Posted on Færðu inn athugasemd

Að gúmma

Samfélags- og tæknibreytingar hafa mismunandi áhrif á orð og orðasambönd sem notuð eru um það sem breytist. Oft haldast orðin þótt eðli þess sem þau vísa til gerbreytist, en missa þá iðulega það gagnsæi sem þau höfðu upphaflega – dæmi um það eru orðin eldhús og myndband. Í öðrum tilvikum lifa orðin eða orðasamböndin áfram í breyttri merkingu, oft sem líking – dæmi um það eru samböndin strauja kortið og spóla til baka. En stundum hverfa orðin – eða tiltekin merking þeirra – alveg með því sem þau vísuðu til. Dæmi um það er orðið ávísun en algengasta merking þess var til skamms tíma 'sérprentað blað, ígildi peninga, sem eigandi bankareiknings fyllir út og undirritar, og er upphæðin síðan dregin frá innistæðu hans við framvísun í banka, tékki'.

Vissulega hefur orðið fleiri merkingar en þessi er nær alveg horfin – sem og samheitið, tökuorðið tékki sem nefnt er í skýringunni, sem er úr Íslenskri nútímamálsorðabók. Á síðasta þriðjungi tuttugustu aldar voru ávísanir eða tékkar helsti gjaldmiðill í viðskiptum, ásamt seðlum, en viku fyrir debet- og kreditkortum og hurfu að mestu kringum aldamótin. Þessi orð leiddu af sér ýmsar samsetningar sem einnig eru horfnar – ávísanahefti, ávísanareikningur, ávísanafölsun, ferðaávísun, tékkhefti, tékkareikningur, ferðatékki o.fl. Merking allra þessara samsetninga er væntanlega nokkuð augljós, en hugsanlega þarf að skýra samsetninguna gúmmítékki sem var töluvert notuð í óformlegu máli og merkti 'innstæðulaus ávísun'.

Orðið gúmmítékki er væntanlega komið af rubber check/cheque sem er notað í óformlegri ensku í sömu merkingu – einnig er notað bounced check. Vegna þess að þetta er óformlegt orð er varasamt að nota prentuð blöð sem heimildir um aldur þess, en elsta dæmið sem ég finn er í Vikunni 1963: „Gúmmítékkar hafa lengi verið þekkt fyrirbrigði á voru landi, og ekki þótt neitt skemmtilegur gjaldmiðill.“ Þetta sýnir að orðið var vel þekkt á þessum tíma og það var algengt fram yfir aldamót, seinustu árin oft sem líking, en er nú nær horfið. En þótt orðin tékki og ávísun væru notuð jöfnum höndum kemur *gúmmíávísun ekki fyrir og það er mjög eðlilegt – ávísun er formlegt orð og ekki við því að búast að það væri notað í óformlegri samsetningu.

En gúmmítékki leiddi af sér skemmtilega sögn – gúmma, sem merkti ‚skrifa innstæðulausa ávísun, gúmmítékka‘. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Alþýðublaðinu 1975 þar sem fólk er spurt hvort það noti ávísanahefti og einn svarenda segir: „Ég „gúmmaði“ mikið í fyrra, það var þannig fyrirkomulag á kaupgreiðslunum.“ Þetta var fyrir daga rafrænna bankaviðskipta – á þessum tíma þurfti að senda allar ávísanir til þess bankaútibús þar sem ávísanareikningurinn var. Þetta gat tekið nokkra daga og þess vegna féll fólk stundum í þá freistingu að gúmma t.d. á djamminu um helgar. „Það var svo auðvelt að gúmma og redda þessu á mánudegi“ – þ.e. áður en ávísunin bærist bankanum – segir í upprifjuninni „Allt varð þetta úrelt“ í DV 2005.

Vegna þess að sögnin er óformleg gæti hún vitaskuld verið talsvert eldri en prentheimildir sýna, en alls eru um 50 dæmi um hana á tímarit.is, flest frá níunda og tíunda áratugnum. Stundum er hún notuð í líkingum – „Hugmyndabankinn virðist bara hafa verið orðinn tómur um miðja mynd og gúmmað eftir það“ segir t.d. í kvikmyndagagnrýni í DV 1991. Í Risamálheildinni eru um 20 dæmi um sögnina, flest af samfélagsmiðlum frá fyrstu árum aldarinnar, en nú er hún líklega horfin. Það er eftirsjá að henni, því að þótt gúmmítékki sé bein yfirfærsla úr ensku er sögnin gúmma væntanlega alíslensk orðmyndun og mjög áhugaverð og skemmtileg sem slík – aðeins leidd af fyrri hluta nafnorðsins en tengslin við tékka koma ekki fram í henni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Sautjándinn

Í dag er þjóðhátíðardagurinn, 17. júní, sem iðulega er nefndur sautjándinn. Sú orðanotkun er meira en sextíu ára gömul – elsta dæmi sem ég finn um hana er í fyrirsögninni „Sautjándinn í Eyjum“ í Alþýðublaðinu 1962, átján árum eftir að 17. júní varð þjóðhátíðardagur. Næsta dæmi er úr sama blaði 1968, en þessi orðanotkun fer ekki að verða algeng fyrr en á níunda áratugnum. Alls eru rúm 220 dæmi um sautjándann á tímarit.is og tæp hundrað í Risamálheildinni. Fyrirmyndin er nokkuð augljós – talað hefur verið um þrettánda dag jóla sem þrettándann a.m.k. síðan á fyrri hluta nítjándu aldar. En þótt aldrei séu gerðar athugasemdir við þrettándann hefur sautjándinn iðulega sætt gagnrýni, ekki síst í þætti Gísla Jónssonar í Morgunblaðinu.

Í þættinum „Íslenskt mál“ 1988 taldi Gísli það „jaðra við óvirðingu, ef ekki helgispjöll að segja á 17. júní og bætti við: „Ég tala nú ekki um, þegar farið er að kalla þjóðhátíðardaginn sautjándann, svona rétt eins og þrettándann eða aðra minni háttar tyllidaga.“ Í sama þætti 1990 sagði Gísli: „Ég býst við að framhaldið verði „á sautjándanum“, ef ekki eru rammar skorður við reistar.“ Í sama þætti árið eftir talaði hann um fyrirsögnina „Hlýnar á sautjándanum“ sem „þetta lágkúrulega málfar“. Í sama þætti 2001 sagði Gísli: „Verst er þegar sagt er „á 17. júní“, eða „á sautjándanum“ sem sumum misheyrist „á sitjandanum“.“ Jón Aðalsteinn Jónsson og Baldur Pálmason skrifuðu einnig nokkrum sinnum um þetta í Morgunblaðið.

En öðrum fannst engin ástæða til að amast við þessu. Í þætti sínum 1996 birti Gísli Jónsson bréf frá Jóni Þórarinssyni tónskáldi sem sagði: „Og af því að þessar línur eru skrifaðar þrettánda dag jóla, á þrettándanum, get ég ekki stillt mig um að nefna að mér finnst móðurmálinu ekki hætta búin þótt talað sé um hátíðahöld á sautjándanum […].“ Gísli viðurkenndi að hann segði hiklaust „á þrettándanum“ en sagði: „Í vitund minni er þrettándinn feginsdagur, en þjóðhátíðardagurinn of hátíðlegur, þó gleðidagur sé, til þess að segja „á sautjándanum“.“ Mér finnst þetta þó fremur hlýlegt en lágkúrulegt og tek undir það sem Mörður Árnason segir í Málkrókum: „Það er ágætt mál að álfar fari á kreik á þrettándanum og að fjallkonan ávarpi þjóð sína á sautjándanum.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Illa ánægður

Nýlega var hér til umræðu fyrirsögnin „Illa ánægður að ná þessu afreki fyrir þetta félag“ á vef Ríkisútvarpsins. Af samhenginu er ljóst að merkingin er 'mjög ánægður' þrátt fyrir að atviksorðið illa sé vitanlega neikvætt. Í fljótu bragði gæti því virst sem merkingu illa væri þarna snúið á haus, en eðlilegra er þó að líta svo á að illa hafi þarna misst grunnmerkingu sína og sé einfaldlega notað sem áhersluorð, svipað og gerst hefur með ógeðslega og fleiri atviksorð. Málshefjandi sagðist fyrst hafa heyrt þessa notkun orðsins á Húsavík fyrir rúmum fjörutíu árum – þar hefði fólk t.d. talað um illa gott veður í brakandi blíðu. Í frétt Ríkisútvarpsins er þetta einmitt haft eftir manni frá Húsavík og ég hef oft heyrt þessa málnotkun tengda við bæinn.

Umræðan leiddi samt í ljós að þetta er notað víðar, a.m.k. um austanvert Norðurland – á Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri og víðar þótt engin ástæða sé til að efast um að kjarnasvæðið sé Húsavík. Einn þátttakenda í umræðunni sagðist hafa heyrt það fyrst á Ólafsfirði fyrir 60 árum og annar sagði að þetta hefði verið mjög algengt á Húsavík á sjötta og sjöunda áratugnum. Þau örfáu dæmi sem finna má úr öðru en samfélagsmiðlum samræmast þessu. „Illa flott!“ segir í bók frá 1987 eftir höfund frá Ólafsfirði. „Hann var alveg illa flottur“ segir handboltamaður frá Akureyri í Vísi 2014. „Hafði illa gaman að þessu“ er haft eftir manni frá Húsavík í Fréttablaðinu 2019. Fótboltamaður frá Akureyri segir „það var illa gott moment“ á fótbolti.net 2020.

En þetta er óformlegt orðalag sem einkum er bundið talmáli og því erfitt að grafast fyrir um aldur þess og uppruna – það kemst mjög sjaldan á prent. Einn þáttakenda í umræðunni, kona á Akureyri, sagði að þetta væri algengt í talmáli í sínu málumhverfi, aðallega þó hjá ungu fólki. Samfélagsmiðlahluti Risamálheildarinnar staðfestir þetta – þar er fjöldi dæma um þessa notkun illa. Á Hugi.is 2001 segir: „Mér finnst Kátur illa flott nafn.“ Á Málefnin.com 2004 segir: „Svo var illa gaman að heyra Bubba pínu falskan.“ Á Hugi.is 2004 segir: „illa gott að fá sér einn vindil á fylleríi.“ Á Hugi.is 2008 segir: „Ég er illa ánægður með þær.“ Á Twitter 2011 segir: „Hann var nú illa flottur í byrjun móts.“ Á Twitter 2013 segir: „Illa gott kaffi.“

Það er ómögulegt að átta sig á því hversu mörg dæmi eru í Risamálheildinni um þessa notkun illa en þau skipta örugglega hundruðum. Þá á ég eingöngu við dæmi með jákvæðum lýsingarorðum – þegar um neikvæð lýsingarorð er að ræða er oft útilokað að segja hvort illa er notað í grunnmerkingu sinni eða í áherslumerkingu. Þetta eru dæmi eins og „Hann varð oft illa reiður og Bakkus var þá enginn vinur hans“ í Morgunblaðinu 2014 og „Varð alltaf illa fullur og leiðinlegur en notaði þess vegna hass“ í Morgunblaðinu 2020. Það er ekki heldur hægt að átta sig á uppruna höfunda dæmanna en mér finnst ákaflega ólíklegt að þau séu öll frá Norðlendingum. Sennilega tíðkast þessi notkun í óformlegu máli um allt land.

Eins og áður segir er ljóst að þessi málnotkun er a.m.k. sextíu ára gömul en gæti verið mun eldri. Í Safni af íslenzkum orðskviðum eftir Guðmund Jónsson frá 1830 er að finna málsháttinn „Þar fór illa góðr biti í hundskjapt“ og í Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen segir „þar færi illa góður biti í hundskjaft“. Þarna gæti illa haft áherslumerkingu þótt önnur túlkun sé möguleg. En hins vegar er rétt að nefna að stundum hefur illa með lýsingarorði beinlínis neitandi merkinu, 'ekki'. Í Skírni 1838 segir t.d.: „yfir höfuð að tala eru menn illa ánægðir með stjórnina, og geingur þar ekki á öðru enn sífeldum óróa, upphlaupum, ránum og brennum.“ Þarna er augljóst að illa ánægðir merkir 'óánægðir' og sú merking sambandsins tíðkaðist eitthvað fram á 20. öld.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að þrifta

Um daginn var hér spurt um merkingu orðsins þrifta sem kom fyrir í grein eftir Hólmfríði Jennýjar Árnadóttur í Heimildinni þar sem sagði: „Þá er gott að hafa í huga vistspor og gæði vörunnar, notagildi og muna að við getum keypt notað eða þriftað.“ Í umræðum var bent á að þarna lægi að baki enska sögnin thrift en hún merkir 'to look for or buy something from a thrift store or another place that sells used things such as clothes, books, or furniture' eða 'að leita að eða kaupa eitthvað í endursöluverslun eða annars staðar þar sem seldir eru notaðir hlutir svo sem föt, bækur eða húsgögn'. Sögnin hefur því víðtækari merkingu en bara 'kaupa notað' – merkir líka 'svipast um eftir notuðu' og á sér því enga fullkomna samsvörun í málinu.

Elsta dæmi sem ég finn um sögnina þrifta í íslensku er á Twitter 2020: „Besta við að þrifta var að rekast á óvæntar gersemar.“ En að öðru leyti eru einu dæmin um orðið í greininni sem vitnað var til í upphafi, og í annarri grein sama höfundar í Vísi fyrr á árinu. Í fljótu bragði kann að líta svo út sem þarna sé um hráa ensku að ræða og sumum kann að finnast það gera sögnina óæskilega. En eins og einnig var bent á í umræðu um þetta er ekki allt sem sýnist, því að enska nafnorðið thrift sem sögnin er dregin af er komið af norræna nafnorðinu þrift sem kemur fyrir í fornu máli og er skýrt 'velmegun, velgengni, gengi' í Íslenskri orðabók. Þetta nafnorð kemur ekki fyrir sem samnafn í nútímamáli en hefur verið notað sem nafn á fyrirtæki og hryssunafn.

Sögnin þrifta kemur hins vegar hvorki fyrir að fornu né nýju, fyrr en nú, en er eðlileg afleiðsla af nafnorðinu og því ekkert við hana að athuga sem slíka. Spurningin er hins vegar hvort eðlilegt sé að nota hana í þessari merkingu. Í ensku þróaðist merking nafnorðsins thrift yfir í að vera 'nýtni' eða 'hagkvæmni' eða eitthvað slíkt og þaðan yfir í nútímamerkinguna sem áður var nefnd. Sú þróun er í sjálfu sér eðlileg og skiljanleg en hún hefur auðvitað ekki orðið í íslensku, heldur er enska nútímamerkingin tekin upp og stokkið yfir þróunarstigin og það er vitaskuld hægt að hafa mismunandi skoðanir á réttmæti þess. En ég sé ekki betur en sögnin fari vel í málinu og ég sé ekkert að því að taka hana upp í áðurnefndri merkingu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að setja mörk

Í Sumarblaðinu 1916 er sagt frá nýjum knattspyrnulögum sem Íþróttasamband Íslands sé að gefa út. Þar segir: „Eins og menn vita, hefir með öllu vantað íslenzk orð um hin ýmsu atriði þessarar íþróttar. Menn hafa orðið að gera sér gott af, að nota að eins útlend orð eða þá íslenzk orðskrípi, og hefir mörgum þótt slíkt all-ilt.“ En meðal nýmæla í lögunum verði fjöldi nýrra orða sem flest séu komin frá Guðmundi Björnssyni landlækni og „öll eru falleg og skynsamlega mynduð“. Meðal þeirra eru ýmis orð sem enn eru notuð, eins og rangstæður, réttstæður, vítaspyrna, aukaspyrna – og skora mark í stað gera mark. Þetta er elsta dæmið um skora mark á tímarit.is en eftir það kemst orðið í talsverða notkun og hefur verið mjög algengt alla tíð síðan.

En þótt sambandinu skora mark væri ætlað að leysa gera mark af hólmi hvarf það síðarnefnda ekki úr málinu. Elsta dæmi um það á tímarit.is er reyndar úr þessari sömu grein en annað dæmi er úr Morgunblaðinu frá sama ári: „Þrátt fyrir þessa ágætu sókn, tókst þó Reykjavíkur-mönnum ekki að gera mark hjá Fram.“ Þetta samband hefur alla tíð verið algengt, og sama máli gegnir um sambandið setja mark sem er álíka gamalt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Fréttum 1918: „Enda fór það svo að I. Ólafsson setti mark.“ Í Vísi 1922 segir: „Eftir að Skotarnir settu markið óx Íslendingum ásmegin.“ Í Morgunblaðinu 1928 segir: „leið ekki á löngu þar til Skotar settu mark.“ Í Víði 1931 segir: „K.R. menn birjuðu þegar áhlaup og settu mark á fyrstu mínútunni.“

Þótt sambandið setja mark sé vissulega sjaldgæfara en skora mark hefur það verið töluvert notað alla tíð síðan. Þess vegna er sérkennilegt að tala um það sem „skrýtið málfar“ eins og gert var í viðtali við prófarkalesara í Viðskiptablaðinu nýlega: „Íþróttafréttir eru annar vettvangur þar sem Arinbjörn hefur rekist á skrýtið málfar en þar segja fréttamenn oft að leikmenn „setji mörk“ í stað þess að „skora mörk“.“ Eins og fram hefur komið eiga samböndin skora mark, gera mark og setja mark sér öll meira en hundrað ára óslitna hefð og engin ástæða til að gera upp á milli þeirra. Þvert á móti – það er gott að eiga völ á fleiri en einu sambandi í sömu merkingu. Það lífgar upp á stílinn, sem oft veitir ekki af í íþróttafréttum sem oft hættir til að verða dálítið klisjukenndar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að hafna í fyrsta sæti

Í viðtali við prófarkalesara í Viðskiptablaðinu nýlega segir m.a.: „Íþróttafréttir eru annar vettvangur þar sem Arinbjörn hefur rekist á skrýtið málfar en þar […] sé oft sagt að íþróttamenn hafi „hafnað í öðru eða þriðja sæti“ í stað þess að hafa „náð öðru eða þriðja sæti“.“ Þetta minnti mig á bréf sem ég fékk þegar ég sá um útvarpsþáttinn „Daglegt mál“ um skeið sumarið 1984, fyrir réttum fjörutíu árum. Þar var vitnað í fyrirsögnina „Ísland vann Finna og hafnaði í 2.‑3. sæti“ og sagt: „Orðtiltækið að hafna í einhverju sæti í keppni hefur verið mikið í tísku að undanförnu og þeir, sem nota það, virðast ekki skilja merkingu þess. Að hafna í einhverju sæti þýðir að mínu mati að vera aftarlega í röð. […] Svona heimska má ekki viðgangast.“

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin hafna skýrð 'lenda (einhvers staðar)' og í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002 er hún skýrð 'lenda, enda'. Þessi merking virðist hins vegar vera fremur nýleg því að hana er ekki að finna í tveim fyrri útgáfum bókarinnar, frá 1963 og 1982. Þar er sögnin aftur á móti gefin í merkingu sem er augljóslega skyld, 'taka höfn, leggja(st) við akkeri' með dæminu skipið hafnar sig. Í Þjóðólfi 1858 segir t.d.: Póst-gufuskipið Victor Emanuel hafnaði sig hér að kvöldi 15. þ. mán.“ Þessi notkun sambandsins hafna sig var mjög algeng á seinni hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu, og einnig kemur fyrir afleidd merking: „Að þessu loknu hélt svo X af stað og hafnaði sig á veitingahúsi einu“ segir í Stormi 1931.

Hin venjulega nútímanotkun sagnarinnar er augljóslega sprottin af þessari afleiddu merkingu, auk þess sem sögnin er ekki lengur notuð afturbeygð. Meðal notkunardæma um sögnina bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók er boltinn hafnaði í netinu en í Vísi 1915 segir frá úrslitaleik Knattspyrnumóts Íslands milli Fram og KR: „Leikurinn berst nú fram og aftur um svæðið, þar til Frammenn ná knettinum og leika honum svo snildarlega á milli sín, að hann hafnaði sig í neti Reykjavíkurmanna.“ En í Þjóðviljanum 1944 segir: „Þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leik skaut Bastin voðaskoti með hægra fæti og knötturinn hafnaði í markinu.“ Einhvern tíma á fyrri hluta 20. aldar virðist hafna því hafa misst afturbeyginguna.

Í Skólablaðinu 1907 segir: „Sannleiksleitinni yrði hætt með öllu, og heimurinn allur hafnaði í kyrstöðu, yrði aðsteingervingi.“ Í Unga Íslandi 1912 segir: „Ole Bull hafnaði í Ameríku, og var honum þar tekið með ofsa-fögnuði og opnum örmum, hvar sem hann fór.“ Í Alþýðublaðinu 1922 segir: „kúlan, sem lenda átti í hjarta sjómannsins, hafnaði í fæti hans.“ Í Helgafelli 1942 segir: „obbinn af skáldskap þeim, er út kom á Norðurlöndum, hafnaði í hillum mínum.“ Í Skólablaðinu 1944 segir: „Jón varð stúdent við sæmilegan orðstír og hafnaði í guðfræðideildinni, er hann áleit hæfilegan vettvang fyrir andlega atgervi sína.“ Í Tímanum 1947 segir: „Hann ætlaði að hlaupa út, en villtist og hafnaði í svefnherbergi hjónanna.“ Eftir þetta fer dæmum mjög fjölgandi.

Elsta dæmi sem ég finn um hafna með sæti er í Íþróttablaðinu Sport 1949: „Guðm. Guðmundsson bætti sinn fyrri tíma um 6/10 og hafnaði í fjórða sæti.“ Í Allt um íþróttir 1950 segir: „Guðjón M. Sigurðsson hafnaði í öðru sæti og er það vel af sér vikið.“ Í Íþróttablaðinu 1951 segir: „Það, er kom einna mest á óvart á mótinu var, að Víkingur með sína ungu og óreyndu leikmenn hafnaði í 3ja sæti.“ Í Hamri 1956 segir: „Sigurgeir náði glæsilegum árangri, hann hafnaði í 2.-4. sæti.“ Í Þjóðviljanum 1960 segir: „skákmeistari Sovétríkjanna Victor Korshnoj, sem hafnaði í efsta sæti, tapaði fyrir skákmeistara Nýja Sjálands.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Í svigkeppninni stóð Hákon Ólafsson sig með stakri prýði og hafnaði í öðru sæti.“

Því fer sem sagt fjarri að sögnin hafna sé eingöngu notuð um að lenda neðarlega í keppni, þótt sú notkun sé vissulega algeng. En svo að ég vitni í sjálfan mig í „Daglegu máli“ 1984: „Það sem er hins vegar sameiginlegt með þessum dæmum er að sá sem hafnar einhvers staðar hefur ekki stefnt að því vitandi vits; enginn er sjálfráður um það hvar hann hafnar. Við getum varla sagt ég ætla að hafna í góðri stöðu. Þetta er kannski ástæðan fyrir því að sumum finnst neikvæð merking tengjast þessari sögn.“ Eins og dæmin sýna hefur alla tíð verið hægt að nota sögnina hafna í hlutlausri merkingu, og þegar hún er notuð um stöðu í keppni hefur hún alla tíð getað vísað til efstu sæta. Engin ástæða er til að forðast tal um að hafna í fyrsta, öðru eða þriðja sæti.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hættur kynhlutleysis

Undanfarið hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um breytingar á íslensku í átt að kynhlutlausu máli. Það bitastæðasta í þessari umræðu eru tvær greinar sem Höskuldur Þráinsson fyrrverandi prófessor hefur nýlega skrifað í Vísi – „Kynhlutlaust mál, máltilfinning og forsetaframboð“ og „Bókaútgáfa, íslenskukennsla, þýðingar og máltilfinning“. Í þessum greinum, sem eru hófsamar og málefnalegar eins og vænta mátti, eru færð ýmis rök gegn breytingunum. Mér finnst þó ástæða til að ræða málið frá öðru sjónarhorni og það sem hér fer á eftir er að mestu leyti viðbrögð við greinum Höskuldar og þeim rökum sem þar eru sett fram, þótt margt af því sem hér er nefnt hafi einnig komið fram annars staðar.

1. Geta breytingarnar leitt til misskilnings í samskiptum fólks?

Í hefðbundinni íslensku er notað karlkyn ef kynjasamsetning hóps er ekki þekkt og sagt t.d. Fjórir slösuðust í árekstri. Hvorugkynið fjögur er því aðeins notað að mælandinn viti að um kynjablandaðan hóp er að ræða. Hjá þeim sem breytt hafa máli sínu er hvorugkynið hins vegar notað bæði um kynjablandaðan hóp og um hóp þar sem kynjasamsetningin er óþekkt. Setningin Fjögur slösuðust í árekstri er því einræð í hefðbundinni íslensku – vísar aðeins til kynjablandaðs hóps – en tvíræð í breyttri íslensku, vísar annaðhvort til kynjablandaðs hóps eða hóps þar sem kynjasamsetning er óþekkt. Því hefur verið haldið fram að þessi tvíræðni sé óæskileg og geti verið ruglandi, og í fljótu bragði mætti ætla að svo væri.

En nákvæmlega sams konar tvíræðni er nú þegar í hefðbundinni íslensku, nema þar er það karlkynið sem er tvírætt. Ef sagt er Fjórir slösuðust í árekstri vitum við ekki hvort vísað er til fjögurra karla eða hóps af óþekktri kynjasamsetningu. Ég get ekki séð að sú tvíræðni sem notkun hvorugkyns í kynhlutlausri merkingu skapar sé á einhvern hátt verri eða skaðlegri en sú sem notkun karlkynsins í kynhlutlausri merkingu skapar í hefðbundinni íslensku. Af hverju þurfum við að vita nákvæmlega hvað fjögur slösuðust merkir en ekki hvað fjórir slösuðust merkir? Yfirleitt skiptir engu máli hvort við skiljum fjórir slösuðust eða fjögur slösuðust sem einkynja eða kynjablandaðan hóp. Ef það skiptir máli kemur það fram í samhenginu.

2. Munu breytingarnar valda misskilningi á eldri textum og leiða til rofs í málinu?

Jafnvel þótt þróun í átt til kynhlutleysis haldi áfram – sem ómögulegt er að segja til um – er ljóst að notkun karlkyns í kynhlutlausri merkingu mun verða til í málinu í marga áratugi í viðbót og málnotendur þekkja bæði kerfin og átta sig á þeim. Ef kynhlutleysi karlkynsins hverfur alveg úr málinu einhvern tíma í framtíðinni og Allir eru velkomnir eða Fjórir slösuðust í árekstri hafa ekki lengur kynhlutlausa merkingu hjá neinum gæti það vissulega gerst að fólk færi að skilja karlkynsmyndir fornafna og töluorða svo að þær vísuðu eingöngu til karlmanna, og misskildi þannig eitthvað í eldri textum. En þess er langt að bíða og þar að auki sker samhengið langoftast úr um merkinguna – ef nákvæm merking skiptir máli á annað borð.

Það er auðvitað fjölmargt sem hefur breyst í málinu á undanförnum áratugum og öldum án þess að nokkrum detti í hug að ástæða sé til að „þýða“ textana á samtímamál vegna þess. Í Íslendingasögum og öðrum fornum textum vísa fornöfnin við og þið t.d. aðeins til tveggja, en ef vísað er til fleiri eru notaðar myndirnar vér og þér. Ég efast um að venjulegir málnotendur átti sig á þessu þegar þeir lesa forna texta en það veldur samt engum misskilningi. Það er einfalt að skýra þessa breytingu út fyrir fólki í eitt skipti fyrir öll. Sama er með breytingu á hlutlausu kyni. Fólk sem les eitthvað af textum frá því fyrir þessa hugsanlegu framtíðarbreytingu mun fljótt átta sig á því að karlkynið getur haft kynhlutlausa merkingu í þeim.

3. Geta breytingarnar ruglað börn á máltökuskeiði í ríminu og truflað máltöku?

Það er vitanlega rétt að ef börn alast upp í málumhverfi þar sem sumt fólk notar Öll eru velkomin og Fjögur slösuðust í árekstri í sömu merkingu og annað fólk notar Allir eru velkomnir og Fjórir slösuðust í árekstri fá þau misvísandi skilaboð sem í fljótu bragði mætti ætla að gætu ruglað þau í ríminu og tafið eða torveldað máltökuna. En þetta er hins vegar fjarri því að vera einsdæmi. Börn fá brotakenndar og misvísandi upplýsingar um fjölmörg atriði úr málumhverfi sínu en eru ótrúlega glúrin í að nýta sér þetta til að koma sér upp heildstæðu málkerfi. Börn alast upp við það að sumt fólk í kringum þau segir mig langar og ég vil en annað mér langar og ég vill, sum þeirra heyra bæði norðlenskan framburð og sunnlenskan, o.s.frv.

Börnin vinna auðveldlega úr þessu og það er ekkert sem bendir til þess að tilbrigði í málumhverfinu valdi þeim vandkvæðum í máltökunni. Þótt notkun hvorugkyns í kynhlutlausri merkingu sé vissulega ekki móðurmál neins (enn sem komið er a.m.k.) eins og bent hefur verið á, heldur tillærð, get ég ekki séð að þau tilbrigði sem hún skapar horfi á annan hátt við börnum á máltökuskeiði en önnur tilbrigði. Engin ástæða er til að ætla annað en börnin átti sig fljótt á því að Öll eru velkomin hjá sumum hefur sama hlutverk og Allir eru velkomnir hjá öðrum, rétt eins og þau átta sig fljótt á því að mér langar hjá sumum merkir það sama og mig langar hjá öðrum. Börnin velja svo annað tilbrigðið, eða nota þau hugsanlega til skiptis. Ekkert að því.

4. Valda breytingarnar vandkvæðum í kennslu íslensku sem annars máls?

Þegar verið er að kenna erlend tungumál er venjulega eitt tilbrigði – það sem er algengast, eða það sem nýtur mestrar viðurkenningar – valið til kennslu en önnur hugsanlega nefnd í framhjáhlaupi. Í kennslu íslensku sem annars máls er yfirleitt kenndur „sunnlenskur“ framburður en ekki norðlenskur – ekki vegna þess að sá fyrrnefndi sé „réttari“ heldur vegna þess að það er framburður yfirgnæfandi meirihluta málnotenda. Ég þykist líka vita að yfirleitt sé kennt að segja mig langar og ég vil en ekki mér langar og ég vill vegna þess að fyrrnefndu afbrigðin eru viðurkennd sem „rétt“ mál en þau síðarnefndu ekki þótt þau séu mjög útbreidd. En auðvitað er hægt að segja nemendum frá öðrum tilbrigðum ef ástæða þykir til eða spurt er.

Sama máli gegnir um kynjanotkun í kynhlutlausri merkingu. Þar er eðlilegt að kennarar í íslensku sem öðru máli velji algengasta tilbrigðið til kennslu, og það er ótvírætt karlkynið enn sem komið er – og væntanlega um allnokkra framtíð. Ef nemendur spyrja er vitanlega hægt að útskýra fyrir þeim að til sé fólk sem fremur kýs að nota hvorugkynið í þessu hlutverki. Ég sé ekki hvernig þetta ætti að skapa meiri vanda en önnur tilbrigði. Reyndar sagði Kjartan Jónsson frá því í grein í Heimildinni fyrr í vikunni að í skóla sem hann rekur hefði hvorugkynið undanfarin ár verið kennt sem hlutlaust kyn og útskýrt fyrir nemendum að þeir hafi val í þessu efni. Ekki kom fram hjá honum að það hefði valdið nokkrum sérstökum vandræðum.

5. Kljúfa breytingarnar málsamfélagið og skapa málfarslega stéttaskiptingu?

Það er vitanlega rétt að breyting í átt til kynhlutleysis hefur valdið klofningi í málsamfélaginu eins og umræðan undanfarið ber glöggt vitni um. En klofningurinn er ekki fyrst og fremst í málinu, heldur í umræðunni, og spurningin er hver beri meginábyrgð á honum – þau sem breyta máli sínu eða þau sem amast við breytingunum. Ef fólk sýnir umburðarlyndi, áttar sig á að breytingarnar eru sumum hjartans mál en stafa ekki af einhverri misskilinni jafnréttisbaráttu eða skilningsleysi á mismun málfræðilegs og líffræðilegs kyns, þá verður enginn klofningur. Þá halda sum áfram að segja Allir eru velkomnir og Fjórir slösuðust í árekstri en önnur segja Öll eru velkomin og Fjögur slösuðust í árekstri án þess að annar hópurinn amist við máli hins.

Því hefur líka verið haldið fram að með breytingunum sé hætta á að alið sé á skömm hjá þeim sem ekki hafa breytt máli sínu – skömm yfir því að tala „karllægt“ mál í stað þess að tileinka sér mál „góða fólksins“ sem geri öllum kynjum jafnhátt undir höfði. Það er vitanlega ótækt ef fólk er gagnrýnt eða litið niður á það á einhvern hátt fyrir að tala þá hefðbundnu íslensku sem það hefur alist upp við, en vissulega er það ekki óhugsandi og ég hef séð einhver dæmi sem mætti túlka á þann veg. Það er þó ekki nema örlítið brot af þeirri gagnrýni sem fólk sem hefur breytt máli sínu í átt til kynhlutleysis hefur fengið á sig. Bæði þau sem tala hefðbundna íslensku og þau sem breyta máli sínu verða að sýna viðhorfi hins hópsins skilning og umburðarlyndi.

Breytingar í átt til kynhlutleysis eru hættulausar

Vitanlega er eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á breytingum í átt til kynhlutleysis – allar breytingar mæta andstöðu og við viljum helst hafa málið eins og við tileinkuðum okkur það á máltökuskeiði. En þessar breytingar eyðileggja ekki íslenskuna. Þær valda ekki alvarlegum misskilningi, þær rjúfa ekki samhengi málsins, þær trufla ekki máltöku barna, og þær torvelda ekki kennslu íslensku sem annars máls. Þær kljúfa ekki heldur málsamfélagið eða valda málfarslegri stéttaskiptingu – nema við viljum hafa það þannig. Sameinumst þess í stað um að leyfa íslenskunni að blómstra í öllum kynjum og snúum okkur að því sem máli skiptir – að bæta og styrkja stöðu íslenskunnar gagnvart þeim ytri þrýstingi sem hún verður fyrir.

Posted on Færðu inn athugasemd

– eða þar

Fyrir nokkru skrifaði ég hér um orðasambandið eða þannig sem oft er notað í enda segðar „þegar við treystum okkur ekki til eða viljum ekki eða nennum ekki að útskýra nákvæmlega það sem um var rætt eða lýsa því, og treystum á að viðmælendur eða lesendur þurfi ekki eða hafi ekki áhuga á að vita öll smáatriði“. En annað ekki ósvipað samband sem oft er notað í hliðstæðri merkingu er eða þar. Það er mjög algengt í óformlegu talmáli en kemst mjög sjaldan á prent og þess vegna er erfitt að átta sig á hversu gamalt það er í málinu. Ég hef ekki fundið nein dæmi um það á tímarit.is en þau gætu þó vissulega leynst þar – vegna tíðni sambandsins eða þar í annarri notkun (ekki síst hér eða þar) er erfitt að leita af sér allan grun.

Eitt dæmi er að finna í héraðsdómi frá 2018: „Þeir hafi ekið „sveitaleiðina“ sunnan megin við Selfoss og komið inn rétt hjá Ljónsstöðum eða þar.“ Annað dæmi er á vef Ríkisútvarpsins 2014: „Það er ekkert sem stoppar Jökulsána að fara yfir í Kreppu, innan við Upptyppinga eða þar.“ En auk þess eru í Risamálheildinni um 50 dæmi af samfélagsmiðlum, það elsta á Bland.is 2002: „Þær voru keyptar í Kringlunni í búðinni á móti Auganu eða þar.“ Á Hugi.is 2004 segir: „þetta er svona ljósrofi, þarna litli hvíti kassinn í miðjunni eða þar.“ Á Bland.is 2005 segir: „Ég er nefnilega búin að vera með verk hægramegin í mjöðminni eða þar.“ Á Bland.is 2006 segir: „Skómarkaðnum úti á Fiskislóð minnir mig, æ þarna hjá Granda eða þar.“

Eins og þarna sést er elsta dæmið frá 2002, en það sýnir aðeins að þessi notkun er a.m.k. meira en 20 ára gömul – gögn af samfélagsmiðlum ná ekki lengra aftur í tímann. Þetta samband gæti þess vegna verið mun eldra. Eins og dæmin sýna er eða þar notað þegar mælandinn er ekki viss á staðsetningu eða getur ekki tilgreint hana nánar – eða óþarfi er að nefna nákvæma staðsetningu. Þetta getur vísað til hvers kyns staðsetningar – bæði utanhúss og innan, og einnig á líkamanum. Það er freistandi að tengja þetta við sambandið eða þannig sem oft er notað á mjög svipaðan hátt eins og nefnt er í upphafi. Það samband er frá því um 1980 þannig að mér þykir líklegt að þessi notkun sé a.m.k. ekki eldri, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Reykneskur

Ég var spurður hvort hægt væri að nota lýsingarorðið reykneskur, af Reykjanes – hliðstætt reykvískur, af Reykjavík. Svarið við því er ekki alveg einfalt. Yfirleitt er hægt að búa til lýsingarorð af staðaheitum með viðskeytinu -sk(ur), en oft þarf að gera ákveðnar breytingar á grunnorðinu, bæði hljóðbreytingar og styttingar. Af staðaheitum sem enda á -fjörður eru leidd lýsingarorð sem enda á -firskur,  svo sem hafnfirskur, súgfirskur; af -vík kemur -vískur, svo sem reykvískur, húsvískur; , af -dalur kemur -dælskur, svo sem bárðdælskur, svarfdælskur; af -ey kemur -eyskur, svo sem færeyskur, grímseyskur; o.fl. Yfirleitt er fyrri hluti grunnorðsins styttur í eitt atkvæði – Hafnar- > hafn-, Súganda- > súg-, Reykja- > reyk-, Svarfaðar- > svarf-, o.s.frv.

Vissulega eru til í málinu fjölmörg orð sem enda á -neskur en þau eru ekki komin af staðheitum sem enda á -nes eins og ætla mætti, heldur er um að ræða viðskeytið -nesk(ur) sem er komið af germanska viðskeytinu *-iskaeins og -sk(ur). Afbrigðið -nesk(ur) varð til í orðum eins og himinn þar sem stofninn endar á -nhimin+isk verður himn-isk sem verður himnesk, og síðan er farið að skilja orðið á þann hátt að n-ið úr stofninum tilheyri viðskeytinu – himn-esk > him-nesk. Þannig verður í raun og veru til sjálfstætt viðskeyti með sömu merkingu og -sk(ur) sem síðan er notað í fjölmörgum lýsingarorðum dregnum af erlendum staða- eða þjóðflokkaheitum – baskneskur, keltneskur, lettneskur, rússneskur, slavneskur, svissneskur, tyrkneskur o.s.frv.

En þótt viðskeytið -sk(ur) sé mjög virkt í myndun lýsingarorða af margs konar staðaheitum eins og áður segir eru lýsingarorð af einhverjum ástæðum yfirleitt ekki mynduð á þennan hátt af staðaheitum sem enda á -nes. Við höfum ekki *álftneskur, *borgneskur, *drangsneskur, *langneskur – og ekki heldur *reykneskur. Samt ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að mynda slík orð – það verður ekki betur séð en þau séu í fullu samræmi við önnur orð mynduð með -sk(ur). Hugsanlegt er að málnotendur forðist (ómeðvitað) slíka orðmyndun af því að þessi orð myndu líta út eins og þau væru mynduð með -nesk(ur). Það viðskeyti er aðeins notað á erlend heiti, og e.t.v. höfum við tilfinningu fyrir því að það eigi ekki við á íslensk staðaheiti.

Posted on Færðu inn athugasemd

Misnotkun stjórnvalda á tungumálinu

Undanfarið hálft annað ár hafa ráðherrar hvað eftir annað orðið berir að því að misnota tungumálið gróflega í pólitískum tilgangi. Í árslok 2022 tók þáverandi dómsmálaráðherra upp á því að nota orðið rafvarnarvopn í stað rafbyssa sem lengi hafði verið notað. Nokkru síðar lagði sami ráðherra fram frumvarp þar sem talað er um afbrotavarnir í stað þess sem fram að því hafði verið kallað forvirkar rannsóknarheimildir. Í vetur lagði nýr dómsmálaráðherra svo fram frumvarp um lokað búsetuúrræði sem ekki varð séð annað en væri í raun fangelsi eða fangabúðir. Nú skilgreinir sami ráðherra lýsingarorðið friðsamlegur upp á nýtt og segir að um leið og fyrirmælum lögreglu sé ekki hlýtt hætti mótmæli að vera friðsamleg.

Í öllum þessum tilvikum er augljóslega verið að reyna að slá ryki í augu almennings, hafa áhrif á almenningsálitið með notkun orða sem hafa á sér annað yfirbragð en orð sem fyrir eru, eða með því að nota orð í annarri merkingu en hefðbundið er. Þetta eru mörg dæmi á stuttum tíma og það vekur ugg, og sýnir hvað það er mikilvægt að almenningur fylgist með orðræðu stjórnvalda og gjaldi varhug við því þegar þau hagræða tungumálinu í lýsingu á athöfnum sínum – reyna að dulbúa þær með orðskrúði eða með því að breyta hefðbundinni merkingu orða. Það er merki um hugleysi og ber vott um annaðhvort vonda samvisku eða hræðslu – hræðslu við almenningsálitið. Látum stjórnvöld ekki komast upp með slíka misnotkun tungumálsins.

Hér er við hæfi að rifja upp brot úr ræðu Sigurðar heitins Pálssonar á fundi á Austurvelli fyrir tíu árum, 1. mars 2014: „Mér finnst grafalvarlegt hvernig ráðamenn hafa í svörum sínum og útskýringum stöðugt afvegaleitt tungumálið, ráðist inn í samband orðs og merkingar á skítugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merkingar. […] Framkoma ráðamanna við tungumálið er kannski það alversta og hættulegasta í þessu máli öllu. […] Við höfum fylgst allnokkra hríð með árásum ráðamanna á tungumálið. Þær eru stórhættulegar vegna þess að með því að eyðileggja orð og hugtök í anda newspeak Georges Orwell í skáldsögunni 1984, með því er verið að ráðast gegn DNA þjóðarlíkamans, þjóðarsálarinnar.“ Og Sigurður hélt áfram:

„Tungumálið er grundvöllur mannlegs samfélags alls staðar, það er skemmtilega augljóst í tilfelli okkar Íslendinga. Hið ritaða orð er grundvöllur sjálfsmyndar okkar sem þjóðar, við trúum á ritaðan texta. […] Vísvitandi afvegaleiðing orða og hugtaka jafngildir spillingu tungumálsins sem síðan spillir samskiptum manna og siðferði samskiptanna. Á endanum blasir við siðrof, fyrst manna í millum, síðan siðrof þjóðfélagsins. Það felst alvarleg hætta í því þegar ráðamenn svara kröfum um að þeir standi við orð sín með útúrsnúningum. [Þ]að er fyrsta skrefið í afvegaleiðingu og spillingu tungumálsins, fyrsta skrefið til newspeak Orwells. Viljum við ganga þann veg? Þar var tungumálið notað til þess að kæfa sjálfstæða hugsun einstaklinganna.“