíþróttamiðstöð Noregs“. En við tölum um „Team Iceland“. Ekki er annað að sjá en þetta sé opinbert heiti verkefnisins og hvergi kemur fram að þetta sé aðeins vinnuheiti. Mér fyndist hreinlegra að það væri bara viðurkennt að þarna varð ráðuneytinu á í messunni.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Hlustum á innflytjendur!

Í dag var ég á mjög áhugaverðu málþingi í Eddu á vegum Félags kvenna í atvinnulífinu þar sem var „fjallað um mikilvægi íslenskunnar fyrir okkur öll og hvernig tungumálið er í raun valdatæki og lykill að samfélaginu og atvinnumarkaði“ og m.a. rætt „um leiðir atvinnulífsins til að geta stutt við starfsfólk sem þarf og vill tileinka sér íslensku“. Þar voru flutt fimm stutt en mjög áhugaverð erindi, en það sem mér fannst merkilegast var að heyra persónulegar reynslusögur þriggja kvenna af erlendum uppruna sem koma frá ólíkum löndum og hafa búið mislengi á Íslandi. Þær tala allar mjög vel skiljanlega íslensku – en vissulega með mismiklum erlendum hreim og mismiklum frávikum frá hefðbundinni beygingu og setningaskipan. Það er í góðu lagi.

Þessar konur höfðu allar sömu skilaboðin til Íslendinga: Hlustið á okkur! Sameiginleg reynsla þeirra er sem sé sú að Íslendingar gefa sér ekki tíma til – eða hafa ekki áhuga á – að hlusta á fólk sem er að læra málið og hefur ekki enn náð fullu valdi á því. Við erum óþolinmóð, við grípum fram í fyrir fólki, við leiðréttum fólk óumbeðið, við gerum gys að villum sem fólk gerir, við skiptum yfir í ensku – við hlustum ekki. Afleiðingin er sú að margir innflytjendur fá enga þjálfun í að tala íslensku og fer þess vegna ekki fram í henni. En það er ekki það versta. Viðtökurnar geta dregið kjark úr fólki, brotið það niður og leitt til þess að það missi allan áhuga á íslenskunámi – og geta jafnvel orðið til þess að fólk dragi sig inn í skel og einangrist.

Vitnisburður þessara kvenna rímar fullkomlega við það sem segir í nýrri skýrslu frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, „Samfélög án aðgreiningar: Mat innflytjenda á eigin færni í Íslensku“: „Innflytjendur reyna almennt að nota íslensku í ýmsum aðstæðum og þannig segja um 60% þeirra sem ekki telja sig hafa góða færni í íslensku það vera mjög eða frekar líklegt að þau noti íslensku í verslun. Mun lægra hlutfall gera það hins vegar við meira krefjandi aðstæður, svo sem í óformlegum samræðum við vini eða í læknisheimsókn. Algengt er að innflytjendum sé svarað á ensku þegar þau tala íslensku og nokkuð er um að gert sé grín að þeim sem tala íslensku með hreim og að komið sé óvingjarnlega fram við innflytjendur vegna íslenskukunnáttu þeirra.“

Ef við viljum að íslenska verði áfram aðalsamskiptatungumálið á Íslandi og sameign þeirra sem búa á landinu, óháð uppruna þeirra, verðum við að breyta þessu. Innflytjendur vilja yfirleitt læra íslensku og við verðum að gera þeim það kleift, m.a. með því að bjóða ókeypis nám sem hægt er að stunda á vinnutíma. Á málþinginu í dag var lögð áhersla á nauðsyn þess að setja innleiðingarstefnu eða innleiðingaráætlun fyrir innflytjendur eins og tíðkast víðast í nágrannalöndunum – hafa eitthvert skipulag á því hvernig tekið er á móti innflytjendum og hvernig þeim er auðveldað að koma inn í samfélagið, verða hluti af því og festa rætur í því. Þetta er gífurlega mikilvægt fyrir fólkið sjálft – en ekki síður fyrir íslenskuna.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málfar í Skrekk

Eins og ég sagði hér frá um daginn tók ég þátt í því í síðustu viku að velja sigurvegara „Skrekkstungunnar“ sem veitt er fyrir jákvæða og skapandi notkun á íslensku máli í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Það er ljóst að málnotkun í keppninni féll ekki að smekk allra því að í morgun fékk ég tölvupóst: „[Þ]ú átt alla mína samúð fyrir að hafa þurft að sitja undir Skrekk í gær – og eiga að finna ljósan punkt í notktun [svo] íslensku hjá einhverjum skólanna. Það virðist hafa tekist skv. fréttum. En gengdarlausar [svo] sletttur [svo], meira að segja þegar verið var að höfða til íslenskufræðingsins í hópi dómara, ullu [svo] vanlíðan hjá áhorfendum á mínu heimili. Spurning hvort RÚV gæti ekki fylgt stefnu um að sleppa slettum?“

Nú skal ég ekki gera lítið úr því að óhefðbundin málnotkun geti valdið fólki hugarangri eins og nýlegar rannsóknir hafa sýnt. En markmiðið með því að meta málnotkun í keppni af þessu tagi getur ekki verið að fá fram eitthvert dauðhreinsað mál sem er fjarri eðlilegu máli unglinga heldur að ýta undir það að íslenska sé notuð. Það markmið náðist – það var sungið á ensku í mörgum atriðum en enska var ekki töluð, og ýmis atriði voru eingöngu á íslensku, bæði tal og söngur. Vissulega var eitthvað um enskuslettur en þær þjónuðu yfirleitt tilgangi og féllu eðlilega inn í textann. Við völdum atriði Langholtsskóla og erum stolt af því vali en satt að segja var valið alls ekki auðvelt því að í ýmsum atriðum var íslenskan notuð á frjóan og frumlegan hátt.

Mér sýnist sem sé að sendandi töluvupóstsins hafi verið að horfa á einhverja aðra keppni en ég – eða a.m.k. með öðru hugarfari. Það gleymist nefnilega stundum að ef við viljum að íslenska verði töluð áfram á Íslandi verðum við að fá unga fólkið í lið með okkur. En það gerum við ekki með því að vera sífellt að gagnrýna það fyrir enskuslettur og annan ósóma sem við þykjumst finna í máli þess, heldur með jákvæðri hvatningu og hrósi fyrir það sem vel er gert. Ég hvet ykkur til að horfa á keppnina með jákvæðu hugarfari og hugsa um hversu stórkostlegt það er að við skulum eiga svona glæsilega unglinga sem hafa íslensku á valdi sínu og vilja nota hana – kannski ekki alveg sömu íslensku og við gamlingjarnir tölum, en íslenska er það samt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Glatað ár

Fyrir réttu ári, 14. nóvember 2022, var haldið málþing í Veröld þar sem tilkynnt var um stofnun sérstakrar ráðherranefndar um íslenska tungu sem er „ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Þá mun ráðherranefndin vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins.“ Í tilkynningu um nefndina segir einnig: „Forsætisráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eiga fast sæti í ráðherranefndinni. Munu ráðuneyti þeirra hafa umsjón með skilgreindum áherslum sem verða útfærð í aðgerðaáætlun um íslenska tungu.“

Stofnun þessarar nefndar vakti miklar vonir um að ráðist yrði í átak til að efla og styrkja íslenskuna, en á því ári sem liðið er hefur lítið heyrst frá nefndinni. Í endurskoðaðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar síðan í janúar var gert ráð fyrir að „Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ yrði lögð fram 27. mars en ekkert varð úr því. Vissulega voru Drög að aðgerðaáætlun sem „inniheldur 18 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta en markmið þeirra er að forgangsraða verkefnum stjórnvalda þegar kemur að verndun og þróun tungumálsins“ sett í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun júní. Þessi drög eru ágæt svo langt sem þau ná en ýmislegt vantar í þau og þau ganga allt of skammt.

Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi þing er umrædd tillaga á dagskrá í október en hefur ekki verið lögð fram enn.  Í frétt sem birtist í gær á vef Stjórnarráðsins segir að tillagan verði „brátt lögð fram á Alþingi“. Í ljósi þess að áður kynntar dagsetningar hafa ekki staðist er ástæða til að taka „brátt“ með fyrirvara (enda er jafnvel „strax“ teygjanlegt hugtak í stjórnmálum). En jafnvel þótt tillagan yrði lögð fram á næstu dögum eru engar líkur á að hún verði samþykkt fyrr en á vorþingi 2024. Þar með er titillinn „aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ þegar úreltur. Það er vitanlega aukaatriði – aðalatriðið er að heilt ár er glatað. Ár sem hefði verið hægt að nýta til brýnna aðgerða í þágu íslenskunnar.

En vissulega hefur ákveðið undirbúningsstarf verið unnið. Í gær voru kynntar fimm úttektir á vegum samstarfshóps Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um framhaldsfræðslu, þar af þrjár sem varða íslensku – „Samfélög án aðgreiningar: Mat innflytjenda á eigin færni í Íslensku“, „Úttekt á gæðamálum íslenskukennslu fyrir fullorðið fólk með annað móðurmál en íslensku“ og „Fullorðinsfræðsla meðal innflytjenda. Greining á stefnu og rannsóknum“. Þetta er góðra gjalda vert en því miður er alltof algengt að skrifaðar séu úttektir og skýrslur og samdar stefnur sem síðan er ekkert fylgt eftir, eins og t.d. „Drög að stefnu: Menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn“ frá 2020 sem ekkert hefur verið gert með.

Það kostar nefnilega peninga að framfylgja fallegum og vel útfærðum stefnum, og þótt umrædd þingsályktun yrði samþykkt á vorþingi fylgir henni ekkert kostnaðarmat og engar fjárveitingar. Það sem verra er – engar horfur eru á að þær aðgerðir sem taldar eru upp í tillögunni verði fjármagnaðar. Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2024 er ekki að finna neinar vísbendingar um aukið fé til að hrinda aðgerðaáætluninni í framkvæmd. Vissulega er eftir að samþykkja fjárlög og ekki loku fyrir það skotið að einhverju verði bætt við í lokaafgreiðslu þeirra þótt fjármálaáætlun næstu fimm ára gefi litlar vonir um slíkt. Það kostar marga milljarða að viðhalda íslenskunni sem aðalsamskiptamáli í landinu – en það eru samt smámunir miðað við það sem í húfi er.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að deita og deit

Hvorugkynsnafnorðið deit og sögnin deita eru mjög algeng tökuorð í nútímamáli, komin af nafnorðinu date og samhljóma sögn í ensku. Hvorugt orðanna er í Íslenskri orðabók en sögnin er í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrð 'fara á stefnumót við e-n' og sögð „óformleg“. Elsta dæmi sem ég finn um nafnorðið er í Vísi 1979: „Síðan fékk „deitið“ hans, sem heitir Virginia Christian, vænan skammt af kossum og þvílíku.“ Annað dæmi er í DV 1984, en fleiri dæmi finn ég ekki frá níunda áratugnum. Vitanlega geta orð af þessu tagi verið orðin algeng í talmáli löngu áður en þau fara að sjást á prenti, en hvorugt orðanna er þó að finna í Slangurorðabókinni frá 1982 sem bendir til að þau hafi lítið verið farin að heyrast í íslensku um það leyti.

Þetta breyttist upp úr 1990. Í Pressunni 1992 segir: „Mig langar til að gerast klæðskiptingur, detta í það á frumsýningunni og verða „deitið“ hans Júlla“ og elsta dæmi sem ég finn um sögnina er í Helgarpóstinum 1996: „Hefurðu stefnt lífi þínu í hættu að nauðsynjalausu með djarfræðisathöfn; svo sem eins og að „deita“ tvíbura.“ Fram yfir aldamót voru orðin oft höfð innan gæsalappa og jafnvel útskýrð sérstaklega. Í DV 1999 segir: „Það var þó ekki fyrr en í byrjun þessa árs að þau George og Danielle fóru að vera saman, eða deita, eins og það heitir í Ameríku.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Flestir ógiftir ,,deita“, eins og það er kallað og yfirleitt ,,deitar“ fólk hvort annað í marga mánuði áður en það segir orðin kærasta og kærasti.“

Síðan um aldamót hafa bæði nafnorðið og sögnin verið mjög algeng og löngu hætt að hafa þau innan gæsalappa. Í Risamálheildinni eru hátt í 23 þúsund dæmi samtals um orðin og samsetningar með deit- sem fyrri lið, einkum deitmenning en einnig deitsíða, deitmarkaður o.fl. Meginhluti dæmanna er vissulega af samfélagsmiðlum en þó eru hátt í 1900 dæmi úr formlegra máli þannig að orðin hafa fest sig rækilega í sessi í íslensku. Rétt er að benda á að nafnorðið deit hefur tvær merkingar – annars vegar 'stefnumót' eins og „Þegar við förum á deit tölum við ekki um neitt leiðinlegt“ og hins vegar 'persóna sem einhver á stefnumót við' eins og „Við kynntumst þannig að deitið mitt á tónleika komst ekki“ – bæði dæmin úr Fréttablaðinu 2014.

Orðin deit og deita eru vitanlega komin úr ensku en eins og ég hef oft sagt eiga orð ekki að gjalda uppruna síns ef þau falla fullkomlega að íslensku eins og þessi orð gera – deit er hliðstætt heit og deita er hliðstætt leita og neita. Vissulega eiga þau enga ættingja í íslensku en sama máli gegnir um ótal önnur orð í málinu. Þetta eru lipur orð sem bæta úr brýnni þörf, sérstaklega sögnin – ég veit ekki um neina sögn sem væri hægt að nota í stað deita. Stundum er sögnin hitta notuð en merking hennar í þessu samhengi er óljósari. Þar að auki getur deita verið áhrifslaus eins og í „Ertu eitthvað að deita?“ í mbl.is 2015 – þannig er ekki hægt að nota hitta. Því er mál til komið að taka nafnorðið deit og sögnina deita inn í orðabækur – athugasemdalaust.

Posted on Færðu inn athugasemd

Heggur sá er hlífa skyldi

Hinn 8. nóvember birtist á vef Stjórnarráðsins tilkynning frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu undir fyrirsögninni „Vinnum gullið – TEAM-Iceland til árangurs“. Í tilkynningunni segir: „TEAM-Iceland er framtíðarsýn starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um íþrótta- og afreksmiðstöð.“ Framtíðarsýn ráðuneytisins er sem sé á ensku. Á fleiri stöðum í tilkynningunni er svo talað um „TEAM-Iceland verkefnið“. Það ætti ekki að þurfa að benda á að „TEAM-Iceland“ er ekki íslenska heldur enska. Það er ótrúlegt og óskiljanlegt að Mennta- og barnamálaráðuneytið af öllum aðilum skuli gefa  verkefni sem það stendur fyrir enskt heiti – verkefni sem er ekki síst ætlað að höfða til barna og unglinga á „öllum stigum skólakerfisins“.

Fyrir réttu ári var tilkynnt um stofnun ráðherranefndar um íslenska tungu sem mennta- og barnamálaráðherra situr í ásamt fjórum öðrum ráðherrum. Í fréttatilkynningu sem gefin var út af þessu tilefni var vísað í stjórnarsáttmála þar sem er „lögð sérstök áhersla á að börn og unglingar nýti tungumálið“. Heiti eins og „TEAM-Iceland“ vinnur einmitt gegn því með því að ýta undir þá hugsun sem virðist útbreidd að meira mark sé takandi á því sem hefur enskt heiti – að íslenskan sé of hallærisleg og heimóttarleg til að nota hana í heiti á eitthvað sem á að skipta máli. Einstök ensk heiti, skilti og auglýsingar verða vitanlega ekki til þess að drepa íslenskuna. En þau hafa táknrænt gildi og eru vísbending um afstöðuna til tungumálsins.

Það er svolítið neyðarlegt að á sama tíma og Mennta- og barnamálaráðuneytið fer af stað með þetta verkefni sendir annað ráðuneyti, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, frá sér tilkynningu um vitundarvakningu: „Að þessu sinni er vika íslenskunnar einnig nýtt til þess að vekja athygli á þeim breytingum sem eru að verða og hafa orðið á íslenskunni vegna enskra áhrifa og hvernig þær breytingar birtast í okkur vítt og breitt í samfélaginu og ekki hvað síst á samfélagsmiðlum, í einkaskilaboðum og jafnvel í opinberri umræðu“ (feitletrun mín). Vakin verður athygli á dæmum sem „endurspegla veruleika íslenskunnar eins og hann blasir við okkur“ – kannski væri ráð að hefja vitundarvakninguna innan Stjórnarráðsins og byrja á „TEAM-Iceland“.

Það er oft sagt að ásókn enskunnar sé mesta ógnin við íslensku um þessar mundir en það er í raun og veru ekki rétt – enskan fer ekki lengra en við leyfum henni að fara. Mesta ógnin er miklu fremur andvaraleysi okkar sjálfra – óþörf enskunotkun í hugsunarleysi, metnaðarleysi fyrir hönd íslenskunnar, og skilningsleysi á því að það skipti máli að halda henni á lofti, alltaf og alls staðar. Þetta endurspeglast allt í heitinu „TEAM-Iceland.“ Eftir höfðinu dansa limirnir og ef stjórnvöld hafa ekki meiri metnað fyrir hönd íslenskunnar en þetta heiti bendir til er baráttan vonlítil. Í tilefni af viku íslenskrar tungu vonast ég til að ráðuneytið finni þessu verkefni íslenskt heiti hið snarasta. Í stíl við átakið Áfram íslenska gæti það t.d. heitið Áfram Ísland.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að meika sens

Að undanförnu hefur tvisvar verið spurt hér hvaða orð eða orðasamband væri hægt að nota í staðinn fyrir meika sens. Ástæðan fyrir því að fólk amast við þessu sambandi er vitaskuld sú að það er komið úr ensku, make sense, sem merkir 'to be clear and easy to understand' eða 'að vera ljóst og auðskilið'. Í íslensku er þetta oft notað í merkingunni 'hljóma skynsamlega' en er ekki síður notað með neitun – sambandið meikar ekki / engan sens er að finna í Slangurorðabókinni frá 1982 í merkingunni 'vera vitleysa, hafa enga þýðingu/merkingu'. Sögnin meika er bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók en merkt „óformleg“ eða „slangur“. Nafnorðið sens er hins vegar í hvorugri bókinni, og ekki sambandið meika sens.

Elsta dæmi sem ég finn á prenti um meika sens er í skálduðu samtali í Morgunblaðinu 1971: „Þetta „meikar ekki sens“.“ Annað dæmi er í Þjóðviljanum 1979, úr texta Kamarorghestanna: „Því þú ert bara flippað frík sem engan meikar sens.“ Í Helgarpóstinum 1982 er verið að snúa út úr dagskrá útvarps og sjónvarps og þar er einn dagskrárliður: „Íslenskt mál. Fríkaður flippari meikar engan sens. Jón Aðalsteinn Jónsson flytur.“ Í Morgunblaðinu 1984 segir: „T.d. er skólunum kennt um að unglingar vita ekki lengur skil á „einföldum staðreyndum“ Íslandssögunnar en augunum lokað fyrir því að þessar staðreyndir „meika ekki sens“ í veruleika unglinganna.“ Fleiri dæmi frá níunda áratugnum hef ég ekki fundið á prenti.

Stundum er amast við þessu sambandi. Jón G. Friðjónsson segir t.d. í Morgunblaðinu 2003: „Ensk áhrif á íslensku blasa við öllum þeim sem sjá og heyra vilja. Í sumum tilvikum er slíkt góss lítt lagað að íslensku og ætla má að þeir sem það nota beiti því sem nokkurs konar slangri. Sem dæmi þessa má nefna: […] e-ð meikar ekki sens […]. Slík málbeiting getur ekki talist til fyrirmyndar en hún að því leyti meinlaus að ætla má að hún sé í flestum tilvikum einstaklingsbundin, hún er ekki hluti af viðurkenndu málfari.“ En þessi pistill er orðinn átján ára gamall og notkun meika sens hefur margfaldast á þeim tíma. Tíðni sambandsins sýnir að það er orðið hluti af eðlilegu máli margra og notkunin ekki einstaklingsbundin, heldur almenn.

Dæmum um sambandið meika sens hefur smátt og smátt farið fjölgandi síðan á síðasta áratug 20. aldar og það verður mjög algengt á þessari öld. Í Risamálheildinni eru hátt á tólfta þúsund dæmi um það, vissulega langflest úr óformlegu málsniði samfélagsmiðla en þó yfir fimm hundruð úr formlegra máli. Þótt sambandið sé vissulega ættað úr ensku fellur það ágætlega að íslensku – sögnin meika er hliðstæð t.d. reika. Það er kannski ekki alveg eins ljóst að nafnorðið sens falli fullkomlega inn í málið – við höfum vissulega hvorugkynsorð eins og glens og skens, en sens er alltaf haft í karlkyni eins og sést á því að sagt er meika engan / einhvern sens, ekki *ekkert / eitthvert sens. Þó má bera þetta saman við séns, sem vitanlega er tökuorð líka.

Vitanlega er meika sens löngu orðið góð og gild íslenska þótt ekkert sé að því að leita annarra sambanda í staðinn, en ástæða þess hvað sambandið hefur náð mikilli útbreiðslu hlýtur að vera sú að það svarar einhverri þörf. Þetta kemur vel fram í samtali Hugleiks Dagssonar og Jóhönnu Kristjónsdóttur í Fréttablaðinu 2009. Hugleikur: „Ég stend mig oft að því að finna ekki íslenskt orðasamband yfir hlutina. Til dæmis þegar manni finnst eitthvað meika sens. Ég bara finn ekki ekki íslenska orðasambandið yfir það.“ Jóhanna: „Já, það meikar alveg sens. Ekki kem ég því fyrir mig hvert íslenska orðasambandið yfir það er.“ Hugleikur: „Við erum þá kannski ekki með meika sens í orðaforðanum okkar, Íslendingar. Það útskýrir alveg rosalega margt.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Leikurinn var frestaður

Um daginn sá ég á Facebook-síðunni „Sportið á Vísi“ setninguna „Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var afar ósáttur út í vinnubrögð HSÍ og afstöðu Hauka yfir því að leikur kvöldsins gegn Haukum var ekki frestaður.“ Í frétt Vísis sem hlekkjað var á stóð hins vegar „ÍBV óskaði ítrekað eftir því að leiknum yrði frestað.“ Í báðum setningum er notuð þolmynd en í þeirri fyrri er frumlagið í nefnifalli og lýsingarhátturinn sambeygist því, leikurinn var frestaður, en í þeirri seinni er frumlagið í þágufalli og lýsingarhátturinn í hvorugkyni eintölu, leiknum yrði frest. Sögnin fresta stjórnar þágufalli á andlagi sínu, fresta leiknum, og þágufallsandlag í germynd heldur falli sínu þótt það sé gert að frumlagi í þolmynd og lýsingarhátturinn er þá í hvorugkyni.

Við myndum því búast við leiknum var frest en ekki leikurinn var frestaður, rétt eins og við segjum leiknum var flýtt en ekki *leikurinn var flýttur vegna þess að flýta stjórnar líka þágufalli – flýta leiknum. Samt sem áður má finna fjölda dæma um sambandið frestaður leikur. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1952: „Oft er þó frestuðum leikjum komið fyrir á þeim laugardögum, þegar bikarkeppnin fer fram.“ Í Þjóðviljanum 1958 segir: „hver veit svo hvaða áhrif allur ruglingurinn útaf frestuðum leik getur haft“. Í Morgunblaðinu 1963 segir: „Á þriðjudag átti að leika 10 „frestaða“ leiki, en aðeins 1 gat farið fram.“ Örfá dæmi eru svo um þetta samband frá næstu árum, fram undir 1980, og stundum gæsalappir um „frestaður“.

Ástæðan fyrir því að hægt er að tala um frestaðan leik er sú að í þessum dæmum er ekki þolmynd, heldur er frestaður lýsingarorð sem sambeygist orðinu sem það á við. Það er algengt að myndir sem upphaflega eru lýsingarháttur þátíðar fái setningarhlutverk lýsingarorðs – ég hef áður skrifað um ýmis slík tilvik eins og lagða bíla, ósvaraðar spurningar o.fl. Það er samt ekki þannig að allir lýsingarhættir geri þetta – við getum ekki sagt *bjargaður maður í merkingunni 'maður sem var bjargað' eða eitthvað slíkt. En það lítur út fyrir að lýsingarhátturinn frestaður hafi verið að bæta við sig hlutverki lýsingarorðs á árunum fyrir 1980. Það sýna gæsalappirnar sem eru oft notaðar um orðið fyrir þann tíma, og skyndileg fjölgun dæma um það kringum 1980.

Munurinn á notkun sömu orðmyndar sem lýsingarháttar í þolmynd og sem lýsingarorðs í germynd felst í því að í þolmyndinni er sagt frá athöfn, í germyndinni er lýst (kyrr)stöðu. Stundum líta setningar með frestaður leikur út eins og þolmynd, t.d. á fótbolti.net 2010: „5. umferð Pepsi deildar karla lauk í gær er KR vann Fram en leikurinn var frestaður.“ Þarna sýnir samhengið að ekki er um þolmynd að ræða – ekki er verið að lýsa athöfn, heldur kyrrstöðu. Öðru máli gegnir ef staðið hefði KR átti að leika við Fram en leiknum var frestað – þá er verið að segja frá athöfn. En þá hefði sem sé verið sagt var frest, ekki *KR átti að leika við Fram en leikurinn var frestaður. Setningin sem vitnað var til í upphafi er ekki í samræmi við málhefð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Veðurstyggt fólk – og dagstyggt

Um daginn sagði hópverji í færslu hér: „Ég kalla þá vini mína „veðurstygga“ sem skirrast við að fara út með mér að hlaupa ef þeir heyra í vindi – og finnst það eðlilegasta mál.“ En hann bætti því við að þetta orð fyndist hvergi í bókum. Ég hef ekki heldur fundið það en tek undir að veðurstyggur hljómar eðlilega og er gagnsætt. Í framhaldi af þessu fór ég að skoða aðeins aðrar samsetningar með lýsingarorðinu -styggur. Það orð eitt og sér er skýrt 'sem fælist auðveldlega' (um dýr) í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'sem ógjarnan lætur handsama sig' í Íslenskri orðabók – þá merkingu þekki ég vel síðan ég var sveitamaður. Einnig getur orðið merkt 'önugur í skapi, móðgaður, skapstyggur'. En ýmsar samsetningar sem hafa -styggur sem seinni lið eru til, flestar þó sjaldgæfar.

Sumar þessara samsetninga eru einungis notaðar í (fornu) skáldamáli en þær sem eru notaðar í nútímamáli eru helst skapstyggur 'sem bregst oft við með reiði eða geðvonsku' og svefnstyggur 'sem vaknar fljótt við minnstu ókyrrð eða hávaða'. Í flestum samsetninganna hefur -styggur merkinguna ‚forðast‘ en merkingartengsl liðanna eru mismunandi. Þannig merkir hlaupstyggur (sem nú er horfið úr málinu) 'fælinn og styggur, sem erfitt er að ná' (um hesta) samkvæmt Íslenskri orðabók en ef við þekkjum orðið ekki gætum við eins ímyndað okkur að það merki 'sem forðast að hlaupa, latur'. Annað orð sem notað er í svipuðu hlutverki í mörgum samsetningum er -fælinn ákvarðanafælinn, áhættufælinn, vatnsfælinn o.s.frv. Reyndar er til orðið veðurfælni.

Mannsnafnið Dagstyggur kemur fyrir í Sturlungu og einnig á 17. öld. Í textanum „Ó þú“ eftir Magnús Eiríksson segir: „Dagstyggur aldrei því gleymir / að hafa þig elskað og kysst.“ Þarna er óljóst hvort þetta er hugsað sem mannsnafn eða lýsingarorð – mannlýsing. Í Morgunblaðinu 2000 er ungur maður spurður: „Hver er þinn helsti veikleiki?“ og hann svarar: „Óþolinmóður, dagstyggur (þykir gott að sofa á morgnana).“ Svigagreinin bendir til þess að ekki sé gert ráð fyrir að þessi merking sé alkunn og þetta er eina ótvíræða dæmið sem ég finn um hana en dagstyggur í þessari merkingu er lipurt og gagnsætt orð. Það er um að gera að taka orðin dagstyggur og veðurstyggur í notkun í þeim merkingum sem hér hefur verið lýst og nota -styggur í fleiri orð í stað þess að nota alltaf -fælinn.

Posted on Færðu inn athugasemd

„Drög að stefnu“ frá 2020 eru enn bara drög

Í maí 2020 kynnti Mennta- og menningarmálaráðuneytið með pompi og prakt ítarlega skýrslu starfshóps á vegum ráðuneytisins: „Drög að stefnu: Menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn“. Þar er m.a. að finna tillögur um íslensku sem annað mál: „Börn og ungmenni, sem læra íslensku sem annað mál, fái íslenskukennslu við hæfi og viðeigandi stuðning í námi svo lengi sem þörf er á. Lögð verði áhersla á að þau geti sem fyrst stundað nám jafnfætis jafnöldrum sínum sem eiga íslensku að móðurmáli. Sérstaklega þarf að styðja börn, sem eru fædd hér á landi eða koma ung til landsins, að þau fái strax í leikskóla málörvun í íslensku og fylgst sé með að þau taki reglulegum framförum.“

Síðan er liðið hálft fjórða ár og umrædd „drög að stefnu“ eru ekki komin lengra – sem sé ekki enn orðin að stefnu. Ekki nóg með það – lítið ber á því að unnið hafi verið eftir drögunum og einn skýrsluhöfunda segist ekki vita „hvort nokkuð af þeim tillögum varðandi íslensku séu komnar í framkvæmd“ þrátt fyrir að aðgerðum á sviði íslensku sem annars máls sé í drögunum settur tímaramminn 2020-2023. Það er sem sé bara hálfur annar mánuður eftir af verktímanum. Ég efast ekki um að leikskólar og grunnskólar geri sitt besta til að koma til móts við börn með annað móðurmál en íslensku en aðstæður þeirra til þess eru óviðunandi. Því miður verður ekki séð að stjórnvöld átti sig á því hversu alvarlegt ástandið er á þessu sviði. Því verður að breyta.