Að heita í höfuðið á

Í dag var hringt í mig og ég spurður hvaða merkingu ég legði í samböndin heita í höfuðið á og skíra í höfuðið á. Ég sagði sem satt er að ég væri vanur að nota þetta bæði með vísun til fólks sem væri á lífi og látið, og teldi mig vera alinn upp við það. Ég segist heita í höfuðið á langafa mínum sem dó sjö árum áður en ég fæddist. Hins vegar sagðist ég vita að sumum fyndist rétt að gera mun á heita/skíra í höfuðið á og heita/skíra eftir, og vildu tala um að heita/skíra í höfuðið á lifandi fólki en heita/skíra eftir látnu fólki. Í Íslenskri orðabók er „láta barn heita í höfuðið á e-m“ skýrt 'gefa barni nafn e-s (einkum lifandi manns)'. Það eru samt greinilega fleiri en ég sem gera ekki þennan mun og nota í höfuðið á bæði um lifandi fólk og látið.

Í Skírni 1886 segir t.d.: „Hún dó eptir nokkra mánuði, og árið á eptir gekk hann að eiga […] Maríe Christine, og við henni hefir hann tvær dætur getið. Hin eldri heitir í höfuðið á fyrri konu hans.“ Hér fær dóttirin nafn í höfuðið á látinni konu. Í Heimskringlu 1891 segir: „Þau hjón höfðu látið heita í höfuðið á Ljósvetningagoðanum, en hann vildi eigi lifa.“ Þarna er barni á 19. öld gefið nafn í höfuðið á sögualdarmanni. Í Þjóðólfi 1911 segir: „»Forseta«fjelagið fær líka einn nýjan, sem á að heita í höfuðið á Skúla fógeta.“ Hér er togara gefið nafn í höfuðið á löngu látnum manni. Í Morgunblaðinu 1980 segir: „Tvær af verksmiðjum Sambands íslenskra samvinnufélaga á Akureyri heita Gefjun og Iðunn í höfuðið á fornum gyðjum.“

En í höfuðið á er líka notað um annað en fólk og sýnir að í huga margra merkir í höfuðið á X einfaldlega 'gefa sama nafn og X' eða 'með nafn X að fyrirmynd'. Þannig segir í Ísafold 1913: „Eldvarpið, sem við sáum, höfum við skýrt Eldgeysi í höfuðið á gamla Geysi.“ Í Lögbergi 1914 segir: „Þeir tilbáðu ekki sólina lengur, en þeir skýrðu fyrsta daginn í vikunni og létu hann heita í höfuðið á sólinni.“ Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Er skírt í höfuðið á fossi þeim í Lagarfljóti, sem er rétt hjá Kirkjubæ.“ Í Fréttum 1918 segir: „Hún á nú fjórtán daga afmæli í dag, og köllum við hana ýmsum nöfnum, en eitt þeirra er »Mary Ann« –»í höfuðið« á gamalli skútu.“ Í Tímanum 1920 segir: „Róma, hjartasmyrsl hans, heitin í höfuðið á hans elskuðu borg!“

En þótt í höfuðið á vísi virðist vísa jöfnum höndum til lifandi og látins fólks er svo að sjá sem heita/skíra eftir vísi langoftast til látins fólks. Frá því eru þó undantekningar. Þannig segir í Tímanum 1960: „Hinn ungi Kennedy mun verða skírður eftir föður sínum og nefndur John.“ Í Fálkanum 1961 segir: „Það gerist nú æ tíðara í Bandaríkjunum að vörur séu skírðar eftir frægum kvikmyndastjörnum.“ Rétt eins og með sambandið heita/skíra í höfuðið á er heita/skíra eftir oft notað um annað en fólk. Í Lögbergi 1915 segir: „Florence Nightingale var fædd í Florence á Ítalíu og látin heita eftir borginni.“ Í Fréttum 1916 segir: „eru þar myndir af skipum félagsins og fossunum, sem þeir heita eftir.“ Um þetta eru ótal dæmi frá ýmsum tímum.

Í Dagsbrún 1915 segir: „Það virðist ekki bráðnauðsynlegt að láta drenginn heita í höfuðið á honum afa sínum, ef hann heitir Jón, Jónas eða Jónatan, eða láta telpuna heita eftir ömmu sinni, ef hún heitir Elísabet, Kristjana eða Jóhanna, þó ekkert af þessum nöfnum geti kallast ljótt.“ Hér er greinilegt að heita í höfuðið á og heita eftir er lagt að jöfnu, því að varla er gert ráð fyrir að afinn sé jafnan á lífi en amman látin. Það er auðvitað ekkert að því að þau sem hafa alist upp við þennan mun, eða tileinkað sér hann, haldi áfram að gera hann. En það er ekki heldur neitt að því að nota heita/skíra í höfuðið á í vísun til jafnt lifandi og látins fólks – fyrir því er löng hefð. Að minnsta kosti ætla ég að halda áfram að segjast heita í höfuðið á Eiríki langafa mínum.

Að stíga til hliðar

Í tilefni af yfirlýsingu bankastjóra Íslandsbanka um daginn um að hún hefði ákveðið að „stíga til hliðar“ má rifja upp orð Víkverja í Morgunblaðinu 2017: „Hverjum datt upphaflega í hug að láta stjórnmálamenn „stíga til hliðar“? Ábyrgð hans eða hennar er mikil enda hafa þeir sem hætta afskiptum af pólitík ekki gert annað síðan, það er að segja annað en að „stíga til hliðar“. Það hættir ekki nokkur maður í pólitík lengur, nemur staðar, dregur sig í hlé, víkur sæti, lætur gott heita, hverfur til annarra starfa eða hvaðeina sem nota má til tilbreytingar eða í staðinn. Það „stíga allir til hliðar“. Menn stíga ekki einu sinni niður, sem væri strax tilbreyting, enda þótt Víkverji sé ekki allskostar hrifinn af því orðalagi. Til þess er það of enskulegt.“

Það er alveg rétt að í ensku er oftast notað orðalagið step down 'stíga niður', þótt step aside 'stíga til hliðar' sé einnig til. Elsta dæmi sem ég finn um stíga til hliðar í merkingunni 'láta af störfum' er í Morgunblaðinu 1981: „Hann og Joan, kona hans, gistu hjá Rosalynn og Jimmy Carter í Hvíta húsinu í nótt, en þau munu öll stíga til hliðar fyrir nýju forystumönnum þjóðarinnar í dag.“ Annað dæmi er úr sama blaði síðar sama ár: „Það eru ávallt bollaleggingar um það í Bretlandi, hvort drottningin, sem er 55 ára, muni stíga til hliðar fyrir Karli, sem nú er 32 ára.“ Þetta eru þýðingar eða endursagnir á fréttatextum á ensku og líklegt að í frumtextunum hafi staðið step aside. Í báðum dæmum er talað um að stíga til hliðar fyrir einhverjum.

En stundum merkir stíga til hliðar ekki 'láta af störfum', heldur 'víkja tímabundið', eins og í Morgunblaðinu 1972: „Á lokatónleikum Listahátíðarinnar gerðist nánast kraftaverk. Einar Vigfússon, sem um árabil hefur unnið gott starf sem fyrsti sellóleikari, sté til hliðar og fól fyrrverandi nemanda sínum, Hafliða Hallgrímssyni, að leika einleikshlutverkið í öðrum þætti Brahms píanókonsertsins.“ Sömu merkingu lagði Sigríður Andersen í orðasambandið eins og fram kom í frétt í Vísi 2019: „Sigríður sagði að persóna hennar kunni að trufla ákvarðanir sem þarf að taka í Landsréttarmálinu og í því ljósi hefur hún ákveðið að stíga til hliðar næstu vikurnar.“ Það er auðvitað óheppilegt að hægt sé að túlka sambandið á tvo vegu.

Það er athyglisvert að fjöldi dæma um orðalagið stíga til hliðar á tímarit.is margfaldast kringum hrun, á árunum 2008-2009 – eftir það eru yfirleitt kringum fimm sinnum fleiri dæmi á ári en voru fyrir hrun. Það er ekki gott að segja hvort það stafar af því að mun oftar sé sagt frá því að fólk láti af störfum en áður var, eða hvort notkun þessa orðalags á kostnað annarra hafi stóraukist – og þá af hverju. Þótt trúlegt sé að uppruna orðalagsins megi rekja til ensku er það í sjálfu sér ekki gild ástæða til að amast við því. Hins vegar er þetta auðvitað einhvers konar skrauthvörf – mildara en ýmislegt annað sem kæmi til greina. Það er samt engin ástæða til að láta þetta alltaf koma í stað beinskeyttara orðalags eins og t.d. segja af sér eða hrökklast frá.

Er verið að úthýsa afa og ömmu?

Nú hafa Samtökin ´78 auglýst þriðju nýyrðasamkeppni sína, Hýryrði 2023, en fyrri keppnir voru haldnar 2015 og 2020. Þær skiluðu ýmsum nýjum nafnorðum eins og eikynhneigð, dulkynja, flæðigerva, kvár og stálp, auk þess sem orðið bur var endurvakið í nýrri merkingu. Fornafnið hán er hins vegar eldra, verður tíu ára á þessu ári. Meðal þeirra orða sem nú er leitað eftir tillögum að er kynhlutlaust nafnorð sem samsvarar amma og afi, svo og kynhlutlaust ábendingarfornafn sem samsvarar og . „Okkur í Samtökunum ´78 er umhugað um að geta talað um veruleika okkar á íslensku“ segir á heimasíðu samtakanna. „Við leitum því aftur til samfélagsins til að aðstoða okkur við að þróa tungumálið.“

Hugmyndir fólks um kyn, kynferði, kynhneigð og kynvitund eru aðrar nú en áður fyrr og mikilvægt að tungumálið endurspegli það eins og aðrar samfélagsbreytingar. „Á átta árum hefur ýmislegt breyst og nýjar aðstæður krefjast nýrra orða“ segir á heimasíðu Samtakanna ´78. Það ætti að vera öllum unnendum íslenskunnar fagnaðarefni að fólk skuli hafa einlægan áhuga á því að geta notað íslensku á öllum sviðum, þar á meðal þessu. En því er ekki að heilsa – þvert á móti. Samfélagsmiðlar og athugasemdakerfi hafa fyllst af fordómafullum og rætnum athugasemdum, rangtúlkunum, útúrsnúningi og misskilningi sem verður því miður ekki túlkað öðruvísi en sem birtingarmynd djúprættra fordóma gagnvart kynsegin fólki.

Meðal þess sem haldið er fram er að nýtt orð eigi að koma í staðinn fyrir orðin afi og amma, þannig að þeim ágætu orðum verði útrýmt úr málinu. Í frétt mbl.is af nýyrðasamkeppninni kemur þó skýrt fram að svo er ekki – þar segir: „Meðal þess sem leitað er eftir er nafnorð sambærilegt orðunum amma og afi sem hægt væri að nota um kynsegin fólk.“ En í athugasemdum við fréttina á Facebook og víðar á samfélagsmiðlum má þrátt fyrir það finna fjölda ummæla á við „Ég ætla sko að halda áfram að vera afi/amma“ eða eitthvað í þeim dúr. Auðvitað stendur ekki til að breyta því. Allir afar og allar ömmur geta verið það áfram. Nýja orðið sem leitað er að yrði eingöngu notað um þá fáu kynsegin einstaklinga sem eiga barnabörn.

Fólk má hafa þá skoðun mín vegna – eins og ég hafði til skamms tíma – að kynin séu aðeins tvö. En það er óskiljanlegt hvers vegna svo mikill æsingur verður yfir því að til standi að bæta nýju orði í málið. Það er ekki verið að hrófla við málkerfinu að neinu leyti og þetta orð á ekki að koma í stað orða sem fyrir eru og mun ekki skerða notkunarsvið þeirra nema að örlitlu leyti. Þau sem þekkja ekki til kynsegin fólks sem á barnabörn munu ekki þurfa að nota nýja orðið og ekki verður séð hvernig það ætti að trufla þau. Þau sem aftur á móti þekkja slíkt fólk vilja kannski – og vonandi – nota það orð sem fólkið vill sjálft að sé notað um sig. Á endanum snýst þetta ekki um tungumálið, heldur um það hvernig við viljum koma fram við annað fólk.

Snjólétta, ólétta og fleiri -léttur

Í gær var spurt hér um nafnorðið snjólétta sem var notað í frétt á mbl.is – meira að segja tvisvar, bæði í texta blaðamanns og viðmælanda. „Að sögn Ágústar Freys Bjartmarssonar, yfirverkstjóra á Vík, er snjólétta á fjöllum helsta ástæða þess að vegirnir voru opnaðir fyrr en vanalega. „[…] Nú var snjólétta þannig að við gátum byrjað fyrr“.“ Trúlegt er að blaðamaður hafi tekið orðið upp eftir Ágústi – það er nefnilega ólíklegt að báðir þátttakendur í samtalinu hafi þekkt orðið því að það er mjög sjaldgæft. Það er ekki að finna í neinum orðabókum, ekkert einasta dæmi er um orðið í Risamálheildinni og aðeins þrjú á tímarit.is. Ritmálssafn Árnastofnunar nefnir eitt dæmi um orðið og vísar í heimild, en tilfærir dæmið ekki.

Eitt dæmanna á tímarit.is er úr Sjómannadagsblaðinu 1983: „Veðurátt á Patreksfirði er fremur þurr, og snjólétta mikil.“ Þegar að er gáð kemur í ljós að vitnað er í texta eftir Jón Sigurðsson í Ystafelli í Kaldakinn, og er þar komið dæmið sem vísað er til í Ritmálssafni Árnastofnunar, tekið úr bókinni Land og lýður. Drög til íslenzkra héraðalýsinga frá 1933. Annað dæmi um orðið er einnig frá Jóni í Ystafelli, úr grein í Tímanum 1953: „Það er t.d. söguleg staðreynd að menn björguðu oft fé í hörðum vorum, með því að reka það úr snjóþunga á snjóléttu“. Þriðja dæmið er úr viðtali við Svarfdæling í Tímanum 1968: „Hér um veturinn í ótíð og fannfergi á Norðurlandi en snjóléttu á Suðurlandi.“ Öll þessi dæmi eru því af austanverðu Norðurlandi.

Nafnorðið snjólétta er augljóslega dregið af lýsingarorðinu snjólétt og slík orðmyndun er ekki einsdæmi – þetta er hliðstætt því að nafnorðið ólétta er dregið af lýsingarorðinu ólétt. Elsta dæmi um það orð er í Tímanum 1930: „Eru vel hugsanleg þau tilfelli, þar sem telja mætti vafa leika á því, hvort heldur um sulli sé að ræða eða óléttu, ekki sízt ef t.d. konan skyldi þræta fyrir hið síðara.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1953 segir: „Og það var þessi „ólétta“, sem fyrst vakti grun um að brögð væru í tafli.“ Gæsalappirnar sýna að orðið er þarna ekki fullkomlega viðurkennt, en það virðist verða algengt upp úr 1960. Þetta er einföld og eðlileg orðmyndun sem mætti nýta meira, nota t.d. nafnorð eins og skaplétta af skaplétt, sporlétta af sporlétt o.s.frv.

Þær fáu heimildir sem finnast um snjólétta benda til Norðurlands en ljóst er að um ákaflega sjaldgæft orð er að ræða. Þess vegna er merkilegt að það skuli dúkka upp á netinu meira en hálfri öld eftir að það sást síðast í blaði eða tímariti. En vegna þess að þessi orðmyndun virðist liggja nokkuð beint við er ekki hægt að útiloka þann möguleika að um sjálfstæða orðmyndun sé að ræða, þ.e. viðmælandi mbl.iseða einhver í málumhverfi hans hafi búið orðið til án þess að vita af eldri dæmum um það. Sé svo er þetta dæmi um frjóa og eðlilega orðmyndun, en að öðrum kosti er þetta dæmi um það hvernig mjög sjaldgæf orð geta varðveist í málinu árum og áratugum saman án þess að komast á blað. Hvort sem heldur er finnst mér snjólétta ágætt orð.

Tungumálið á að vera valdatæki almennings

Tungumálið er valdatæki – eitt öflugasta valdatæki sem til er í lýðræðisþjóðfélagi, og við megum ekki láta valdhafana eina um að beita þessu tæki. Öfugt við flest önnur valdatæki er það sem betur fer að talsverðu leyti á valdi okkar sjálfra hversu gott og mikið vald við höfum á þessu tæki – við getum nefnilega þjálfað okkur upp í að beita því. En vitanlega getum við ekki, hvert og eitt, greint á virkan hátt nema lítið brot af því sem kemur frá valdhöfunum og þess vegna er mikilvægt að fjölmiðlar séu virkir á þessu sviði og stundi hvassa og markvissa orðræðugreiningu á því sem þaðan kemur. Og þess vegna er líka mikilvægt að þau sem fást við slíka greiningu nýti samfélagsmiðla til að miða henni til annarra.

Undanfarna daga hef ég dundað mér við það hér í sveitasælunni að skoða og greina ummæli og yfirlýsingar stjórnenda Íslandsbanka í framhaldi af skýrslu fjármálaeftirlits Seðlabankans. Ef marka má viðtökur hafa þessar greiningar verið gagnlegar og þeim hefur undantekningarlaust verið vel tekið – ég þykist þó vita að sumum hugnist þær ekki en frá þeim hefur ekkert heyrst. Ég hef kallað þetta orðræðugreiningu og vissulega er þetta orðræðugreining – í sinni einföldustu mynd, enda er ég enginn sérfræðingur á því sviði. En þetta eru engin geimvísindi. Þetta er ekkert flóknara en það sem við ættum öll að geta gert, án nokkurrar menntunar í orðræðugreiningu. Þetta er fyrst og fremst almenn skynsemi og gagnrýnin hugsun.

Það sem ég vonast til að ná fram með því að birta þessar greiningar er ekki að hrekja stjórnendur Íslandsbanka frá völdum, heldur að hvetja þau sem lesa þetta til að fara að mínu dæmi og skoða orðræðu hvers kyns valda- og áhrifafólks á þennan hátt. Það þarf ekki annað en spyrja fáeinna einfaldra spurninga, svo sem: Hvers vegna er þetta orð eða orðalag notað? Er þetta merkingarlaus klisja ætluð til þess að drepa málinu á dreif? Hvað merkir axla ábyrgð, draga lærdóm af, vegferð, í stóra samhenginu, sviðsmyndir, við þurfum öll að læra af þessu, o.s.frv.? Við þurfum líka að spyrja: Hvers vegna er verið að nefna þetta – hvað kemur það málinu við? Getur góð frammistaða á einu sviði afsakað eða réttlætt klúður eða lögbrot á öðru sviði? O.s.frv.

Ég held sem sagt að við getum öll auðveldlega gert þetta, en það tekur vissulega tíma – sem við höfum sjaldnast eða gefum okkur ekki, og þess vegna er samhjálpin mikilvæg eins og áður segir. Við hlustum á fólk spinna út í eitt, og spuninn fer inn um annað eyrað og út um hitt. En prófið nú að taka einhvern texta – viðtal við ráðherra eða bankastjóra, fréttatilkynningu fyrirtækis eða stofnunar, e.þ.h. – og brjóta hann upp. Skoðið efnisgrein fyrir efnisgrein eða málsgrein fyrir málsgrein og glöggvið ykkur á því hvað er verið að segja og hvað liggur að baki – spyrjið þeirra spurninga sem ég nefndi hér að framan, og annarra í sama dúr. Ég er sannfærður um að þið sjáið margt sem þið tókuð ekki eftir við fyrsta lestur eða fyrstu heyrn.

„Íslenska hörfar sem móðurmál“

Ofangreind fyrirsögn er á frétt mbl.is í dag. Það mætti ætla að börn væru að skipta um móðurmál en auðvitað er ekki um slíkt að ræða, heldur fer þeim leikskólabörnum fjölgandi sem ekki eiga íslensku að móðurmáli. Það merkir ekki að íslenskan „hörfi sem móðurmál“ og slíkt orðalag getur ýtt undir misskilning, varnarviðbrögð og jafnvel útlendingaandúð. Það er skaði vegna þess að málefnið sem fjallað er um í fréttinni er mikilvægt og mjög brýnt. Formaður Kennarasambandsins segir: „Leik­skól­ar þurfa nú að leggja meiri áherslu en áður á það að koma til móts við börn sem eiga ekki ís­lensku sem móður­mál. […] Við verðum að gera bet­ur og bregðast hraðar við. Það er mik­il­vægt að fjölga leik­skóla­kenn­ur­um og sér­hæfðu starfs­fólki.“

Í drögum að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026 sem nú er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda segir: „Mótuð verði viðmið um íslenskuhæfni starfsfólks sem vinnur við uppeldi og menntun sem hvorki er með íslensku að móðurmáli né með leyfisbréf til kennslu í leik- og grunnskólum. Hæfniviðmið byggist á markmiðum laga um leik- og grunnskóla og aðalnámskrám viðkomandi skólastiga og taki mið af hæfniþrepi B samkvæmt Samevrópska tungumálarammanum. Jafnframt verði framboð á námskeiðum í íslensku fyrir þennan hóp aukið.“ Þetta er jákvætt, en það sem vantar er sérhæft starfsfólk sem hefur menntun og þekkingu til að vinna með börnum með annað móðurmál en íslensku og efla málþroska þeirra.

Bankastjóri „stígur til hliðar“

Ég sagðist um daginn bíða „spenntur eftir framhaldi á skýringum bankastjórans þegar skýrsla fjármálaeftirlitsins verður birt í heild“. Nú er yfirlýsing bankastjórans (fyrrverandi) komin og ástæða til að greina hana nánar.

  • „Ég hef ákveðið að stíga til hliðar sem banka­stjóri Íslands­banka með hags­muni bank­ans að leiðarljósi svo ró geti mynd­ast vegna sátt­ar Íslands­banka við fjár­mála­eft­ir­lit Seðlabanka Íslands.“

Hér er sagt „stíga til hliðar“ eins og nú tíðkast, sem eru skrauthvörf fyrir „segja af mér“ eins og áður var. En raunveruleg merking í „Ég hef ákveðið að stíga til hliðar“ er þó „Ég sé mér þann kost vænstan að hrökklast frá“. Og „vegna sáttar Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanks Íslands“  er villandi – óróinn er ekki vegna sáttarinnar sem slíkrar, heldur vegna þess sem þar kemur fram um fjölmörg brot bankans á lögum og reglum.

  • „Með því axla ég ábyrgð á mín­um þætti máls­ins. Umræðan hef­ur verið óvæg­in og ýms­um stjórn­mála­mönn­um hef­ur verið tíðrætt um af­sögn mína. Ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störf­um.“

Það er ekki mat eða ákvörðun þeirra sem um er að ræða hvort og hvernig þau axla ábyrgð á verkum sínum og þess vegna er ekki hægt að segja „Með því axla ég ábyrgð“. Með því að segja að umræða sé „óvægin“ er gefið í skyn að hún hafi verið ósanngjörn, og setningunni „Ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum“ er ætlað að vekja samúð með bankastjóranum – þótt stjórnmálamenn hlífi henni ekki óskar hún þeim velfarnaðar af göfuglyndi sínu.

  • „Það er með mikl­um trega sem ég yf­ir­gef Íslands­banka enda hef ég starfað hjá bank­an­um og for­ver­um hans í um 30 ár. Starfsævi mín hef­ur nán­ast öll verið helguð bank­an­um og okk­ur hef­ur tek­ist að byggja upp eitt öfl­ug­asta fyr­ir­tæki lands­ins með ein­stök­um starfs­manna­hópi. Ég hef eign­ast marga góða vini bæði í hópi starfs­fólks og viðskipta­vina.“

Þetta kemur afsögninni og ástæðum hennar ekkert við en þjónar eingöngu því hlutverki að vekja samúð lesenda með bankastjóranum yfir því að hún skuli nú þurfa að láta af störfum. Það er í sjálfu sér mannlegt, en e.t.v. hefði verið heppilegra að sýna meiri auðmýkt.

  • „Sátt fjár­mála­eft­ir­lits Seðlabanka Íslands snýr ein­göngu að þessu eina verk­efni, að öðru leyti hef­ur fer­ill minn hjá bank­an­um verið far­sæll.“

Þótt sáttin snúi „eingöngu að þessu eina verkefni“ kemur fram í henni að óheilbrigðir starfshættir hafi þróast innan bankans. Þeir voru ekki bundnir við þetta eina verkefni þótt þeir kæmu í ljós í tengslum við það. Þess vegna er hæpið að segja að ferill bankastjórans hafi „að öðru leyti […] verið farsæll“.

  • „Und­ir minni stjórn, sem banka­stjóri, hef­ur eigið fé bank­ans auk­ist um næst­um 150 millj­arða auk þess sem ríf­lega 110 millj­arðar hafa verið greidd­ir í arð til hlut­hafa.“

Þetta kemur afsögninni ekkert við, heldur er ætlað til þess að upphefja bankastjórann og sýna hversu mikill skaði sé að brottför hennar. En það er líka athyglisvert að eingöngu er talað um bankann sjálfan og hluthafa. Fróðlegt væri að vita líka hvað bankinn hefur gert fyrir viðskiptavini sína – hvernig hefur hann stuðlað að bættum hag fólksins í landinu? Það er ekki að sjá að bankastjórinn telji það mikilvægt.

  • „Okk­ur hef­ur tek­ist að ná fram fjölda sigra á fjár­mála­markaði með mann­leg gildi að leiðarljósi. Ég kveð bank­ann með söknuði en sátt við mitt verk. Ég óska öllu mínu sam­starfs­fólki góðs geng­is og vona inni­lega að með þessu skap­ist friður í kring­um fyr­ir­tækið og fólkið sem mér þykir svo vænt um.“

Að hafa „mannleg gildi að leiðarljósi“ er klisja sem merkir ekki neitt. Það er líka athyglisvert að bankastjórinn segist vera „sátt við mitt verk“ – í því hlýtur þá líka að felast að hún sé sátt við það hvernig staðið var að bankasölunni.

En svo vantar í yfirlýsinguna upplýsingar um það hvort bankastjórinn hafi fengið feitan starfslokasamning.

Grandvaraleysi

Í útvarpsfréttum í morgun var haft eftir viðmælanda að svo virtist „sem mikið grandvaraleysi hafi ríkt innan Íslandsbanka“. Vakin var athygli á þessu í Málvöndunarþættinum og spurt: „Ætli þarna hafi ekki fremur átt að vera orðið „andvaraleysi“ […] en orðið samsláttur við orðið „grandleysi“ […]“. Venjuleg mynd síðarnefnda orðsins er reyndar grandaleysi en það skiptir ekki máli hér – ástæðulaust er að efast um að uppruni orðsins sé sá sem þarna er nefndur. Einnig er til samsvarandi lýsingarorð, grandvaralaus, en um það sagði Gísli Jónsson: „Grandalaus og andvaralaus hafa sést í einni bendu: „grandvaralaus““ og bætti við: „Að þessum dæmum er hlegið, og þau hafa engri festu náð, hvað þá hefð eða viðurkenningu.“

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er grandalaus skýrt 'sem á sér einskis ills von, óviðbúinn, óaðgætinn' og andvaralaus er skýrt 'sem gætir ekki að hlutunum, er ekki á verði'. Þessi orð hafa því u.þ.b. sömu merkingu, og sama má segja um grandaleysi sem er skýrt 'það að hugsa ekki um aðstæður, óaðgæsla' og andvaraleysi sem er skýrt 'það að skeyta ekki um, hirða ekki um e-ð'. Athugun á dæmum um grandvaralaus og grandvaraleysi bendir til að þau séu notuð í sömu merkingu. Reyndar er grandvaralaus er gefið upp í Íslenskri orðabók með skýringunni 'grunlaus' – að vísu ekki sem sjálfstætt flettiorð, heldur undir nafnorðinu grandvari sem annars kemur varla fyrir. Skýringin 'grunlaus' er ónákvæm þótt hún sé ekki alveg fráleit.

Þótt Gísli Jónsson segi að grandvaralaus hafi „engri festu náð“ er ljóst að bæði lýsingarorðið grandvaralaus og nafnorðið grandvaraleysi eiga sér meira en hundrað ára sögu í málinu. Elsta dæmið um grandvaralaus er í Ísafold 1909: „hvort ekki komi sporvagn, hestavagn, vélavagn eða reiðhjól þeysandi með þeim elskulega ásetningi, að sletta heila grandvaralausra manna um steinbrúna.“ Elsta dæmið um grandvaraleysi er aðeins eldra, í Austra 1894: „Sú skýla er hann í grandvaraleysi sínu hafði bundið fyrir augu sér, var nú allt í einu horfin.“ Alla tíð síðan hafa orðin verið nokkuð notuð þótt þau hafi aldrei orðið algeng. Samtals eru rúm 200 dæmi um þessi orð á tímarit.is, og í Risamálheildinni tæp 100 dæmi.

Það er því enginn vafi á að grandvaraleysi og grandvaralaus hafa öðlast hefð í málinu, og jafnvel má halda því fram að sú hefð sé álíka gömul og hefðin fyrir grandaleysi og grandalaus (í núverandi merkingu) – elstu dæmi um þau orð á tímarit.is eru frá svipuðum tíma, 1893 (að vísu kemur grandalaus fyrir í fornu máli og nokkur eldri dæmi eru um það í Ritmálssafni Árnastofnunar en þar hefur orðið eldri merkinguna, 'saklaus'). Hins vegar má auðvitað deila um hvort orðin hafi hlotið viðurkenningu, en í því sambandi má benda á að dæmi um þau er m.a. að finna í verkum virtra rithöfunda og fræðimanna, í lagafrumvörpum, og ræðum á Alþingi. Því er engin ástæða til annars en líta svo á að þetta séu góð og gild íslensk orð.

Yfirklór

Stjórn Íslandsbanka hefur sent frá sér stutta tilkynningu um væntanlega boðun hluthafafundar, en aftan í hana er hnýtt: „Bankinn og stjórnendur harma mjög þau brot sem fram koma í sáttinni. Á hluthafafundinum verður farið ítarlega yfir málsatvik og þær úrbætur og breytingar sem þegar hafa verið gerðar eða eru í vinnslu.“ Enn er reynt að draga úr alvarleik málsins og ábyrgð stjórnenda með því að nefna bankann fyrst og segja „bankinn og stjórnendur harma“. Fyrirtæki geta vitanlega ekki „harmað“ neitt. Þau hafa ekki tilfinningar. En að skýla sér á bak við fyrirtæki er auðvitað alþekkt aðferð til að draga athygli frá ábyrgð tiltekinna einstaklinga.

En svo er það sögnin harma. Hún merkir 'vera leiður (vegna e-s), þykja eitthvað leitt'. Við gætum sjálfsagt flest tekið undir það að við hörmum klúðrið í þessu máli. En í þessu orðalagi felst nákvæmlega engin yfirlýsing um ábyrgð stjórnenda bankans, hvað þá afsökunarbeiðni vegna margvíslegs skaða sem málið hefur valdið. Á fundinum á svo að fara yfir „úrbætur og breytingar sem þegar hafa verið gerðar eða eru í vinnslu“. Hér er eingöngu minnst á jákvæða þætti, „úrbætur“ og „breytingar“. Það virðist ekki standa til að ræða neitt um það hvernig stjórnendur bankans hafi hugsað sér að bæta fyrir þann skaða sem háttalag þeirra hefur valdið.

Er nú ekki nóg komið af yfirklóri?

Ábyrgðarleysi

Í haust var forsætisráðherra spurð um það í viðtali á Stöð tvö hvort það væri ekki fjármála­ráð­herra sem bæri ábyrgð á því sem hefði farið úrskeiðis við sölu á hlut í Íslandsbanka. Í svari sínu sagði hún að ríkisstjórnin og fjármálaráðherra hefðu einmitt „axlað pólitíska ábyrgð“. Þegar þetta mál var rætt á Alþingi sagðist Þórhildur Sunna Ævarsdóttir eiga „mjög erfitt með að skilja hvað hæst­virtir ráðherrar áttu við þegar þeir sögðust hafa axlað pólitíska ábyrgð.“ Í framhaldi af því spurði hún: „Hvernig skilgreinir hæstvirtur forsætisráðherra pólitíska ábyrgð? Hvern­ig telur for­sætis­ráð­herra að kjörnir fulltrúar axli pólitíska ábyrgð? Aukaspurn­ingin í þessu sam­hengi er: Hvernig í ósköpunum hefur ríkisstjórnin axlað pólitíska ábyrgð á bankasölunni?“

Forsætisráðherra fór um víðan völl í svari sínu og sagði m.a.: „Við getum sagt að pólitísk ábyrgð birtist í sinni ýtrustu mynd í því að ráðherra missi embætti sitt vegna vantrausts þingsins. […] Þegar horft er til þeirra sem fjallað hafa um þessi mál, t.d. á norrænum vettvangi, þá getur ráðherra axlað pólitíska ábyrgð með ýmsum öðrum hætti. […] [D]anskur hæstaréttardómari og einn helsti sérfræðingur Norðurlanda í ráðherraábyrgð […] orðar það svo […] að þótt ýtrasta form pólitískrar ábyrgðar birtist í því að vantraust sé samþykkt þá geti pólitísk ábyrgð birst í ýmsum myndum, t.d. með gagnrýni á ráðherra í pólitískri umræðu, með­ferð mála í þinginu og eftir atvikum með snuprum svokölluðum […] í áliti þingnefnda.“

Tæpast er hægt að segja að þarna séu skýr svör við spurningunum. Í viðtali við Vísi lýsti Henry Alex­ander Henrysson siðfræð­ingur áhyggjum af kæruleysislegri umgengni ráðherra við hug­takið pólitísk ábyrgð og hvernig að bera ábyrgð og axla ábyrgð er ruglað saman. „[S]tundum berum við ábyrgð á einhverju að því leyti að okkur er falið verkefni. Þá berum við ábyrgð á því að úr því sé unnið. Ég tók eftir því að fjármálaráðherra valdi að tala um slíka ábyrgð […] þegar hann vísað til þess að hann hefði borið ábyrgð á því að selja hlut í banka. En þetta er kannski ekki að bera ábyrgð eða axla ábyrgð í þeim skilningi sem fólk hefur verið að tala um. Það er tengdara síðari merkingunni þar sem maður þarf að vera ábyrgur fyrir því sem gert hefur verið.“

Fólk ber ábyrgð á tilteknum hlutum, samkvæmt lögum, siðareglum eða almennum venjum í mannlegum samskiptum, og undan þeirri ábyrgð verður ekki vikist, hún er ekki valkvæð – en hún hefur ekki endilega neinar afleiðingar. Fólk sem axlar ábyrgð tekur hins vegar á sig ábyrgð á ein­hverju sem það hefur ekki endilega komið nálægt. Ráðherra getur t.d. axlað ábyrgð á verk­um einhvers undirmanns síns eða undirstofnunar þótt honum hafi verið alls ókunnugt um þau og þau jafnvel verið í blóra við vilja hans. Stundum er hins vegar hægt að hafna því að axla ábyrgð, sem felur þá í sér að neita að taka ábyrgð á orðum eða gerðum sínum – eða eftir atvikum fjöl­skyldu­meðlima, undirmanna eða annarra sem fólk hefur á einhvern hátt í umsjá sinni.

Eitt er að þvo hendur sínar af tilteknum orðum eða athöfnum og neita því að axla ábyrgð á þeim, telja sig ekki hafa borið neina ábyrgð á þeim – það getur átt rétt á sér frá lagalegu eða sið­ferðilegu sjónarmiði. En annað er að segjast axla ábyrgð á þessum orðum eða athöfnum og láta þar við sitja – bregðast ekki við á nokkurn annan hátt. Þá er verið að nota orðasambandið í ann­arri merkingu en það hafði til skamms tíma, í sömu merkingu og bera ábyrgð. En á þessu tvennu er – eða var – grundvallarmunur eins og Henry Alexander benti á. Að axla ábyrgð felur í sér – eða fól í sér – afleiðingar. Ráðherrann í dæminu hér á undan gæti mátt þola hrakfarir í næsta prófkjöri eða kosningum, eða jafnvel þurft að segja af sér – í útlöndum. Ekki á Íslandi.