Posted on Færðu inn athugasemd

Sáttur með/við árangurinn

Fyrr í dag var hér spurt um sambandið sáttur við/með sem fyrirspyrjanda fannst ofnotað, ekki síst í íþróttamáli – „virðist jafnvel hafa tekið yfir orðið ánægður“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar tvær merkingar lýsingarorðsins sáttur: 'sem hefur sæst við e-n' og 'ánægður, sammála'. Þegar sambandið sáttur við vísar til fólks er oft erfitt að greina milli merkinganna – ég er sáttur við þig getur merkt bæði 'við erum sátt(ir)' og 'ég er ánægður með þig / ég sætti mig við þig'. En í dæmum eins og sáttur við niðurstöðuna /útkomuna eða sáttur við að tapa getur sáttur við eingöngu merkt 'ég er ánægður með' eða 'ég sætti mig við', og sama máli gegnir um sambandið sáttur með – það getur ekki merkt 'sem hefur sæst við'.

Merkingin 'ánægður' í orðinu sáttur er ekki ný, og t.d. gefin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, en virðist þó lengi vel hafa verið fremur sjaldgæf. En tíðni hennar hefur aukist mjög mikið á síðustu áratugum, einkum eftir 1980, eins og marka má af því að samböndin sáttur með og sáttur við að voru sjaldgæf fyrir þann tíma en eru nú mjög algeng – í Risamálheildinni eru tæp 38 þúsund dæmi um fyrrnefnda sambandið en rúm 13 þúsund um það síðarnefnda. En þótt þessi merking sé í mikilli sókn er samt langt í að þessi sambönd útrými sambandinu ánægður með – um það eru rúm 240 þúsund dæmi í Risamálheildinni. Lausleg athugun bendir þó til þess að það sé rétt hjá fyrirspyrjanda að hlutfall sambanda með sáttur sé hærra í íþróttamáli.

En fyrirspyrjandi hafði ekki bara athugasemdir við tíðni sambandsins sáttur við/með, heldur einnig merkinguna, og sagði: „„Ég er bara mjög sáttur með (við) árangurinn,“ segir viðmælandi þegar hann er í raun hæstánægður. Í mínum huga merkir það að vera sáttur að eitthvað sé nógu gott miðað við aðstæður.“ Ég held reyndar að merking sambandsins fari mjög eftir aðstæðum, tónfalli og áherslu. Ef sagt er ég er mjög sáttur með árangurinn, með áherslu á mjög, merkir þetta vissulega 'ég er hæstánægður með árangurinn'. En ef þetta er sagt með hlutlausu tónfalli held ég að það merki einmitt það sem fyrirspyrjandi telur það merkja, þ.e. 'ég sætti mig við árangurinn'. Þetta getur þó sjálfsagt oft verið túlkunaratriði.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að ráðleggja frá

Í gær var hér spurt um sambandið ráðleggja frá sem fyrirspyrjandi hafði rekist á og komið ókunnuglega fyrir sjónir. Vissulega er oftast talað um að ráðleggja einhverjum eitthvað en ráða einhverjum frá einhverju, en í ráðleggja einhverjum frá einhverju lítur út fyrir að þessu tvennu sé blandað saman. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er ráðleggja skýrt 'segja (e-m) hvað best sé að gera, gefa (e-m) ráð' en ráða (í viðeigandi merkingu) skýrt 'gefa (e-m) ráð, ráðleggingu, heilræði'. Grunnmerking sagnanna er því u.þ.b. sú sama, en munurinn felst í því að hefð er fyrir sambandinu ráða frá í neitandi merkingu – það er að finna undir ráða með dæminu hann ræður mér frá að fara í langa sjóferð. Ekkert slíkt samband er að finna undir ráðleggja.

Sagnirnar ráða og ráðleggja eru báðar gamlar í málinu – koma fyrir þegar í fornu máli, og sambandið ráða frá í nútímamerkingu er a.m.k. síðan á 19. öld. Elstu dæmi sem ég hef fundið um ráðleggja frá eru aftur á móti frá frá því upp úr 1940. Í Lesbók Morgunblaðsins 1941 segir: „Allir eru þessir spilabankastjórar efnaðir menn og allir ráðlögðu þeir vinum sínum eindregið frá að spila.“ Í ræðu á Alþingi 1942 sagði Hermann Jónasson: „Ég ætlaði eitt sinn að gróðursetja trjáplöntur í röðum, en var stranglega ráðlagt frá því, með því að þær þrifust þá ekki.“ Í Morgunblaðinu 1943 segir: „Mönnum hefur verið ráðlagt frá því að heimsækja Gandhi.“ Í Ljósberanum 1947 segir: „Hann ráðlagði þeim eindregið frá því að fara inn í veitingasalinn.“

Fáein dæmi má finna um ráðleggja frá í blöðum og tímaritum frá næstu áratugum, en meðan aðeins eitt og eitt dæmi um sambandið er á stangli má vissulega halda því fram að um mistök eða villu sé að ræða – höfundur hafi einfaldlega ruglast og þetta sé í raun ekki mál neins. En dæmum fer fjölgandi eftir 1970 og einkum á síðustu árum. Í Risamálheildinni eru um 670 dæmi um sambandið, meginhluti þeirra frá síðasta áratug. Meira en helmingur þeirra er úr formlegu máli en hlutfallið á samfélagsmiðlum er þó mun hærra – þar eru um 320 dæmi en dæmin um ráða frá um 510. Það er því ljóst að sambandið ráðleggja frá er í mikilli sókn og engin leið að afgreiða það sem mistök eða villu lengur heldur er þetta orðið eðlilegt mál margra.

Þótt sambandið ráðleggja frá sé væntanlega tilkomið fyrir blöndun sambanda (eða rugling, ef fólk vill orða það þannig) á það sér meira en 80 ára sögu í málinu og er orðið það algengt að enginn vafi er á því að það er rétt mál samkvæmt venjulegum viðmiðum. Auðvitað er samt ljóst að hefðin fyrir ráða frá er miklu eldri og ríkari og ekkert óeðlilegt að fólk sem er alið upp við það samband vilji halda í það. Samt má hafa í huga að kannski eru góðar og gildar ástæður fyrir uppkomu sambandsins ráðleggja frá. Sögnin ráðleggja hefur nefnilega eina og ótvíræða merkingu en ráða hefur fjölmargar og fjölbreyttar merkingar og því má segja að ráðleggja frá sé í vissum skilningi gagnsærra og skýrara samband en ráða frá.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hann var slaufaður

Sögnin slaufa er tökuorð eins og hljóðafar hennar sýnir – í erfðaorðum er aldrei borið fram óraddað f milli sérhljóða þótt svo sé ritað, heldur raddað v eins og í gaufa, paufast o.s.frv. Reyndar er einnig til myndin slauffa sem fellur betur að íslensku hljóðafari því að langt ff kemur fyrir í allmörgum orðum í málinu – „Papa Roach eru hálfnaðir með næstu plötu og eru við það að slauffa túrnum sínum“ segir í Morgunblaðinu 2003. Orðið er komið af dönsku sögninni sløjfe sem merkir 'taka burt (draga, rífa til grunna)' og er aftur komin af schleifen í þýsku. Elsta dæmi sem ég finn um orðið í íslensku er í Heimskringlu 1895: „útlit er fyrir að honum […] hafi […] þótt það úrræðabest, að „slaufa“ það að innfæra þann fundargerning í gjörðabók héraðsins.“

Sögnin er skýrð 'hætta við (e-ð), sleppa (e-u)' í Íslenskri nútímamálsorðabók en hefur til skamms tíma verið fremur sjaldgæf á prenti enda merkt „óformlegt“ í orðabókum. En á seinustu árum hefur hún fengið nýja merkingu og er nú aðallega notuð um að sniðganga fólk á einhvern hátt, í orði eða verki, vegna einhvers sem það hefur sagt eða gert og tengist oft kynferðislegri áreitni, rasisma eða einhverju slíku. Í þessari notkun samsvarar orðið enska orðinu cancel en ein merking þess er 'to completely reject and stop supporting someone, especially because they have said something that offends you' eða 'að hafna einhverjum algerlega og hætta stuðningi við þau, einkum vegna þess að þau hafa sagt eitthvað sem hneykslar þig'.

Í dag var hér spurt um notkun myndarinnar slaufaður sem er að forminu til lýsingarháttur þátíðar af slaufa. Fyrirspyrjandi hafði heyrt sagt hann var slaufaður þar sem búast mætti við honum var slaufað vegna þess að sögnin stjórnar þágufalli á andlagi sínu og germyndarandlag í þágufalli heldur yfirleitt falli sínu þótt það sé gert að frumlagi í þolmynd, t.d. (einhver) hjálpaði honum honum var hjálpað, ekki *hann var hjálpaður. En þessi fallbreyting er þó ekki einsdæmi. Það er nefnilega algengt að lýsingarhátturinn fái setningafræðilegt hlutverk lýsingarorðs og þá er ekki um að ræða þolmynd, lýsingu á athöfn, heldur germynd, lýsingu á ástandi. Honum var slaufað er þolmynd, hann var slaufaður germynd.

Um þetta má nefna fjölda dæma sem þykja góð og gild og eiga sér langa sögu í málinu, svo sem hliðinu var lokað sem lýsir athöfn og hliðið var lokað sem lýsir ástandi. Nærtækast er þó að benda á sögnina útskúfa sem er merkingarlega mjög lík slaufa en lýsingarháttur hennar hefur lengi getað gegnt hlutverki lýsingarorðs. Í Þjóðviljanum 1904 segir: „hengdi á hann danskan stórkross, um leið og honum var útskúfað úr þjónustu landsins“ en í sama blaði 1905 segir: „Það er hjá Hómer som nú er útskúfaður eins og allt annað sem öll Evrópu-menntun hvílir á.“ Það verður því ekki séð að neitt í merkingu sagnarinnar slaufa ætti að koma í veg fyrir setningar eins og hann var slaufaður – við erum bara ekki vön þeim enn sem komið er.

Hin nýja notkun slaufa sem vísað var til hér að framan er nefnilega ekki nema tveggja eða þriggja ára gömul, og það er ekki fyrr en með henni sem þörf skapast fyrir lýsingarorð af sögninni – elstu dæmi sem ég finn um slaufaður eru frá 2021, svo sem „Svo ertu slaufaður ef þú ert á móti skoðunum fréttastofu sem á ekki að hafa skoðun heldur segja fréttir“ í Fréttablaðinu það ár. Vissulega má halda því fram að slaufaður sé tilkomið fyrir ensk áhrif, sé þýðing á cancelled, en þá er litið fram hjá því að hin nýja merking sagnarinnar kallar á þessa mynd. Eins og áður segir er fjöldi hliðstæðra dæma í málinu við hann var slaufaður og engin ástæða til að amast við því – við þurfum bara að venjast því eins og öðrum nýjungum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Varð hún valdur að slysi – eða völd að slysi?

Í kverinu Gott mál eftir Ólaf Oddsson segir: „Valdur að slysi (ekki: Hún var valdur að slysi!) Lýsingarorðið valdur merkir: sem veldur (einkum e-u slæmu). Það beygist svipað og orðið kaldur. Hann er valdur að slysi, hún er völd, þeir eru valdir og þær eru valdar að slysi. Á þessu hafa ýmsir flaskað.“ Í nútímamáli tekur valdur yfirleitt með sér forsetninguna valdur að slysi, valdur að tjóni, valdur að skemmdum, valdur að árekstri, valdur að áverkum o.s.frv. Þó er talsvert algengt að forsetningin af sé notuð í stað , og reyndar tíðkaðist það líka fyrr á öldum – virðist koma til á 19. öld. Í fornu máli tók valdur hins vegar oftast með sér nafnorð í eignarfalli – „kenndi brátt hver valdur mundi verks þessa“ segir í Ólafs sögu Tryggvasonar.

Mér finnst ekki ótrúlegt að það sé rétt að orðið sé stundum beygt öðruvísi en mælt er með, en ég finn þó engin dæmi um það á prenti og aðeins tvö dæmi á samfélagsmiðlum. Á Hugi.is 2002 segir: „Hún fékk ekki meira því hún drap þau ekki, hún var valdur að dauða þeirra.“ Á Bland.is 2004 segir: „strákurinn minn þurfti að fara í aðgerð 5 vikna út af því að annað lungað féll saman út frá þindarlömun sem hún var valdur af.“ En reyndar er umdeilanlegt hvort hún var valdur að slysi er rangt. Ásgeir Blöndal Magnússon segir nefnilega í Íslenskri orðsifjabók: „Orðmynd þessi (v. e-s, v. að e-u) er oftast skilgreind sem [lýsingarorð] sem er vafasamt, þar sem valdur [í merkingunni ‘stjórnandi, stýrir; valdandi,…’] hæfir samhenginu fullt eins vel […].“

Samkvæmt þessu væri valdur nafnorð í þessu samhengi og valdur einhvers eða valdur að einhverju væri sambærilegt við t.d. höfundur einhvers og höfundur að einhverju, eða ábyrgðarmaður einhvers og ábyrgðarmaður að einhverju. Það má líka benda á að til er fjöldi samsettra nafnorða þar sem -valdur er síðari liður, þar á meðal orð eins og slysavaldur og tjónvaldur sem merkja sama og valdur að slysi og valdur að tjóni. En þótt það kunni að vera rétt hjá Ásgeiri Blöndal að valdur sé upphaflega nafnorð í þessu samhengi er samt auðvitað enginn vafi á því að valdur er oft ótvírætt lýsingarorð og jafnvel þegar í fornu máli – „Eigi erum vér þessa valdir Kjartan er þú berð á oss“ segir til dæmis í Laxdæla sögu.

Ef um nafnorð væri að ræða mætti búast við myndinni valdar í stað valdir – a.m.k. er það fleirtala orðsins í seinni tíma máli. Ótvíræð lýsingarorðabeyging kemur einnig fram í kvenkynsmyndum eins og „Hún er völd að dauða margra smábarna víða um heim“ í Frey 1996. Það er líka fjöldi dæma á við „Lögreglan handsamaði fljótt mann, er hún grunaði að vera valdan að stuldinum“ í Alþýðublaðinu 1943, en engin dæmi um *vera vald að stuldinum sem búast mætti við ef um nafnorð væri að ræða. Þá má einnig nefna orðið óvaldur sem merkir 'saklaus' og kemur fyrir í fornu máli – „Það er eigi gott ráð […] að snúa sökum á óvalda menn“ segir í Brennu-Njáls sögu. Þarna er enginn vafi á því að um lýsingarorð er að ræða.

Orðið valdur er langalgengast í karlkyni eintölu nefnifalli og sú mynd getur formsins vegna verið hvort heldur nafnorð eða lýsingarorð. Það er ekkert útilokað að upphaflega sé um nafnorð að ræða en það hafi síðan verið endurtúlkað sem lýsingarorð – en einnig er mögulegt að orðið hafi upphaflega verið lýsingarorð en sé stundum túlkað sem nafnorð. Í skýringum við nafnorðið valdur í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Því bregður einnig fyrir í nefnifalli í sambandinu vera/verða valdur að e-u: Hér var hún valdur að eigin sársauka. Þarna er venjulegra að hafa lýsingarorð: […] Konan var sýknuð af að vera völd að eldsvoða.“ Mér finnst eðlilegt að líta svo á að í hún var valdur að slysi valdur nafnorð og setningin því hárrétt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Innviðir

Orðið innviðir heyrist og sést mjög oft um þessar mundir. Þetta er ekki nýtt orð – það kemur fyrir þegar í fornu máli og er þá eingöngu notað í bókstaflegri merkingu um tréverk í skipi, annað en ytra byrði. Síðar er einnig farið að nota orðið um hús – „Kirkjan að ytri súð og innviðum mjög lasleg og ágengileg“ segir í skjali frá 1677 í Biskupsskjalasafni. Enn síðar var farið að nota orðið í líkingamáli, t.d. um mannslíkamann – „þó kalla menn innvidi høfuds og briósts viscera“ segir í Ritum Lærdómslistafélagsins 1791. Þarna er verið að tala um innri gerð líkamans en merkingin er enn óeiginlegri í Norðanfara 1876: „eða lýsir ekki brjefkaflinn í Norðlingi innviðum mannsins?“. Hér er orðið eiginlega notað í merkingunni 'innræti'.

Ýmis gömul dæmi eru um að orðið sé notað um hvers konar innri gerð, áþreifanlega eða huglæga. „Verði ekki því meiri gætni viðhöfð, er ekki óhugsandi að bresti í innviðum fylkjasambandsins áður en lýkur“ segir í Heimskringlu 1895. „Enginn maðr þekkir út í yztu æsar innviði náunga síns“ segir í Fjallkonunni 1896. „Innviðir í þessari sögu er barátta á milli gamla tíðarandans og hins nýja“ segir í Heimskringlu 1901. „Þá sér lærisveinninn innviði jurtarinnar“ segir í Skinfaxa 1913. Orðið var lengst af notað í þeim tveim merkingum sem gefnar eru í tveim fyrri útgáfum Íslenskrar orðabókar – fyrst einkum sem 'máttarviðir inni í byggingu, skipi e.þ.h.' og síðar einnig 'burðarásar félagssamtaka, innri styrkur e-s e.þ.h.'

En í seinni tíð er orðið notað sem þýðing á enska orðinu infrastructure sem merkir 'the basic systems and services, such as transport and power supplies, that a country or organization uses in order to work effectively' eða 'grunnkerfi og þjónustur, svo sem samgöngur og orkuveitur, sem land eða stofnun þarf á að halda til að starfa eðlilega'. Í samræmi við þetta hefur þriðja merkingin bæst við í Íslenskri orðabók: 'helstu þættir samfélagsins, t.d. samgöngu-, mennta- og heilbrigðiskerfi (e. infrastructure)'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er þetta orðað svo: 'helstu þættir sem stuðla að virkni samfélags, s.s. samgöngumannvirki og orkukerfi'. Þetta varð fljótlega aðalmerking orðsins og tíðni þess hefur aukist gífurlega á þessari öld.

Þessi notkun virðist hafa hafist á níunda áratugnum þótt orðið sé skráð sem „nýlegt nýyrði“ í Málfregnum 1998. Í Pressunni 1989 segir: „Þannig yrðu tekjur af sölu veiðileyfa tekjustofn til að viðhalda innviðum (infrastructure) landsbyggðarinnar, samgöngukerfi og grunnþjónustu.“ Í Morgunblaðinu sama ár er talað um „samgöngur og ýmis almenn atriði sem talist hafa til hinna svokölluðu „innviða þjóðfélagsins“ (e. Infrastructure) samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum“. Í Sögu sama ár segir: „Umræður um verklegar framkvæmdir snerust mikið um eflingu á innviðum efnahagslífsins (infrastrúktúr) og má þar nefna virkjun fallvatna, lagningu járnbrauta, rekstur strandferðaskipa, vega- og brúagerð og fleira í þeim dúr.“

Í raun og veru er ekki um mikla merkingarbreytingu að ræða vegna þess að orðið hafði áður verið notað á mjög fjölbreyttan hátt eins og að framan segir. Aðalbreytingin felst í því að orðið er í raun gert að íðorði. En þessari breytingu fylgir þó þörf fyrir að láta orðið vísa til einstakra innviða, t.d. orkukerfis eða samgangna, og því fylgir þörf fyrir að nota orðið í eintölu þótt það hafi fram undir þetta nær eingöngu verið haft í fleirtölu. Allnokkur dæmi eru um eintöluna frá síðustu árum, s.s. „BSRB-liðar segja að póstþjónusta sé mikilvægur innviður“ í Fréttablaðinu 2019 og „Rafmagn hætti að vera „innviður“ og varð að „vöru“ rétt eins og fiskur og olía“ í Viðskiptablaðinu 2015. Þetta er eðlileg og óhjákvæmileg breyting á notkun orðsins.

Mér finnst vera mjög vel til fundið að nýta gamalgróið orð eins og innviðir sem íslenskun á infrastructure og sú þýðing er komin inn í ýmis orðasöfn í Íðorðabankanum. Í gær var hér spurt hvort þetta orð hefði alveg komið í staðinn fyrir orðið mannvirki, en eins og fram kom í umræðum getur hvorugt orðið komið í stað hins – ýmsir innviðir eru ekki mannvirki og ýmis mannvirki eru ekki innviðir. Vissulega geta bæði orðin þó stundum vísað til hins sama, eins og t.d. orkuversins í Svartsengi – það er vitanlega mannvirki, en það er jafnframt mikilvægur innviður og hluti af innviðum Suðurnesja, orkukerfinu. Auðvitað er þó hægt að ofnota þetta orð eins og önnur, og sjálfsagt að huga að því hvort orð eins og mannvirki ætti stundum betur við.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvað merkir flugmiði?

Um daginn sá ég í Málvöndunarþættinum að spurt var um orðið flugmiði sem nýlega kom fyrir í erlendri frétt DV: „hópurinn hefur dreift flugmiðum sem nöfn leigusala og ljósmyndir af þeim eru á.“ Fyrirspyrjandi taldi líklegt að í frumtexta hefði staðið „the group distributed flyers“ og velti fyrir sér hvort um lélega þýðingu væri að ræða – hann kannaðist aðeins við merkinguna ‚flugfarseðill‘ í orðinu flugmiði og taldi að þarna hefði átt að standa ‚dreifimiði‘. Orðið flyer er í enskri orðabók skýrt 'a small piece of paper with information on it about a product or event‘' og í Ensk-íslenskri orðabók er það skýrt 'flugrit, dreifibréf'. En í Íslenskri orðabók er flugmiði skýrt 'dreifibréf, seðill (t.d. með frétt eða áskorun) sem dreift er út' og 'farseðill fyrir flugferð'.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er aftur á móti aðeins gefin merkingin 'miði eða blað sem veitir aðgang að flugferð, farseðill' og má því ætla að hin merkingin sem Íslensk orðabók nefnir sé að mestu horfin úr málinu. Sú merking er þó eldri en hin. Elsta dæmi um hana er í Norðurlandi 1905: „beint ofan í hana reynir M. K. að telja mönnum trú um, í flugmiða er hann hefir sent kjósendum, að hann eigi „alls engan þátt í útgáfu neins blaðs.““ Þetta er aðeins tveimur árum eftir flug Wright-bræðra og löngu fyrir daga flugs á Íslandi, þannig að ljóst er að þarna er um merkinguna 'dreifirit' að ræða. Sama gildir um nær öll dæmi um orðið í blöðum næstu 40 árin og rúmlega það. Frá þeim tíma hef ég aðeins fundið þrjú dæmi um aðra merkingu orðsins.

Í Morgunblaðinu 1920 segir: „Flugið. Í dag verður flogið með farþega, tíu mínútna flug fyrir 100 kr. […] Verða flugmiðar seldir suður í flugskála.“ Hér er augljóslega um merkinguna 'flugfarseðill' að ræða. Í Morgunblaðinu 1931 eru auglýstir vinningar í hlutaveltu og þar á meðal „3 flugmiðar. Hringflug“. Í Morgunblaðinu 1939 er auglýst: „Flugmiði til Akureyrar til sölu.“ En frá árinu 1947 fara að sjást fleiri dæmi um þessa merkingu, en þó ekki að ráði fyrr en eftir miðjan sjötta áratuginn. Það virðist ekki vera fyrr en eftir 1970 sem 'flugfarseðill' verður aðalmerking orðsins, og eftir 1980 verður merkingin 'dreifirit' fáséð þótt hún sjáist enn einstöku sinnum eins og í áðurnefndri frétt DV. Um leið fjölgar dæmum um orðið mjög.

Þótt orðið sé tilkomið fyrir daga flugs á Íslandi eins og áður segir er líklegt að málnotendur hafi fljótlega tengt dreifiritsmerkinguna við miða sem dreift er úr flugvélum – a.m.k. á það við um yfirgnæfandi meirihluta dæma um orðið í þeirri merkingu allt frá fjórða áratugnum og síðan. En það er athyglisvert að báðar merkingar orðsins skuli hafa lifað hlið við hlið í heila öld. Í fyrirspurninni í Málvöndunarþættinum sem vitnað var til í upphafi sagði: „Ef það á að nota það líka yfir dreifibréf eða hvað maður vill kalla það, er hætt við miklum misskilningi.“ Það er í sjálfu sér eðlileg ályktun þótt þetta virðist einhvern veginn hafa blessast. En líklega er vandamálið að mestu úr sögunni vegna þess að dreifiritsmerkingin er nokkurn veginn horfin.

Posted on Færðu inn athugasemd

„Fréttabörn“

Fyrir jól spannst heilmikil umræða hér og víðar af orði sem kom mörgum ókunnuglega fyrir sjónir í frétt á mbl.is. Í þeirri umræðu var iðulega vísað til meintrar æsku fréttaskrifara – sagt t.d. „Þau eru 3gja að verða 5“, „Hvernig er hægt að birta svona frétt á „barnamáli““, „Er ekki hægt að fá inn á fjölmiðla talandi fullorðið fólk. Eru þetta illa talandi/skrifandi krakkar í aukavinnu með skóla“ og margt fleira í þessum dúr. Þetta leiðir hugann að orðinu fréttabörn sem var töluvert notað sem háðs- eða skammaryrði fyrir fáum árum. Orðið kemur fyrst fyrir í pistli Svarthöfða í DV 1982: „Orðið „kanaútvarp“ er nefnilega engin tilviljun, heldur húsorð hjá þeim fréttabörnum, sem ríkisfjölmiðlarnir sækjast svo ákaft eftir að hafa í þjónustu sinni.“

En það var ekki fyrr en 30 árum síðar sem orðið fór á flug, þó einkum í skrifum tveggja fjölmiðlarýna – Eiðs Guðnasonar og Jónasar Kristjánssonar. Sá síðarnefndi sagði að þetta væri „slagorð, sem við notum nokkrir gamlingjar“ og skilgreindi það svo: „Orðið fréttabarn táknar mann, sem misst hefur af landafræði og sögu. Sem hefur tæpa menntun í bókmenntum og erlendum tungumálum. Sem hefur fylgst minna með stjórnmálum og alþjóðamálum en tíðkaðist í þá gömlu, góðu daga. Sumpart afleiðing breyttra skóla og innreiðar nýrra áhugamála. Við bætist skortur á prófarkalestri. Útkoman er röng málfræði, vondur stíll, misþyrming máltækja og vanþekking á fréttasögu. Samanlagður vandinn heitir fréttabarn.“

Nokkur dæmi eru um orðið á Málefnin.com 2011, en blómatími þess hófst árið 2012 – það ár og næstu ár þar á eftir nota þeir Eiður og Jónas orðið margoft í vandlætingarskrifum á vefsíðum sínum, auk þess sem því bregður fyrir í svipuðum skrifum annarra, svo sem Baldurs Hafstað í Morgunblaðinu. En stundum var þessu líka andmælt, eins og í grein Stígs Helgasonar í Fréttablaðinu 2013: „Það er eins og þessir höfðingjar haldi að vond blaðamennska hafi fyrst orðið til um það leyti sem þeir hættu sjálfir afskiptum af henni. Ég get fullvissað þá um að svo er ekki. Eins og er oft heilmikið til í aðfinnslum þeirra þá hefðu þær líklega mun meiri áhrif ef þær væru ekki svona yfirlætisfullar og dónalegar. Allt fjas um „fréttabörn“ er til óþurftar.“

Hugarfarið að baki orðinu fréttabörn er greinilega grasserandi enn en helstu notendur þess eru báðir látnir og því sést orðið sjálft sjaldnar en áður. Sem betur fer – þetta er skelfilega neikvætt, fordómafullt og niðurlægjandi orð, bæði gagnvart ungu fjölmiðlafólki og börnum. Það má taka heilshugar undir orð Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu 2015: „Það er ósiður að nota orð sem tengjast börnum og hinu barnalega í neikvæðri merkingu eða sem skammaryrði. Þar eimir eftir af gamalli íslenskri barna-andúð. Það sýnir leiðinlegan þankagang og skilningsleysi á því mikla dýrmæti sem felst einmitt í tærum og frjóum barnshuganum og hinu barnslega viðhorfi. Ætli orðið „fréttabörn“ sé ekki ljótasta orð íslenskrar tungu?“

Posted on Færðu inn athugasemd

Uppstú, uppstúf, uppstúfur – og uppstúningur

Það er við hæfi í dag að skoða orðið uppstú(f)(ur) sem merkir 'hvít, þykk sósa úr hveiti, smjöri og mjólk, jafningur'. Það er íslensk gerð af danska nafnorðinu opstuvning sem hefur sömu merkingu og er komið af sögninni opstue 'búa til jafning' – stuve merkir 'hita upp aftur, sjóða við hægan eld'. Í íslensku er f(v) (og reyndar g líka) oft mjög ógreinilegt eða hverfur alveg á eftir ú (og á og ó) í áherslulausum atkvæðum, í orðum eins og ljúf/ljúfur, dúfa/dúfur o.fl., og þess vegna er ekkert óeðlilegt að til verði bæði myndin uppstú og uppstúf. Karlkynsmyndin uppstúfur verður til vegna þess að orðið er miklu oftar notað í þolfalli og þágufalli en í nefnifalli – búa til uppstúf, hangikjöt með uppstúfi – og út frá því er nefnifallsmyndin uppstúfur búin til.

Elsta dæmi um aðlögun danska orðsins opstuvning að íslensku er jafnframt það sem fer næst fyrirmyndinni. Það er orðið uppstúning sem kemur fyrir í auglýsingu í Vísi 1922: „Allskonar uppstúning, svo sem: grænar baunir, asparges, rófur, kartöflur og margt fleira.“ Þarna virðist orðið þó frekar merkja 'niðursuðuvara' en 'jafningur'. Þetta er eina dæmið um kvenkynsmynd orðsins á tímarit.is en karlkynsmyndin uppstúningur er nefnd sem hliðarmynd undir uppstúf í Íslenskri orðabók. Elsta dæmið á tímarit.is um hvorugkynsmyndina uppstúf er frá 1927, elsta dæmi um karlkynsmyndina uppstúfur frá 1959 en elsta dæmi um uppstú frá 1946. Fimm dæmi eru hins vegar um lýsingarorðið uppstúfaður og það kemur fyrir í bréfi frá 1891.

Langalgengustu beygingarmyndir orðsins eru uppstúf og uppstúfi, og báðar gætu verið hvort heldur karlkyns- eða hvorugkynsmyndir eins og áður segir. En út frá myndum með ákveðnum greini sem ótvírætt tilheyra aðeins öðru kyninu sýnist mér að hvorugkynið hafi verið algengast áður fyrr en karlkynið hafi sótt á síðustu áratugi og sé algengast núna. Ég sé engar forsendur fyrir því að kalla eina þessara mynda réttari en aðra, hvað þá að amast við þeim. Málfarsbankinn segir reyndar: „Í staðinn fyrir orðin uppstú, uppstúfur og uppstúf er hægt að nota orðið jafningur.“ Á bak við þetta liggur líklega andóf gegn tökuorðum, en eins og Guðrún Kvaran segir á Vísindavefnum er jafningur líka tökuorð úr dönsku, að vísu síðan í lok 18. aldar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hættum að rakka ungt fólk niður vegna málfars

Þessi hópur var upphaflega stofnaður til að andæfa neikvæðri umræðu um íslenskuna á samfélagsmiðlum og í athugasemdadálkum vefmiðla. Þar veður uppi hneykslunarumræða sem ekki verður séð að hafi annan tilgang en þann að gera lítið úr fólki sem verður eitthvað á í máli – að mati þeirra sem skrifa. Iðulega kemur reyndar í ljós, þegar að er gáð, að um er að ræða einhvers konar vanþekkingu, misskilning eða rangtúlkun og málfarið sem hneykslast er á er gott og gilt. Einstaklega gott – eða vont – dæmi um þetta kom upp í vikunni þegar mbl.is birti frétt um kvikuna „sem spúst hefur upp á yfirborðið í eldgosinu við Sundhnúkagíga“. Þá mátti lesa á Facebook-síðu mbl.is og í hópunum Málvöndunarþátturinn og Skemmtileg íslensk orð:

„Unga fólkið er að meika það á Mogganum“; „Þvílíkt orðalag er þetta háskólamenntuð manneskja sem hefur slíkt orðalag“; „Nei nú er mér allri lokið, sá eða sú sem skrifaði þetta hefði ekki átt að komast upp úr fyrsta bekk“; „Úr hvaða skóla útskrifaðist hann?“; „Þetta lið er ekki talandi“; „Er ekki hægt að fá inn á fjölmiðla talandi fullorðið fólk. Eru þetta illa talandi/skrifandi krakkar í aukavinnu með skóla“; „Fara blaðamenn ekki i skóla?; algjörlega ómenntaðir dregnir beint upp úr fjóshaug“; „Eru blaðamenn ekki búnir að eyða meirihluta æfinnar í skóla en rita svona bull í opinberan fjölmiðil??“; „á hverju er þetta lið????“; „Þau eru 3gja að verða 5“; „Hvernig er hægt að birta svona frétt á "barnamáli"?“; o.s.frv.

Þetta er bara brot af athugasemdum sem snúa beinlínis að þeim sem skrifuðu fréttina – við það bætast fjölmargar athugasemdir eins og „Orðið Spúst er víst til líka, en engu að síður orðskrípi“, „Vill Mogginn láta svona þvælu sjást?“, „Er þetta kannski eitt kynleysis orðið?“ og margar í sama dúr. Það kom fyrir ekki þótt inn í þessa þræði væri ótal sinnum settur hlekkur í Beygingarlýsingu íslensk nútímamáls þar sem myndin spúst er gefin upp sem sagnbót (lýsingarháttur þátíðar) í miðmynd af sögninni spúa. Vissulega er þetta sjaldgæf mynd, og fullkomlega eðlilegt að málnotendur átti sig ekki á henni. En það er ekki eðlilegt að gefa sér að um sé að ræða bernsku, heimsku, fákunnáttu eða menntunarskort þeirra sem skrifuðu fréttina.

Umræða af þessu tagi er því miður ekki einsdæmi þótt þetta tilvik sé í svæsnara lagi. Mér sýnist athugasemdir helst koma frá fólki sem er komið yfir miðjan aldur eins og ég, en við þurfum að hafa í huga að íslenskan hefur breyst heilmikið frá því að við vorum að tileinka okkur hana og það er umhugsunarefni hvers vegna fólki finnst eðlilegt og sjálfsagt að rakka ungt fólk niður vegna málfars. Um leið er fólk að hreykja sjálfu sér og taka undir með faríseanum sem sagði: „Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.“ Það þarf bara að skipta um örfá orð: „Guð, ég þakka þér að ég tala ekki eins og þetta fólk, unglingar, fáfróðir, ómenntaðir, eða þá eins og þessi fréttabörn.“

Íslenskan hefur alltaf verið að breytast, sem betur fer – lifandi mál hlýtur að breytast í takt við þróun þjóðfélagsins og þarfir málsamfélagsins. Það er líka alveg eðlilegt að okkur komi sumar breytingar undarlega fyrir sjónir og fellum okkur ekki við þær í fyrstu. En við megum fyrir alla muni ekki ráðast á unga fólkið og rakka niður mál þess. Við þurfum að fá unga fólkið í lið með okkur vegna þess að það verður að taka við íslenskunni. Það er ekki öðrum til að dreifa. En umræða af þessu tagi, þar sem sífellt er verið að segja unga fólkinu að það kunni ekki íslensku, er fremur til þess fallin að gera það fráhverft íslenskunni en til að vekja áhuga þess á viðgangi og framtíð málsins. Unga fólkið verður að fá á tilfinninguna að það eigi hlut í íslenskunni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Verkurinn leiðir – eða verkinn leiðir?

Ég fékk fyrirspurn um hvort ætti að segja verkurinn leiðir (fram í handlegg) eða verkinn leiðir. Fyrsta hugsun mín var að eðlilegt væri að segja verkinn leiðir en þegar ég fór að athuga málið sýndist mér það ekki jafn sjálfsagt og í fyrstu. Það er eðlilegt að tengja þessi dæmi við setningu þar sem verkur er andlag, svo sem taugin leiðir verkinn fram í handlegg. Í málinu er að finna ýmis pör þar sem þolfallsandlag í slíkri setningu er gert að frumlagi og fær þá venjulegt dæmigert frumlagsfall, nefnifall: hún stækkaði íbúðina íbúðin stækkaði, ríkisstjórnin lækkaði skattana skattarnir lækkuðu, hann minnkaði drykkjuna drykkjan minnkaði, þau opnuðu búðina búðin opnaði, þjálfarinn hvíldi þær þær hvíldu, o.fl.

Það eru reyndar til dæmi um þolfall í frumlagssæti í svipuðum setningum, eins og bátinn rak að landi og reykinn leggur upp. Í báðum tilvikum er þó rík tilhneiging til að nefnifall komi í stað þolfallsins. Þágufallsandlög halda hins vegar oftast fallinu – við segjum skipafélagið fjölgaði ferðunum ferðunum fjölgaði, skatturinn fækkaði undanþágum undanþágum fækkaði, o.s.frv. Stundum er það upp og ofan hvort þágufall helst eða nefnifall kemur í staðinn – kjörstjórnir loka kjörstöðum getur orðið bæði kjörstaðir loka og kjörstöðum lokar. Með sumum sögnum kemur alltaf nefnifall – hann velti bílnum verður bíllinn velti en ekki *bílnum velti – og reyndar var sagt ferðir fjölguðu og undanþágur fækkuðu á 19. öld.

Ég finn engar vísbendingar í orðabókum um fallnotkun með leiða í þessu sambandi, en samkvæmt dæmunum að framan mætti búast við nefnifalli, verkurinn leiðir fram í handlegg. Mikill meirihluti dæma á tímarit.is hefur líka nefnifall en dæmin eru reyndar mjög fá – 25 um nefnifall en aðeins sjö um þolfall. Elsta dæmi þolfallið er í Læknablaðinu 1978: „Verki leiðir út í eyru“. Elsta dæmi um nefnifallið er í Heilbrigðismálum 1985: „Verkurinn leiðir oftar út í vinstri handlegg en hægri.“ Þessi aldursmunur er svo lítill og dæmin svo fá að ekki er hægt að taka þolfallið fram yfir nefnifall á grundvelli hans. Í Risamálheildinni eru dæmin um 110 og öll nema sjö hafa nefnifall. Langflest dæmi um sambandið eru af samfélagsmiðlum.

Í Málfarsbankanum segir reyndar: „Sögnin leiða getur verið ópersónuleg. Með henni stendur frumlag í þolfalli: eitthvað (þf.) leiðir af einhverju (þgf.). Af þessu leiðir mikinn vanda. Ekki er hægt að rífa húsið án þess að af því leiði hættu.“ En þarna er um að ræða sambandið leiða af sem er dálítið annað, þótt vissulega gæti þessi notkun haft áhrif á máltilfinningu sumra. Einnig er hugsanlegt að skyld notkun sagnarinnar leggja valdi því að þolfall er stundum notað með leiða – sagt er verkinn leggur fram í handlegg. En mér sýnist bæði málhefð og samanburður við aðrar sagnir mæla eindregið með því að nota nefnifall í dæminu sem um var spurt og segja verkurinn leiðir fram í handlegg, þótt ég myndi hika við að kalla verkinn leiðir rangt.