Category: Málfar

Að fasa út

Í Málvöndunarþættinum sá ég amast við sambandinu fasa út sem er algengt í fréttum og annarri opinberri umræðu og skýrslum þessa dagana. Forsætisráðherra sagði t.d. nýlega í viðtali: „Við tölum mjög skýrt fyrir þeirri afstöðu að fasa út jarðefnaeldsneyti og að hætta opinberum niðurgreiðslum á því.“ Í skýrslunni Vindorka: Valkostir og greining sem Stjórnarráðið gaf út í apríl sl. segir: „Ljóst er að ef markmið ríkisstjórnarinnar um að fasa jarðefnaeldsneyti að fullu út á næstu 17 árum á að nást þarf að huga heildstætt að nýtingu orkukerfisins.“ Í Skýrslu starfshóps um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum frá því í júní sl. segir: „Markmið: Að fasa út notkun jarðefnaeldsneyti[s] til húshitunar á Vestfjörðum fyrir árið 2030.“

Ljóst er af samhengi að fasa út er þarna notað í sömu merkingu og enska sambandið phase out sem það er komið af og skýrt er 'to remove or stop using something gradually or in stages', þ.e. 'fjarlægja eða hætta að nota eitthvað smátt og smátt eða í skrefum'. Þetta er mjög nýlegt orðalag í íslensku – elsta dæmi sem ég finn er í héraðsdómi frá 2011 þar sem segir: „í því er gert ráð fyrir að SPRON geti fasað út þjónustuþætti.“ Í Vísi 2016 segir: „Heimasíminn lifir enn góðu lífi og það lítur út fyrir að honum verði fasað út hægt og rólega.“ Í Morgunblaðinu 2016 segir: „Ákváðu stjórnvöld þá að fasa út kjarnorku og loka kjarnorkuverum.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Þar verður m.a. rætt samnorrænt átak að fasa út plasti í forhlöðum haglaskota.“

Þegar nýjar áhrifssagnir koma inn í málið getur verið spurning hvaða falli þær stýra, og eins og dæmin hér að framan sýna virðist fallstjórn fasa vera á reiki. Þolfall er notað í „fasa út þjónustuþætti“ en þágufall í „honum verði fasað út“ og „fasa út plasti“. Dæmi eru um ýmist þolfall eða þágufall með sama orði: Í Bændablaðinu 2020 er sagt að „fyrsti áfangi Símans við að fasa út PSTN koparkerfið, heimasíma, hefjist 1. október næstkomandi“ en í Morgunblaðinu sama ár segir: „Danir fóru þá leið að fasa út ákveðnum grunnkerfum.“ Í algengustu notkun orðsins, dæmum eins og „fasa út jarðefnaeldsneyti“, „fasa út notkun jarðefnaeldsneytis“ „fasa út olíu“ o.fl., er hins vegar ekki hægt að sjá hvort um þolfall eða þágufall er að ræða.

Þar eð sambandið er mjög nýlegt finnst sögnin fasa ekki í orðabókum en hún fellur ágætlega að málinu, sbr. nasa, rasa, þrasa o.fl. Aðeins 14 dæmi er um fasa út á tímarit.is, flest frá síðustu þremur árum, og innan við tíu í Risamálheildinni. Aftur á móti eru tíu dæmi um nafnorðið útfösun á tímarit.is, það elsta frá 2002 en flest frá síðustu fimm árum, og yfir 50 dæmi í Risamálheildinni. Notkun fasa út hefur margfaldast á síðustu mánuðum, einkum í tengslum við loftslagsumræðu en einnig í öðru samhengi. Einnig hefur sambandið fasa niður heyrst í svipuðu samhengi en í ensku er til phase down í sömu merkingu og phase out. Sambandið fasa út er gagnlegt í íslensku – merkir annað en bæði draga úr og hætta. Ég sé ekkert mæla gegn því.

Gæti ChatGPT verið íslenskt orð?

Eins og áður hefur verið nefnt hér stendur nú yfir val á orði ársins 2023 á Rás tvö og Árnastofnun hefur einnig valið orð ársins undanfarin ár út frá Risamálheildinni. Sambærilegt val fer fram víða erlendis en á mismunandi forsendum eftir löndum – sums staðar kjósa málnotendur orðið, annars staðar eru það opinberar málræktarstofnanir sem sjá um valið og enn annars staðar fyrirtæki á sviði orðabókagerðar. Hér var nýlega nefnt að Oxford-orðabókin valdi rizz sem orð ársins í Bretlandi en Bandaríkjunum valdi Merriam-Webster orðabókin aftur á móti authentic þótt rizz væri einnig ofarlega á blaði þar. Í Danmörku er valið úr tillögum málnotenda í samvinnu dönsku málnefndarinnar, Dansk Sprognævn, og útvarpsþáttarins „Klog på Sprog“.

Orðið sem varð fyrir valinu í Danmörku þetta árið er ChatGPT. Það er vitanlega mjög sérstakt orð, ef orð skyldi kalla – fyrri hlutinn er enska orðið chat og borinn fram eins og það orð, en seinni hlutinn er skammstöfunin GPT sem stendur fyrir Generative Pre-trained Transformer, og sá hluti er ekki borinn fram sem heild heldur hver bókstafur fyrir sig. Þessi samsetning er vitanlega orðin mjög algeng í íslensku samhengi líka en ég býst þó varla við því að hún komi til álita sem orð ársins í íslensku. Þótt tökuorð úr ensku eigi tiltölulega greiða leið inn í málið og falli oft ágætlega að því er mér til efs að við myndum nokkurn tíma kalla þetta íslenskt orð – eða orð yfirleitt – til þess er bæði orðhlutagerð þess og hljóðafar of framandi.

Orð með skammstöfun sem seinni lið á sér ekki fordæmi í íslensku og kemur í veg fyrir að hægt sé að taka ChatGPT inn í málið í óbreyttri mynd. En við það bætist hljóðafarið. Orðið chat er í ensku borið fram [tʃæt] og hvorki [tʃ] né [æ] eru venjuleg íslensk málhljóð. Við setjum a í stað [æ] og getum sett tsj í stað [tʃ] en engin íslensk orð byrja á tsj- þótt vissulega séu tökuorð eins og tsjilla algeng í óformlegu máli. Svo er spurning hvernig lesum úr seinni hlutanum, GPT, sem ekki hefur að geyma nein sérhljóð og er því ekki hægt að bera fram sem orð. Notum við þá ensk heiti bókstafanna (aðlöguð íslenskum framburði) og segjum tsjattdsjípítí eða eitthvað í þá átt, eða notum við íslensku heitin og segjum tsjattgépété? Tíminn verður að leiða það í ljós.

Hvers konar frávik er vegna ofbeldi?

Ég rakst á fyrirsögnina „Óttast að missa barnið frá sér vegna ofbeldi fyrrverandi“ á mbl.is í dag. Nú stjórnar forsetningin vegna eignarfalli og ofbeldi er hvorugkynsorð sem ætti að fá endinguna -s í eignarfalli eins og önnur nafnorð í því kyni (önnur en þau sem enda á -a) – þarna ætti sem sé að standa vegna ofbeldis ef málhefð væri fylgt. Auðvitað gæti þetta verið einhvers konar frágangs- eða fljótfærnisvilla og þá er svo sem ekki meira um það að segja, en einnig gæti þetta verið vitnisburður um byrjandi málbreytingu. Undanfarin rúm 40 ár hefur því oft verið haldið fram að eignarfall stæði höllum fæti í málinu og stundum verið talað um „eignarfallsflótta“ í því sambandi, allt frá því að Helgi Skúli Kjartansson skrifaði grein með því heiti 1979.

Slík breyting gæti verið af mismunandi toga. Einn möguleiki er sá að fallstjórn forsetningarinnar vegna sé að breytast – hún taki ekki lengur alltaf með sér eignarfall heldur geti stundum tekið þolfall eða þágufall. Í sumar skrifaði ég um dæmi eins og vegna hlýnun sem eru nokkuð algeng og taldi að þau væru „frekar til marks um að kvenkyns -un-orð séu farin að missa eignarfallsendinguna en að fallstjórn forsetningarinnar vegna sé að breytast“ en bætti við: „Þetta þarf þó að kanna miklu nánar, og vel má vera að einhver merki séu líka um breytta fallstjórn.“ Það væri óheppilegt ef fallstjórn vegna væri að breytast – fyrir utan til er hún aðalforsetningin sem stjórnar eignarfalli og breytt fallstjórn hennar myndi því veikja stöðu þess.

Annar möguleiki er að beyging orðsins ofbeldi sé að breytast – það fái ekki lengur endilega -s-endingu í eignarfalli heldur geti verið endingarlaust. Það væri eiginlega mun alvarlegra en breytt fallstjórn vegna – sterk hvorugkynsorð eru mjög stór flokkur orða og breyting á beygingu þeirra, sem kæmi þannig út að þau hvorugkynsorð sem enda á -i hættu að beygjast vegna þess að öll föll þeirra í eintölu yrðu þá eins, væri því veruleg breyting á kerfinu og í raun veiking þess. En þriðji möguleikinn er sá að þetta snúist hvorki um fallstjórn né beygingarmynd, heldur um kyn – orðið ofbeldi sé sem sagt notað þarna í kvenkyni í stað hvorugkyns. Kvenkynsorð sem enda á -i geta nefnilega verið endingarlaus í eignarfalli, svo sem gleði, reiði, athygli, illgirni o.m.fl.

Það eru dæmi um að orð af þessari gerð fari milli kynja. Orðið athygli sem nú er alltaf haft í kvenkyni var t.d. ekki síður hvorugkynsorð áður fyrr og -s- í lýsingarorðinu athyglisverður er því alveg eðlilegt. Þótt ofbeldi sé nær alltaf hvorugkynsorð má finna einstöku dæmi á netinu um að það sé haft í kvenkyni. Á Bland.is 2005 segir: „ég varð fyrir mikilli líkamlegri og andlegri ofbeldi af barnsföður mínum.“ Á Blog.is 2009 segir: „Á mótmælafundinum í dag var engin ofbeldi.“ Í DV 2018 segir: „Mikil ofbeldi hefur átt sér stað undanfarna daga í borginni Ghazipur í Uttar Pradesh héraðinu í Indlandi.“ Í Vísi 2021 segir: „Það er alveg jafn mikil ofbeldi.“ Dæmi af þessu tagi eru þó vissulega mjög fá og ekki hægt að draga miklar ályktanir af þeim.

Það eru sem sé fjórar hugsanlegar skýringar á því fráviki frá málhefð sem kemur fram í fyrirsögninni sem nefnd var í upphafi. Fyrir utan að vera frágangsvilla getur þetta sýnt breytta fallstjórn forsetningarinnar vegna, breytta fallbeygingu nafnorðsins ofbeldi, eða breytt kyn orðsins. Af hinum þremur hugsanlegu málfræðilegum skýringum er sú síðastnefnda „æskilegust“, ef svo má segja, frá sjónarhorni tungumálsins. Hinar tvær eru nefnilega röskun á kerfinu en breyting á kyni einstaks orðs, sem formsins vegna gæti verið af tveimur mismunadi kynjum, hefur engin víðtækari áhrif. Í stað þess að afgreiða frávik frá málhefð einfaldlega sem „villur“ er miklu gagnlegra að velta fyrir sér í hverju þau felast – og hvaða áhrif þau gætu haft.

Fatafellur og stripparar

Í Málvöndunarþættinum var vísað í frétt um kaup starfskvenna Lögreglustjóraembættisins í Reykjavík á „karlkyns fatafellu“ og spurt: „Karlkyns fatafella – er hann ekki bara fatafellir.“ Þarna koma skýrt fram þau tengsl sem mörgum finnst vera milli málfræðilegra kynja starfsheita og kyns þeirra sem störfunum gegna. Það er alkunna að meginhluti hvers kyns starfs- og hlutverksheita í íslensku er karlkyns og mörgum þykir fullkomlega eðlilegt að þau séu ekki bara notuð um karla, heldur líka um konur og kvár og bregðast ókvæða við ef reynt er að breyta því. Öðru máli gegnir hins vegar þegar karlar sinna störfum sem konur hafa einkum gegnt og hafa kvenkyns starfsheiti – þá þykir oft sjálfsagt eða nauðsynlegt að búa til karlkynsorð.

Elstu dæmi um orðið fatafella á tímarit.is eru frá 1967 – í Tímanum það ár segir að „fatafellan Zicki Wang“ hafi nýlega haldið „af landi brott eftir að hafa skemmt í Lídó um nokkurra vikna skeið“. Þessi tegund „skemmtunar“ virðist þá hafa verið ný á Íslandi en blómstraði á áttunda áratugnum, ekki síst með hinni dönsku Susan sem baðaði sig á dansgólfinu við mikinn fögnuð margra. Vinsældir slíkra „skemmtana“ má marka af tíðni orðsins fatafella sem dalaði nokkuð á níunda áratugnum en rauk upp aftur á þeim tíunda með tilkomu ýmissa nektardansstaða. Framan af voru það nær eingöngu konur sem fækkuðu fötum, og skýring orðsins fatafella í Íslenskri nútímamálsorðabók er í samræmi við það: 'kona sem sýnir nektardans á skemmtistað'.

Á tíunda áratugnum fór þó að bera á karlmönnum sem stunduðu sambærilega iðju. Þeir fengu hins vegar sjaldnast starfsheitið fatafella, nema þá að karlkyns fylgdi með. Þess í stað var tekið upp karlkynsorðið strippari. Það sést fyrst í Mánudagsblaðinu 1971 og vísar þá til kvenna, en sést næst í blöðum 1990 – í auglýsingu um „Kvennahátíð“ í Morgunblaðinu það ár segir: „Einnig ætla velvaxnir „STRIPPARAR“ að sýna listir sínar.“ Þetta orð verður svo algengt á tíunda áratugnum og það sem af er þessari öld eru orðin fatafella og strippari álíka algeng á tímarit.is. Sama gildir um Risamálheildina að undanskildum samfélagsmiðlahlutanum þar sem strippari er mun algengara enda þykir það væntanlega óformlegra orð vegna ensks uppruna.

En þrátt fyrir enskan uppruna er strippari ekkert óíslenskulegt orð og auðvitað skylt sögninni striplast sem á sér langa sögu í málinu. Í óformlegu máli virðist algengara en annars staðar að strippari vísi til kvenna en það kann að stafa af áhrifum frá ensku þar sem stripper er notað bæði um karla og konur. Þrátt fyrir það er verkaskipting orðanna fatafella og strippari, sem skýrt er 'nektardansari eða nektardansmær' í Íslenskri nútímamálsorðabók, nokkuð skýr –langoftast er karlkynsorðið notað um karla, kvenkynsorðið um konur. Þótt vissulega séu ýmis dæmi um að strippari vísi til kvenna er mun sjaldgæfara að fatafella vísi til karla. Þetta er því skýrt dæmi um að í málvitund margra eiga kvenkyns starfsheiti ekki við um karla.

Rizz og rizza eða riss og rissa

Í þættinum „Vikan með Gísla Marteini“ í gærkvöldi spurði Bergrún Íris Sævarsdóttir aðra þátttakendur um merkingu orða úr unglingamáli sem notuð voru í prófi sem nemendur í Dalskóla lögðu fyrir kennara sína í framhaldi af umræðum um PISA-prófið. Annað orðanna var rizz – reyndar var myndin rizza nefnd líka og sögð merkja 'reyna við'. Orðið er komið af enska orðinu charisma sem merkir 'persónutöfrar' en í ensku getur myndin rizz verið bæði nafnorð og sögn. Í íslensku verða sagnir hins vegar að fá nafnháttarendingu og því verður myndin rizza til, eins og í Valentínusarblaðinu í Kvennaskólanum 2023: „Þú hefur kennt mér margt í dag Valentínus, ég þarf kannski að vinna í sjálfum mér áður en ég get byrjað að reyna að rizza aðra.“

Ef nafnorðið rizz og sögnin rizza eiga að falla fullkomlega að íslensku þarf að breyta bæði stafsetningu og framburði þeirra örlítið. Bókstafurinn z er ekki hluti íslenska stafrófsins og svarar ekki til neins sérstaks hljóðs. Í ensku og mörgum erlendum málum stendur z fyrir raddað s, en það hljóð er ekki til í venjulegum íslenskum framburði. Þegar z var notuð íslensku var hún borin fram eins og s, og þegar erlend orð með z eru tekin inn í málið eru þau yfirleitt skrifuð með s og borin fram með s-hljóði – orð eins og t.d. bensín. Því liggur beint við að skrifa þessi orð riss og rissa, og bera fram eins og orð með sama rithætti sem fyrir eru í málinu í annarri merkingu – riss merkir 'lausleg teikning, skissa' og rissa merkir 'teikna (e-ð) lauslega'.

Það er svo sem ekkert einsdæmi að samhljóma orð hafi tvær eða fleiri óskyldar merkingar, og riss og rissa eru ekki það algeng orð í hinni hefðbundnu merkingu að þau ættu að trufla nýju notkunina, auk þess sem samhengið ætti alltaf að skera úr um merkinguna. En óvíst er að notendur orðanna í nýju merkingunni kæri sig um að laga þau að íslensku. Mér finnst reyndar ekki líklegt að orðin séu almennt borin fram með rödduðu z-hljóði eða verði það til frambúðar – ný málhljóð bætast ekki svo auðveldlega við og þegar orð með framandi hljóðum koma inn í málið eru lík íslensk hljóð sett í staðinn. Annað er með stafsetninguna – ekki er ólíklegt að notendur vilji halda rithættinum með zz enda z ekki framandi bókstafur á sama hátt og hljóðið.

Því má bæta við að Oxford-orðabókin valdi rizz nýlega orð ársins í ensku. Orðið er sagt hafa verið myndað fyrir tveimur árum en notkun þess í ensku tók stórt stökk eftir viðtal við leikarann Tom Holland í júní í sumar þar sem hann sagðist hafa „no rizz whatsoever“. Orðið hefur því greinilega verið fljótt að ná til íslenskra unglinga. Á síðu orðbókarinnar er bent á að myndun orðsins sé óvenjuleg – það er komið af miðhluta orðsins charisma en upphafi og enda orðsins er sleppt (önnur ensk orð mynduð á sama hátt eru fridge af refridgerator og flu af influenza). Slík orðmyndun er líka til í íslensku en sjaldgæf en kemur þó a.m.k. fyrir í Þróttó sem er stytting á íþróttahús (á Laugum í Reykjadal) og Íþróttakennaraskóli og flensa af inflúensa.

Innstæða eða innistæða?

Ég var spurður að því hvort ætti fremur að tala um innstæðu eða innistæðu, t.d. í banka. Í Málfarsbankanum segir: „Mælt er með orðinu innstæða en ekki innistæða.“ Í pistli Jóns G. Friðjónssonar í Málfarsbankanum segir: „Nafnorðið innstæða í merkingunni 'eign' er kunn í fornu máli en merkingin 'inneign á bók eða reikningi' mun vera frá 19. öld og tíðkast hvort tveggja enn […]. Orðmyndin innistæða (frá fyrri hl. 19. aldar) mun nú vera algengust […]. Orðmyndin innstæða er tvímælalaust upprunaleg og í alla staði rétt, sbr. hliðstæðuna inneign.“ Það er auðvitað enginn vafi á því að innstæða er rétt orðmynd en það táknar ekki endilega að innistæða sé þar með röng, enda segir Jón það ekki. Önnur myndin þarf ekki að útiloka hina.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið innistæða ekki skýrt sérstaklega, aðeins vísað á innstæða sem aftur er sagt merkja 'inneign'. Þarna er innstæða því aðalmyndin, en í Íslenskri orðabók er innstæða aðeins skýrt með orðinu 'innistæða' en innistæða er aftur skýrt 'fé á bankareikningi, innstæða'. Þetta er eðlilegt að túlka þannig að innistæða sé aðalmyndin. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru bæði orðin skýrð 'fjárhæð á innlánsreikningi í banka'. Á tímarit.is er rúmlega hálft tíunda þúsund dæma um innistæða en helmingi meira,  á tuttugasta þúsund, um innstæða. Í Risamálheildinni er munurinn miklu minni – á átjánda þúsund dæma um innistæða en hátt í tuttugu þúsund um innstæða. Fyrrnefnda myndin sækir greinilega á.

Það má reyndar færa rök að því að innistæða sé sú mynd sem við mætti búast út frá merkingu atviksorðanna inn og inni – það fyrrnefnda vísar til hreyfingar en það síðarnefnda til kyrrstöðu. Við leggjum peninga inn í bankann en þeir standa inni í bankanum (og -stæða er skylt standa). Á sama hátt mætti búast við innieign og þótt sú mynd sé mjög sjaldgæf núorðið var hún algeng á seinasta hluta 19. aldar og fram um miðja síðustu öld – alls eru rúm 1500 dæmi um hana á tímarit.is. Myndin inneign er því ekki rök fyrir því að innstæða sé réttari mynd en innistæða þótt hún sé vissulega eldri. En vitnisburður orðabóka, aldur og tíðni orðmyndarinnar innistæða sýnir glöggt að sú mynd er ekki síður góð og gild – fyrir henni er löng og rík hefð.

Sælir eru fattlausir – og seinfattaðir

Sögnin fatta í merkingunni 'skilja' „mun lengi hafa verið notuð í reykvísku slangi að minnsta kosti og er komin úr dönsku“ segir Árni Böðvarsson í Þjóðviljanum 1961. Áður hafði hún reyndar lengi verið notuð í merkingunni 'botna, festast í botni' (um akkeri). Hún kemur ekki fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og elsta dæmi sem ég finn um hana á prenti í merkingunni 'skilja' er í Rauða fánanum 1937: „„Eg get bara ekki fattað þetta“, sagði Ribbentrop.“ Í Þjóðviljanum 1967 segir: „Sagnirnar: fatta, redda og rísikera eru orðnar algengt mál fyrir löngu. En reynt gætu skólarnir að stugga við þeim.“ Sögnin er merkt „óformlegt“ bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók en er mjög algeng á seinni áratugum.

Hún hefur líka eignast ýmis afkvæmi í íslensku. Vorið 1965, þegar ég var tíu ára, kom frændi minn og jafnaldri að sunnan í sumardvöl til okkar í sveitina í Skagafirði. Af honum lærðum við systkinin ýmislegt um hvað var í gangi meðal reykvískra barna á þessum tíma, þar á meðal ný orð. Eitt þeirra orða sem ég lærði þetta sumar var lýsingarorðið fattlaus. Þótt ég muni það ekki fyrir víst finnst mér trúlegt að ég hafi þekkt sögnina fatta áður en þetta var alveg nýtt fyrir mér, þótt það væri ekki alveg nýtilkomið í málinu. Þannig segir Árni Böðvarsson í Þjóðviljanum 1961: „Ósköp ertu fattlaus“ er algengt orðalag í Reykjavík. Það er að sjálfsögðu samsetningur (með nokkuð undarlegum hætti) úr sögninni að fatta og viðskeytinu laus.“

Vissulega er myndun orðsins sérkennileg. Lýsingarorðið (eða viðskeytið) -laus tengist yfirleitt nafnorðum – orðlaus, vitlaus, snjólaus, skammlaus, húfulaus o.s.frv. (og svo lýsingarorði í allslaus). Nafnorðið *fatt hefur þó aldrei verið til þannig að fattlaus hlýtur að vera komið af sögninni fatta eins og Árni sagði. Annað óvenjulegt við þessa orðmyndun er að þar er skeytt saman tökusögn og íslensku lýsingarorði – slík orðmyndun er sjaldgæf þótt hún sé ekki einsdæmi. En þótt fattlaus sé rúmlega sextíu ára gamalt er það hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók enda skýrir það svo sem sig sjálft, en er í Íslenskri stafsetningarorðabók og Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, og í Slangurorðabókinni.

Orðið fattlaus er auðvitað óformlegt ekki síður en fatta – „þetta orð er nú víst ekki góð íslenzka“ segir í Alþýðumanninum 1970. Því er ekki von á að finna það mikið á prenti – dæmin um það á tímarit.is eru aðeins um 50. Það elsta er áðurnefnt dæmi Árna Böðvarssonar frá 1961, en næst kemur spakmæli í stíl Fjallræðu Jesú sem er að finna í  Alþýðublaðinu sumarið 1965 og ég lærði einmitt af áðurnefndum frænda mínum um svipað leyti: „Sælir eru fattlausir sem fatta ekki hvað þeir eru vitlausir.“ Þetta þótti býsna fyndið á sínum tíma og nokkur dæmi eru um það á tímarit.is og í Risamálheildinni, oft með því þeir í stað sem. En í óformlegu máli er orðið fattlaus mjög algengt – í Risamálheildinni er á tólfta hundrað dæma um það, nær öll af samfélagsmiðlum.

Annað orð sem er komið af fatta er lýsingarorðið seinfattaður sem ég lærði líka af frænda mínum sumarið 1965. Það orð er ekki í neinum orðabókum, engin dæmi eru um það á tímarit.is, aðeins eitt í Risamálheildinni og Google finnur tvö á netinu. Aftur á móti eru tvö dæmi á tímarit.is um óbeygjanlega lýsingarorðið seinfatta, það eldra í Morgunblaðinu 1975: „Norska blaðið Verdens Gang og sænska blaðið Expressen taka þátt í þessu brandarastríði og birta næstum því á hverjum degi brandara um skrýtinn Svía og „seinfatta“ Norðmann.“ Í Risamálheildinni eru tæp 50 dæmi um orðið frá þessari öld, öll af samfélagsmiðlum – t.d. „Þeir voru eitthvað svo seinfatta þar til annar sem var á eftir mér lét vita“ á Bland.is 2008.

Orðunum seinfatta og seinfattaður svipar til fyrirsagnar í Mánudagsblaðinu 1962: „Með of seinan fattara.“ Þarna er komið elsta dæmi um enn eitt orðið sem fatta hefur getið af sér og er ekki er að finna í neinum orðabókum. Alls eru átta dæmi um orðið fattari á tímarit.is – í Morgunblaðinu 2012 segir t.d.: „Víkverji er einstaklega seinn í hugsun – með langan fattara eins og sagt er á góðri íslensku.“ Í Risamálheildinni er á þriðja hundrað dæma um orðið, öll nema fjögur af samfélagsmiðlum. Það má því með sanni segja að sögnin fatta hafi blómstrað í íslensku. Hún og afkvæmi hennar: fattari, fattlaus, seinfatta og seinfattaður, falla vel að málinu og eru hin nýtustu orð – vissulega fremur óformleg, en slík orð eru ekki síðri íslenska en hin.

Að sýna (mið)fingurinn

Í morgun birtist frétt á mbl.is með fyrirsögninni „Fréttaþulur BBC sýndi miðfingurinn“. Ég sá bent á þetta í Málvöndunarþættinum þar sem spurt var hvort við kölluðum þetta ekki löngutöng miðfingur væri „ísl-enska“. Í frumtextanum stendur vissulega „with her middle finger raised“ og í sjálfu sér er engin ástæða til að efast um að þýðandinn hafi þarna, e.t.v. í hugsunarleysi, gripið enska orðalagið og þýtt það með samsvarandi íslenskum orðum eða orðhlutum. Það táknar samt ekki að miðfingur sé endilega ótækt orð í íslensku þótt auðvitað sé það rétt að venjulega íslenska orðið yfir fingurinn í miðjunni er langatöng. Árið 2001 var einmitt spurt á Vísindavefnum: „Af hverju heita allir puttarnir fingur nema einn sem heitir TÖNG, langatöng?“

Í svari Guðrúnar Kvaran kom fram að flestir fingurnir ættu sér fleiri en eitt heiti (þumall, þumalfingur, þumalputti; vísifingur, sleikifingur, bendifingur; langastöng, langatöng; baugfingur, hringfingur, græðifingur; litlifingur, litliputti, lilliputti). Hún nefndi þó ekki heitið miðfingur en sagði: „Miðfingur handarinnar er oftast nefndur langatöng en í eldra máli einnig langastöng. Hugsanlega er sú mynd upprunalegri og vísar til þess að þessi fingur stendur fram úr hinum eins og löng stöng.“ Bæði langastöng og löngustöng eru flettiorð í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 og vísað á löngutöng sem er aðalmynd orðsins þar, en orðin er hvorki að finna í Ritmálssafni Árnastofnunar né á tímarit.is. Öðru máli gegnir um orðið miðfingur.

Samkvæmt Ritmálssafni Árnastofnunar kemur miðfingur fyrst fyrir í latnesk-íslensku orðabókinni Nucleus Latinitatis eftir Jón Árnason biskup frá 1738 þar sem orðið verpus er þýtt „Midfingur, Laungutaung“. Þarna er notuð myndin löngutöng í nefnifalli – þetta er líka elsta dæmi um það orð þannig að orðin eru jafngömul í málinu. Í Dactylismus Ecclestiasticus eður Fingra-rím eftir sama höfund frá 1739 segir: „Aprilis í hátíðareikningnum byrjast alltíð á topp miðfingurs.“ Í bókinni Sá nýi yfirsetukvenna skóli … sem kom út á íslensku 1749 segir: „Hún skal brúka hér til vísifingur og miðfingur.“ Í Tyro Juris eður Barn í lögum eftir Svein Sölvason frá 1754 segir: „að sá sem sór, lagði tvo nefnilega vísi og miðfingurinn á hina helgu bók.“

Á tímarit.is eru fáein dæmi um miðfingur frá fyrri hluta 20. aldar, það elsta í Austra 1909: „á þá fremsti köggull miðfingurs að geta krækzt í keng þann í hnakknum, sem ólin er fest í.“ Fram um 1990 eru þó aðeins u.þ.b. tíu dæmi um orðið, en eftir það fara að sjást dæmi þar sem það er notað í samböndum eins og lyfta miðfingri og sýna miðfingurinn. Elsta dæmi um það er í Morgunblaðinu 1992: „Andi náði ekki aftur jafn góðum árangri, varð níundi og lyfti miðfingri framan í áhorfendur og sjónvarpsvélar eftir seinna stökkið.“ Í Helgarpóstinum 1995 segir: „Ég áttaði mig til dæmis ekki á því fyrir hvað það stóð að reka miðfingurinn framan í fólk fyrr en ég flutti til Íslands.“ Alls eru 15 dæmi af þessu tagi frá síðustu þremur áratugum á tímarit.is.

Sambandið rétta/sýna/gefa (einhverjum) fingur hefur verið algengt frá því um aldamót í nokkrum tilbrigðum – í  Risamálheildinni eru tæp 570 dæmi um fingur í þessu sambandi, um 340 dæmi um putta, 64 dæmi um rétta eða sýna löngutöng, og 12 dæmi um miðfingur. Þótt trúlegt sé að sambandið sé komið í íslensku úr ensku er engin ástæða til að amast við því enda athöfnin sameiginleg vestræn menningararfleifð. Vissulega er langatöng það orð sem hefð er fyrir að nota um miðfingurinn, en í þessu tiltekna sambandi er ekkert óeðlilegt að nota önnur orð og mér finnst langatöng ekkert endilega fara betur en miðfingur í því. Orðið miðfingur er til í málinu og álíka gamalt og langatöng og á fullan rétt á sér í þessu orðasambandi.

Eflum leikskólana!

Ég get ekki stillt mig um að halda áfram með umræðu um PISA-prófið. Ég hef nefnt – og er ekki einn um það – að grundvöllur málþroskans sé lagður á heimilunum, á fyrstu mánuðum og árum barna, og það sé á ábyrgð foreldra að leggja þennan grunn. Í umræðum hefur verið nefnt að sumir foreldrar standi þar illa að vígi – m.a. innflytjendur og fólk sem þarf að vinna langan vinnudag vegna lágra launa, mikils húsnæðiskostnaðar o.fl. Þessir foreldrar eigi þess ekki kost, hversu mikið sem þau vildu, að sinna börnum sínum nægilega vel að þessu leyti. Þar verður samfélagið að koma til aðstoðar og sjá til þess að jafna aðstæður þessara barna við önnur þannig að ófullnægjandi málörvun á heimilinu leiði ekki til þess að þau lendi á eftir í málþroska.

Í umræðum hefur verið bent á þá sérstöðu Íslands að hér ganga nær öll börn í leikskóla og því gefst einstakt tækifæri á að ná til þeirra og jafna aðstöðuna. En þá þarf auðvitað að skapa leikskólanum skilyrði til að sinna þessu hlutverki. Kannanir sýna yfirleitt mikla ánægju foreldra með starf leikskóla – þau telja að börnunum líði þar vel, þar ríki notalegt og vingjarnlegt andrúmsloft, viðfangsefni barnanna séu áhugaverð o.s.frv. En meginvandinn er sá að hlutfall menntaðs leikskólastarfsfólks er alltof lágt – aðeins rétt rúmur fjórðungur þess hefur kennaramenntun, þar af rúm 88% með leikskólakennaramenntun. En leikskólar eru mjög misvel staddir að þessu leyti og sums staðar virðist hlutfall leikskólakennara vera mjög lágt.

Sú breyting að hafa eitt leyfisbréf fyrir alla kennara jók á vandann því að talsverður fjöldi leikskólakennara hefur fært sig í grunnskóla. Ófaglært starfsfólk er hátt í 60% af heildarfjölda starfsfólks og rúmur helmingur starfsfólksins með menntun á framhaldsskólastigi eða minni. Við það bætist að talsverður fjöldi ófaglærðs leikskólastarfsfólks er af erlendum uppruna og talar stundum litla eða ófullkomna íslensku og er þar með ekki í aðstöðu til að efla málþroska barnanna í íslensku. Með þessu er alls ekki verið að gera lítið úr þessu fólki – vitanlega er margt ófaglært starfsfólk, hvort sem það er íslenskt eða af erlendum uppruna, frábært í því að sinna ýmsum þörfum barnanna og stuðla að þeirri almennu ánægju sem ríkir með leikskólastarfið.

En ófaglært starfsfólk hefur ekki þá fagþekkingu sem nauðsynleg er til að vinna á skipulegan hátt að málörvun, eflingu málþroska og aukningu orðaforða barnanna. Slík þekking er hluti af námi leikskólakennara og mætti reyndar vera stærri. Fjölmargar rannsóknir, innlendar og erlendar, sýna nefnilega fram á að ónógur málþroski á leikskólaaldri dregur langan slóða. Þetta hefur m.a. komið fram í ýmsum rannsóknum Hrafnhildar Ragnarsdóttur prófessors emeritus á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Í grein hennar í Netlu 2015 er bent á að „mælingar á málþroska íslenskra barna undir lok leikskóla spái fyrir um lesskilning þeirra frá og með öðrum eða þriðja bekk (eins og fjölmargar rannsóknir á börnum í öðrum löndum hafa sýnt)“.

Í greininni segir enn fremur: „Niðurstöðurnar staðfesta að meðal íslenskra barna eru síðustu árin í leikskóla mikið gróskutímabil fyrir málþroskaþætti sem gegna lykilhlutverki í alhliða þroska og leggja grunn að læsi og námsárangri síðar. Þær leiða jafnframt í ljós að munur á málþroska jafngamalla íslenskra barna er þá þegar orðinn verulegur og að sá munur tengist að hluta ýmsum áhættuþáttum í aðstæðum barnanna og fjölskyldna þeirra. Niðurstöðurnar undirstrika þannig hversu mikilvægt er að fylgjast grannt með málþroska/þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilnings barna á leikskólaárunum, ekki síst þeirra sem slakast standa og tryggja að þau fái fjölþætta og vandaða málörvun bæði í leikskóla og heima.“

Vegna þessa þarf slakt gengi á PISA-prófinu ekki að koma á óvart – við hefðum getað séð það fyrir út frá málþroska leikskólabarna fyrir tíu árum eða svo, og út frá lesferilsprófum undanfarinna ára eins og Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor hefur bent á. Þetta sýnir glöggt að vandinn verður ekki leystur með einhverjum skammvinnum átaksverkefnum. Það sem við gerum núna hefur áhrif á útkomu barna sem nú eru á leikskóla í PISA-prófinu 2034. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða. Við þurfum að leggja megináherslu á að efla leikskólann, fjölga fagmenntuðu starfsfólki þar og auka áherslu á málörvun og málþroska. En forsenda þess er að kjör leikskólakennara verði stórbætt – erum við tilbúin til þess?

Viðbrögð við PISA-niðurstöðum

Það er mjög mikilvægt að viðbrögðin við slakri útkomu íslenskra nemenda í PISA-prófinu snúist ekki um það að finna einhvern sökudólg. Í umræðu hér í gær var sagt að útkoman væri „gríðarlegur áfellisdómur fyrir íslenskt menntakerfi“. Auðvitað ber skólinn sinn hluta af ábyrgðinni en ég held samt að ef útkoman er áfellisdómur á annað borð þá sé það yfir íslensku samfélagi eins og það leggur sig en ekki menntakerfinu einu og sér. Það er nefnilega meginatriði að ekki sé litið á útkomuna í PISA sem sjálfstætt vandamál sem hægt sé að bregðast við með einhverjum töfralausnum eins og læsisátaki sem farið var í fyrir nokkrum árum og ekki virðist hafa skilað miklu – fremur en önnur slík átök eins og kemur fram í PISA-skýrslunni.

Mér finnst allt benda til þess að versnandi frammistöðu íslenskra unglinga í PISA-prófinu megi a.m.k. að verulegu leyti rekja til breyttrar stöðu íslenskunnar. Það er ljóst að góður lesskilningur er forsenda góðrar útkomu í öllum hlutum prófsins – ekki bara í lesskilningshluta þess, heldur líka í læsi á náttúruvísindi og stærðfræði. Tvær meginforsendur lesskilnings eru þekking á þeim  orðaforða sem notaður er í þeim textum sem um er að ræða og skilningur á þeim setningagerðum sem koma fyrir. Alkunna er að oft er talað um að orðaforði íslenskra unglinga fari stöðugt minnkandi en minna er talað um skilning á flóknari setningagerðum og færni í beitingu þeirra þótt oft sé minnst á óvissu í notkun viðtengingarháttar svo að dæmi sé tekið.

Hvorki orðaforða né setningagerðir er hægt að kenna í einangrun. Hvorugt lærist almennilega nema með því að nota það í mállegu samhengi – með því að hlusta, lesa, tala og skrifa. Vitaskuld getur verið gagn í því að ganga skipulega á orðaforða á tilteknum sviðum og þjálfa hann, og eins getur verið gagnlegt að kenna eðli og notkun tiltekinna setningagerða. En meginatriði er að þetta sé gert í samhengi við texta og notað sem stuðningur við skilning á honum en ekki kennt sem sjálfstæð íþrótt. Það er hlutverk skólanna að halda fjölbreyttum íslenskum textum að nemendum og þjálfa þau í lestri þeirra og skilningi – og einnig að þjálfa nemendur í virkri beitingu bæði talaðs og ekki síður ritaðs máls með hvers kyns skapandi skrifum.

En þetta er ekki eingöngu á ábyrgð skólanna. Grundvöllurinn að málþroska er lagður á fyrstu árunum og ábyrgðin þar liggur hjá foreldrum og heimilum. Það þarf að sjá til þess að börn fái nægilega málörvun – halda íslenskunni að þeim, tala við þau og lesa fyrir þau. En vitanlega hafa foreldrar misgóðar aðstæður til að sinna þessu. Margir foreldrar vinna mikið og tími þeirra til að sinna börnunum er takmarkaður, og þá er freistandi að setja börnin fyrir framan sjónvarp eða rétta þeim snjallsíma þar sem þau finna einhverja afþreyingu sem ekki er endilega á íslensku. Ég hef áður sagt að lág laun og sá langi vinnutími sem af þeim leiðir sé mesta hættan sem steðjar að íslenskunni og stytting vinnutímans sé mjög mikilvæg til að styrkja málið.

Fyrst og fremst er ábyrgðin þó hjá stjórnvöldum og samfélaginu sem heild. Stjórnvöld þurfa að stuðla að því að foreldrar geti varið meiri tíma með börnum sínum – með lengingu fæðingarorlofs, með styttingu vinnutíma, með því að gefa innflytjendum kost á að læra íslensku á vinnutíma o.fl. Einnig þarf að leggja mun meiri áherslu á íslensku og lesskilning í öllum þáttum menntunar – í kennaramenntun og í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Þetta hefur legið fyrir lengi en því miður hefur lítið verið gert í málinu. En samfélagið þarf líka að breyta viðhorfi sínu til íslenskunnar – setja hana í forgang, halda henni á lofti á öllum sviðum og sýna börnum og unglingum fram á mikilvægi hennar. Á jákvæðum nótum.