Posted on Færðu inn athugasemd

Er íslenskan í hættu?

Á Vísi í dag skrifar Haukur Arnþórsson athyglisverða grein sem tekur á mörgu. Ég get tekið undir margt af því sem hér segir en þó eru nokkur atriði sem mér finnst ástæða til að gera athugasemdir við eða hnykkja á.
  • „Nýlega var tilkynnt að íslenska yrði fyrsta tungumálið sem AI-gervigreindarkerfið ChatGPT styddi.“
Það er ekki rétt. ChatGPT vinnur með fjölmörg tungumál. Hið rétta er að íslenska var valin til að vera fyrst tungumál, utan ensku, sem yrði unnið með í sérstöku þróunarverkefni hjá OpenAI.
  • „Ef Íslendingar ætla að hafa ferðamennsku sem megin tekjulind verða þeir að virða það. Þess vegna þarf leiðbeiningar á ensku. Skilti á flugvöllum og öðrum stöðum í beinni ferðaþjónustu eru því á ensku, auk íslensku þar sem Íslendingar fara um.“
Það er engin andstaða við það að ýmiss konar leiðbeiningar og skilti séu á ensku, ef íslenska fylgir. Hins vegar eru oft gerðar athugasemdir við að eingöngu enska sé notuð – sem er oft gert, jafnvel þar sem Íslendingar fara um.
  • „Þótt við höfum á þessari öld fengið nýja erlenda kynslóð – sem verður mállítil á íslensku – þá þýðir það varla að íslenskan standi veikt. Ekki var það raunin á síðustu öld. Börn nýbúanna ganga í íslenska skóla og læra lýtalausa íslensku.“
Því miður er ég ekki viss um að þetta sé rétt. Aðstæður nú eru allt aðrar en á síðustu öld eins og hér hefur oft verið rætt. Ýmislegt bendir til þess að önnur kynslóð innflytjenda sé ekki nægilega sterk í íslensku – a.m.k. er það staðreynd að brottfall úr námi er miklu meira meðal barna innflytjenda en annarra.
  • „Þá veltir maður því fyrir sér hvort málvísindamennirnir veki upp þjóðernishyggju, sem blundar hjá hægra fólki og enn frekar hjá því vinstra megin (t.d. vegna hersins og andstöðu við vestræna samvinnu í NATÓ) – þjóðernishyggju sem gæti ógnað alþjóðasamvinnu þjóðarinnar.“
Þetta er raunveruleg hætta sem full ástæða er til að vekja athygli á og ég hef oft varað við.
  • „Mögulegt er að hræðslan við veikingu íslenskunnar leiði til andúðar á fólki af erlendu bergi brotnu, til dónaskapar við afgreiðslufólk sem ekki hefur fullt vald á málinu, til upphrópana á götu og jafnvel eineltis og árása.“
Þetta er líka rétt og ég hef oft rætt um þetta. Það er ótækt að mismuna fólki eftir íslenskukunnáttu eða láta það bitna á því að íslenskukunnátta þess er takmörkuð.
  • „það að fyrsta kynslóð innflytjenda mun aldrei tala góða íslensku hræðir marga, enda þótt ljóst sé að önnur kynslóðin muni gera það.“
Það er geysilega mikilvægt fyrir okkur að venja okkur við „ófullkomna“ íslensku. En eins og áður segir finnst mér því miður ekki ljóst að önnur kynslóð innflytjenda muni verða fullfær í íslensku.
  • „Verst af öllu væri ef hræðslan um örlög íslenskunnar leiddi af sér rasísk viðhorf og árásir á erlent fólk.“
Þetta tek ég heils hugar undir og það er mjög mikilvægt að koma í veg fyrir að þetta gerist.
Posted on Færðu inn athugasemd

Að kyrkja

Sögnin kyrkja er skýrð 'drepa (e-n) með því að taka um háls honum‘ í Íslenskri nútímamálsorðabók' og þetta er sú merking sem ég hef alltaf lagt í sögnina – að kyrking leið til dauða. En í seinni tíð er sögnin oft notuð í merkingunni 'taka hálstaki' án þess að það leiði til dauða – eða án þess að ætlunin sé að það leiði til dauða. Í Þjóðviljanum 1991 segir: „Mér líkar að ég fái að kalla hann Hómer og hann kyrkir mig nær aldrei fyrir það.“ Í Morgni 1993 segir: „Svo greip hann utan um hálsinn á mér og byrjaði að kyrkja mig.“ Í Fréttablaðinu 2002 segir t.d.: „Lögreglan kyrkti mig fyrir framan barnið.“ Í DV 2017 segir: „Hann fékk kast og byrjar að kyrkja mig.“ Fjölmörg nýleg dæmi eru um þessa notkun, t.d. í dómum.

Þegar sögnin er skilin þannig að kyrking leiði ekki endilega til dauða er ekkert óeðlilegt að á eftir henni komi til dauða eða til bana til að greina frá afleiðingunum. Þeim sem leggja þá merkingu í sögnina að hún feli óhjákvæmilega í sér dauða finnst slík viðbót óeðlileg, en dæmum um þetta hefur þó lengi brugðið fyrir. Í Dagskrá 1903 segir: „Prothero virðist hafa verið kyrktur til bana.“ Í Vikunni 1959 segir: „Hún hafði verið kyrkt til bana.“ Í Vísi 1976 segir: „Jimmy Hoffa, fyrrum leiðtogi atvinnubílstjórasamtaka Bandarikjanna, var kyrktur til dauða af leigumorðingjum.“ Í Tímanum 1993 segir: „Daginn eftir leiddi krufning í ljós að Trisha hefði verið kyrkt til dauða.“ Í Risamálheildinni má finna fjölda dæma af þessu tagi frá síðustu árum.

Sögnin kyrkja er skyld nafnorðinu kverk og grunnmerking hennar því í raun 'taka kverkataki'. Í orðabók Fritzners um fornmálið er hún skýrð 'gribe en i Struben (kverkr) for at kvæle ham, som om man vil kvæle ham'. Samböndin kyrkja til bana, kyrkja í hel og kyrkja til heljar koma líka fyrir í fornu máli. Í Bósa sögu segir t.d.: „Herrauður kyrkti sveininn til bana.“ Í Bjarnar sögu Hítdælakappa segir líka: „tekur um barka hans og kyrkir til þess, að hann var dauður.“ Þarna er ljóst að kyrkingin og dauðinn er aðskilið – kyrkingin er ferlið sem leiðir til dauðans. Með þeirri merkingu sagnarinnar kyrkja sem nú er orðin algeng, 'taka hálstaki', er því í raun og veru horfið aftur til upprunans og sögnin notuð á svipaðan hátt og gert var í fornu máli.

Posted on Færðu inn athugasemd

Sjálfsprottnar og „tilbúnar“ nýjungar í máli

Íslenskan hefur alla tíð verið að breytast en mismikið og mishratt. Það þarf að hafa í huga að í meira en þúsund ár var íslenskt þjóðfélag mjög stöðugt. Þetta var bændasamfélag þar sem fátt var um nýjungar í atvinnuháttum og hugmyndum og ef um eitthvað slíkt var að ræða náði það til allra aldurshópa. Það þýddi vitanlega að sáralítill munur var á tungutaki og orðaforða milli kynslóða – það komu engin ný umræðuefni til. Nú hefur þetta gerbreyst eins og alkunna er og ekki þarf að útlista – hraði þjóðfélagsins er margfalt meiri, sífellt eru að koma fram ný viðhorf og sjónarmið, sem og nýjungar í lífsháttum og tækni, og það kallar á margvíslegar nýjungar í máli. Það er því eðlilegt og óhjákvæmilegt að málið breytist hraðar en áður.

Þeim nýjungum sem þessar breytingar hafa í för með sér er misvel tekið og þær eiga mismiklar lífslíkur. Sumt fólk setur sig upp á móti öllum nýjungum í máli, hvort sem það er breyttur framburður, ný orð og orðasambönd, nýjar setningagerðir, ný merking orða eða yfirleitt hvers konar nýbreytni í málnotkun. Fyrir þeim er ekkert til sem heitir „eðlileg þróun“ málsins. Öðrum þykir eðlilegt að gera mun á „eðlilegri þróun“ – málbreytingum sem eru sjálfsprottnar meðal almennra málnotenda – og „handstýrðum málbreytingum“ eða „tilbúnum nýjungum“ sem einhver einstaklingur eða hópur kemur með og/eða beitir sér fyrir. Þeim finnst sjálfsprottnu breytingarnar eðlilegar eða a.m.k. óhjákvæmilegar en amast við þeim „tilbúnu.“

En mikilvægt er að athuga að mjög margar nýjungar sem eru fullkomlega viðurkenndar sem rétt og eðlilegt og gott og vandað mál eru í raun „tilbúnar“. Það gildir ekki síst um ótal nýyrði – mörg þau nýyrði sem eru þekktust og þykja best heppnuð eru búin til af málfræðingum eða öðrum áhrifavöldum en ekki sjálfsprottin meðal almennra málnotenda, orð eins og tölva, þota, þyrla og fjölmörg fleiri. Það gildir líka oft um nýja merkingu orða, t.d. þegar orðunum sími, skjár og ýmsum fleiri var gefin ný merking. Einu sinni var líka lagt til að sögninni glöggva yrði gefin merkingin 'leita á netinu' til að losna við tökusögnina gúgla, en sú tillaga hlaut reyndar ekki hljómgrunn með þjóðinni. Einnig eru dæmi um „tilbúnar“ nýjungar í setningagerð.

En það felst líka „handstýring“ eða „tilbúnar breytingar“ í því að amast við því málfari sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði. Þetta á við í framburði, eins og í baráttunni gegn svonefndu „flámæli“ á sínum tíma; í beygingum, eins og í baráttunni gegn ég vill í stað ég vil; í setningagerð, eins og í baráttunni gegn svonefndri „þágufallssýki“; í merkingu orða, eins og í baráttunni gegn því að nota sögnina dingla í merkingunni 'hringja bjöllu'; í orðaforða, eins og í baráttunni gegn tökuorðinu ókei; o.s.frv. Í öllum þessum tilvikum – og fjölmörgum öðrum – hefur verið reynt að fá fólk til að breyta því málfari sem því er eiginlegt. Breytingarnar eru upphaflega sjálfsprottnar, en reynt er að útrýma þeim úr máli fólks með handstýringu.

Það er sjaldnast nokkur eðlismunur á sjálfsprottnum og „tilbúnum“ málbreytingum og öllum hlýtur að vera frjálst að leika sér með málið og breyta sinni eigin málnotkun eins og þeim sýnist. Ég sé enga ástæðu til að amast við slíkum „tilbúnum“ málbreytingum vegna þess að þær hljóta alltaf að takmarkast af hlutverki málsins sem samskiptatæki – það er lítið vit í að breyta málnotkun sinni ef merking þess sem verið er að segja kemst ekki til skila. Það er aftur á móti ástæða til að gjalda varhug við því ef einhvers konar boðvaldi er beitt til að fá fólk til að breyta máli sínu og taka upp tilteknar breytingar. Við getum breytt okkar eigin máli ef okkur sýnist, en leyfum öðrum að halda áfram að tala það mál sem þeim er eiginlegt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að hafna fólki um vernd

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í dag segir: „Ekki er búið að finna lausn á því hvað verður um þau sem er hafnað um alþjóðlega vernd en fara ekki af landi brott.“ Í sömu frétt er einnig talað um „fólk sem hefur fengið synjun um alþjóðlega vernd“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er hafna skýrð 'vísa (e-u) frá, neita (e-u)' en synja er skýrð 'hafna (e-u) gefa neikvætt svar við (e-u)'. Sögin neita er svo m.a. skýrð 'synja (e-m e-s)'. Þessar þrjár sagnir hafa því mjög svipaða merkingu en meðal notkunardæma um synja er synja <henni> um <gistingu> og meðal notkunardæma um neita er neita <henni> um <lán>. Sambærilegt dæmi er ekki að finna undir hafna. Þýðir það að ekki sé hægt að tala um að hafna einhverjum um eitthvað?

Vissulega hefur það ekki verið algengt en um það eru þó fjölmörg dæmi, það elsta sem ég hef fundið í Íslendingi 1935: „Ítölum verði hafnað um öll lán.“ Í Alþýðublaðinu 1949 segir: „eins og kunnugt er var bænum hafnað um fjárfestingarleyfi.“ Í Tímanum 1970 segir: „honum hafi verið hafnað um inngöngu í Málarameistarafélagið.“ Í Morgunblaðinu 1980 segir: „Okkur var hafnað um leyfið í fyrra.“ Í Alþýðublaðinu 1987 segir: „þannig að mér finnst ekkert óeðlilegt að þeim sé hafnað um lán.“ Í Morgunblaðinu 1999 segir: „tryggingafélag bílstjórans hafnaði honum um bætur.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Því urðum við að hafna þeim um skólavist.“ Í blaðinu 2006 segir: „henni væri enn sem áður frjálst að hafna þeim um giftingu sem hún vill.“

Dæmi frá þessari öld í Risamálheildinni um hafna einhverjum um eitthvað skipta hundruðum, meirihlutinn frá síðustu 10 árum. Öfugt við flestar nýjungar er meginhluti dæmanna úr formlegu máli, þ. á m. dómum og lögum. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2013 segir t.d: „Viðskiptavinum sparisjóðsins hafi enn fremur beinlínis verið hafnað um að fá „gjaldeyrislán“ greidd út með þeim hætti.“ Í Lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar frá 2020 segir: „Lánardrottinn skuldara getur krafist þess við héraðsdóm að heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar verði felld niður ef lánardrottinn telur atvik vera með þeim hætti að skuldara yrði hafnað um framlengingu heimildarinnar.“

En hvað á þá að segja um dæmið sem nefnt var í upphafi, „hafnað um alþjóðlega vernd“? Eins og nefnt er hér að framan hafa sagnirnar hafna, synja og neita mjög svipaða merkingu og eru stundum notaðar í sömu samböndum – hægt er að segja t.d. hafna þessari beiðni, synja þessari beiðni og neita þessari beiðni. Það er því engin furða að málnotendur hafi tilhneigingu til að tala um að hafna einhverjum um eitthvað, rétt eins og synja einhverjum um eitthvað og neita einhverjum um eitthvað. Í ljósi þess að a.m.k. 90 ára gömul dæmi eru um þetta orðalag og það er orðið töluvert algengt, ekki síst í formlegu málsniði, sé ég enga ástæðu til að amast við því. Þetta er eðlileg áhrifsbreyting sem getur vel samræmst merkingu og annarri notkun sagnarinnar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að stolta sig og hreykja sig

Ég sá á Facebook að athygli var vakin á fyrirsögn í DV í gær – „Afrekaði eitthvað sem fáir geta stoltað sig af“. Þessari fyrirsögn hafði fljótlega verið breytt í „Afrekaði eitthvað sem fáir geta hreykt sig af“ og að lokum í „Ræðir afrek sit[t]“ eins og hún er nú. Væntanlega stafa breytingarnar af því að gerðar hafi verið athugasemdir við fyrri gerðir fyrirsagnarinnar. Sögnin stolta er ekki daglegt mál, og sögnin hreykja tekur venjulega þágufallsandlag – hreykja sér. En þótt stolta sé sjaldgæf er hún til í málinu og meira að segja flettiorð í Íslenskri orðabók, með skýringunni 'stæra sig, hrokast, ofmetnast, hreykja sér, gorta, raupa'. Í Íslenskri samheitaorðabók eru samböndin stolta sig af og stolta sig yfir líka í merkingunni 'stæra sig af'.

Sögnin stolta er gömul í málinu – elsta dæmi um hana í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr handriti séra Páls Björnssonar í Selárdal frá seinni hluta 17. aldar: „tóku strax þessir biskupar eftir Hieronymi daga að stoltast, og það stolt hefur til þessa vaxið í páfadóminum.“ Annað dæmi er úr Ferðabók Tómasar Sæmundssonar frá fyrri hluta 19. aldar: „engin þjóð getur stoltað af því hún hafi öllum kennt“. Í ljóði eftir Steingrím Thorsteinsson segir „Þær stjörnur kunna að stolta af sér“, og sögnin kemur einnig fyrir í Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness: „Hún stoltaði yfir bróður sínum, sem hefði enn ekki uppgötvað þetta heimsfræga land hinna umkomulausustu drauma.“ Þarna eru notuð samböndin stolta af og stolta yfir, en ekki með afturbeygðu fornafni.

Örfá dæmi um stolta sig má finna á tímarit.is, það elsta í Fálkanum 1945: „Hér birtist enn ein mynd af Shelley Winter, og er hún að þessu sinni að stolta sig af heiðursskjali, sem maður hennar, M.P. Mayer, hlaut fyrir ágæta frammistöðu í stríðinu.“ Í Verkamanninum 1965 segir: „Og Íslendingar stolta sig enn af baráttu gegn sterkara valdi en stólsetumenn geta beitt þó vilja vanti þá ekki.“ Í Dagblaðinu 1977 segir: „Íslendingar hafa löngum stoltað sig drjúgum af því, að þeir noti ekki ættarnöfn.“ Í Helgarpóstinum 1984 er talað um „það eina sem við eigum á heimsmælikvarða og getum stoltað okkur af“. Það er því ljóst að þótt sögnin stolta (sig) sé vissulega sjaldgæf og hafi alltaf verið á hún sér langa sögu og virtir rithöfundar hafa notað hana.

En hvað um næstu gerð fyrirsagnarinnar sem svo var einnig breytt – hreykja sig? Fáein dæmi um þolfallið má finna á tímarit.is, það elsta í Morgunblaðinu 1947: „Hann er svo hálsliðamjúkur og þeir fjelagar allir, að þeir geta hreykt sig í hvaða átt sem þeim sýnist í það og það skiptið“. Í Þjóðviljanum 1988 segir: „Það er ekki til hrokafyllra fólk en þessir Skandínavar sem hreykja sig yfir aðra.“ Í Alþýðublaðinu 1993 segir: „Hún fór einnig á stefnumót með 33 ára gömlum kántrýsöngvara og hreykti sig af því sjónvarpi.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Bjarni hreykir sig líka mikið af kaffi staðarins.“ Í Fréttatímanum 2016 segir. „En fyrirtækið sem „keypti“ kvótann hreykir sig af því að hafa „tryggt sér aðgang að 100 þúsund tonnum af hvítum fiski.“

Í Risamálheildinni er 51 dæmi um hreykja sig / mig, fáein úr prentmiðlum til viðbótar þeim sem hér hafa verið nefnd en u.þ.b. 2/3 af samfélagsmiðlum. Notkun þolfalls í þessu sambandi virðist því færast í vöxt, en er ekki orðin mjög útbreidd og að mestu bundin við óformlegt málsnið enn sem komið er, og það er vafamál hvort hægt sé að líta svo á að þarna hafi ný málvenja skapast. Þess vegna hika ég við að segja að fyrirsögnin „Afrekaði eitthvað sem fáir geta hreykt sig af“ hefði mátt standa. Aftur á móti er ekkert við upphaflegu fyrirsögnina, „Afrekaði eitthvað sem fáir geta stoltað sig af“, að athuga, og hún er óneitanlega rismeiri en „Ræðir afrek sit[t]“ eins og fyrirsögnin er nú. Það hefði verið best að halda upphaflegri fyrirsögn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ferðaþjónustan getur ekki skotið sér undan ábyrgð

Á föstudaginn skrifaði formaður Samtaka ferðaþjónustunnar grein á Vísi til að svara grein Bubba Morthens í Morgunblaðinu daginn áður. Það er skiljanlegt að formaðurinn grípi til varna fyrir þá atvinnugrein sem hún er í forsvari fyrir, en ýmsar athugasemdir má þó gera við svarið. Formaðurinn segir: „Ég deili áhyggjum Bubba af íslenskunni og er fyrsta manneskjan til að styðja aðgerðir til þess að gera veg hennar sem mestan.“ Það er gott og blessað, en það er ekki nóg að styðja aðgerðir – formaðurinn er í stöðu til að beita sér fyrir aðgerðum og ég hef satt að segja ekki séð mikið af þeim innan ferðaþjónustunnar. Ég spurði formanninn t.d. um daginn hér á Facebook hver væri málstefna Samtaka ferðaþjónustunnar. Hún reyndist ekki vera til.

Formaðurinn segir líka: „Eflaust eru einhverjir veitingastaðir með ensku sem fyrsta mál, en langflestir eru með matseðla sína á íslensku og ensku.“ Það er ekki bara að „einhverjir veitingastaðir“ – reyndar fjölmargir – séu með ensku sem fyrsta mál, heldur eru sumir með ensku sem eina málið á matseðlum. Og formaðurinn bætir við að „flestir þeir sem reka ferðaþjónustu [séu] fullkomlega meðvitaðir um það að íslensk tunga er hluti af menningu Íslands og þeirri upplifun, sem flestir ferðamenn eru að sækjast eftir.“ Ég get auðvitað ekki fullyrt að þetta sé rangt, en þessi meinta meðvitund skilar sér a.m.k. ekki í verki eins og glöggt kemur fram í nýjum skýrslum um íslensku í ferðaþjónustunni sem áður hefur verið fjallað um.

Formaðurinn segir líka: „Ég hafna því því algjörlega að mesta hættan sem steðjar að íslenskunni séu skilti á ensku sums staðar og að það komi fyrir að Íslendingar neyðist til að tala ensku á veitingastöðum eða hótelum“ og „Rætur vandans liggja ekki í auglýsingaskiltum á ensku eða því að þurfa stundum að panta kaffibolla á ensku í miðborg Reykjavíkur eða á Húsavík.“ Þarna er gert lítið úr málinu þegar talað er um að það séu „skilti á ensku sums staðar“, og það „komi fyrir að Íslendingar neyðist til að tala ensku“ og „þurfi stundum að panta kaffibolla á ensku“ (feitletranir mínar). Fólk sem fer á kaffihús eða veitingastaði, hvort sem það er í Reykjavík eða úti á landi, veit að það er miklu fremur regla en undantekning að það þurfi að nota ensku.

Skilti á ensku, og að þurfa að tala ensku við starfsfólk á veitingastöðum, er vissulega ekki eina hættan sem steðjar að íslenskunni. En þetta er samt stór þáttur sem óheppilegt er hvað formaðurinn gerir lítið úr. Eins og ég hef margsinnis skrifað um er það alvarlegasta í málinu tvennt. Annars vegar það hugsunarleysi eða meðvitundarleysi eða metnaðarleysi sem býr að baki því að hafa ýmsar merkingar og upplýsingar einungis á ensku. Hins vegar eru þau áhrif sem öll enskan í umhverfi okkar hefur á okkur – slævir tilfinningu okkar fyrir enskum áhrifum, veldur því að við hættum að taka eftir því að eitt og annað sem áður var á íslensku er nú á ensku, veldur því að okkur fer – ómeðvitað – að finnast sjálfsagt að nota ensku við ýmsar aðstæður.

Í stað þess að fara í vörn fyrir atvinnugrein sína væri nær að formaður Samtaka ferðaþjónustunnar skæri upp herör og beitti sér fyrir raunverulegum aðgerðum til að efla íslensku innan ferðaþjónustunnar. Fyrsta skrefið gæti verið að samtökin beittu sér fyrir vitundarvakningu innan greinarinnar og settu sér málstefnu þar sem kveðið væri á um að íslenska skuli notuð þar sem kostur er og enska aldrei notuð að óþörfu. Næsta skref gæti verið að samtökin beittu sér fyrir gerð kennsluefnis fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu þar sem það væri þjálfað í grundvallarorðaforða sem nýtist í mismunandi störfum. Einnig mætti hugsa sér að samtökin skipulegðu og stæðu fyrir íslenskunámskeiðum fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu, í samvinnu við málaskóla og skólakerfið. Verkefnin eru næg og ábyrgð ferðaþjónustunnar mikil.

Posted on Færðu inn athugasemd

Enska í Þjóðleikhúsinu

Í viðtali við þjóðleikhússtjóra í Morgunblaðinu í dag segir hann: „Á sama tíma erum við líka að horfa á aðra hópa sem ekki hafa haft gott aðgengi að húsinu, til dæmis þá sem tala ekki íslensku og erum við að byrja að texta leiksýningar á ensku í vetur líka. Við erum að reyna allt sem við getum til þess að standa undir nafni sem alvöru þjóðleikhús og leikhús í eigu þjóðarinnar.“ Sumum finnst örugglega mega setja spurningarmerki við þetta. Þjóðleikhúsinu er ætlað samkvæmt lögum að „vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna á íslensku“ – er þá einhver skynsemi í því að setja enskan texta við sýningar? Er þarna ekki enn verið að auka hlut enskunnar í íslensku málsamfélagi sem mörgum finnst þó meira en nógu stór fyrir?

Mér finnst þetta mjög jákvætt og til fyrirmyndar. Eins og ég hef margsagt er enskan enginn óvinur – við þurfum að horfast í augu við að hún er komin til að vera í íslensku málsamfélagi og hér mun áfram vera stór hópur fólks sem kann ekki íslensku til fulls. Innflytjendur eru nú um 18% mannfjöldans og þótt fáir þeirra eigi ensku að móðurmáli skilur meginhluti þeirra væntanlega málið að einhverju leyti, enda enska aðalsamskiptamál milli innflytjenda og innfæddra. Þess vegna ætti enskur texti að geta gagnast verulegum hluta innflytjenda. Auk þess kunna auðvitað margir þeirra eitthvað í íslensku og með því að nýta sér samspil tals, texta og leikrænnar tjáningar ættu þeir að geta notið leiksýninga með enskum texta mun betur en áður.

Það er mikilvægt að íslenska verði áfram aðalsamskiptamál í landinu og það verður hún ekki til frambúðar nema hún nái í miklu meira mæli en nú er til hins stóra hóps innflytjenda. En forsendan fyrir því að hún geri það er að það fólk einangrist ekki í sínum málsamfélögum, heldur finnist það velkomið í íslensku málsamfélagi og geti notið alls þess sem það hefur upp á að bjóða – þar á meðal menningar og lista. Þess vegna er mikilvægt að auðvelda fólki með takmarkaða íslenskukunnáttu að sækja leikhús. Þótt aðferðin til þess sé að nota enskan texta vinnur það ekki gegn íslenskunni, enda víkur hún ekki fyrir enskunni. Þvert á móti styrkir þetta íslenskuna til lengri tíma litið. Þess vegna er ástæða til að fagna þessum áformum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Nú dámar mér – eða ekki

Í gær var spurt hér um nafnorðið dámur og sögnina dáma sem fyrirspyrjandi þekkti í orðasambandinu nú dámar mér ekki, í merkingunni 'nú er ég aldeilis hissa'. Í nútímamáli er sögnin nær eingöngu notuð í þessu orðasambandi eins og ráða má af því að hún er ekki skýrð sérstaklega í Íslenskri nútímamálsorðabók, heldur er sambandið í heild skýrt eða umorðað 'ég á ekki orð, ja hérna!' og sagt tákna undrun og hneykslun. En dáma merkir upphaflega 'bragðast, falla í geð' og mér dámar þetta ekki merkti því 'mér líkar þetta ekki'. Nafnorðið dámur sem merkti 'bragð; lykt, angan; yfirbragð' er líklega alveg horfið úr málinu nema í sambandinu draga dám af einhverju sem merkir 'líkjast eða vera undir áhrifum frá einhverju'.

Í eldri dæmum merkir dáma venjulega 'líka' – „Ekki dámaði mjer sú bænar aðferð Þuríðar“ segir í Píslarsögu séra Jóns Magnússonar frá miðri 17. öld. Sama merking er í öllum eldri dæmum í Ritmálssafni Árnastofnunar og á tímarit.is. En ýmis tilbrigði má finna í notkun sagnarinnar. Þannig er hún stundum notuð í sambandinu dáma að – „Fór mönnum þá ekki að dáma að þessu“ segir t.d. í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðri 19. öld, og „mér fer nú ekki mjög að að dáma, hvað menn eru latir og nota það lítt“ segir í Sunnanfara 1896. Einnig tekur sögnin stundum þolfallsfrumlag í stað þágufalls, eins og kemur fram í Íslenskri orðabók – „Vitaskuld er það eingin furða, þótt menn dámi ekki að því“ segir í Sunnanfara 1895.

Það er oft stutt frá merkingunni 'líka ekki' yfir í nútímamerkinguna 'fyllast undrun og hneykslun' og ekki alltaf ljóst hvor á við. Í Ísafold 1912 segir t.d.: „Eyjólfur, nú dámar mér ekki; nú held eg að eg hætti við að kjósa þig.“ Þetta voru viðbrögð kjósanda eftir ræðu frambjóðanda, og þarna getur merkingin verið hvort heldur er 'nú líkar mér ekki' eða 'nú er ég aldeilis hissa'. En í þýddri sögu eftir Mark Twain í Nýjum kvöldvökum 1914 segir: „Og þegar hún sá að búið var að kalka alla girðinguna svona vel, gekk alveg yfir hana. „Já, já! Nú ætlar mér ekkert að dáma!““ Konan sem segir þetta er ánægð með verkið, og því er ljóst að merkingin er undrun en ekki vanþóknun. Sú notkun er því komin fram í upphafi 20. aldar.

Merkingin 'bragðast' lifði einnig í dáma fram á 20. öld. Í ritinu Um tilfinningalífið eftir Ágúst H. Bjarnason frá 1918 segir: „Og enn segjum vjer á íslensku: »Nú dámar mjer ekki!« en það þýðir: þetta er ekki gott á bragðið; þessu geðjast mjer ekki að.“ En eftir því sem leið á 20. öld varð undrunarmerkingin algengari og sögnin kom æ oftar fyrir í sambandinu nú dámar mér ekki. Fljótlega fer sambandið einnig að koma fyrir án neitunar, en í sömu merkingu – í Lögbergi 1921 er að finna aðra þýðingu á sömu sögu og áður var vitnað til úr Nýjum kvöldvökum, en þar stendur „Nú dámar mér“ í stað „Nú ætlar mér ekkert að dáma!“. Það er ekki einsdæmi að neitun sé sleppt á þennan hátt – við segjum t.d. oft nú líst mér á í merkingunni 'mér líst ekkert á'.

Sögnin dáma í merkingunni 'líka' er algeng í færeysku – mær dámar hasa bókina. Merkingin 'líka' hefur einnig haldist í sögninni í íslensku fram undir þetta þótt hún sé orðin mjög sjaldgæf, en kemur t.d. fyrir í Fréttablaðinu 2019: „Einni fjölskyldunni hafi reyndar ekki dámað en hún hafi drifið sig yfir til annarrar fjölskyldu og þá liðið betur.“ Athyglisvert er að í krossgátu í Vikunni 1953 er dáma gefin sem ráðning á líka, en í krossgátu í Vísi sama ár er hún ráðning á ofbjóða. Á bak við síðarnefnda dæmið hlýtur að liggja sambandið nú dámar mér, án neitunar. Bæði nú dámar mér og nú dámar mér ekki eru algeng sambönd í óformlegu máli samkvæmt samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar, sambandið án neitunar þó töluvert algengara.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þetta er hægt

Hin mikla umræða sem hefur verið undanfarna daga um óþarfa og óæskilega enskunotkun á Íslandi hefur leitt ýmislegt í ljós sem vekur bæði ugg og bjartsýni. Það hefur komið mjög vel í ljós hversu ónæm við erum orðin fyrir enskunni í umhverfinu – tökum ekki eftir henni og finnst ekkert athugavert við hana fyrr en okkur er bent á hana. Eins og ég hef áður sagt held ég að þarna sé sjaldnast „einbeittur brotavilji“ að baki heldur hugsunarleysi, metnaðarleysi og kæruleysi – og jafnvel leti og tilhneiging til að spara. En það er uggvænlegt hversu útbreitt þetta meðvitundarleysi gagnvart enskunni, gagnvart því að alls konar merkingar, upplýsingar og textar séu á ensku, er orðið hjá mörgum fyrirtækjum og jafnvel hjá opinberum aðilum.

Mannauðssvið Reykjavíkurborgar segist hafa vitað af því um áramót að skilmálar 50skills, sem umsækjendum um störf hjá borginni er gert að samþykkja, væru á ensku. Í stað þess að fresta því að taka kerfi 50skills í notkun voru fyrirheit um að „þetta yrði komið í lag í sumar“ látin nægja en ekkert virðist hafa verið fylgst með því hvort svo væri – fyrr en vakin var athygli á málinu nú. Þetta rímar að vísu ekki við það svar sem ég fékk frá fyrirtækinu 50skills sem þykist ekkert hafa vitað af málinu fyrr en nú: „Við sáum þetta í fjölmiðlum í gær og fórum að sjálfsögðu beint í málið.“ En aðalspurningin er: Hvers vegna í ósköpunum hefur íslenskt fyrirtæki (sem 50skills mun vera, þrátt fyrir nafnið) skilmála sína eingöngu á ensku?

Fern samtök í atvinnulífinu skrifuðu utanríkisráðherra bréf á ensku um daginn og skýra enskunotkunina með því að tilgangur bréfsins hafi verið „að brýna ráðherra og veita upplýsingar svo að hún gæti að hagsmunum Íslands“ – sem er augljóslega yfirvarp, því að ef það hefði verið megintilgangur bréfsins hefði það að sjálfsögðu verið skrifað á íslensku. Innihaldslýsing á samlokum sem merktar eru ELMA, Eldhúsi og matsölum Landspítalans, er með stóru letri á ensku en undir er lýsing á íslensku með miklu minna letri. Sú skýring er gefin að „fyrirtækið sem framleiðir þessar samlokur fyrir okkur sé að merkja fyrir fleiri aðila“ – en af hverju hafði þessu ekki verið veitt athygli innan Landspítalans fyrr? Af hverju þurfti opinbera umræðu?

Svona mætti lengi telja upp dæmi um enskunotkun sem fyrirtæki og stofnanir láta viðgangast tímunum saman – oftast væntanlega í hugsunarleysi, ekki vegna þess að þau séu meðvitað að vinna gegn íslenskunni. Þeim finnst þetta kannski oft vera smáatriði sem skipti engu máli – og það er rétt, hvert þessara atriða um sig ræður engum úrslitum um framtíð íslenskunnar. En í sameiningu stuðla þau að meðvitundarleysi okkar um áhrif enskunnar og ryðja þannig brautina fyrir enn meiri ensku. Þetta er samt ekki bara á ábyrgð þeirra sem nota enskuna, heldur líka á ábyrgð okkar – við látum þetta viðgangast án þess að gera athugasemdir, oftast líklega vegna þess að við erum löngu hætt að taka eftir því enda enskan allt í kringum okkur.

Það jákvæða í þessu, sem vekur með manni smávegis bjartsýni, er að oft er brugðist vel við ábendingum og hlutunum kippt í lag þegar vakin er athygli á þeim. Mannauðssvið Reykjavíkurborgar ætlar að fylgja því eftir við 50skills að skilmálar fyrirtækisins verði þýddir á íslensku „ef þetta verður ekki komið í lag mjög fljótt“. 50skills segir: „Skilmálarnir eru komnir í þýðingu til þýðingarstofu og verða komnir með íslenska þýðingu innan skamms.“ Samtök atvinnulífsins ætla „að ganga úr skugga um að í þeim tilfellum sem enskan er notuð þá fylgi hún alltaf íslenskri frumútgáfu“. Landspítalinn segir: „Við sendum núna í morgun erindi og báðum um að samlokurnar okkar verði merktar á íslensku og það verður þannig framvegis.“

Þessi dæmi sýna okkur að þetta er hægt. Fyrirtæki og stofnanir vilja ekki fá á sig það orð að þau vinni gegn íslenskunni. Það er hægt að draga stórlega úr óþarfri og óæskilegri enskunotkun, oftast án mikils kostnaðar – og þó að það kosti stundum eitthvað er það bara óhjákvæmilegur kostnaður við að búa í litlu málsamfélagi. Það sem þarf er fyrst og fremst vitundarvakning. Við þurfum öll að átta okkur á því að það skiptir máli að nota íslensku þar sem þess er kostur. Stjórnendur fyrirtækja og stofnana bera sérstaka ábyrgð í þessu efni og þurfa alltaf að spyrja sig: „Er nauðsynlegt að nota ensku hér?“ „Er ekki hægt að nota íslensku í staðinn, eða meðfram enskunni?“ Og við þurfum að vera dugleg við að vekja athygli á óþarfri enskunotkun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Drekkhlaðin skip

Lýsingarorðið drekkhlaðinn er skýrt 'hlaðinn mjög miklum farmi' í Íslenskri nútímamálsorðabók en uppruni þess hefur margoft verið ræddur bæði hér og í öðrum málfarshópum. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1983 greindi Gísli Jónsson frá samræðum sínum við mann sem var að velta uppruna orðsins fyrir sér, og sagði: „Við komum okkur saman um, að þá væri skip drekkhlaðið, ef nærri stappaði að því væri drekkt. Sem sagt, hleðslan er svo mikil að menn eru næstum því búnir að drekkja skipinu.“ Þetta samræmist því að í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið skýrt 'synkladt, synkefuld' og í Íslenskri orðabók er sögnin drekkhlaða skýrð 'hlaða (skip) svo mikið að nærri sekkur'.

Sögnin drekkhlaða er gömul í málinu. Í handriti frá því seint á 17. öld eða snemma á 18. öld segir: „Dreckhladid skip kalla austfirdsker mjög hladed. Item ad dreckhlada.“ Sögnin er fremur sjaldgæf í nútímamáli en lýsingarorðið drekkhlaðinn sem er upphaflega lýsingarháttur hennar er hins vegar algengt. En einnig kemur fyrir myndin dekkhlaðinn – um hana er á fjórða tug dæma á tímarit.is, það elsta í Alþýðublaðinu 1935: „Í morgun kl. um 10 leytið kom Ásbjörn frá Samvinnufélagi Ísafjarðar dekkhlaðinn hingað af síld.“ Væntanlega er þessi mynd alþýðuskýring, komin til vegna þess að fólk hefur ekki áttað sig á fyrri hluta orðsins drekkhlaðinn og tengt það við dekk – skilið orðið sem 'svo hlaðinn að flæðir yfir dekkið'.

Í umræðum hefur oft komið fram að fólk skilur fyrri hluta orðsins iðulega svo að þar sé vísað til skipverjanna – ofhleðsla skipsins sé líkleg til að sökkva því og drekkja þar með skipverjum. Í nútímamáli er sögnin drekkja líka nær eingöngu notuð um lifandi verur eins og sést á skýringu hennar í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'drepa (e-n) með því að sökkva honum í vatn, láta (e-n) drukkna.' Í Íslenskri orðabók er þó einnig gefin skýringin 'sökkva einhverju' og í Ordbog over det norrøne prosasprog er sögnin skýrð 'nedsænke, sænke, dukke', þ.e. 'færa í kaf, sökkva'. Í fornu máli eru nokkur dæmi um að drekkja skipum. Það virðist því nokkuð ljóst að áðurnefnd skýring Gísla Jónssonar á drekkhlaðinn er rétt – fyrri hlutinn vísar til skips en ekki skipverja.