Ég þakka þeim sem hlýddu

Síðasta þætti Verbúðarinnar lauk með kveðju Jóns Hjaltalín, „Ég þakka þeim sem hlýddu“. Þessi kveðjuorð heyrðust oft áður fyrr, ekki síst í þáttunum Um daginn og veginn sem voru á dagskrá útvarpsins um áratuga skeið og í útvarpsumræðum frá Alþingi. Fólk virðist reyndar hafa tengt þau sérstaklega við útvarpið eins og sést á því að í Morgunblaðinu 1947 segir: „Og þökkum þeim sem hlýddu, eins og menn segja, sem tala í útvarpið.“ Í sama blaði segir 1951: „Svo þakka jeg þeim, sem hlýddu, eins og útvarpslesararnir segja, og kveð með kurt og pí.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1965 segir: „Ég segi eins og kallarnir í útvarpinu: Ég þakka þeim sem hlýddu.“

Þessi kveðjuorð voru sem sé mjög kunnugleg í eyrum mínum og minnar kynslóðar en ég veit ekki hversu vel ungt fólk þekkir þau, enda hefur Um daginn og veginn ekki verið á dagskrá síðan 1999, og á tímarit.is eru nánast engin dæmi frá þessari öld um þakka þeim sem hlýddu. Notkun alþingismanna á þessum kveðjuorðum í útvarpsumræðum virðist líka hafa dregist mjög saman. Ég held samt að sú tvíræðni sem kveðjuorðin höfðu í samhengi Verbúðarinnar hafi náð til fólks á öllum aldri. Það hafði reyndar aldrei hvarflað að mér að sögnin hlýða hefði aðra merkingu en 'hlusta á' í þessari kveðju, en þarna fór ekki hjá því að hin merking sagnarinnar, 'gera það sem manni er sagt að gera', kæmi einnig upp í hugann.

En í umræðum um þetta kom fram að sumum fannst eitthvað vanta á kveðjuorðin – töldu að þeim sem hlýddu hlyti að vera stytting á þeim sem hlýddu á. Þetta er skiljanlegt því að í merkingunni 'hlusta á' tekur hlýða alltaf með sér forsetninguna á. Við getum ekki sagt *ég hlýddi ræðunni heldur verðum að segja ég hlýddi á ræðuna. Það má líka finna nokkur dæmi í þingræðum og á netinu um að sagt sé ég þakka þeim sem hlýddu á og þó frekar ég þakka þeim sem á hlýddu. Vitanlega er ekkert að því, en hins vegar er rétt að athuga að áður var hægt að nota hlýða án forsetningar í merkingunni 'hlusta á'. Það eru t.d. um 300 dæmi um sambandið hlýða messu á tímarit.is, og rúm 30 um að hlýða máli einhvers.

Um þetta eru þó sárafá dæmi frá síðustu 30-40 árum þannig að sá möguleiki að nota hlýða í merkingunni 'hlusta á' án forsetningar virðist vera horfinn úr málinu. En þetta þýðir að kveðjuorðin ég þakka þeim sem hlýddu eru ekki stytting, heldur er sögnin hlýða þar notuð eins og hægt var að gera þegar þessi kveðja mótaðist, þótt það sé varla hægt lengur. Eins og iðulega gerist með föst orðasambönd heldur kveðjan sínu formi þótt hún sé ekki lengur í samræmi við venjulega málnotkun. Sem betur fer – annars hefði sú stórkostlega tvíræðni sem hún hafði í Verbúðinni ekki skilað sér.

Málið hefur alltaf verið að breytast

Eins og ég skrifaði hér um í gær er bæði vonlaust og vitlaust að reyna að berja niður málbreytingar sem hafa komið upp fyrir nokkrum áratugum, eru orðnar útbreiddar og nokkrar kynslóðir hafa tileinkað sér á máltökuskeiði. En það þýðir ekki að það eigi að láta allar málbreytingar sem upp koma afskiptalausar. Í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum frá 1986 segir að það sé „í samræmi við meginstefnuna í málvernd að reyna að sporna gegn nýjum málsiðum með því að benda á að þeir séu ekki í samræmi við gildandi málvenjur.

Þetta tek ég fyllilega undir, og sjái ég í fjölmiðlum örla á einhverri breytingu sem ég tel að ekki sé orðin útbreidd skrifa ég stundum greinarhöfundi til að benda á að brugðið hafi verið út af málhefð – og fæ undantekningarlaust þakkir fyrir. Það er mun líklegra til árangurs en að vekja opinbera athygli á „villunni á Facebook og jafnvel hneykslast á henni eða hæðast að höfundinum eins og kemur fyrir. Slíkar aðferðir eru aðeins til að skemmta skrattanum. Hins vegar dytti mér aldrei í hug að skrifa út af „þágufallssýki eða öðrum áratuga gömlum og útbreiddum tilbrigðum.

Það er alkunna að við viljum að málið haldist eins og það var frá því að við tileinkuðum okkur það á máltökuskeiði og fram undir tvítugt – eða eins og okkur var kennt að það ætti að vera. Fólk eins og ég sem er komið yfir miðjan aldur getur fundið ýmislegt í máli samtímans sem víkur frá því sem það ólst upp við – og finnst það oft merki um að málinu sé að hnigna. En fæst gerum við okkur grein fyrir því að málið sem við tileinkuðum okkur á síðustu öld, t.d. kringum 1960 eins og ég, var í fjölmörgum atriðum frábrugðið því sem var fyrr á öldinni.

Meðal orða sem ég hef fjallað um í pistlum mínum og hafa nú ýmist aðra merkingu eða aðra setningafræðilega eiginleika en þau höfðu fyrr á öldinni eða á 19. öld eru meðvirkur, spá í, gluggakista, byrla, fljúga, forða og versla. Þótt ég þykist vera sæmilega að mér um íslenskt mál vissi ég ekki um þær breytingar sem hafa orðið á þessum orðum og finnst því ólíklegt að venjulegir málnotendur sem ekki eru að hugsa um málfræði og málbreytingar dags daglega hafi áttað sig á þeim. En í öllum tilvikum er þarna um að ræða breytingar sem eru fullkomlega viðurkenndar og aldrei amast við svo að ég viti.

Þetta er samt aðeins brot af þeim breytingum sem ég veit um, og það sem ég veit um er örugglega aðeins brot af því sem raunverulega leynist þarna. Og hér er ég aðeins að tala um breytingar á síðustu öld eða rúmlega það – ef farið er allt aftur til fornmáls eru breytingarnar miklu meiri. Málið er nefnilega alltaf og hefur alltaf verið að breytast. Það er eðlilegt og nauðsynlegt – lifandi mál þarf að vera í stöðugri endurnýjun til að þjóna samfélaginu á hverjum tíma.

Það er samt sem áður æskilegt að breytingarnar verði ekki of örar. En besta leiðin til að hægja á þeim er ekki að berjast gegn þeim, nema þá þeim sem rétt örlar á og hafa ekki náð fótfestu. Besta leiðin er að nota málið sem mest, tala við börn og lesa fyrir þau þannig að þau verði öruggir málnotendur með sterka málkennd. Óöryggi í málnotkun og veik málkennd leiðir til örari málbreytinga.

1980

Frá því að þessi hópur var stofnaður fyrir hálfu öðru ári hef ég skrifað hér hátt á fjórða hundrað pistla. Í verulegum hluta þeirra, a.m.k. 250, hef ég verið að fjalla um notkun og þróun tiltekinna orða, orðasambanda og setningagerða. Meginheimild mín hefur langoftast verið fjársjóðskistan tímarit.is, þótt Risamálheildin hafi einnig nýst vel til að skoða allra síðustu ár.

Auðvitað er tímarit.is ekki fullkomin heimild – þetta er ritað mál og við vitum að flestar nýjungar koma upp í talmáli og vel getur liðið langur tími uns þær fara að sjást á prenti, sérstaklega ef um óformlegt mál af einhverju tagi er að ræða, ekki síst slettur og einhvers konar bannorð. Samt sem áður er þetta langbesta heimildin sem við höfum um þróun málsins undanfarna áratugi – og raunar tvær síðustu aldir.

En ég er sem sagt búinn að skoða uppruna og þróun margvíslegra nýjunga og málbreytinga á tímarit.is – leita að elstu dæmum, skoða tíðniþróun o.fl. Vissulega er þetta stundum frekar yfirborðsleg athugun og ef ég væri að skrifa grein til birtingar í fræðiriti hefði ég orðið að leggja mun meiri vinnu í rannsóknina. Samt sem áður held ég að þessar athuganir gefi oftast sæmilega góða mynd af því sem til skoðunar er hverju sinni.

Það rann allt í einu upp fyrir mér að furðu margar nýjungar í orðanotkun og setningagerð virðast koma upp eða breiðast út um og upp úr 1980. Ég fór lauslega gegnum pistlana og ártölin kringum 1980 koma mjög oft upp. Hugsanleg skýring er sú að breytingar hafi orðið á fjölmiðlum um það leyti þannig að nýjungar í máli eða óformlegra mál hafi átt greiðari leið á prent. Fólk sem þekkti til á fjölmiðlum á þessum tíma gæti kannski sagt eitthvað um þetta.

En önnur skýring er sú að breytingatímabil í sögu málsins hafi hafist fyrir u.þ.b. 40 árum. Auðvitað þurfa þessar tvær skýringar ekki að vera ósamrýmanlegar og í raun finnst mér líklegast að þær eigi báðar við að einhverju marki – upp úr 1980 fór þjóðfélagið smátt og smátt að opnast og slakna á formlegheitum og það gæti hafa komið fram bæði í almennri málnotkun og í því að fjölmiðlar yrðu opnari fyrir óformlegra máli.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að yfir 60% þjóðarinnar eru yngri en 45 ára. Það fólk hefur því alist upp við þær breytingar sem hafa orðið á málinu eftir 1980 og a.m.k. sumt af því hefur tileinkað sér a.m.k. sumar breytinganna á máltökuskeiði. Jafnframt er rétt að athuga að yfir 60% félaga í þessum hópi eru yfir 45 ára aldri og höfðu því tileinkað sér málið að einhverju eða öllu leyti fyrir 1980. Því er ekki að undra að stundum komi upp ósamræmi milli málkenndar félaga í hópnum og þess máls sem nú tíðkast.

Það er ekkert undarlegt að við sem eldri erum kippumst stundum við, verðum pirruð og hneyksluð þegar við heyrum ný orð eða setningagerðir, eða orð og orðasambönd notuð í annarri merkingu en við erum vön. En þá er rétt að hafa í huga að í mörgum tilvikum hefur yngri hluti þjóðarinnar, jafnvel allt að 60% hennar, alist upp við þessi orð, orðasambönd og setningagerðir, og þessa notkun þeirra, og þekkir jafnvel ekki annað. Erum við þess umkomin að segja að málnotkun þessa stóra hóps sé röng?

Ég held ekki. En jafnvel þótt við viljum berja höfðinu við steininn og berjast gegn breytingunum yrði það í flestum tilvikum barátta við vindmyllur að reyna að breyta málnotkun sem nokkrar kynslóðir fólks hafa alist upp við. Höldum áfram að nota málið eins og við lærðum það, en sýnum málnotkun annarra umburðarlyndi þótt hún sé öðruvísi en okkar. Þannig vinnum við íslenskunni mest gagn.

Að stíga á stokk

Orðasambandið stíga á stokk var algengt þegar í fornu máli og kom áður fyrr eingöngu fyrir í tengslum við heitstrengingar – talað var um að stíga á stokk og strengja þess heit að … Jón G. Friðjónsson segir í Merg málsins: „Stokkur kann að merkja hér 'frambrún öndvegis' […] og vísar þá líkingin til þess að er menn kveðja sér hljóðs standa þeir upp og taka sér gjarnan stöðu á einhverri upphækkun. Annar kostur er sá að stokkur vísi til þröskulds sem tákns heimilis […].“ Hvort sem heldur er vísar stíga á stokk til þess að staðið er á einhvers konar upphækkun.

Undanfarna áratugi hefur þetta samband þó iðulega verið notað án tengsla við heitstrengingar, um það að 'stíga á svið' eða 'hefja einhvern viðburð'. Elsta dæmi sem ég hef fundið um þetta er í Skólablaðinu 1944: „Það stendur heima, að við erum rétt nýsetzt, þegar Hallgrímur Lúðvíkss. formaður Fjölnis, stígur á stokk og setur dansleikinn.“ Þetta er þó einstakt dæmi því að það næsta kemur ekki fyrr en í Alþýðublaðinu 1975: „Síðan opnaðist aðalsviðið, líkt og blóm, og Mick Jagger steig á stokk.“

Auk þessa má nefna dæmi úr myndatextum. Í Alþýðublaðinu 1958 er sagt frá tónleikum Vincenzo Maria Demetz (sem síðar hét Sigurður Demetz Franzson) á Raufarhöfn og birt mynd af honum þar sem hann stígur á borðstokk báts – í myndatexta segir „Demetz stígur á stokk“. Í Vísi 1970 er sagt frá þátttöku Nixons þáverandi Bandaríkjaforseta í kosningabaráttu og birt mynd af honum standandi á einhverri upphækkun með textanum „Nixon stígur á stokk“. Í Vestfirska fréttablaðinu 1987 er mynd af manni standandi á kassa eða steini og í myndatexta segir: „Kristján Jónsson stígur á stokk að Svarfhóli í Álftafirði og útlistar búskaparhætti á uppvaxtarárum sínum.“

Eftir 1980 fer dæmum um nýja merkingu sambandsins að fjölga – í Þjóðviljanum 1983 segir „Stuðmenn munu stíga á stokk að nýju í Atlavík um Verslunarmannahelgina en það er í fyrsta sinn sem hljómsveitin kemur fram síðan um áramót“ og í DV 1984 segir „Gammarnir, eða réttar sagt meirihluti þeirra, stigu á stokk og fluttu mönnum nokkra ópusa“. Dæmum um stíga á stokk fer sífellt fjölgandi á níunda og tíunda áratugnum og á fyrsta áratug þessarar aldar eru þau 20 sinnum fleiri en á áttunda áratugnum. Varla hefur heitstrengingum fjölgað svo mjög og sennilegt að meginhluti dæmanna sé um nýju merkinguna.

Ég skil vel að þeim sem ólust upp við hefðbundna merkingu sambandsins stíga á stokk – eins og ég gerði – hugnist ekki þessi merkingarbreyting. En hér þarf að hafa í huga að hefðbundna merkingin er ekki upprunaleg – hún er líking. Heitstrenging felur ekki í sér að stigið sé á neinn stokk í bókstaflegri merkingu. Nýja merkingin er einnig líking, bara öðruvísi líking, og í raun má segja að sambandið hafi þar bókstaflegri merkingu en í hefðbundnu merkingunni. Úr því að sambandið stíga á stokk mátti fá breytta merkingu í formi líkingar á sínum tíma, er þá eitthvað á móti því að merkingin breytist aftur?

Það sem er á móti því er auðvitað hefðin. Það er margra alda hefð fyrir eldri merkingunni og skiljanlegt að mörgum sé eftirsjá í henni. En nú er komin a.m.k. 40 ára hefð fyrir nýju merkingunni. Það þýðir að búast má við að meginhluti fólks undir fimmtugu, og þar með meirihluti landsmanna, hafi alist upp við hana. Fyrir því fólki hefur stíga á stokk fyrst og fremst merkinguna 'stíga á svið' þótt trúlegt sé að margt af því kannist líka við eldri merkinguna. Þetta fólk hefur fullan rétt á að nota sambandið í þeirri merkingu sem það ólst upp við – eins og við hin höfum rétt á að halda áfram að nota það í eldri merkingunni. En það er bæði ástæðulaust og vonlaust að reyna að berja gömlu merkinguna inn í fólk.

Finnast vænt um

Á morgunyfirferð minni um vefmiðla rakst ég á fyrirsögnina „Lykilatriði að finnast vænt um starfsfólkið“ á Vísi. Þegar ég leit aftur á síðuna nokkru seinna var búið að breyta fyrirsögninni – nú er hún „Lykilatriði að þykja vænt um starfsfólkið“. Upphaflega gerð má þó enn sjá í slóðinni á fréttina. Þetta virðist ekki mikil breyting – sagnirnar finnast og þykja eru svipaðrar merkingar og oft hægt að skipta annarri út fyrir hina, þótt mörgum finnist/þyki þykja heldur formlegri. Þegar að er gáð er þó ýmislegt sem greinir þær að.

Það er ekki hægt að nota finnast ópersónulega – við segjum þetta þykir gott en ekki *þetta finnst gott. Það er hægt að nota finnast um bæði andlega og líkamlega tilfinningu, en þykja bara um andlega – við getum sagt mér fannst ég heyra hljóð og mér fannst vera komið við mig en setningar eins og mér þótti ég heyra hljóð eða mér þótti vera komið við mig hljóma eins og þær séu úr þjóðsögum. Ýmis föst orðasambönd eru líka bundin við aðra sögnina – við segjum nú þykir mér týra en ekki *nú finnst mér týra. Ýmislegt fleira mætti nefna.

En hvers vegna var Vísir að skipta um sögn í áðurnefndri fyrirsögn? Ég hef ekki fundið dæmi um það í málfræðibókum eða málfarspistlum að mælt sé með því að segja þykja vænt um frekar en finnast vænt um. Einu dæmin sem ég hef fundið um að amast sé við finnast vænt um eru frá Kristjáni skáldi frá Djúpalæk. Í viðtali í Lesbók Morgunblaðsins 1969 sagði hann: „Þá hefur fleira sært mig mjög, svo sem „mér finnst“ allur fjandinn, „mér finnst vænt um“.“ Og í grein í Degi 1983 sagði hann: „Hættið að segja „mér finnst vænt um e-ð“, segið heldur „mér þykir vænt um e-ð“.“

Svo er gaman að sjá fyrirsögnina „Fólki finnst vænt um íslenskuna“ í frásögn DV af Málræktarþingi 2002. Þetta virðist vera endursögn á orðum Ara Páls Kristinssonar, þáverandi forstöðumanns Íslenskrar málstöðvar – en í fréttinni sjálfri, þar sem haft er orðrétt eftir Ara, segir hann: „Meðan almenningur í landinu hefur áfram svona mikinn áhuga á íslensku, þykir vænt um hana og finnst hagfelldara að nota hana en önnur tungumál þá er ekki ástæða til að óttast um framtíð tungunnar“.

Vissulega er þykja vænt um mun eldra, a.m.k. frá 16. öld, en elstu dæmi um finnast vænt um eru frá því upp úr 1940. En sambandið finnast vænt um stríðir ekki gegn málkennd minni og ég hef grun um að ég hafi notað það sjálfur áður fyrr en hætt því vegna þess að einhvers staðar hafi verið amast við því – annaðhvort í skóla eða kannski í þættinum Daglegt mál í útvarpinu. En nú finnst mér sjálfsagt að fólk haldi því máli sem það er alið upp við og hefur vanist. Þess vegna fannst mér vænt um að sjá finnast vænt um í upphaflegu fyrirsögninni og hefði viljað halda því.

(Aukinn og endurskoðaður pistill frá 2020.)

Skjáumst!

Haustið 2020 birti DV stuttan pistil eftir ritstjórann, Tobbu Marinós, undir fyrirsögninni „Nýyrðin sem veiran hefur alið af sér – Smitbit og faðmflótti“. Þar voru talin upp „alls kyns undarleg nýyrði eins og smitbit (samviskubit yfir að hafa smitast), smitskömm, sóttkvíði, margmennisskömm, faraldursþreyta, faðmflótti, samkomusýki, Sóttólfur, bannbugun, skjáumst og kófið“. Klykkt var út með því að segja: „Spurning hvað landsmenn þurfa að muna þessi orðskrípi lengi“. Mörg þessara orða hafa vissulega orðið til á tíma covid-19 en ekki öll – a.m.k. ekki skjáumst.

Í Fréttablaðinu stóð nefnilega 16 árum fyrr, haustið 2004: „„Skjáumst“ er kveðja sem er að skjóta upp kollinum hér á landi vegna mikillar aukningar í rafrænum samskiptum. Fólk segir þá ekki „sjáumst“ heldur „skjáumst“ og vísar til þess að það muni hittast fyrir framan sitthvorn tölvuskjáinn. Þetta er hrikalega ópersónuleg og leiðinleg kveðja sem á vonandi ekki eftir að síast inn í hið fallega tungumál okkar.“ En jafnvel þá var orðið ekki nýtt. Elsta dæmi sem ég hef fundið er í Alþýðublaðinu 1995, þar sem segir: „Við skjáumst þótt síðar verði …“ Orðið er nú skráð á Nýyrðavef Árnastofnunar.

Það er hins vegar ljóst að aðstæður undanfarin ár hafa valdið því að notkun orðsins hefur margfaldast. Hvers kyns fundir og kennsla hefur farið fram gegnum netið í stað þess að vera augliti til auglitis. Orðið skjáumst er auðvitað eins konar afleiðsla eða útúrsnúningur úr kveðjunni sjáumst vegna hljóðlíkingar við orðið skjár. Fólki finnst ekki hægt að nota sjáumst þegar það sér ekki hvert annað nema á skjá og þá hefur einhver dottið niður á þennan augljósa blending úr skjár og sjáumst. E.t.v. liggur þetta líka svo beint við að það gæti hafa komið upp hjá fleiri en einum, án beinna tengsla.

Svo geta auðvitað verið skiptar skoðanir um hversu gott þetta orð sé. Í Fréttablaðinu 2004 var það talið „hrikalega ópersónuleg og leiðinleg kveðja“ og í DV 2020 var það flokkað sem „orðskrípi“. Orð af þessu tagi þar sem tvö orð eru brædd saman eru stundum kölluð sambreiskingar og slík orðmyndun á sér vissulega ekki mikla hefð í íslensku. Um hana eru hins vegar þekkt dæmi í ýmsum málum, t.d. ensku – meðal þeirra þekktustu eru líklega brunch sem er sambreiskingur úr breakfast og lunch og smog sem er sambreiskingur úr smoke og fog.

Kveðjan sjáumst sem liggur að baki skjáumst er vitanlega beygingarmynd (fyrsta persóna fleirtölu í miðmynd) af sögninni sjá. Kveðjan skjáumst er hins vegar ekki leidd af neinni sögn, heldur mynduð með hliðsjón af sjáumst. En í slíkum tilvikum má oft búast við „öfugri orðmyndun“ – í stað þess að aðrar beygingarmyndir séu leiddar af stofni eru þær búnar til út frá einni beygingarmynd, með hliðsjón af öðrum orðum. Um þetta má finna einstöku dæmi á netinu: „Þurfum að heyrast/skjást fljótlega“ og „Þegar þið eruð komin inn á fundinn skuluð þið endilega prófa að tala og kveikja á myndavélinni ykkar, skjá aðra og skjást!“

Það er alveg hugsanlegt að skjá þróist upp í að verða fullburða íslensk sögn sem beygist í persónum, tölum, háttum, tíðum og myndum. Það væri hægt að segja við skjáðumst lengi í gær, þið skjáist kannski á morgun, þau hafa skjáðst á hverjum degi í vikunni, o.s.frv. En í ljósi þess að skjáumst er aðallega notað sem kveðja er þetta kannski ekki mjög líklegt. Aðalatriðið er að skjáumst er smellið orð sem fellur að málinu, myndað úr íslensku hráefni, og myndun þess er skemmtilegur leikur með tungumálið. Það er ekkert við það að athuga að segja skjáumst!

Enginn dagur eins

Í ábendingunum Gætum tungunnar sem birtust upphaflega í dagblöðum 1982 segir:

  • Sagt var: Í þessari vinnu er enginn dagur eins.
  • Rétt væri: Í þessari vinnu eru engir tveir dagar eins.
  • Eða: Í þessari vinnu er enginn dagur sem annar.

Þetta sýnir að orðalag af þessu tagi, þ.e. enginn dagur er eins, hefur verið farið að láta á sér kræla fyrir 40 árum – annars hefði ekki þótt ástæða til að vara við því. Athugun sýnir að þetta orðalag er a.m.k. 70 ára gamalt í málinu og virðist hafa farið að breiðast nokkuð út á áttunda áratug síðustu aldar, en þó einkum á síðasta aldarfjórðungi.

Í Heimilisritinu 1951 segir: „Ég hef sagt, að ferðalög okkar hafi verið viðburðasnauð, og þó var enginn dagur eins.“ Í Vísi 1969 segir: „Mér finnst þetta tilbreytingarríkt og enginn dagur er eins.“ Í Alþýðublaðinu 1971 segir: „En enginn er eins.“ Í Kirkjuritinu 1977 segir: „Og svo auðug er sköpun Guðs að enginn dagur er eins.“ Í DV 1983 segir: „Stíllinn er hið djúpa ego þar sem enginn er eins.“ Í Tímanum 1996 segir: „Það er enginn eins.“ Í DV 1996 segir: „hver þeirra hefur sinn persónuleika og það er enginn eins.“ Eftir þetta fer dæmum ört fjölgandi.

Mörgum finnst setningar af þessu tagi ófullkomnar vegna þess að eins hljóti að kalla á samanburð sem vanti í setninguna – eins og hvað? En það eru í sjálfu sér ekki nægileg rök til að hafna þessu orðalagi vegna þess að í málinu má finna ýmislegt sambærilegt sem þykir gott og gilt. Í setningu eins og það eru allir jafnir má spyrja jafnir hverju? Svipað má segja um dæmi eins og allir eru líkir og systurnar eru ólíkar. Stundum er innbyrðis bætt við til að gera setningarnar ótvíræðar, allir eru líkir inbyrðis, systurnar eru innbyrðis ólíkar, en það er ekki nauðsynlegt – setningarnar skiljast yfirleitt án þess.

Setningar á við enginn er eins merkja ævinlega 'enginn er eins og annar slíkur' – enginn dagur er eins og annar dagur, enginn maður er eins og annar maður o.s.frv. Viðmiðið er í raun innbyggt í eins, alveg á sama hátt og það er innbygt í ólíkar í systurnar eru ólíkar sem merkir 'systurnar eru ólíkar hvor/hver annarri'. Í báðum tilvikum er hægt að breyta samanburðinum með því að nefna viðmiðið sérstaklega – enginn dagur er eins og brúðkaupsdagurinn, systurnar eru ólíkar mömmu sinni (sem segir ekkert um hvort systurnar séu líkar eða ólíkar hvor/hver annarri). En sé viðmiðið ekki nefnt eru setningarnar túlkaðar þannig að það sé innbyggt.

Það er sem sé ekki hægt að hafa það á móti setningum á við enginn dagur er eins að þær séu „órökréttar“ eða eigi sér ekki hliðstæðu í málinu. Hins vegar er ekki langt síðan þetta orðalag fór að breiðast út og þess vegna hljómar það ankannanlega í eyrum margra sem ekki hafa alist upp við það. Ég lét þetta lengi vel fara í taugarnar á mér og skil vel fólk sem sama gildir um. En hér gildir að sýna umburðarlyndi gagnvart mismunandi málvenjum þótt þær falli ekki að manns eigin málkennd. Þetta orðalag er orðið fast og útbreitt í málinu og ekki ástæða til að berjast gegn því. Hér finnst mér eiga við að vitna í sjálfan mig:

„Ef tiltekin nýjung hefur komið upp fyrir 20 árum eða meira, er farin að sjást í rituðu máli, nokkur fjöldi fólks hefur hana í máli sínu, og börn sem tileinka sér hana á máltökuskeiði halda henni á fullorðinsárum, finnst mér mál til komið að viðurkenna hana sem málvenju og þar með „rétt mál“. Það þarf ekki endilega að þýða að hún sé talin æskileg í hvaða málsniði sem er, en það þýðir að hún er ekki fordæmd og fólk sem hefur hana í máli sínu er ekki litið hornauga eða hneykslast á því.“ Það er ljóst að þetta orðalag uppfyllir öll framangreind skilyrði og vel það. Málfarsbankinn segir líka: „Vel gengur að segja engir dagar eru eins.“

Einelti og að einelta

Orðið einelti er mjög algengt í nútímamáli og kemur fyrir í ýmsum samböndum – talað er um alvarlegt einelti, gróft einelti, mikið einelti, verða fyrir einelti, þola einelti, beita einelti, gerendur eineltis, þolendur eineltis, fórnarlömb eineltis og margt fleira. Orðið er gamalt í málinu en lengst af kom það nær eingöngu fyrir í sambandinu leggja í einelti. Undantekningar eru örfáar, t.d. „þá finst mér ástæða til að átelja verðlagsnefndina, fyrir alveg óskiljanleg mistök og einkennilegt einelti við mjólkursöluverðið“ í Landinu 1916 og „Þetta var upphaf eineltis, sem átti eftir að taka á sig æ ískyggilegri mynd“ í Morgunblaðinu 1969. Dæmi eru um að einelti sé haft í kvenkyni, og kvenkynsmyndin einelta kemur einnig fyrir í fáeinum gömlum dæmum, þ. á m. einu frá um 1500.

Árið 1975 lagði Halldór Halldórsson prófessor til að orðið einelti yrði tekið upp sem þýðing á interception í flugmáli, og sú merking orðsins er gefin í FlugorðasafniÍðorðabankanum). Um þessa tillögu sagði hann: „Það má vera, að sumum virðist það furðudjarft að taka orð, sem aðeins er notað í einu orðasambandi, í þessu tilviki að leggja einhvern í einelti, og gefa því nýja merkingu. Ég skil þetta sjónarmið vel, en er þó ekkert hræddur við slíkar nýmyndanir. […] Við nýyrðamyndun verður að beita flestum tiltækum ráðum. Orð úr orðtökum eru að þessu leyti enginn helgur dómur.“ Halldór hefði varla lagt þetta til ef orðið hefði þá verið farið að breiðast út í öðrum samböndum en með leggja.

En um eða rétt fyrir 1980 var orðið slitið frá sögninni leggja og farið að nota það sem íðorð í uppeldisfræði og fleiri greinum sem samsvörun við mobbing (eða bullying) á ensku. Í Dagblaðinu 1981 segir „Þá er sagt að fjölskylda hans hafi hjálpað honum að byggja upp þennan blekkingavef í því skyni að losa hann úr eineltinu“, og í Tímariti Máls og menningar 1982 segir „Einar Hjörleifsson skrifaði um einelti og stríðni í skólanum“. Í NT haustið 1984 er opnugrein sem heitir „Er barnið þitt beitt ofbeldi í skólanum?“ og þar kemur orðið einelti fyrir í ýmsum samböndum þannig að það er greinilega komið í umferð sem íðorð. Dæmum um orðið fer svo mjög ört fjölgandi á tíunda áratugnum og einkum á þessari öld.

Stundum bregður sögninni einelta einnig fyrir. Elsta dæmið um hana er í „Rökfræði“ Arnljóts Ólafssonar í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1891, en merkingin er þar nokkuð önnur en í nafnorðinu. En í Íslendingi 1919 segir „Virðist ekkert annað mál komast að hjá Degi sjálfum, þegar hann er að einelta Björn Líndal“. Þarna merkir sögnin greinilega 'leggja í einelti'. Sama máli gegnir um dæmi úr Neista 1950: „Ein af starfsaðferðum kommúnista er að einelta forystumenn Alþýðufl.“, og úr Lesbók Morgunblaðsins 1963: „Hann eineltir okkur — andskotinn!“ Fáein dæmi eru svo frá síðustu 30 árum, eftir notkun nafnorðsins einelti jókst. Halldór Halldórsson stakk reyndar upp á sögninni einelta sem þýðingu á intercept árið 1975 en sú tillaga virðist ekki hafa hlotið hljómgrunn.

En sögnin einelta er sjaldgæf enn sem komið er og kemur mörgum spánskt fyrir sjónir eins og aðrar nýjungar í máli. Stundum er hún kennd við barnamál: „Einelti er svo mikið rætt í skólunum að börnin hafa mörg hver gert nafnorðið að sögn og hafa ófáir kennarar brosað í laumi yfir orðavali nemenda sinna sem segja „Hann var að einelta hana““ segir í Fréttatímanum 2012. En ekki verður séð að neitt sé athugavert við þessa sögn. Samsettar sagnir með -elta sem síðari lið eru til í málinu, s.s. hundelta. Því er líka oft haldið fram að íslenska sé „sagnamál“, og betra sé að nota eina sögn en samband sagnar og nafnorðs ef þess er kostur – tala um að kanna frekar en gera könnun, rannsaka frekar en framkvæma rannsókn, o.s.frv. Ég er ekki að leggja til að við hættum að tala um að leggja í einelti – en er ekki ágætt að eiga kost á að nota sögnina einelta í staðinn?

Einnig veltir fólk stundum fyrir sér hvaða orð sé heppilegt að nota um gerendur eineltis. Ýmis orð hafa verið notuð, s.s. hrekkjusvíntuddieineltishrotti o.s.frv. en í ljósi þess að einelti er nú notað sem íðorð eins og áður segir væri heppilegt að eiga kost á að nota íðorð sem svarar nákvæmlega til þess um gerendur. Ég hef stungið upp á orðinu eineltir. Það er lipurt og hefur skýr tengsl við einelti. Í almennu máli er auðvitað hægt að halda áfram að nota hrekkjusvín og önnur orð sem áður er vísað til.

Áhrifslausar forsetningar

Forsetningin frá stjórnar alltaf þágufalli og forsetningarnar til og milli stjórna alltaf eignarfalli. Eða næstum alltaf. Undantekning er þegar þessar forsetningar eru notaðar í samböndum sem tákna afstöðu tveggja stærða eða upphæða hvorrar til annarrar. Nokkur dæmi af tímarit.is: „aðgerðin myndi taka allt frá tvo upp í átta tíma“, „ímynda sér að þeir væru að borða frá þrjá og upp í 30 gómsæta M&M-súkkulaðimola“, „Refirnir framleiða að meðaltali þrjá til fjóra hvolpa á ári, oturinn frá fjóra til sex hvolpa á ári“, „væri hægt að spara milli tvo og þrjá milljarða á ári í heilbrigðisþjónustunni“, „Með stofnun félagsins innleysir FL Group milli þrjá og fjóra milljarða í hagnað“, „hann féll milli fjóra og fimm metra niður af klettasyllu“, „maður kom alltaf með einn til tvo kassa af bjór með sér úr túrum“, „Á hverju fagsviði verður samið við tvo til þrjá aðila“.

Þarna koma fyrir samböndin frá tvo til, frá þrjá til, frá fjóra til; milli tvo og, milli þrjá og, milli fjóra og; X til tvo, X til þrjá, X til fjóra. Það eru bara tölurnar einn, tveir, þrír og fjórir sem beygjast þannig að ástæðulaust er að skoða hærri tölur. Ég vel eingöngu dæmi með karlkyni vegna þess að þar er hægt að sjá fallið ótvírætt – í kvenkyni og hvorugkyni eru nefnifall og þolfall eins (tvær/tvö, þrjár/þrjú, fjórar/fjögur), og í sama gildir um karlkyn tölunnar einn. Í öllum þessum dæmum er hins vegar ótvírætt um þolfall að ræða vegna þess að engin tvö föll hafa sömu mynd í karlkyni talnanna tveir, þrír og fjórir. Í fljótu bragði virðist því sem forsetningarnar frá, milli og til stjórni þolfalli í slíkum dæmum þótt þær stjórni þágufalli og eignarfalli annars.

En málið er ekki svo einfalt. Það er nefnilega hægt að finna fjölda dæma um að þessar forsetningar virðist stjórna þágufalli í sambærilegum dæmum – ekki bara frá, heldur líka milli og til. „24 sakborningar voru ákærðir fyrir brot gegn fleiri börnum (frá tveimur til sex)“, „við getum tekið við allt frá tveimur til tólf gestum í heimsókn í einu“, „munar sennilega milli tveimur til þremur metrum“, „Má ætla að Sambandið hafi tapað á milli tveimur og þremur milljörðum króna“, „Guðjón sem leikstýrir milli tveimur og fjórum sýningum á ári“, „meðal annars varið milli þremur og fjórum þúsundum króna til þess að endurbæta íþróttavöllinn“, „Á milli þremur og fjórum milljörðum króna var lýst í bú hans“, „þá var lagt upp með að hún væri í tveimur til fjórum senum“.

Ef að er gáð kemur í ljós að á undan sambandinu kemur alltaf sögn eða forsetning sem stýrir þágufalli: brot gegn tveimur börnum, tekið við tveimur gestum, munar tveimur til þremur metrum, tapaði tveimur milljörðum, leikstýrir tveimur sýningum, varið þremur þúsundum, lýsti þremur milljörðum, í tveimur til fjórum senum. Í dæmum með frá gæti þágufallið vissulega verið komið þaðan frekar en frá sögn eða forsetningu þar á undan, en í dæmum með milli og til hlýtur þágufallið að vera komið frá viðkomandi sögn eða forsetningu. Eina skýringin á þessu er sú að forsetningarnar frá, milli og til stjórni í raun alls ekki falli í þessum samböndum heldur hleypi fallstjórn undanfarandi sagnar eða forsetningar í gegnum sig, ef svo má segja. Á eftir frá, milli og til kemur þess vegna þolfall ef sögnin eða forsetningin á undan stýrir þolfalli, þágufall ef hún stýrir þágufalli.

Hér verður þó að hafa fyrirvara. Það er nefnilega stundum hægt að láta forsetningarnar stýra sínum „eðlilegu“ föllum í þessum samböndum, í dæmum eins og „Húsin höfðu frá tveimur til fjögra palla“ (í stað tvo til fjóra palla), „munu þær hafa tekið frá þremur til fjögurra marka“ (í stað þrjár til fjórar merkur), „er fjöldi þeirra nú á milli tveggja og þriggja milljóna á ári“ (í stað tvær og þrjár milljónir) o.fl. Ég hef ekki skoðað við hvaða aðstæður bæði afbrigðin ganga, eða hvort annað afbrigðið er skyldubundið við tilteknar aðstæður. Einnig verður að benda á að þetta er bundið við að um tölur sé að ræða. Í öðrum tilvikum stjórna forsetningarnar venjulegum föllum: frá hausti til vors, frá Reykjavík til Akureyrar, milli fjalls og fjöru, milli Hellu og Hvolsvallar o.s.frv.

Löggilt gamalmenni

Af því að ég verð bráðum 67 ára fór ég að skoða aðeins orðalagið löggilt gamalmenni. Þetta orðalag virðist ekki vera mjög gamalt. Elstu dæmin á tímarit.is eru frá 1981 en allt frá þeim tíma eru allnokkur dæmi um það frá hverju ári. Ég veit ekki hvort einhver sérstök ástæða hefur verið fyrir uppkomu þess á þessum tíma – hvort einhverjar lagabreytingar kunna að liggja þar að baki.

Langoftast virðist átt við 67 ára aldur sem er almennur ellilífeyris- og eftirlaunaaldur en þó eru dæmi um annað: „Sjálfur er ég tæplega 63 ára og telst orðið löggilt gamalmenni“; „hann stendur á sextugu, en „samkvæmt lögum er ég orðinn löggilt gamalmenni“, segir Guðmundur“. Í þessum tilvikum voru mælendur komnir á eftirlaun samkvæmt sérstökum reglum, þótt þeir væru ekki orðnir 67 ára.

Þetta orðalag er líklega oftast notað í hálfkæringi eða biturð eins og ýmis dæmi á tímarit.is sýna: „„Á næsta ári verð ég löggilt gamalmenni,“ sagði Kristinn og hló“; „Eftir að við erum orðin „löggilt gamalmenni“, eins og fólk segir stundum í hálfkæringi þegar það fær rétt til ellilauna“; „samkvæmt lögum er ég orðinn löggilt gamalmenni“, segir Guðmundur og brosir“; „Þeir, sem ekki eru orðnir „löggilt gamalmenni“ eins og það var svo biturlega orðað af þátttakendum á námskeiðinu“; o.fl. Mjög oft er þetta líka haft innan gæsalappa og iðulega tekið fram að fólk hafi notað það um sjálft sig.