Sífreri málfarslegra viðmiða

Þótt vissulega hafi verið rekin hörð málhreinsunarstefna í Lærða skólanum á seinni hluta 19. aldar þarf að hafa í huga að nemendur Halldórs Kr. Friðrikssonar og annarra málhreinsunarmanna þar voru komnir af barnsaldri og margir hverjir harðfullorðnir. Því má gera ráð fyrir að málkerfi þeirra hafi verið fullmótað og ekki auðvelt að breyta því. En jafnframt má ætla að þeir hafi haft nægan þroska til að geta lagt sjálfstætt mat á mál og málbreytingar og tekið afstöðu til þeirra. Kennarar hafi því getað rökrætt málfarsefni við þá í stað þess að kveða einfaldlega upp órökstudda Salómonsdóma, þótt vissulega sé óvíst hvort og þá að hvaða marki það var gert.

Á þessum tíma voru barnaskólar fáir og fámennir og skólatíminn stuttur, en með lögum um fræðsluskyldu allra 10-14 ára barna 1907 varð grundvallarbreyting. Skyndilega „náði hin opinbera stefna í málfarsefnum, um rétt mál og rangt, til allra barna á mótunarskeiði“ segir Kjartan G. Ottósson í bókinni Íslensk málhreinsun og heldur áfram: „Jafnframt virðist svo sem málstefnan hafi tekið nokkrum blæbrigðabreytingum um leið og hún beindist að öðrum aldurshópi en áður. Stefnan virðist hafa verið einfölduð og löguð að þroska nemenda með því að talað var meira og afdráttarlausara um rétt mál og rangt. Meira hefur verið farið að reyna að breyta talmáli nemenda, en áður var öll megináherslan á ritmálinu.“

Þarna náðist sem sé til mun yngri málnotenda en áður – barna sem ekki voru komin með fullmótað málkerfi, voru enn á máltökuskeiði að einhverju leyti. Þess vegna var auðveldara – eða a.m.k. talið auðveldara – að breyta máli þeirra en skólapiltanna í Lærða skólanum. Þar að auki var málstefnunni nú beint til allra barna á landinu, ekki bara fámenns úrvals mun eldra fólks. Því hefur ekki þótt ástæða til að gera ráð fyrir að börnin hefðu sjálfstæða skoðun á málinu eða gætu rökrætt það. Þess vegna hefur þótt fært að ganga mun lengra en áður – hafna öllum tilbrigðum og kalla undantekningarlaust eitt rétt en annað rangt. Ekki er ólíklegt að þetta hafi tengst ungmennafélagsanda og þjóðernisstefnu sem var áberandi í upphafi aldarinnar.

Kennslubækur sem notaðar voru meginhluta 20. aldar eru flestar í þessum anda. Þeirra þekktust og áhrifamest er bók Björns Guðfinnssonar sem upphaflega kom út 1937 og hét þá Íslenzk málfræði handa skólum og útvarpi en var margsinnis endurútgefin undir svolítið mismunandi heitum. Eiríkur Hreinn Finnbogason endurskoðaði hana verulega fyrir 5. útgáfu 1958 sem hét fyrst Íslenzk málfræði handa framhaldsskólum og síðar Íslensk málfræði handa grunnskólum og framhaldsskólum. Sú útgáfa var margsinnis endurprentuð, síðast 1999 að því er virðist, og hefur því væntanlega verið notuð fram á þessa öld – og er kannski enn. A.m.k. má búast við að flestir Íslendingar sem komnir eru yfir miðjan aldur hafi notað hana.

Bók Björns, og þó enn frekar endurskoðun Eiríks Hreins, er yfirleitt mjög afdráttarlaus og gefur engan kost á tilbrigðum – rétt er rétt og rangt er rangt, eitt er rétt og allt annað rangt. Sú afstaða mótaði vitanlega viðhorf margra kynslóða til tungumálsins og hefur í marga áratugi endurspeglast mjög víða og gerir það að verulegu leyti enn í dag – í kennslu og kennslubókum, í samræmdum prófum, í málfarsþáttum í fjölmiðlum, í athugasemdum við málfar sem skrifaðar eru á vefmiðlum og samfélagsmiðlum (sem flestar eru skrifaðar af fólki komnu vel yfir miðjan aldur) – og í handbókum og uppflettiritum um málfar, svo sem Handbók um íslensku og Málfarsbankanum.

Við sitjum sem sé enn uppi með stefnu í málfarsefnum og afstöðu til tilbrigða í máli sem mótaðist í byrjun 20. aldar og miðaðist við börn á síðari hluta máltökuskeiðs. Þessi stefna hefur verið alhæfð og látin ná til barna og fullorðinna, ritmáls og talmáls. Og þarna er ekki bara um að ræða afstöðu til tilbrigða í máli almennt, heldur til einstakra tilbrigða. Það er dálítið eins og ýmis atriði málsins hafi verið fryst í byrjun 20. aldar, þrátt fyrir að þjóðfélagið hafi gerbreyst á öllum sviðum á þessum tíma. Það er mjög brýnt að losa um þennan sífrera, breyta þessari afstöðu og þessum viðmiðum. Of langt bil milli viðmiðanna og eðlilegs máls almennings skaðar íslenskuna.

„Rétt“ og „rangt“ á seinni hluta 19. aldar

Viðmið okkar um „rétt“ og „rangt“ mál, sem í seinni tíð eru stundum kölluð „íslenskur málstaðall“, mótuðust að miklu leyti á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. Einn áhrifamesti maðurinn í þeirri mótun var Halldór Kr. Friðriksson sem var aðalíslenskukennari Lærða skólans (nú Menntaskólans í Reykjavík) í nærri hálfa öld, frá 1848 til 1895. Hann skrifaði fyrstu kennslubókina í íslenskri málfræði sem gefin var út, Íslenzka málmyndalýsingu, 1857. Það er athyglisvert að sitthvað sem þar er nefnt sem venjulegt mál þykir nú rangt, og einnig eru nefndar athugasemdalaust ýmsar tvímyndir í beygingu þar sem önnur þykir nú röng. Nokkur dæmi um hvort tveggja eru talin hér á eftir.

Þarna er t.d. sagt að eignarfall eintölu af vindur sé ýmist vinds, sem sé sjaldgæft, eða vindar. Nú er vinds venjulega myndin en „Eignarfallsmyndunum vindar og vindarins bregður fyrir en þær eru sjaldséðar“ segir í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Einnig segir: „Mörg eru þau karlkennd nöfn, sem ýmist hafa s eða ar í eig. eint. […], t.a.m. […] lækur, eig. læks og lækjar; vefur, eig. vefs og vefjar, o.s.frv.“ Oft er rifjað upp þegar umsjónarmaður þáttarins „Daglegt mál“ í útvarpinu sagði af sér árið 1980 eftir að honum varð á að segja í þættinum að eignarfallið af lækur væri læks; og í umfjöllun um eignarfall orðsins vefur sagði Gísli Jónsson 1998: „Niðurstaðan er skýr: Eignarfallið af vefur er vefjar, ekki ?vefs.“

Í umfjöllun um víxl e og a í orðinu ketill segir: „Á sama hátt beygðist og til forna Egill (þiggj. Agli).“ Þágufallið Agli var sem sé horfið úr málinu á þessum tíma en var síðar endurvakið. Einnig segir: „Þegar greinirinn er skeyttur aftan við faðir, verður eig. eint. föðursins.“ Í Málfarsbankanum segir aftur á móti: „Eignarfall eintölu er t.d. ekki „föðurs“, með greini „föðursins“, eins og halda mætti út frá algengustu beygingarflokkunum heldur föður, með greini föðurins.“ Um orðið segir að það sé „óreglulegt í eig. eint., en það er þar fjár; þó er myndin fjes til, en miklu óvanalegri“. Sú mynd er samt ekki fordæmd eins og nú; í Málfarsbankanum segir: „Eignarfallið er ekki „fés“, með greini „fésins“ […].“

Í umfjöllun um kvenkynsorð er bent á að -ar og -ir sé í sumum orðum haft jöfnum höndum sem ending nefnifalls fleirtölu, „t.a.m. grein, greinir og greinar; skál, skálir og skálar“. Um kvenkynsorð sem enda á -i í öllum föllum, svo sem réttvísi, skynsemi, gleði, reiði o.s.frv., segir: „Þegar þess konar orð eru skeytt saman við önnur orð, er opt skotið s inn á milli til hljóðfegurðar, t.a.m. rjettvísisverk, skynsemis-orð […].“ Á 20. öld var oft amast við s í slíkum orðum. Þá segir: „Sum eru þau nöfn, sem nú að minnsta kosti eru hvorugkyns í eint., en kvenkyns í fleirt., t.a.m. […] eng-ið (áður eng) – engjar […].“ Kynskipti milli eintölu og fleirtölu þykja nú yfirleitt röng, sbr. það sem segir í Málfarsbankanum um fótur og fingur.

Því fer samt fjarri að Halldór viðurkenni allar breytingar sem orðið höfðu frá fornmáli. Hann nefnir t.d. aðeins beyginguna læknir um lækni, í fleirtölu læknar, en ekki beyginguna læknir í þolfalli eintölu og læknirar í nefnifalli fleirtölu sem var mjög algeng og líklega mun algengari á hans tíma. Hann nefnir ekki heldur aðra beygingu á frændsemisorðunum bróðir, systir og dóttir en nú þykir rétt, þótt lengi hafi tíðkast að hafa þessi orð eins í öllum föllum eintölu. Hann segir líka „hönd er óreglulegt í þiggj. eint., þar sem það er hendi“ en nefnir ekki tilbrigði eins og hönd í þágufalli eða hendi í nefnifalli og þolfalli sem hvort tveggja var til á hans dögum. Hann nefnir aðeins viðurkennda beygingu á ær og kýr; o.s.frv.

Þrátt fyrir þetta sýna dæmin hér að framan að jafnvel harðir málhreinsunarmenn á seinni hluta 19. aldar, eins og Halldór Kr. Friðriksson, viðurkenndu – eða gerðu ekki athugasemdir við – ýmsar breytingar sem höfðu orðið frá fornu máli og nú eru taldar rangar en aðeins eldri myndin talin rétt í hverju tilviki. Það táknar auðvitað ekki endilega að tekist hafi að hrekja „nýjungarnar“ úr málinu – flestar lifa enn góðu lífi þrátt fyrir að vera taldar „rangt mál“, nema þágufallið Egli. Því má spyrja hvernig og hvers vegna það hafi gerst, að íhaldssamari og einstrengingslegri afstaða hafi verið tekin til ýmissa málbreytinga þegar kom fram á 20. öld.

Gagnsemi orðflokkagreiningar

Þótt ég hafi skrifað hér pistil um gagnsleysi orðflokkagreiningar í gær táknar það alls ekki að ég telji þekkingu á orðflokkum og eðli þeirra fánýta. Það er mikilvægt að öðlast þekkingu á tungumálinu og skilning á eðli þess og notkun – en hvorugt fæst með hefðbundinni orðflokkagreiningu. Við kunnum nefnilega öll að greina orð í flokka og lærðum það á máltökuskeiði, og beitum kunnáttunni í allri málnotkun okkar – við notum nafnorð á ákveðinn hátt, sagnir á annan hátt, o.s.frv. Þetta gætum við ekki nema vegna þess að í huga okkar, í málkerfi okkar, eru þessi orð greind í flokka. En það táknar ekki að sú greining sé meðvituð og orðflokkagreining gengur einmitt út á að gera okkur meðvituð um þessa ómeðvituðu flokkun.

Eða ætti að ganga út á það, ef hún er stunduð á annað borð. En stundum byggist hefðbundna greiningin á einhverjum reglum sem eru andstæðar hinni ómeðvituðu flokkun okkar – ýmist vegna þess að hegðun orða hefur breyst eða vegna þess að greiningin hefur aldrei verið rétt. Gott dæmi um það er orðið þannig sem venjulega hefur verið greint sem atviksorð þótt það sé reyndar einnig flokkað sem lýsingarorð í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er nefnilega löng hefð fyrir því að nota þetta orð eins og það væri lýsingarorð – láta það standa með nafnorði, eins og þannig fólk. Sama gildir um orðin svona og svoleiðis sem einnig er venja að flokka sem atviksorð en standa iðulega með nafnorði – svona fólk, svoleiðis fólk.

Orðflokkagreining sem heldur áfram að greina þannig sem atviksorð í samböndum eins og þannig fólk er því ekki að endurspegla málkunnáttu okkar og gera hana meðvitaða, heldur er orðin flokkunarfræði sem í besta falli er gagnslaus en hætta er á að rugli fólk í ríminu. Sama gildir um orðflokkagreiningu sem greinir gær sem atviksorð þótt öll skynsamleg rök hnígi að því að það sé nafnorð. Besta dæmið um greiningu í fullkomnu ósamræmi við hegðun er orðið sem sem var greint sem tilvísunarfornafn þegar ég lærði orðflokkagreiningu, eins og löngum bæði fyrr og síðar – allt þar til Höskuldur Þráinsson sýndi fram á það 1980 að orðið væri tilvísunartenging enda hagar það sér ekki á nokkurn hátt eins og fornafn.

Það er sjálfsagt að kenna um orðflokka, en sú kennsla ætti að byggjast á skoðun og skilningi á því hvernig orðin eru notuð. Það er eðlilegt að byrja á almennri lýsingu á einstökum orðflokkum, dæmigerðu hlutverki þeirra og hegðun, og sýna dæmi um það. En í staðinn fyrir að leggja áherslu á að geta hengt merkimiða á hvert einasta orð má síðan skoða valin dæmi þar sem greiningarviðmið rekast á. Þótt orðið þannig hafi t.d. iðulega setningarstöðu lýsingarorðs eins og áður segir beygist það vissulega ekki eins og lýsingarorð. Orðið gaman hefur beygingu og setningarstöðu nafnorðs en hagar sér að sumu leyti eins og lýsingarorð. Orðið ýmis er greint sem óákveðið fornafn en hagar sér að mörgu leyti eins og lýsingarorð.

Fjölmörg fleiri dæmi mætti nefna þar sem flokkun er ekki ótvíræð en gefur tilefni til vangaveltna og umræðna. Ég er sannfærður um að kennsla af þessu tagi, þar sem nemendur væru látnir skoða einstök orð og hegðun þeirra frá ýmsum sjónarhornum – beygingu, setningarstöðu, og merkingu – væri bæði margfalt gagnlegri og óendanlega miklu skemmtilegri en steindauð flokkunarfræði.

Gagnsleysi orðflokkagreiningar

Ég hef áður, bæði hér og í bók minni Alls konar íslenska, sagt frá einu mesta áfalli unglingsára minna – þegar ég gataði á (í raun skítléttri) málfræðispurningu á landsprófi. Spurningin var: „Hvers vegna er rangt mál að segja: Þannig mönnum er ekki treystandi?“ Þetta vissi ég ekki – reyndi að vísu að klóra í bakkann með því að benda á að það færi betur á því að segja slíkum mönnum er ekki treystandi en það var auðvitað ekki svarið. Svarið er vitanlega: Þetta er rangt vegna þess að þannig er atviksorð og atviksorð standa með lýsingarorðum en ekki með nafnorðum. Vegna þess að þið hafið væntanlega flest lært orðflokkagreiningu þykist ég vita að þið hefðuð ekki verið í vandræðum með þetta.

Nei, djók. Ég stórefast um að mörg ykkar hefðu getað svarað þessu enda er þannig mönnum er ekki treystandi eðlilegt mál okkar flestra og hefur tíðkast síðan á 19. öld. Það er fráleitt að telja þetta rangt mál þótt það væri gert fyrir hálfri öld. En auðvitað hefði ég samt átt að geta svarað spurningunni. Ég vissi nefnilega mætavel að þannig væri atviksorð og raunar held ég að ég hafi kunnað orðflokkagreiningu upp á tíu – og meira að segja þótt hún skemmtileg, ólíkt flestum skólasystkinum mínum. En ég var líka nörd. Samt sem áður dugði sú kunnátta mér skammt til að svara þessari spurningu, þótt lykillinn að svarinu lægi einmitt í því að vita hvaða orðflokkur þannig væri.

En ástæðan fyrir því að þessi kunnátta dugði mér ekki til að svara spurningunni lá í því hvernig orðflokkagreiningin var kennd. Okkur var kennt að hengja merkimiða á orðin – þetta er nafnorð, þetta er sögn, þetta er atviksorð o.s.frv. – án þess að hugsa mikið um hvers vegna eitthvað væri nafnorð eða sögn eða atviksorð, og hvernig við gætum nýtt þessa kunnáttu. Vissulega var nefnt að nafnorð væru „heiti einhvers, svo sem veru, hlutar, hugmyndar, verknaðar“, sagnir greindu frá „athöfn eða breytingu á ástandi“ svo að vitnað sé í Íslenska málfræði Björns Guðfinnssonar – og atviksorðin voru svo ruslakista, merkimiði sem var hengdur á orð sem virtust ekki passa í neinn þeirra flokka sem skilgreindir höfðu verið.

Þessar þumalputtareglur dugðu samt ekki alltaf, og í mörgum tilvikum þurfti einfaldlega að læra flokk tiltekinna orða sem stundum var eiginlega alveg andstæður almennri skynsemi. Orðið gær var t.d. flokkað sem atviksorð og er það enn í öllum orðabókum, sýnist mér. Samt sem áður er augljóst að það hlýtur að vera nafnorð – stendur á eftir forsetningu, í gær, hliðstætt við í dag, í morgun, í kvöld o.s.frv. Eina ástæðan fyrir því að það er ekki flokkað sem nafnorð virðist vera sú að það kemur aðeins fyrir í einni beygingarmynd, í sambandinu í gær. En þannig er það með fjölda nafnorða. Engum dettur í hug að flokka takteinum og boðstólum sem atviksorð þótt þau komi aðeins fyrir í samböndunum á takteinum og á boðstólum.

Sem sé: Ég kunni mína orðflokkagreiningu, og vissi að þannig væri atviksorð – en ég hafði ekki lært að hagnýta mér þessa kunnáttu. Hún var mér gagnslaus þegar á reyndi. Vissulega segir Björn Guðfinnsson: „Atviksorð standa einkum með sögnum, lýsingarorðum og öðrum atviksorðum til frekari ákvörðunar.“ En einhvern veginn hafði lítil áhersla verið lögð á þetta, og þar að auki segir þarna „einkum“ – það segir ekki að þau geti ekki staðið með nafnorðum. Nú veit ég auðvitað ekkert um það hvernig orðflokkagreining er kennd í dag eða hversu mikil áhersla er lögð á hana. En ég hef samt grun um að hún sé iðulega kennd sem flokkunarfræði án tengsla við tilgang eða raunverulega málnotkun.

Það er leiðinlegt, tilgangslaust og ekki til annars fallið en hrekja nemendur frá íslenskunni.

Hvað er vinnuafl?

Ágæt kona sem ég þekki hringdi í mig til að ræða (mis)notkun orðsins vinnuafl. Í Íslenskri orðabók er þetta orð sagt hafa tvær merkingar, vissulega náskyldar; annars vegar 'sá þáttur framleiðslu sem felst í starfskröftum vinnandi fólks' og hins vegar 'fólk til að vinna, starfslið'. Fyrri merkinguna er t.d. að finna í setningunni „sumir álíta, að Torfi gjöri sjer mest far um að nota vinnuafl piltanna, en lítið um framfarir þeirra“ í Ísafold 1883, en þá síðari í setningunni „Í þeirra hópi eru fyrstu kynslóðar innflytjendur, erlent vinnuafl, ferðamenn, kvótaflóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd“ í Tímariti hjúkrunarfræðinga 2020.

Elsta dæmi um orðið er frá 1859 og í eldri dæmum virðist fyrri merkingin vera algengari þótt oft sé útilokað að greina á milli. Viðmælandi minn taldi hins vegar að seinni merkingin væri yfirgnæfandi í seinni tíð og lausleg athugun á tímarit.is virðist staðfesta það, sem og Íslensk nútímamálsorðabók – þar er aðeins gefin merkingin 'fólk sem vinnur, starfslið, starfsfólk‘'. Hún sagðist ekki kunna vel við þessa notkun – með því að nota vinnuafl sem samheiti við fólk og tala t.d. um erlent vinnuafl í stað erlends starfsfólks væri fólkið smættað í hlutverk sitt sem (oft ódýr) vinnukraftur – talað um það sem andlitslausan massa en ekki einstaklinga.

Með þessu er auðvitað ekki verið að segja að þau sem nota orðið vinnuafl á þennan hátt – eins og ég hef sjálfur iðulega gert – séu að nota það á meðvitaðan hátt til að smætta fólk eða gera lítið úr því á einhvern hátt. Því fer fjarri. Málnotkun okkar og orðaval mótast af hefðum og umhverfi og stundum bera orðin með sér úreltar hugmyndir sem endurspegla ekki viðhorf samtímans án þess að við veitum því athygli. Það er löng hefð á að nota vinnuafl í þessari merkingu, við grípum það upp og notum það án þess að hugsa út í mögulegar aukamerkingar þess eða hvernig annað fólk geti hugsanlega túlkað það.

Í slíkum tilvikum er alltaf spurning hvað eigi að gera – hvort við eigum að hafna orðunum vegna þessarar arfleifðar þeirra, eða halda áfram að nota þau og segja að arfleifðin skipti engu máli – þau hafi einfaldlega aðra merkingu í samtímanum. Gott dæmi um þessa klípu eru orðin örvhent og rétthent sem ég skrifaði einu sinni um. En ég er alls ekki að fordæma umrædda notkun orðsins vinnuafl eða hvetja fólk til að forðast hana. Þetta er hins vegar almenn ábending um það að við þurfum að vera meðvituð um það hvaða skilaboð við sendum með orðfæri okkar, og stundum skilst það öðruvísi en það er meint.

Eflum jákvæða umræðu

Eins og þið hafið örugglega orðið vör við hefur óvenjumikil umræða verið um íslenskuna og stöðu hennar að undanförnu, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Þessi umræða hefur snúist um minnkandi áhuga og neikvæðari viðhorf til íslensku sem kennslugreinar, en aðallega um aukna enskunotkun á ýmsum sviðum og nauðsyn þess að gera átak í kennslu íslensku sem annars máls. Forsætisráðherra hefur tekið undir það að við verðum að gera betur á því sviði, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur hvatt fyrirtæki til að gera íslenskunni hærra undir höfði, og formaður Íslenskrar málnefndar hefur viðrað þær hugmyndir að fyrirtæki verði beitt sektum fyrir brot á lögum um íslenskunotkun.

Þetta er tímabær og bráðnauðsynleg umræða. En hún getur verið tvíbent vegna þess að hættan er sú að hún verði á of neikvæðum nótum. Þegar fólk heyrir íslenskuna aðallega nefnda í tengslum við versnandi stöðu hennar, fækkun nemenda, skort á íslenskukennslu fyrir útlendinga o.s.frv. er það ekki til þess fallið að vekja áhuga á málinu eða efla jákvæð viðhorf til þess. Það getur stuðlað að því að fæla ungt fólk frá íslenskunámi vegna þess að því sýnist engin framtíð vera í því. Það getur orðið til að fæla útlendinga frá íslenskunámi vegna þess að ekki er komið til móts við þá. Það getur dregið úr vilja fyrirtækja til að nota íslensku vegna þess að þau sjá að þau komast upp með að nota ensku og flestum virðist vera sama. O.s.frv.

Neikvæða umræðan getur samt verið nauðsynleg að vissu marki, til að vekja okkur og leiða okkur fyrir sjónir hver hættan sé – en framhaldið skiptir öllu máli. Við þekkjum því miður alltof mörg dæmi um að mikil umræða skapist um eitthvert mál, skipaðar séu nefndir til að fjalla um það og skrifaðar ítarlegar skýrslur með tillögum um aðgerðir – en svo gerist ekkert. En ef ekkert er gert breytist umræðan ekki og heldur áfram að vera neikvæð. Þar með erum við föst í vítahring – neikvæð umræða kallar á neikvæð viðhorf sem aftur viðhalda neikvæðri umræðu. Eina leiðin til að losna úr þessum vítahring er að grípa til aðgerða. Ef fólk sér að eitthvað er hægt að gera – og eitthvað er gert – breytist andinn í umræðunni.

Sú umræða sem hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu hefur hreyft við ýmsum en það er samt hætt við að hún hafi ekki náð nógu mikið til þeirra sem hún þyrfti helst að ná til – unga fólksins sem ber ábyrgð á því að íslenskan verði töluð hér áfram. Ungt fólk horfir lítið á línulegt sjónvarp, fær fréttir sínar fremur af samfélagsmiðlum en úr hefðbundnum fjölmiðlum, og er t.d. ekki fjölmennt í þessum hópi. Hætt er við að það væri til lítils og fyrst og fremst hallærislegt ef mér eða öðrum dytti í hug að hefja einhverja íslenskuvakningu á TikTok. Þarna þarf samtal milli fólks og þar kemur til ykkar kasta. Fólk í þessum hópi er foreldrar, kennarar, afar og ömmur. Þið þurfið að ræða þessi mál við unga fólkið ykkar – á jákvæðum nótum.

Því fer nefnilega fjarri að umræðan þurfi að vera neikvæð – að allt sé í kaldakoli og íslenskan eigi sér enga framtíð. Það er mikið frjómagn í íslenskunni. Fleira fólk talar íslensku en nokkru sinni fyrr. Fleiri bækur eru gefnar út á Íslandi miðað við höfðatölu en í nokkru öðru landi, og barna- og unglingabókum hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Fjöldi erlendra skáldverka eru þýdd á íslensku. Skrif á íslensku eru meiri og almennari en nokkru sinni fyrr, ekki síst tölvupóstur, skrif á samfélagsmiðlum og ýmiss konar textaboð. Gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis á íslensku er í blóma. Íslenska er nú að verða gjaldgeng í stafrænu umhverfi til jafns við tungumál miklu stærri þjóða. Framtíð íslenskunnar er björt – ef við viljum það.

Varasamt viðhorf til enskuvæðingar

Nýlega birtist mjög athyglisverð frétt um viðhorf Íslendinga og ferðamanna til erlendra heita veitingastaða, og til auglýsinga á ensku. Ég tel ekki að erlend heiti veitingastaða og verslana hafi mikil bein áhrif á íslenskuna, en aftur á móti gefa þau skýrar vísbendingar um viðhorf okkar til tungumálsins. Fólki finnst þau alveg eðlileg og þar liggur hættan – ekki í beinum áhrifum heitanna á orðaforða og málkerfi. En ég tel allt öðru máli gegna um samfellt mál sem okkur er ætlað að skilja, eins og auglýsingar. Í þessum viðtölum koma fram tvenns konar viðhorf til þeirra sem ástæða er til að staldra við og taka alvarlega.

Annars vegar er það viðhorf að sjálfsagt sé að hafa auglýsingar á ensku vegna þess að þar með nái þær til allra – ferðamanna, innflytjenda, og auðvitað Íslendinga vegna þess að enskukunnátta okkar sé svo góð. Ef þetta er eða verður viðhorf flestra leiðir það augljóslega smám saman til þess að allar auglýsingar, allar upplýsingar, allar fréttir verða á ensku – þannig næst til allra án þess aukakostnaðar sem felst í því að hafa textann líka á íslensku. Vitanlega er sá sparnaður mikil freisting fyrir auglýsendur og aðra sem vilja koma upplýsingum á framfæri.

Hins vegar kemur fram sá skilningur að þetta sé bara hluti af eðlilegri þróun íslenskunnar – það sé eðlilegt að hún breytist og bara gaman að því. Ég tek sannarlega undir það að eðlilegt er að íslenskan breytist að vissu marki. Hún þarf að breytast til að þjóna síbreytilegu þjóðfélagi og í því getur falist m.a. að bæta við nýjum orðum, breyta tilteknum atriðum vegna tillits til ákveðinna þjóðfélagshópa, o.fl. En þetta mál snýst ekkert um breytingar á íslenskunni. Þetta snýst um það að enskan komi í stað íslenskunnar. Það er allt annað mál og grundvallaratriði að skilja þar á milli.

Ég hef enga ástæðu til að ætla að þessi viðhorf séu bundin við það unga fólk sem þarna er rætt við. Þvert á móti finnst mér margt benda til þess að þau séu algeng og útbreidd. Við höldum að það sé sjálfgefið að íslenskan verði hér áfram, sama hvernig við förum með hana og hversu litla rækt við leggjum við hana. En þessi viðhorf leiða til þess að við fljótum sofandi að feigðarósi og vöknum ekki upp fyrr en það er orðið of seint – ekki fyrr en íslenskan hefur glatað stöðu sinni sem aðaltungumál samfélagsins. Sá missir væri óafturkræfur.

Íslenskukennsla og kjarasamningar

Smágrein sem ég skrifaði á vísi.is á föstudaginn hefur valdið meira uppþoti en ég hafði ímyndað mér, allt út af einni málsgrein: „Þess vegna væri upplagt að verkalýðshreyfingin gerði þá kröfu í væntanlegum samningum að erlendu starfsfólki yrði gefinn kostur á vandaðri íslenskukennslu í vinnutíma.“ Það er tæpast hægt að kalla þetta tillögu, fremur ábendingu eða hugmynd, enda þykist ég vita að kröfugerð hafi þegar verið mótuð eins og fram kom í greininni. En vegna þessa var ég kallaður elíta sem talaði úr fílabeinsturni og mér voru gerðar upp ýmsar ástæður og hvatir – sagður leggja fram „útsmogið rasískt útspil“, vera handbendi verkalýðsarms Samfylkingarinnar, og ég veit ekki hvað og hvað.

Þetta truflar mig svo sem ekki neitt. En ástæðan fyrir því að ég nefndi þessa hugmynd, sem annað fólk hefur reyndar nefnt á undan mér, er sú að ég er sannfærður um að það er mikilvægt fyrir erlent starfsfólk að læra íslensku til að bæta stöðu sína á vinnumarkaði og í samfélaginu, og hef séð fjölmarga vitnisburði þess efnis. Það er t.d. vitað að margt vel menntað fólk er hér fast í láglaunastörfum sem tengjast menntun þess ekkert og getur ekki unnið við sitt fag vegna skorts á íslenskukunnáttu. Ég held hins vegar að það sé nokkuð almenn skoðun að íslenskukennsla sem fer fram að loknum löngum vinnudegi sé ekki vænleg til árangurs. Grundvallaratriði sé að kennslan fari fram á vinnutíma.

Eins og víða var nefnt í umræðunni hefði auðvitað verið hægt að beina kröfum um íslenskukennslu beint til ríkisins, í stað þess að tengja þær kjarasamningum. En ástæðan fyrir því að ég nefndi kjarasamninga í tengslum við þetta er sú að ef fólki á að vera heimilt að nýta hluta vinnutímans til íslenskunáms hlýtur það að verða að koma fram í kjarasamningi. Það þarf alls ekki að þýða, eins og víða er haldið fram, að verkalýðshreyfingin þyrfti þar með að lækka launakröfur sínar eða hverfa frá einhverjum öðrum kröfum. Það má vel hugsa sér að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur semdu um að fólki gæfist kostur á íslenskunámi í vinnutímanum en sendu svo ríkinu reikninginn. Annað eins hefur nú gerst.

Er íslenskukennsla útlendingum í hag?

Formaður Eflingar er ekki hrifin af hugmynd um að íslenskukennsla á vinnutíma verði hluti af kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar og kallar mig „elítu“ sem tali úr fílabeinsturni – það má sjálfsagt til sanns vegar færa. Hins vegar finnst mér alltaf dálítið ódýrt og ómerkilegt að nota slík orð til að afgreiða fólk í opinberri umræðu. En sérstaklega finnst mér dapurlegt að formaður Eflingar virðist ekki hafa minnsta skilning á því að það kunni að vera umbjóðendum hennar í hag að læra íslensku, frekar en búa í einöngruðum samfélögum fólks sem ekki kann íslensku, er fast í láglaunastörfum og tekur ekki virkan þátt í samfélaginu, börn þess detta út úr skóla, o.s.frv. Ég held reyndar að fátt bæti hag erlends starfsfólks meira en íslenskunám.

„Það er náttúrulega bara afskaplega undarlegt að þau sem tilheyra einhverri menntaelítu skuli ætla að setja ábyrgðina á verkalýðsfélög verka- og láglaunafólks sem að augljóslega hafa um stærri og veigameiri hluti að hugsa akkúrat núna heldur en það að vernda íslensku þjóðtunguna“ segir Sólveig. Ýmsum finnst kannski að það sé ekki margt sem er stærra og veigameira en að vernda íslenskuna, og það hljóti að vera á ábyrgð okkar allra, en látum það liggja á milli hluta. Í tillögu minni var einmitt ekki verið að setja ábyrgðina á verkalýðsfélög, að öðru leyti en því að leggja til að þetta yrði hluti af kröfugerð þeirra, heldur var gert ráð fyrir að atvinnurekendur og ríkið bæru kostnaðinn.

Mér finnst málflutningur formannsins dálítið mótsagnakenndur: „Fólk vinnur andlega og líkamlega erfiða vinnu sem gerir það líka að verkum að hugur þeirra er kannski ekkert sérstaklega fókuseraður á það að læra tungumál.“ Þetta er auðvitað hárrétt, en það var nú einmitt þetta sem hugmynd mín átti að bregðast við – hún gekk út á það að draga úr þessari andlegu og líkamlega erfiðu vinnu en nota þann tíma sem þannig ynnist í íslenskunám. En það hefði líka verið gaman að heyra sjónarmið þeirra sem þetta snertir virkilega – þeirra 53% félagsmanna Eflingar sem ekki eiga íslensku að móðurmáli. Getur verið að þeim finnist mikilvægt að eiga kost á íslenskunámi í vinnutíma þótt formanninum finnist það léttvægt?

Íslenskukennslu á vinnutíma inn í kjarasamninga!

Almennir kjarasamningar standa fyrir dyrum og mörg stéttarfélög hafa mótað kröfugerð sína til atvinnurekenda, bæði um launahækkanir og ýmiss konar réttarbætur. Ég held að kröfurnar hafi yfirleitt ekki verið birtar í smáatriðum, þótt launakröfur hafi sums staðar komið fram. Launin eru vissulega mikilvæg, en ýmislegt fleira getur þó bætt hag launafólks, t.d. íslenskukunnátta sem ég hef ekki frétt til að minnst sé á í kröfum stéttarfélaga sem væri þó full ástæða til, í ljósi mikils fjölda erlends starfsfólks á vinnumarkaði. 53% félagsmanna í næststærsta stéttarfélaginu, Eflingu, eru nú þegar af erlendum uppruna og því er spáð að erlent starfsfólk verði orðið allt að helmingur vinnuaflsins fyrir miðja öldina.

Það liggur fyrir að ef íslenska á að halda stöðu sinni sem aðaltungumál landsins við þessar aðstæður þarf að gera stórátak í að kenna þeim sem hingað koma málið. Þar þurfum við öll að leggjast á eitt – stjórnvöld, atvinnurekendur, verkalýðsfélög og fólkið sjálft. Íslenskukunnátta erlends starfsfólks er allra hagur. Atvinnurekendur fá starfsfólk sem getur sinnt fjölbreyttari störfum, fellur betur inn í samfélagið og er líklegt til að vera ánægðara. Fólkið sjálft verður sveigjanlegra og eykur möguleika sína á vinnumarkaði. Dregið er úr hættunni á því að fólk af erlendum uppruna einangrist í samfélaginu, með öllum þeim erfiðleikum og hættum sem því geta fylgt, bæði fyrir fólkið sjálft og samfélagið. Og íslenskan blómstrar.

Þess vegna væri upplagt að verkalýðshreyfingin gerði þá kröfu í væntanlegum samningum að erlendu starfsfólki yrði gefinn kostur á vandaðri íslenskukennslu í vinnutíma. Atvinnurekendur bæru kostnaðinn af þeirri vinnuskerðingu sem af þessu hlytist, en stjórnvöld kæmu á móti með því að sjá til þess að mennta hæfa kennara, greiða fyrir vinnu þeirra og útvega góð kennslugögn. Miðað við nýlegar yfirlýsingar Samtaka atvinnulífsins verður að ætla að kröfum af þessu tagi yrði vel tekið – „við hljótum að senda út hvatningu til allra sem eru í aðstöðu til þess að styrkja íslenska tungu frekar en að veikja hana hægt og bítandi“ sagði framkvæmdastjóri Samtakanna nýlega í viðtali. Látum á þetta reyna!