Posted on Færðu inn athugasemd

Nýyrði og tökuorð

Skipuleg nýyrðasmíð á íslensku er yfirleitt talin hefjast fyrir alvöru í lok 18. aldar í ritum Lærdómslistafélagsins. Þar var skrifað um ýmis efni sem ekki hafði áður verið fjallað um á íslensku, og því var þörf nýrra orða, og þaðan koma orð eins og farfugl, fellibylur, gróðurhús og afurð. Þegar kom fram á 19. öldina hófst svo mikil vakning um eflingu og hreinsun málsins, og þá koma einnig til fjölmörg nýyrði, t.d. var Jónas Hallgrímsson iðinn við nýyrðasmíð, og bjó til orð eins og hitabelti og ljósvaki.

Í nútímamáli hefur þörf fyrir nýyrði aukist gífurlega vegna þjóðfélags­breytinga; alltaf eru að koma upp ný hugtök og fyrirbæri sem við þurfum orð yfir. Nýyrðasmíð hefur líka verið blómleg undanfarna öld, og nýyrði sem gerð voru á tuttugustu öld einni skipta tugum þúsunda. Örlög þeirra – eins og nýyrða frá öllum tímum – hafa auðvitað verið mjög misjöfn. Sum notum við á hverjum degi, eins og útvarp, sjónvarp, tölva, tækni. Önnur hafa átt erfitt uppdráttar eða alveg horfið, eða þá aldrei vaknað til lífs meðal málnotenda, s.s. víðboð og víðvarp um útvarp, dragi um dráttarvél, og svo mætti lengi telja.

Orðaforðinn hefur líka aukist af orðum sem komin eru úr erlendum mál­um, svokölluðum tökuorðum. Erlend orð hafa verið tekin inn í málið á öllum tímum, og t.d. komu þónokkur orð af latneskum, frönskum og írskum upp­runa inn í málið fyrir landnám og á fyrstu öldum Íslands byggðar. Þar má nefna ýmis orð sem fylgdu kristninni, beint eða óbeint, eins og prest­ur, biskup, kross, djöfull o.s.frv.; en einnig ýmis önnur, eins og tafl, dúkur og klæði. En það hefur verið misjafnt eftir aðstæðum hvaðan straum­ur tökuorða hefur komið.

Á 14. og 15. öld versluðu Íslendingar tals­vert við Englendinga, og þá kom nokkuð af enskum orðum inn í málið, t.d. jafn algeng orð og sápa og par, en einnig kurteisi, fól, lávarður o.fl.Síðar jukust þýsk og dönsk áhrif á landinu, og þá kom mikið af nýjum orðum inn í málið, einkum með þýðingum guðsorðabóka um og eftir siða­skipti. Flest eru þau okkur framandi, og hafa væntanlega aldrei komist inn í venjulegt mál, orð eins og bíhalda, bevara, forbetra o.þ.u.l.; en einnig má nefna herlegheit, rólegheit, fyllirí, fiskirí, fangelsi.

Allt fram á síðustu öld komu flest tökuorð í íslensku úr dönsku, en frá því um seinni heimsstyrjöld hafa þau líklega langflest komið úr ensku. Þar má nefna orðin sjoppa, stæll, jeppi, hippi, nælon, stress, töff, næskúl, fíla, tékka, trimma, tsjilla; annars eru þessi orð svo mörg og algeng að engum ætti að vera vorkunn að finna nóg af dæmum um þau í daglegu tali sjálfs sín og annarra. Við skulum þó athuga að sjaldnast eru orðin alveg eins í íslensku og í málinu sem þau koma úr. Oftast er framburðurinn eitthvað frábrugðinn, og þar að auki fá orðin íslenskar endingar.

Þó er vissulega misjafnt hversu vel orðin aðlagast íslensku málkerfi. Jafngamalt orð og biskup hefur ekki enn fengið neina nefnifallsendingu; orðin lager, mótor, partí o.fl. brjóta t.d. þá reglu að a, i og u séu einu sérhljóðin sem koma fyrir í áherslu­lausum atkvæðum (í ósamsettum orðum); orðin næs og kúl taka engum fallend­ingum; tsjilla byrjar á samhljóðaklasa sem ekki þekkist í íslenskum orðum; og svo mætti lengi telja. Orð eins og bíll hefur hins vegar alger­lega fallið að íslensku málkerfi, bæði hljóðfræðilega og beygingarlega.

Tökuorð njóta líka mismikillar virðingar. Sum hafa verið tekin algerlega inn í málið og njóta sama réttar og önnur íslensk orð. Sem dæmi má nefna prestur, sápa, bíll. Við öðrum er aftur á móti amast af ýmsum orsökum. Stundum er það vegna þess að þau laga sig ekki að málkerfinu; innihalda hljóðasambönd sem ekki koma fyrir í íslenskum orðum, neita að beygjast, eða eitthvað álíka. Dæmi um þetta eru næs, stereó, bíó.

Önnur falla aftur á móti algerlega að málkerfinu, en er hafnað vegna þess að þau eru þegar til í málinu í annarri merkingu, eða íslenskt orð sömu merkingar er til og tökuorðið þykir þess vegna óþarft. Dæmi þessa er orðið díll (úr ensku deal) í merkingunni ‘verslun, kaup’ í samböndum eins og góður díll. Hins vegar er til orðið díll í merkingunni ‘blettur’, í samböndum eins og sjá ekki á dökkan díl, og þykir fullgild íslenska.

Posted on Færðu inn athugasemd

Orðaforði íslensku

Oft veltir fólk því fyrir sér hversu mörg orð séu til í íslensku. Því er ómögulegt að svara en það er óhætt að segja þrennt: Þau eru mjög mörg, þeim er alltaf að fjölga, og engin leið er að tilgreina fjöldann nákvæmlega. Fólk hefur nefnilega á öllum tímum fengist við að búa til ný orð þegar á þeim þurfti að halda. Sum þeirra hafa kannski aðeins verið notuð einu sinni, en síðan fallið í gleymsku. Önnur hafa líklega verið notuð í fyrsta skipti í gær á öðru landshorni, þannig að það er ekki von að við höfum heyrt þau eða þau séu komin á orðabók.

Þess vegna þýðir ekkert að fletta upp í orðabók til að gá að því hvort eitthvert orð sé til eða ekki. Ef orðið finnst þar, getum við að vísu sagt að svo sé, en þótt það vanti í orðabókina er ekki hægt að halda því fram að það sé ekki til. Það er heldur ekki tilgangur orðabóka að innihalda öll orð málsins, enda væri það ekki hægt af framangreindum ástæðum. Orðabækur láta oftast nægja að sýna stofnorð og algengari samsetningar.

Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, sem safnað hefur verið til síðan fyrir 1950, eru hins vegar tekin sem flest orð, jafnvel sjaldgæfar samsetn­ingar. Í safninu eru nú dæmi um hátt í 700 þúsund orð, en stór hluti þess fjölda eru orð sem aldrei eru notuð í nútímamáli og aðeins er til ein heimild um; mállýskubundin orð, óvenjulegar samsetn­ingar o.s.frv. Í Íslenskri orðabók eru orðin ekki nema kringum 100 þúsund og í Íslenskri nútímamálsorðabók um 54 þúsund. Auðvitað kann fólk ekki 700 þúsund orð, og ekki heldur 100 þúsund, enda duga okkur örfá þúsund til daglegra þarfa.

Þótt Ritmálssafnið hafi heimildir um nærri 700 þúsund orð segir það ekki alla söguna; í safninu eru aðeins orð sem heimildir eru um að hafi verið notuð eftir 1540, þegar fyrsta bókin var prentuð á íslensku – Nýja testa­menti Odds Gottskálkssonar. Fjölmörg orð til viðbótar koma fyrir í fornritum, en ekki annars staðar. Upplýsingar um orð sem koma fyrir í fornum textum er að finna í safni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn (Dictionary of Old Norse Prose) þar sem eru skráð hátt í 65 þúsund orð.

Fjöldi íslenskra orða hefur auðvitað verið í málinu allt frá fyrstu tíð, síðan landnámsmenn komu með móðurmál sitt frá Noregi. Sögu margra þeirra má rekja mun lengra aftur, jafnvel aftur í hið svokallaða indóevrópska frum­mál. En mikill fjöldi orða hefur bæst við á þeim 1150 árum sem síðan eru liðin, og þó allra mest nú á okkar tímum. Upplýsingar um aldur og uppruna margra íslenskra orða er að finna í Íslenskri orðsifjabók, sem er á Málið.is.

Viðbætur við orðaforðann eru af ýmsum toga. Fyrst og fremst má nefna innlenda nýsköpun: þau orð sem fyrir eru fæða af sér fleiri. Það gerist ýmist með því að eitt orð er myndað af tveimur eins og þegar orðunum snjór og hús er slegið saman í snjóhús, eða svonefndum forskeytum og viðskeytum er bætt við orð sem fyrir er, og út kemur orð skyldrar merkingar.

Dæmi um það er þegar viðskeytinu ‑ing(ur) er bætt við orðið menntaskóli, og um leið breytist ó í æ og út kemur orðið menntskælingur. Við höfum líka dæmi um að þessum tveimur aðferðum slái saman, eins og þegar orðið hýsi er myndað af hús, og orðið stór um leið sett þar fyrir framan; útkoman verður stórhýsi. Þau orð sem mynduð eru þannig af íslenskum stofni eru kölluð nýyrði.

Nýyrði bætast við á öllum öldum. Um þau eru fjölmörg dæmi þegar í fornmáli, bæði um orð sem hljóta að vera þar algerlega ný, eins og hlaupár, sumarauki, samviska; og eins hitt að gömlum orðum sé gefin ný merking. Það er talið hafa gerst með ýmis orð sem tengjast jarðeldi og jarðhita, eins og hver, laug og hraun; og einnig mörg sem tengjast átrúnaði, eins og jól og blóta.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hljóðlát framburðarbreyting

Um daginn skrifaði ég dálítið um tilbrigði í máli og nefndi að framburður hefði að mestu sloppið undan tilhneigingum til samræmingar, þótt frá því séu vissulega undantekningar eins og „flámælið“ svokallaða. Ein ástæða fyrir harðri baráttu gegn því var örugglega sú að það olli samfalli sérhljóða sem gat komið fram í stafsetningu – fólk skrifaði „sekur“ fyrir sykur, „flögur“ fyrir flugur – og öfugt. Ástæðan var sú að fólk heyrði ekki og/eða gerði ekki mun á i og e annars vegar og u og ö hins vegar, og átti því erfitt með að gera mun í ritun.

Framburðarbreytingar og tilbrigði í framburði sem ekki koma fram í stafsetningu eða hafa áhrif á hana fá hins vegar miklu frekar að vera í friði og fólk áttar sig jafnvel ekki á þeim. Vissulega tekur fólk eftir því hvort m, n og l eru rödduð eða órödduð á undan p, t og k í orðum eins og hampur, vanta og mjólk, en bæði tilbrigðin eru fullkomlega viðurkennd og hafa engin áhrif á stafsetningu. Hins vegar taka miklu færri eftir nýlegri framburðarbreytingu á orðum eins og buxur, hugsa, loksins o.s.frv.

Þetta eru orð sem ýmist eru skrifuð með x, gs eða ks og voru áður borin fram með önghljóði á undan s – sama hljóðinu og er t.d. á undan t í orðinu hægt. En á undanförnum áratugum hefur framburður þessara orða verið að breytast og lokhljóð komið í stað önghljóðsins – sama hljóðið og í hugga. Ég er fæddur 1955 og alinn upp við önghljóðið, en mér hafði sýnst að skilin hefðu orðið kringum 1960 – fólk sem væri fætt fyrir þann tíma hefði yfirleitt önghljóðsframburðinn, en fólk fætt eftir það hefði lokhljóðsframburðinn.

Í lítilli könnun sem ég gerði á þessu á Facebook var staðfest að lokhljóðsframburðurinn er nánast óþekktur hjá fólki fæddu 1960 eða fyrr. 1/6 þeirra sem tóku þátt í könnuninni og eru fædd milli 1960 og 1970 er með lokhljóðsframburðinn, og rúmlega þriðjungur þeirra sem eru fædd milli 1970 og 1980. Aftur á móti eru 2/3 þeirra sem eru fædd eftir 1980 með lokhljóðsframburð. Þetta er svipað og ég bjóst við, nema ég hélt að umskiptin hefðu verið sneggri.

Þetta rímar við niðurstöður úr Rannsókn á íslensku nútímamáli (RÍN) sem Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason stóðu fyrir upp úr 1980 – þar var framburðurinn sjaldgæfur hjá fólki yfir tvítugt þótt hann kæmi vissulega fyrir, og var þeim mun sjaldgæfari sem fólk var eldra. Ómögulegt er að segja hvort farið hafi að örla á framburðinum allnokkru fyrir 1960, eða hvort sumt fólk fætt fyrir þann tíma hafi (ómeðvitað) tekið framburðinn upp á fullorðinsaldri þótt það hafi upphaflega haft önghljóðsframburð.

Þótt þarna sé um að ræða breytingu sem hefur breiðst mjög hratt út og tekur til fjölda orða virðist hún hafa gengið yfir athugasemdalítið og jafnvel án þess að eftir henni væri tekið, eins og áður er sagt. Eina undantekningin sem ég man eftir er í kverinu Gætum tungunnar frá 1984, en póstar úr því birtust einnig í dagblöðum um svipað leyti. Þar er lögð áhersla á að g-ið í hugsa sé „alls ekki eins og í hugga“. Það er þó ljóst að lokhljóðið er komið til að vera í þessu hljóðasambandi.

En e.t.v. er þó ekki allt sem sýnist. Það kom fram að sumum fannst eðlilegt að bera hugsa fram með önghljóði þótt þau bæru orð eins og loksins og buxur fram með lokhljóði. Manni gæti dottið í hug að þarna ætti mismunandi stafsetning hlut að máli, en ég held varla – mér finnst líklegra að hugrenningatengsl við hugur, sem er alltaf með önghljóði, skipti máli. Einnig komu fram í umræðunni dæmi um að lags, eignarfall af lag, og Kópavogs væru með önghljóði hjá þeim sem annars hefðu lokhljóðsframburð.

Þarna gæti skipt máli að önghljóð er í öðrum beygingarmyndum orðanna (lag og Kópavogur) en í orðum eins og loksins og buxur eru engin slík víxl. Það er þekkt að tilvist tiltekins hljóðs í einni beygingarmynd getur leitt til þess að hljóðið sé notað í annarri beygingarmynd orðsins þótt það sé í andstöðu við almennar reglur. Dæmi um það er framburðurinn evstur með rödduðu hljóði (v), í stað efstur með órödduðu (f). Í íslensku er yfirleitt aldrei borið fram raddað v á undan s, en því bregður oft fyrir í þessu orði fyrir áhrif frá efri þar sem alltaf er borið fram raddað v.

Ég hafði alltaf staðið í þeirri meiningu að sama gilti um öll orð sem höfðu áður önghljóð (eins og í hægt) á undan s. En það sem hér kom fram bendir til þess að málið sé flóknara. Sennilega var óheppilegt að nota sögnina hugsa sem dæmi, og e.t.v. hefði hlutfall lokhljóðsframburðarins orðið hærra ef ég hefði spurt um buxur eða loksins. Þetta þarf greinilega að kanna nánar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hljóðavíxl í orðstofnum

Þótt staf­setning byggist vissu­lega á talmálinu fer því fjarri að hún endur­spegli fram­burð­inn nákvæmlega. Ein megin­ástæða þess er sú að rík tilhneig­ing er til þess að skrifa sama orð­stofn (eða sama orð­hluta) alltaf með sömu bókstöf­um, jafnvel þótt framburður­inn sé mismunandi. Þannig skrifum við k í nafn­hætti sagn­arinnar tak-a, og líka í við­tengingar­hætt­inum (þótt ég) tak-i, en framburðurinn er ekki sá sami. Í taka er sama hljóð og upphafshljóðið í galdur (eða kaldur, ef miðað er við harðmæli) en í taki er sama hljóð og upphafshljóðið í gjósa (eða kjósa, miðað við harðmæli).

Við skrifum líka p bæði í nafn­hætt­inum æp-a og þátíðinni æp-ti, þótt í fyrra dæminu sé borið fram b (eða p), en í því seinna alltaf f. Við skrifum g í nefni­fallinu dag-ur, þágu­fallinu deg-i og eignar­fallinu dag-s; samt berum við fram þrjú mismunandi hljóð í þessum myndum eins og þið getið gengið úr skugga um sjálf. Við skrifum f bæði í nefnifallinu hefill og þágufallinu hefli þótt við berum fram v í fyrri myndinni en b í þeirri seinni. Og við skrifum a bæði í nefnifallinu mag-i og aukaföll­unum mag-a, enda þótt við berum fram æ og j í fyrri myndinni en a og sama g-hljóð og í saga í þeirri seinni. Svo mætti lengi telja – dæmi af þessu tagi í málinu eru mýmörg.

Hvernig stendur á því að við breytum hljóðum í stofni eftir því hver endingin er? Í fljótu bragði er kannski eðlilegast að svara því til að þannig lærðum við málið. Börn læra það sem fyrir þeim er haft; mamma og pabbi nota eitt hljóð í taka en annað í taki, eitt hljóð í æpa en annað í æpti,  o.s.frv., og við öpum bara eftir þeim. En við nánari umhugsun kemur þó í ljós að svarið er ekki svona einfalt. Í fyrsta lagi er málið alltaf að breytast. Ef fólk segði aldrei annað en það sem það hefði heyrt aðra segja mætti búast við að málið héldist óbreytt um aldur og ævi. Því er þó ekki að heilsa; nýjungar eru alltaf að koma upp, og sýna að börn endurtaka ekki einfaldlega það sem fyrir þeim er haft.

Í öðru lagi er ljóst að við þurfum sjaldnast að læra beygingarmyndir nýrra orða hverja fyrir sig; við getum umsvifalaust búið til beygingarmyndir sem við höfum aldrei heyrt út frá einni eða tveimur myndum. Væntanlega hafið þið aldrei heyrt orðið *spaga, enda er það ekki til sem íslenskt orð svo að ég viti. En þótt g geti staðið fyrir ýmis mismunandi hljóð í íslensku er ég nokkurn veginn viss um að ef þið sæjuð þetta orð á prenti mynduð þið bera það fram þannig að það rímaði við saga – þið mynduð ekki nota hljóðið sem g stendur fyrir í orðum eins og galdur. Ef ykkur væri sagt að þetta væri sögn í nafnhætti yrðuð þið örugglega ekki í neinum vandræðum með að búa til fyrstu persónu fleirtölu (við) spögum, og breyta þar a í ö, né heldur aðra persónu fleirtölu (þið) spagið, og láta æ koma í stað a og j í stað g-hljóðsins.

Þarna er ljóst að okkur dugir ekki að endurtaka bara það sem annað fólk segir. Við hljótum líka að búa yfir einhverjum almennum reglum sem segja til um hvernig hljóð breytast eftir umhverfi sínu. Þetta eru ekki reglur sem við lærum í skóla eða af bókum; þetta eru reglur sem við tileinkum okkur óafvitandi um leið og við lærum málið, mynstur sem við greinum ómeðvitað í málinu sem við heyrum í kringum okkur, og beitum síðan ósjálfrátt og án umhugsunar. Hljóðavíxl á borð við þau sem hér hefur verið lýst má oft skýra þau með því að hljóð í beygingarendingunni (oftast upphafshljóð hennar) hafi áhrif á hljóð í stofninum (oftast lokahljóð hans); leitist við að gera það líkara sér.

Vegna þess að íslenska er tiltölulega mikið beyg­ingamál er mjög mikið um hljóðavíxl af þessu tagi í stofnum málsins; sami stofninn getur oft fengið margar mismunandi endingar, sem hefjast á ólíkum hljóðum og hafa því mismunandi áhrif á stofninn. Stóran hluta af þessum víxlum má skýra á þann hátt sem hér hefur verið gert; sem sé með því að upphafs­hljóð endingarinnar leitist við að laga lokahljóð stofnsins að sér. Við getum hugsað okkur þetta sem tilhneigingu til að létta talfærunum starfið; eftir því sem tvö samliggjandi hljóð eiga meira sameigin­legt þarf yfirleitt minna að hreyfa talfærin. Flest slík hljóðavíxl koma sennilega upp sem hljóðfræðilega eðlileg ferli; ferli sem hægt er að skýra út frá gerð og starfsemi talfæranna. Þau áhrif sem hljóð verða fyrir frá grannhljóðum sínum stefna í þessa átt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Framburður og stafsetning

Þótt talað mál sé grundvöllur mannlegs máls hefur fólk lengi kunnað aðferðir til að breyta því í ritmál. Algengasta aðferð­in, og sú sem við notum, er að láta bókstafi standa fyrir ákveðin hljóð. Við getum því í stórum dráttum skipt rituðu máli í einingar á sama hátt og töluðu máli, nema í ritmálinu heita einingarnar bókstafir en ekki hljóð. Oft eru gerðar athugasemdir við tilbrigði í framburði á forsendum stafsetningar – talað um að það eigi að „bera fram alla stafina“ eða eitthvað slíkt. Til að þessi samsvörun milli talaðs máls og ritaðs væri full­komin þyrfti hver bókstafur að svara til eins, og aðeins eins, hljóðs.

Það er þó auðvelt að ganga úr skugga um að svo er ekki. Einna skýrast kemur þetta í ljós í samanburði mis­munandi tungumála. Við vitum t.d. flest að þar sem skrifað er a í ensku er oft ekki borið fram sama hljóð og þar sem skrifað er a í íslensku, heldur iðulega eitthvað sem líkist ei. Sömuleiðis er e í ensku oft borið fram eins og þar væri skrifað í; og svo mætti lengi telja. Þetta sýnir okkur að samband bókstafa og hljóða er ólíkt eftir málum, og við þurfum að læra hvernig því er háttað í hverju nýju máli sem við lærum.

En reyndar er hér leitað langt yfir skammt. Hliðstæð dæmi eru mýmörg í íslensku, þótt við tökum sjaldnast eftir þeim vegna þess að þau eru okkur svo töm. Samt vita öll að þótt skrifað sé a í orðum eins og langur og ganga bera flest það fram eins og skrifað væri á; og þótt skrifað sé h í orðum eins og hvernig og hvenær ber meginhluti fólks það fram eins og skrifað væri k. Við getum líka skoðað fimm orð sem öll eru skrifuð með bókstafnum gː gata – geta – síga – sagt – bogi. Ef vel er að gáð kemur í ljós að þessi eini bókstafur stendur hér fyrir fimm mismunandi hljóð!

Sögnin geta er borin fram eins og þar væri skrifað gj; prófið bara að bera upphaf orðsins fram eins og þið væruð að fara að segja gata. Sögnina síga getið þið svo borið saman við orðið síga­retta. Þótt fyrri hluti þess orðs sé skrifaður eins og sögnin síga er framburðurinn ólíkur; í sígaretta er sama g-hljóðið og í gata, en í sögninni síga er greinilega annað hljóð. Í sagt bætist við enn eitt hljóð; reynið þið bara að setja eitthvert þeirra þriggja hljóða sem á undan eru komin þarna í staðinn og athugið hvort þið heyrið ekki mun. Að lokum er svo bogi, sem er borið fram eins og þar væri skrifað j en ekki g. Við þetta mætti svo bæta orðum eins og margt, sem alltaf er borið fram eins og það væri skrifað mart.

Við höfum því dæmi um að í íslensku séu tengsl milli bók­stafsins g og framburðar á a.m.k. sex mismunandi vegu; g getur svarað til fimm mismunandi hljóða og að auki til „ekki neins“, eins og í margt. Þessi margræðni veldur okkur samt yfirleitt engum vandræðum í íslensku, vegna þess að við kunnum málið og þekkjum reglur þess án þess að gera okkur grein fyrir því. Við „vitum“ að g svarar til annars hljóðs ef e er á eftir (eins og í geta) en ef a fer á eftir (eins og í gata). Við „vitum“ líka að g svarar til annars hljóðs (eða annarra hljóða) inni í orði en í upphafi orðs; og við „vitum“ að g er borið fram eins og j inni í orði ef i fer á eftir (eins og í bogi).

Ástæðan fyrir því að við getum notað ritað mál til að tákna talmál er sem sé ekki sú að milli eininga í talmáli (hljóðanna) og eininga í ritmáli (bókstafanna) sé alltaf fullkomin samsvörun, heldur sú að þegar við lærðum að lesa lærðum við hvernig tengslunum milli bókstafa og hljóða er háttað. Þótt sami bókstafur geti staðið fyrir mörg hljóð, og sama hljóðið geti verið táknað með mismunandi bókstöfum, er sambandið ekki tilviljanakennt – um það gilda reglur sem taka mið af stöðu í orði og bókstöfum og hljóðum í umhverfinu.

Það er bara í örfáum tilvikum sem stafsetningin sýnir ekki framburð svo að ótvírætt sé. Helst er það í orðum með tvíritað l, eins og villa, sem bæði getur þýtt ‘mistök, eitthvað sem gert er rangt’ og líka ‘stórt og íburðarmikið hús’. Fyrra orðið er borið fram eins og skrifað væri dl, en í því seinna er borið fram langt l. Í sumum orðum með tvíritað n getur framburður líka verið mismunandi eftir merkingu. Orðið brúnni er borið fram með dn ef það er beygingarmynd af lýsingarorðinu brúnn, en með löngu n ef það er mynd af nafnorðinu brú. Eins geta skil orðhluta í samsetningum haft áhrif á framburð og ekki auðvelt að setja reglur um það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Blanda af báðu

Fyrir nokkrum árum fór ég stundum á ágætan grænmetisstað niðri í bæ. Þar voru yfirleitt tveir aðalréttir í boði, en svo var þriðji möguleikinn, „Blanda af báðu“ – þ.e. blanda af báðum aðalréttunum. Ég get ekki neitað því að ég tók eftir þessu orðalagi og fannst það dálítið skrítið þótt ég áttaði mig auðvitað á því að báðu hlyti að vera beygingarmynd af fornafninu báðir. Orðmyndin báðu lítur út eins og venjuleg mynd fornafns eða lýsingarorðs í þágufalli eintölu hvorugkyni, hliðstætt við t.d. blanda af tvennu, blanda af öllu, blanda af mörgu o.s.frv. En vandinn er sá að báðir er (venjulega) ekki til í eintölu eins og sést í beygingardæmi orðsins í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Myndin báðu er vissulega ekki algeng, a.m.k. ekki á prenti, en á sér þó langa sögu í málinu. Sambandið jöfnu báðu (nóns og miðaftans / óttu og miðmorguns o.fl.) þekkist a.m.k. frá miðri 19. öld – elsta dæmið um það á tímarit.is er í Fjölni 1847, þar sem sagt er frá andláti Jónasar Hallgrímssonar: „það var hjer um bil jöfnu báðu miðsmorguns og dagmála, hálfri stundu áður, enn taka átti af honum fótinn“. Sambandið hefur verið nokkuð notað síðan og Halldór Laxness virðist hafa haft sérstakt dálæti á því.

En elsta dæmi sem ég hef fundið um báðu í öðru samhengi er í Búnaðarritinu 1896: „að eigi sé sama veiklun, sjúkdómur eða sjúkdómsspíra hjá báðu foreldri.“ Í Bjarma 1913 segir: „»Nýja guðfræðin« er hvorki trú né skoðun, heldur undarlegur blendingur af báðu, og í rauninni skrípamynd hvors tveggja.“ Hér er athyglisvert að í þágufallinu er notuð myndin báðu, en í eignarfallinu er svo notað fornafnið hvor tveggja, eins og þykir „rétt“ – ekki eignarfallsmyndin *bæðis (eða *báðs).

Önnur dæmi sem ég hef rekist á eru m.a. úr Iðunni 1921: „fallið á steininum má skýra jafn-vel með báðu móti.“ Í Morgunblaðinu 1960 segir: „Við höfum reynt að draga reynslu og lærdóm af báðu.“ Í Bæjarins besta segir árið 2007: „Þegar maður vinnur hjá báðu þá er maður í teng[s]lum við vel flesta þarna innanhúss.“ Og fyrirsögn í Vísi 1972 gekk alveg fram af Helga Hálfdanarsyni sem skrifaði í greininni „Meira magn af báðu“ í Morgunblaðinu 1973: „Líklega keyrir þó um þverbak, þegar blað birtir forustugrein, sem ber fyrirsögnina Það bezta af báðu. Fróðlegt væri að sjá önnur föll þess „orðs“, sem þar stendur í þágufalli.“

Ég held reyndar að önnur föll í eintölu af báðir séu einmitt ekki til. Í Málfarsbankanum telur Jón G. Friðjónsson að þolfallið bæði komi t.d. fyrir þegar spurningum eins og Viltu mjólk eða sykur út í kaffið? er svarað með Bæði. Mér finnst hins vegar eðlilegast að líta svo á að þarna sé um að ræða samtenginguna bæði – og þannig að bæði sé stytting fyrir bæði mjólk og sykur. Jón nefnir reyndar að mörg svipuð dæmi megi hugsanlega skýra á þennan hátt. Eignarfallsmyndina *bæðis kannast ég ekki við og hef aldrei séð dæmi um hana og held að hún sé ekki til, sbr. líka dæmið hér að framan þar sem báðu er notað í þágufalli en hvors tveggja í eignarfalli.

Ef báðir fengi eintölubeygingu í öllum föllum hvorugkyns mætti búast við nefnifallinu *báð. Fornöfn og lýsingarorð bæta að vísu yfirleitt við sig -t í hvorugkyni, en flest lýsingaorð með -áð í stofni eru undantekning – þar er hvorugkynið endingarlaust (fjáð, háð, smáð, þjáð). Þó bætir bráður við sig -t í hvorugkyni sem verður brátt með tilheyrandi samlögun (og aðblæstri) þannig að nefnifall eintölu *bátt af báðir væri líka hugsanlegt. En ég hef hvorki heyrt *báð né *bátt og hef enga trú á að þessar myndir séu til – e.t.v. vegna þess að hægt er að nota bæði sem e.k. staðgengil. Eignarfallið ætti að vera *báðs en það er varla til heldur.

Ég varð vissulega svolítið hissa að sjá Blanda af báðu á matseðli grænmetisstaðarins, en ég hefði samt orðið mun meira hissa ef þar hefði staðið Blanda af hvoru tveggja. Ég held nefnilega að „rétt“ notkun fornafnsins hvor tveggja (að ekki sé talað um hvortveggi) sé það atriði íslensks málstaðals sem er fjærst máltilfinningu venjulegra málnotenda. Reyndar er Málfarsbankinn ekki alveg afdráttarlaus með þetta en segir „Betra er að segja hvorar tveggja buxurnar en „báðar buxurnar““ – kveður sem sagt ekki upp úr með að það síðarnefnda sé „rangt“.


Ég stórefa að nokkur almennur málnotandi kaupi hvorar tveggja buxurnar, týni hvorum tveggja skærunum eða telji hvorn tveggja málstaðinn góðan. Það er ekki nokkurt vit í að halda í svona forngrip sem fæstir hafa á valdi sínu og mér finnst sjálfsagt að tala um báðar buxurnar, bæði skærin og báða málstaðina – og blöndu af báðu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kreppa eða krísa?

Ég var nýlega spurður út í orðin kreppa og krísa – hvort þau merktu það sama, og hvort þeirra ætti að nota. Mér fannst þetta áhugavert og fór að kanna málið aðeins og komst að því að krísa er nýlegt tökuorð – fer fyrst að sjást á prenti um 1970 en verður ekki algengt fyrr en eftir 1980 og kemur t.d. ekki fyrir í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1982. Það hefur þó örugglega verið notað eitthvað í töluðu máli löngu fyrr – kemur t.d. fyrir í pistli í Fálkanum 1940 þar sem verið er að gera grín að slangri og slettum. Orðið gæti hafa komið inn í íslensku hvort heldur er úr dönsku (krise) eða ensku (crisis) þótt danskan sé kannski líklegri.

Bæði í netútgáfu Íslenskrar orðabókar á Snöru og í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið krísa merkt „óformlegt“. Í síðarnefndu bókinni er það skýrt sem 'ótryggt ástand, erfiðleikar' eða 'sálræn vandamál, t.d. eftir áfall'. Skýring orðsins kreppa er aftur á móti 'vandræði, klípa' eða 'verulegir örðugleikar í efnahagsmálum, með atvinnuleysi og sölutregðu, efnahagskreppa'. Skýringarnar í Íslenskri orðabók eru mjög svipaðar en um kreppu segir þó einnig 'samfelldir erfiðleikar sem ógna venjulegu starfi eða framgangi hóps, fyrirtækis, stofnunar'.

Tilfinning mín fyrir merkingu þessara orða fellur að mestu að þessum skýringum þótt ýmsu mætti bæta við til að orða merkinguna nákvæmar. Mér finnst krísa geta átt við hvers kyns erfiðleika og vandræðaástand sem iðulega kemur snöggt og óvænt upp á. Jafnframt finnst mér að það sé oft hugsanleg lausn á krísunni – það sé á valdi þeirra sem lenda í krísunni að leysa hana eða komast úr henni, af eigin rammleik eða með hjálp annarra. Mér finnst líka að krísa sé yfirleitt ekki langvarandi – annaðhvort leysist hún og við sleppum úr krísunni eða allt hrynur í einhverjum skilningi.

Orðið kreppa eitt og sér finnst mér eingöngu merkja 'efnahagskreppa'. Vissulega eru til ýmsar aðrar kreppur – tilfinningaleg kreppa, sálarkreppa, stjórnarkreppa o.s.frv., en þá er orðið annaðhvort hluti samsetts orðs eða með ákvæðisorði sem skilgreinir merkinguna nánar. Mér finnst líka að kreppa sé iðulega langvarandi, og hún er ástand sem ekki verður leyst eða komist úr á skömmum tíma eða með tilteknum aðgerðum, þótt hægt sé að grípa til ýmissa aðgerða sem stuðla að því smátt og smátt að kreppan leysist.

Þótt krísa sé vissulega tökuorð sem hefur verið talið óformlegt er engin ástæða til annars en nota það, jafvel í formlegu málsniði, ef það gerir gagn í málinu – það fellur ágætlega að hljóðkerfi og beygingarkerfi málsins. Eins og hér hefur komið fram er talsverður munur á merkingu og notkun orðanna kreppa og krísa. Því er ljóst að krísa er gagnlegt orð og ég mæli með því að það verði viðurkennt sem fullgild íslenska.

Posted on Færðu inn athugasemd

Nauðsyn nýrra viðmiða

Reiðareksmönnum“ eins og mér er iðulega borið það á brýn að telja allt sem fólk segir eða skrifar jafngott og jafngilt. En það er fjarri sanni, og ég fellst fúslega á að það sé gott og gagnlegt – og nauðsynlegt – að hafa einhver viðmið um vandaða, formlega íslensku. Ég held hins vegar að það sé mjög brýnt að breyta þeim viðmiðum sem hafa gilt undanfarna öld og færa í átt til þess máls sem almenningur talar og skrifar – ekki endilega í öllum atriðum, og ekki endilega alla leið. Þetta þarf helst að gerast án þess að fórnað sé hinu órofa samhengi í íslensku ritmáli sem svo oft er vegsamað – með réttu.

Vandinn er bara sá að við höfum hvorki tæki né vettvang til slíkra breytinga. Það hefur enginn lengur þá stöðu sem Björn Guðfinnsson, Halldór Halldórsson, Árni Böðvarsson, Gísli Jónsson og Baldur Jónsson (allt karlmenn, auðvitað) höfðu á síðustu öld. Ég held að það vilji heldur enginn hafa slíka stöðu – eða vilji að einhver einn hafi þá stöðu yfirleitt. Ef einhver ætti að beita sér fyrir endurskoðun viðmiðanna væri það kannski helst Íslensk málnefnd sem hefur m.a. það hlutverk „að veita stjórn­völdum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli“. Samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var vorið 2019 ber Íslenskri málnefnd að hafa forystu um endurskoðun íslenskrar málstefnu sem á að ljúka fyrir árslok 2020.

En almenn stefna er eitt, útfærsla hennar annað, og jafnvel þótt einhver hefði boðvald eða kennivald til að endurskoða viðmiðin væri það ýmsum vandkvæðum bundið. Þau eru nefnilega hvergi skráð nema að hluta til – þau felast mestanpart í einhverri tilfinningu sem erfitt er að negla niður, og fæst varla nema með lestri texta þar sem honum er fylgt. Ég vona samt að endurskoðuð málstefna felist ekki bara í almennum orðum sem við gerum öll tekið undir, heldur verði einnig hugað að því að endurskoða viðmið um vandað og viðurkennt íslenskt mál. Fyrsta skrefið er að vekja umræðu og greina stöðuna.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tilbrigði og stéttaskipting

Tilbrigði í máli hafa verið heldur illa séð á Íslandi síðan á 19. öld. Þar sem mismunandi málvenjur hafa verið uppi hefur verið lögð áhersla á að hampa einni þeirra sem réttri en segja hinar „rangt mál“. Þetta gildir á flestum sviðum málsins – í beygingum, fallstjórn, orðaröð, setningagerð og merkingu orða. Dæmin eru svo mörg og svo vel þekkt að óþarfi er að tilgreina þau hér. Eina svið málsins sem hefur sloppið að mestu við þessa samræmingaráráttu er framburður. Vissulega lagði Björn Guðfinnsson fram tillögur að samræmingu framburðar um miðja síðustu öld en þeim var ekki hrundið í framkvæmd, þótt ómögulegt sé að segja hvað hefði orðið ef Birni hefði enst aldur til að fylgja þeim eftir.

Þótt óneitanlega hafi tíðkast að gera grín að ýmsum framburðartilbrigðum hafa þau sjaldnast verið talin beinlínis röng. Sennilega stafar þetta af því að tilbrigðin tengdust flest tilteknum landsvæðum og fólk greip til varna fyrir sitt hérað. Þau fáu tilbrigði sem hafa leyfst á öðrum sviðum, svo sem í beygingu og merkingu, hafa flest verið af þessu tagi – tiltekin beyging eða merking orðs tengist ákveðnu landsvæði og er þess vegna frekar umborin. Einu framburðartilbrigði, „flámælinu“ svokallaða, var þó reynt að útrýma skipulega – með ýmsum aðferðum sem sumar hverjar þættu ekki við hæfi nú. En það var einmitt ekki bundið einu tilteknu landsvæði heldur kom upp á nokkrum stöðum á landinu – og sum þeirra landsvæða voru ekki hátt skrifuð meðal þeirra sem réðu mestu í menntun og menningarlífi.

Fólk sem ræður yfir tungumálinu ræður yfir þjóðfélaginu og andstaðan við tilbrigði er í grunninn pólitík. Hún beinist gegn máli þeirra sem eiga undir högg að sækja, þeirra sem eru ekki í valdastöðum í þjóðfélaginu. Þess vegna eru landshlutabundin tilbrigði viðurkennd og jafnvel hampað – þau eiga sér þingmenn. En málbrigði sem einkum eru bundin við ungt fólk og fólk sem er lítið menntað, af erlendum uppruna, eða stendur af einhverjum sökum höllum fæti í þjóðfélaginu eiga sér enga þingmenn. Þess vegna eru þau fordæmd og voru iðulega – þótt það sjáist sem betur fer sjaldan í seinni tíð – tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort, og höfuðborgarsvæðið.

Með þessu er ég hvorki að segja að öll málvöndun sé af hinu illa né að fólk sem amast við tilbrigðum í máli sé meðvitað að reyna að halda öðrum niðri. Því fer fjarri. Þvert á móti er ég sannfærður um að flestum sem gera athugasemdir við málfar og beita sér gegn málbreytingum gengur gott eitt til og vilja fyrst og fremst vernda og varðveita íslenskuna. En andstaða við tilbrigði í máli er ekki rétta aðferðin til þess. Sú andstaða fletur og geldir málið, auk þess sem hún ýtir undir málfarslega mismunun og stéttaskiptingu. Í rannsóknum undanfarinna áratuga hafa komið fram skýrar vísbendingar um tengsl ákveðinna fordæmdra málbrigða hjá börnum við menntun og þjóðfélagsstöðu foreldra. Við þurfum að vinna gegn því í stað þess að ýta undir það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hertari aðgerðir

Á þessum tímum þegar sífellt er verið að grípa til einhverra aðgerða í baráttunni við kórónuveiruna heyrir maður oft talað um hertari aðgerðir – í miðstigi. Það má halda því fram að miðstigið sé þarna óþarft vegna þess að það felist í grunnmerkingu orðsins – nóg sé að segja hertar aðgerðir. Sá munur er á merkingu lýsingarorðsins harður og lýsingarorðsins (eða lýsingarháttarins) hertur að hið fyrrnefnda felur ekki í sér breytingu á ástandi en hið síðarnefnda gerir það.

Hér spilar líka inn í að þegar sífellt er verið að herða aðgerðir finnst fólki það kannski kalla enn frekar á miðstigið – um daginn var gripið til hertra aðgerða, og nú á að grípa til enn hertari aðgerða. Það má líka halda því fram að þetta geti að einhverju leyti farið eftir því við hvað er miðað – ef miðað er við eðlilegt ástand má segja að aðgerðirnar séu hertari en þær sem síðast var gripið til, en ef miðað er við núverandi ástand eru þær bara hertar frá því.

En samt: Það er varla hægt að segja að það sé rangt að tala um hertari aðgerðir en miðstigið er þarna óþarft – merkingin skilar sér alveg í frumstiginu. Það er samt sem áður ekkert undarlegt að fólk noti miðstig þarna – við erum vön því að nota miðstig einmitt til að tákna aukningu á því sem í orðinu felst, eins þarna er um að ræða, og hyllumst því til að bæta miðstigsendingunni við þótt hún sé strangt tekið óþörf.

Á vissan hátt má segja að þetta sé hliðstætt því þegar talað er um hæstlaunuðustu störfin eða fólkið – þar er efsta stigið komið fram í fyrri hluta orðsins, en af því að við erum vön að tákna það með endingu aftast í orðinu finnst okkur hún þurfa að koma líka.