Posted on

Það er ekki til neitt sem heitir „eintöluorð“

Ein lífseigasta mýtan í íslenskri málfarsumræðu er sú að til sé hópur orða sem kallaður er „eintöluorð“. Það orð er reyndar ekki að finna í helstu orðabókum, hvoki í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók, og ekki heldur í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924. Orðið hefur þó lengi verið þekkt í merkingunni 'orð sem er aðeins notað eða til í eintölu' – elsta dæmi um þá merkingu er í Ísafold 1908: „Hljómleikar er fleirtölnorð (án eint.); en hljómleikur, eintöluorð (án flt.), merkir alt annað (= musik).“ Flest orð sem flokkuð hafa verið sem eintöluorð eru safnheiti sem er 'orð sem haft er um magn af e-u sem ekki er alltaf hægt að telja, t.d. sandur, sykur og fólk' (áður voru þetta stundum kölluð „heildstæð orð“).

Því hefur verið haldið fram að sum orð séu „í eðli sínu eintöluorð“ – en hvað gæti það merkt? Yfirleitt er enginn vandi að búa til fleirtölu þessara orða samkvæmt almennum reglum beygingakerfisins, enda er hægt að nota mörg þeirra öðruvísi en sem safnheiti og þá þykir fleirtala þeirra góð og gild. Sem safnheiti merkir orðið sandur t.d. 'fínmulin bergmylsna með mismunandi kornastærð', en það getur einnig merkt 'landsvæði þar sem fínmulin bergmylsna er ráðandi í landslagi' og þá getur það fengið fleirtölu – „Þar eru sandar og sljettir melar“ segir í Þjóðólfi 1852. Annað dæmi er gull sem er safnheiti í grundvallarmerkingu sinni, en hefur lengi einnig haft merkinguna 'leikföng' (sem sennilega er að mestu horfin) og fær þá fleirtölu.

Ótal önnur dæmi sýna að orð sem hafa verið flokkuð sem eintöluorð geta auðveldlega fengið fleirtölu – ef not eru fyrir hana. Merking safnheita er einfaldlega þess eðlis að fleirtala af þeim er óþörf og því „ekki til“ í einhverjum skilningi – en ef merkingin hliðrast til og orðin fara að vísa til einhvers teljanlegs, annaðhvort í stað safnheitismerkingarinnar eða til hliðar við hana, verður yfirleitt til fleirtala þeirra. Gott dæmi um þetta er orðið keppni. Lengi var amast við fleirtölu þess, keppnir, en í Málfarsbankanum segir: „Fleirtalan keppnir á aðeins við þegar talað er um kappleiki eða mót en ekki þegar orðið merkir: kapp.“ Meðan orðið merkti aðeins 'kapp' var fleirtalan óþörf en um leið og það fór að merkja 'kappleik', 'mót' kom þörfin upp.

Uppkoma fleirtölumynda af slíkum orðum er því í raun ekki breyting á beygingu heldur skýr vísbending um að merking orðanna sé að breytast – og það er sú breyting sem kallar á fleirtöluna. Auðvitað getur fólk amast við því að merking orða breytist eða hliðrist til, en um slíkar breytingar eru ótal dæmi sem sum eru viðurkennd en önnur ekki. Ég hef skrifað í „Málspjalli“ um fjölda orða þar sem deilt er um hvort fleirtala eigi rétt á sér – svo sem orðin fíkn, flug, fólk, fræðsla, fælni, hræðsla, húsnæði, keppni, látbragð, lið, mar, málning, málstaður, orðrómur, ótti, smit, verð, þjónusta. Það er oft óljóst hvers vegna amast er við fleirtölu þessara orða – stundum virðist það byggt á skilningsleysi eða misskilningi á því hvað er á ferðum.

Í „Móðurmálsþætti“ Vísis 1956 var t.d. sagt rangt að nota orðið segulstál í fleirtölu vegna þess að það væri „efni og því í eðli sínu eintöluorð eins og önnur efnisheiti“, en bætt við: „Öðru máli gegnir þegar orðið stál verður hlutstætt, fer að tákna hluti svo sem vopn, heystabba, þá er það til í báðum tölum.“ Reyndar merkir segulstál ekki fyrst og fremst efni, heldur 'járnstykki sem er mjög segulmagnað' og fær þá eðlilega fleirtölu. En óskiljanlegt er hvers vegna orð eins og stál og gull mega verða hlutstæð og fá fleirtölu en ekki orðið verð þar sem enn er verið að amast við fleirtölunni þótt hún komi fyrir í fornu máli í merkingunni 'upphæð'– Árni Böðvarsson segir t.d. í Íslensku málfari: „Eðli þess er eintala, þótt formið banni ekki fleirtölumynd.“

Þetta er auðvitað mjög sérkennilegt orðalag, og ekki síður orðalag Málfarsbankans þar sem mælt er gegn því að tala um góð verð og lág verð en bætt við: „þó virðist ekki alltaf hægt að komast hjá því að nota verð í fleirtölu. Til að mynda í setningunni: öll verð eru án virðisaukaskatts.“ Það er auðvitað það sem málið snýst um – þar vísar orðið til tiltekinnar upphæðar og því er fleirtalan eðlileg. En af hverju er talað um það eins og afsakandi að það sé  „ekki alltaf hægt að komast hjá því að nota verð í fleirtölu“? Það er eins og skorti kjark til að segja hreint út að fleirtalan sé eðlileg þegar merking orðsins kalli á hana. Fólk virðist hafa bitið það í sig að tiltekin orð megi ekki vera í fleirtölu – það sé andstætt „eðli“ þeirra.

Tilfellið er að öll nafnorð geta staðið í fleirtölu ef merking og notkun þeirra krefst þess og því engin rök fyrir þeirri staðhæfingu að „eðli“ sumra orða sé eintala – það er ekki til neinn hópur orða sem eðlilegt er að kalla „eintöluorð“. Hins vegar mætti tala um „eintölumerkingu“ vegna þess að það er merkingin sem veldur því oft að fleirtölu er ekki þörf eins og Höskuldur Þráinsson benti á í greininni „Ekki til í fleirtölu“ í Íslensku máli 1983. En af einhverjum ástæðum virðast fáar nýjungar í máli fara meira í taugarnar á fólki en þegar farið er að nota fleirtölu orða sem áður hafa oftast eða eingöngu verið höfð í eintölu. Vitanlega getur fólk amast við því að merking orða hnikist til frá því sem verið hefur en þá á að beina spjótum að því, ekki að beygingunni.