Posted on Færðu inn athugasemd

Verður enska aðalsamskiptamálið á Íslandi árið 2050?

Í fyrrahaust var tilkynnt með pomp og prakt um stofnun ráðherranefndar um íslenska tungu þar sem fimm ráðherrar, undir forystu forsætisráðherra, eiga að „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. En síðan nefndin var skipuð hefur ekki heyrst múkk frá henni. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar í janúar var boðuð „Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ þar sem átti að birta aðgerðir frá nefndinni sem „varða málefni íslenskrar tungu vítt og breitt í samfélaginu í þágu íslenskrar tungu“. Þessa tillögu átti að leggja fram 27. mars, en í yfirliti um „óframlögð og niðurfelld mál“ frá því 27. apríl stendur einfaldlega við þessa tillögu: „Felld niður.“ Engar skýringar fylgja.

Í sjónvarpsþættinum Orðbragð fyrir 10 árum var ég spurður um framtíð íslenskunnar og sagði m.a.: „En hitt getur líka verið, og er alls ekkert ólíklegt, að íslenska verði alls ekki til, hún verði horfin eftir 100 ár, vegna þess að það verði ekki hægt að nota hana á sviðum sem eru mikilvæg í daglegu lífi alls almennings, þannig að fólk bara gefist upp á þessu tungumáli og fari yfir í eitthvað annað, þá væntanlega ensku.“ Þarna var ég einkum að vísa til þess að staða íslensku á sviði máltækni var mjög döpur á þessum tíma, en máltækniátak stjórnvalda undanfarin fjögur ár hefur gerbreytt stöðunni til hins betra. Ég held þess vegna að engin ástæða sé til að óttast að tæknilegar ástæður valdi því að íslenska verði ónothæf á einhverjum sviðum.

En þar með er ekki sagt að framtíð íslenskunnar sé tryggð, því að á þessum 10 árum sem liðin eru hefur annað komið til sem veldur áhyggjum um stöðu málsins í framtíðinni. Það er gífurleg aukning í notkun annarra tungumála í landinu, einkum ensku. Þessi aukning stafar annars vegar af sprengingu í ferðaþjónustu þar sem enska er aðaltungumálið eins og nýleg rannsókn sýnir, og hins vegar af mikilli fjölgun fólks með annað móðurmál sem kemur hingað til að setjast að eða til að vinna hér tímabundið. Enska er aðalsamskiptamál milli okkar og þess fólks, og einnig innbyrðis milli fólks af mismunandi þjóðernum. Nú eru farin að verða til hér á landi afmörkuð málsamfélög þar sem íslenska er ekki notuð og þar sem fæstir kunna íslensku.

Það er nokkuð ljóst að fólki með annað móðurmál en íslensku mun enn fara fjölgandi á næstu áratugum. Erfitt er að spá fyrir um þróun í ferðaþjónustu en ekkert bendir þó til annars en ferðafólki haldi áfram að fjölga. Atvinnurekendur kalla eftir meira vinnuafli og því hefur verið spáð að eftir 20-30 ár verði allt að helmingur fólks á vinnumarkaði af erlendum uppruna. Á sama tíma er fæðingartíðni í sögulegu lágmarki. Allt þetta leiðir til þess að hlutfall enskunotkunar á móti íslenskunotkun hlýtur að fara hækkandi og það hefur margvísleg áhrif. Ef við lendum í þeirri stöðu að talsverður hluti landsmanna tali ekki íslensku verður óhjákvæmilegt að auka rétt ensku í landinu og jafnvel gera hana að opinberu máli samhliða íslensku.

Að öðrum kosti værum við að útiloka fólk sem ekki talar íslensku frá margs konar þátttöku í þjóðfélaginu og kynnum að vera að brjóta beinlínis gegn mannréttindum þess. Hér má minna á ýmis vandamál sem Lettar hafa lent í, m.a. gagnvart ESB, vegna þess að eftir að landið fékk sjálfstæði var staða rússnesku í landinu þrengd mjög en þar er stór rússneskumælandi minnihluti. En ég legg mikla áherslu á að ég er ekki á móti fjölgun innflytjenda. Þvert á móti – okkur vantar fleira fólk og við eigum að taka þeim sem hingað vilja koma opnum örmum. En ef við viljum að íslenska verði áfram aðalsamskiptamálið í landinu þurfum við að leggja höfuðáherslu á að kenna innflytjendum málið. Þar bera stjórnvöld mikla ábyrgð.

Stjórnvöld eiga vissulega skilið hrós fyrir myndarlegt átak á sviði máltækni en það er ekki nóg. Það verður ekki kallað annað en sýndarmennska að stofna ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu en heykjast síðan á því að leggja fram margboðaða aðgerðaáætlun á því sviði. Það hefur líka komið fram að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm ár er ekki að sjá neinar vísbendingar um átak í kennslu íslensku sem annars máls. Það er trúlegt, og vonandi, að íslenska verði enn til og notuð eftir hundrað ár. En ef svo fer fram sem horfir er alls ekki óhugsandi, og jafnvel líklegt, að um miðja þessa öld muni enska hafa tekið við af íslensku sem aðalsamskiptamálið í landinu. Ef okkur líst ekki á það þurfa stjórnvöld að bregðast við. Strax.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að reiða – eða reita til reiði?

Í gær sá ég á vefmiðli fyrirsögnina „Haaland eldri reiddi stuðningsmenn Real“, og í fréttinni sjálfri stóð „Alfie Haaland, faðir stjörnuframherjans Erlings Haaland hjá Manchester City, reiddi stuðningsmenn Real Madrid er liðin mættust í fyrri leik sínum í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í gær“. Setningarstaða orðsins reiddi sýnir að þetta er sögn og formið bendir til þess að nafnhátturinn sé reiða – sbr. beiddi, leiddi, sneiddi af beiða, leiða, sneiða. Af samhenginu var ljóst að reiddi merkti þarna 'gerði reiða' og nú hefur þessu verið breytt í hið hefðbundna orðalag reitti til reiði, bæði í fyrirsögn og fréttinni sjálfri. En var nauðsynlegt að breyta þessu? Getur upphaflega orðalagið staðist eða er það argasta málvilla?

Sögnin reiða er vitanlega til í málinu og í Íslenskri nútímamálsorðabók eru fimm merkingar hennar skilgreindar, en sú sem hér um ræðir er ekki þar á meðal. Í safni Ordbog over det norrøne prosasprog eru hins vegar tvö dæmi frá 13. öld um sögnina í þessari merkingu: „Þó að konunginum mislíkaði ræða hans þá vildi hann þó eigi reiða hann“ og „móti því er eg hefi svo lengi reitt hann“. En bæði dæmin eru úr Baarlams sögu ok Jósafats sem er talin norsk þýðing þótt vissulega hafi ekki verið mikill munur á norsku og íslensku á þessum tíma. Í dæmi eins og „vær villdum alldri þig nu reitt hafa“ í Einni kristilegri handbók frá 16. öld gæti verið um sögnina reiða að ræða, en einnig er hugsanlegt að þetta sé af sögninni reita (til reiði).

Hvað sem þessu líður er reiða ekkert óeðlileg sögn í þessari merkingu. Hún er þá leidd af lýsingarorðinu reiður á sama hátt og greiða í merkingunni 'gera greiðara' (t.d. greiða úr flækju) er leidd af lýsingarorðinu greiður og heiða í merkingunni 'birta' (t.d. heiða til) er leidd af lýsingarorðinu heiður. Merkingarvenslin milli lýsingarorðs og sagnar eru hliðstæð í þessum tilvikum. Við það bætist að til er miðmyndarsögnin reiðast í merkingunni 'verða reiður' og þótt þess séu vissulega dæmi að miðmyndarsögn sé til en ekki samsvarandi germyndarsögn, svo sem ferðast en ekki *ferða, eru þau dæmi mjög fá. Því er ekkert undarlegt að málnotendum finnist að sögnin reiða sé til – eða ætti að vera til – í merkingunni 'gera reiðan'.

Er þá eitthvað á móti því að nota sögnina reiða á þann hátt sem upphaflega var gert í áðurnefndri frétt? Auðvitað má benda á að sögnin hafi aðrar merkingar, en það ætti alveg að vera hægt að bæta einni við, og samhengið ætti oftast að skera úr um hver þeirra á við. Það sem fólk gæti helst haft á móti reiða í þessari merkingu er annars vegar að um nýjung sé að ræða, og nýjungum er oft mætt með tortryggni; og hins vegar að til sé hefðbundið orðalag sem hafi einmitt þessa merkingu, reita til reiði. Því sé sögnin reiða í sömu merkingu óþörf og stefnt gegn hinu hefðbundna orðalagi. Mér finnst almennt séð æskilegt að halda sig við málhefð, en því fer samt fjarri að notkun sagnarinnar reiða í merkingunni 'gera reiðan' sé einhver málspjöll.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvað segist á því?

Nýlega rakst ég fyrir tilviljun á setningar sem komu mér undarlega fyrir sjónir, þar sem miðmyndin segjast var notuð í sambandinu segjast á – dæmi eins og „Hvað segist á því að bera það upp á saklausan mann?“ í Ísafold 1892 og „Er það þá við þessi einu lög, sem ekkert segist á að hjálpa til að brjóta?“ í Lögréttu 1919. Við nánari athugun sýndist mér þetta merkja 'vera refsivert' eða 'vera refsað fyrir' og það staðfestist í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924: „það segist á e-u, n-t er strafbart“ þ.e. 'eitthvað er refsivert'; „mikið segist á e-u, n-t bliver dömt haardt, n-t medfører en haard Straf“, þ.e. 'eitthvað er dæmt hart, eitthvað leiðir til þungrar refsingar'. Ég hef ekki fundið þetta samband í öðrum orðabókum.

Elsta dæmi um þetta samband sem ég hef fundið er úr Hentug handbók fyrir hvörn mann eftir Magnús Stephensen frá 1812 þar sem segir: „en brúki húsbændur formælíngar og blygðunarlaus ærukreinkjandi orð við hjú sín, segist á því, sem við óviðkomandi, eptir áðursögðu“. Þarna merkir segist á því greinilega 'er refsað fyrir það'. Í Alþingistíðindum 1857 segir: „það segist meira á öllum afbrotum gegn tilskipuninni, þegar þau eru framin um messutímann.“ Þarna merkir segist meira á 'er refsað harðar fyrir'. Í Manni og konu eftir Jón Thoroddsen frá því fyrir 1870 segir: „Það segist ekki lítið á því að ráðast á saklausa menn.“ Fjölda dæma má svo finna um þetta orðalag frá síðari hluta 19. aldar og fram um 1920 á tímarit.is.

Elsta dæmið er í Þjóðólfi 1860: „Þ.e. að mega við hafa lækníngar og læknismeðöl, án þess á því segist, þótt hann sé ekki útlærðr læknir.“ Í Lögfræðingi 1899 segir: „Í Englandi er það venja, að eigi segist á ummælum um siðleysi annara, nema því að eins að sá, sem fyrir verður, bíði tjón í atvinnu sinni, embætti eða sýslan.“ Í Fréttum 1918 segir: „Yfirleitt er auk þess meðvitund manna þannig farið, að virðing þeirra fyrir lögunum virðist mjög fara að því, hve mikið segist á því að brjóta þau.“ Iðulega er notað sambandið hvað segist á því? í merkingunni 'hvernig er refsað fyrir það' eða 'hver er refsingin við því'. Í Ísafold 1891 segir: „Hvað segist á því, að uppnefna saklausa menn með ósæmilegum nöfnum og yrkja um þá níð?“

Eftir 1920 eru aðeins stöku dæmi á stangli um sambandið segjast á á tímarit.is og ég hef aðeins fundið tvö dæmi yngri en 50 ára. Annað er í Vísi 1975: „En það er einkennilegt, ef ekkert segist á því að beita mig atvinnurógi og valda mér margföldum skaða í fjölda ára.“ Þetta er haft eftir Jóni Þorleifssyni sem þarna var hátt á sjötugsaldri. Hitt dæmið er í DV 1982: „En ekki segist á því að nefna tvennt, sem í hugann kemur af þessu tilefni.“ Þetta er í bréfi frá Guðmundi Guðmundssyni sem ég veit ekki deili á en trúlegt að hafi verið vel fullorðinn. Ekkert dæmi fannst í Risamálheildinni. Þetta sérkennilega orðasamband, sem ég átta mig ekki á hvernig hefur komið til, virðist því vera með öllu horfið úr málinu en gaman að vita hvort þið kannist við það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hringdu í fjögur þrjú tvö - eða fjóra þrjá tvo?

Nýlega varð hér umræða um það hvers vegna við höfum töluorðið í hvorugkyni í dæmum eins og skór í stærð fjörutíu og eitt enda þótt nafnorðið stærð sé kvenkyns. Ýmsum fannst eðlilegt að gera ráð fyrir að málnotendur væru með hvorugkynsorðið númer í huga, skór í stærð númer fjörutíu og eitt, og töluorðið samræmdist því. Þetta er svo sem ekki óhugsandi en ég sé engin rök fyrir því – önnur en hvorugkynsform töluorðsins sem hægt er að skýra á annan hátt. Ég tel að þetta stafi af því að töluorðið á ekki við stærð – þetta merkir ekki 'fjörutíu og ein stærð'. Töluorðið hefur því ekkert nafnorð til að samræmast og kemur þess vegna fram í hlutlausri mynd, hvorugkyni eintölu, af sömu ástæðu og við fáum hvorugkyn í klukkan er tvö, ekki *tvær.

Ef fyrri skýringin væri rétt yrði að gera ráð fyrir að sama máli gegndi um öll tilvik þar sem nafnorð er haft á undan tölu – blaðsíða tvö, kafli tvö, Stöð tvö, hluti tvö o.s.frv. Vissulega er hægt að halda því fram að málnotendur séu alltaf með númer í huga í þessum samböndum en mér finnst hitt samt mun trúlegra, m.a. vegna hliðstæðu við setningar eins og klukkan er tvö þar sem hægt er að færa ótvíræð rök fyrir því að tvö sé hlutlaust hvorugkyn. Athugið líka að þegar við lesum númer, t.d. símanúmer, sem staka tölustafi notum við karlkynsmyndir talnanna en ekki hvorugkyn, hvort sem orðið númer fer á undan eða ekki. Við segjum ég er í (númer) fjórir þrír tveir … og hringdu í (númer) fjórir þrír tveir … eða fjóra þrjá tvo ….

Þetta samræmist því að þegar við teljum, án þess að vera að telja nokkuð sérstakt, notum við karlkynsmyndir beygjanlegra töluorða – einn, tveir, þrír, fjórir. Í þessu samhengi er karlkynið sem sé hlutlaust. En ef við erum að telja eitthvað sérstakt fer kyn töluorðanna hins vegar eftir því nafnorði sem við erum með í huga, hvort sem það er nefnt eða ekki – eitt (barn), tvö (börn), þrjú (börn), fjögur (börn); ein (bók), tvær (bækur), þrjár (bækur), fjórar (bækur). Ef það væri samræmi við orðið númer sem ylli því að við segjum stærð (númer) fjörutíu og eitt mætti búast við því að slíkt samræmi kæmi líka fram í símanúmerunum og við segðum *ég er í (númer) fjögur þrjú tvö …eða *hringdu í (númer) fjögur þrjú tvö …. En það er útilokað í máli flestra.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að færa fram

Nýlega sá ég hjá Facebookvini umræður um það hvað færa fram merkti þegar vísað er til tíma. Auðvitað er enginn vafi á því hvað fram í tímann merkir, t.d. sjá fram í tímann – en hvað merkir fundurinn sem boðaður var klukkan eitt verður færður fram um klukkutíma? Verður fundurinn haldinn fyrr eða síðar en áformað var – klukkan tólf eða klukkan tvö? Um þetta er fólk alls ekki sammála og það er í sjálfu sér skiljanlegt. Oft merkir fram 'fyrr‘ eða 'á undan' – ef við færumst fram eða framar í biðröð komumst við fyrr að og ef fólk treðst fram fyrir okkur í röðinni verður það á undan okkur. Þess vegna er eðlilegt að fundurinn verður færður fram um klukkutíma sé skilið þannig að fundurinn verði haldinn fyrr en til stóð – og það virðist líka vera venjulega merkingin.

Ýmis dæmi má þó finna þar sem færa fram merkir 'seinka'. Í Tímariti iðnaðarmanna 1928 segir: „Sýningin var opnuð í Gagnfræðaskólanum á Akureyri 26. júní 1906 kl. 12. á hádegi og stóð hún til 1. júlí s. á. Stóð til að loka henni 30. júní, en var fært fram um einn dag.“ Í Alþýðublaðinu 1935 segir: „Frönsk blöð segja, að í frumvarpinu sé auk lengingar herþjónustutímans herskyldualdurinn færður fram um eitt ár, eða frá 20 til 21 ára.“ Í Vísi 1956 segir: „Hundadagar byrjuðu í gær 13. júlí. […] Þessi trú var að sjálfsögðu bundin við gömlu hundadagana, sem byrja 2.-3. júlí, – en upphaf hundadaga var fært fram um 10 daga 1924.“ Í DV 2001 segir: „Upprunalegur leikdagur var á laugardaginn en viðureigninni hefur nú verið frestað og færð fram um einn dag.“

Fáein fleiri má finna á tímarit.is og í Risamálheildinni en það virðist ljóst að þessi merking sé fremur sjaldgæf. Frá því er þó ein skýr undantekning. Þegar klukkunni er flýtt við upphaf sumartíma er alltaf sagt að hún sé færð fram. Þannig segir t.d. í Tímanum 1950: „Í nótt sem leið, var tekinn upp sumartími hér á landi og klukkunni flýtt um eina klukkustund, þannig, að þegar hún var eitt, var hún færð fram um eina klukkustund.“ Klukkan er sem sé færð fram frá því að vera eitt til að vera tvö og þess vegna er ekkert undarlegt þótt sumum finnist að fundur sem er færður frá klukkan eitt til tvö sé líka færður fram. Merkingin 'seint' eða 'seinka' felst iðulega í orðinu fram um tíma, t.d. þegar sagt er að komið sé langt fram á daginn, eitthvað frestist fram eftir degi og það sé framorðið.

Í óformlegri könnun Facebookvinarins sem vísað var til í upphafi völdu rúmlega 4/5 merkinguna 'flýta'. En það er athyglisvert að í óformlegri könnun sem Ari Páll Kristinsson gerði fyrir nokkrum árum og sagt er frá á Vísindavefnum voru niðurstöður þveröfugar. Þar voru 34 þátttakendur beðnir að botna eftirfarandi setningu: Fundurinn, sem vera átti 10. mars, hefur verið færður fram um viku og verður – og möguleikarnir voru 3. mars og 17. mars. Niðurstaðan var sú að u.þ.b. ¾ þátttakenda völdu 17. mars – skildu færður fram sem seinkun. Jafnframt voru sjö þátttakendur spurðir hvað það merkti ef sagt væri að klukkan hafi verið færð fram um tvo tíma og allir sögðu það merkja að hún hefði verið færð til baka, t.d. frá 15 til 13 en ekki til 17 – öfugt við það sem sést í blöðum.

En báðar merkingar sambandsins færa fram eru skiljanlegar og eiga sér langa sögu í málinu, og ekki er hægt að segja að önnur sé réttari en hin. Á hinn bóginn er vissulega óheppilegt og getur komið sér illa að fólk skilji sambandið ekki á sama hátt. Þótt það sé mjög algengt að orð og orðasambönd hafi fleiri en eina merkingu sker samhengið venjulega úr og þetta leiðir því sjaldan til misskilnings. Undantekningar eru þó til, eins og með sambandið helmingi meira sem fólk skilur ýmist sem 'tvöfalt meira' eða '50% meira'. Þett er annað dæmi þar sem samhengið sker ekki alltaf úr. Í ljósi þess að merkingin 'flýta‘' virðist (oftast) vera algengari en 'seinka' í sambandinu færa fram væri æskilegt að málnotendur kæmu sér saman um hana – eða töluðu um að flýta og seinka.

Posted on Færðu inn athugasemd

„Ólafsfjarðareignarfallið“

Í pistli hér nýlega var minnst á þá „almennu reglu að (í máli flestra) er ákveðinn greinir ekki hafður á nafnorði sem tekur með sér annað nafnorð í eignarfalli (eignarfallseinkunn)“. Þarna er vísað til þess að yfirleitt er ekki sagt bókin Jóns eða bíllinn Gunnu – annaðhvort verður að sleppa greininum og segja bók Jóns og bíll Gunnu eða skjóta persónufornafni inn á milli, bókin hans Jóns og bíllinn hennar Gunnu. En frá þessu eru þó undantekningar eins og svigagreinin „í máli flestra“ vísar til. Í máli sumra eru setningar eins og bókin Jóns og bíllinn Gunnu nefnilega fullkomlega eðlilegar. Þessi setningagerð gengur oft undir nafninu „Ólafsfjarðareignarfallið“ vegna þess að henni var fyrst lýst ítarlega í máli Ólafsfirðinga.

Þá lýsingu er að finna í samnefndri BA-ritgerð Gunnhildar Ottósdóttur frá 2006. Síðan þá hefur setningagerðin verið rannsökuð töluvert og komið í ljós að hún er ekki bundin við Ólafsfjörð þótt kjarnasvæði hennar virðist vera þar og í bæjum í grennd, Siglufirði og Sauðárkróki. Langbesta yfirlitið um þessa setningagerð (eins og margar aðrar) fékkst í viðamikilli rannsókn sem nefndist Tilbrigði í íslenskri setningagerð og Höskuldur Þráinsson stóð fyrir á árunum 2005-2007, en niðurstöður hennar birtust í þremur bókum á árunum 2013-2017. Í öðru bindinu, sem kom út 2015, er ítarlegur kafli um Ólafsfjarðareignarfallið. Þar er fjallað um tengsl þessarar setningagerðar við ýmsar breytur – aldur, menntun, kyn og búsetu þátttakenda.

Í rannsókninni, sem fór fram á 26 stöðum um allt land (Ólafsfjörður var reyndar ekki með), voru þátttakendur úr fjórum aldurshópum spurðir um mat á fjölda setninga þar sem fram komu ýmis hugsanleg tilbrigði í setningagerð. Þær setningar sem varða Ólafsfjarðareignarfallið voru: Tölvan mömmu var tekin en ekki mín; Peysan mömmu varð eftir á snúrunni; Bíllinn Jóns var á sumardekkjum; Loksins fann ég þá í vasanum mömmu; Þetta er boltinn pabba míns; Hesturinn stráksins var seldur um daginn; Nefið Magnúsar er ennþá bólgið eftir aðgerðina. Þáttakendur áttu að merkja við einn þriggja kosta: „Eðlileg setning. Svona get ég vel sagt“; Vafasöm setning. Ég myndi varla segja svona“; „Ótæk setning. Svona get ég ekki sagt“.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru: „Meirihluti þátttakenda [á bilinu 72-83%] hafnaði þessari setningagerð […]. Dómar þátttakenda sýndu ekki skýra fylgni við aldur, menntun eða kyn […] þótt jákvæðir dómar væru reyndar frekar algengari hjá þeim sem höfðu minni menntun og karlar væru frekar jákvæðari en konur. Dómarnir sýndu mjög skýra fylgni við búsetu. Þátttakendur frá Siglufirði og Sauðárkróki skáru sig úr en setningagerðin hlaut líka nokkuð jákvæða dóma á Patreksfirði og jafnvel Kirkjubæjarklaustri […]. Þetta staðfestir að nokkru leyti það sem vitað var áður, þótt vinsældir setningagerðarinnar á Patreksfirði (og Kirkjubæjarklaustri) hafi komið á óvart.“ (Tilbrigði í íslenskri setningagerð II, bls. 258.)

Þrátt fyrir að víða um land finnist stöku málnotendur sem samþykkja þessa setningagerð er þetta óvenju skýrt dæmi um landshlutabundinn mun í setningagerð sem virðist nokkuð stöðugur, þ.e. ekki er að sjá að hann sé á undanhaldi hjá yngri kynslóðinni nema síður sé. Ég er alinn upp á kjarnasvæði setningagerðarinnar, í Skagafirði, en fyrst þegar farið var að ræða um hana taldi ég mig ekki nota hana. En síðan hef ég stundum staðið mig að því að segja setningar af þessu tagi og áttað mig á því að þær eru alls ekki framandi fyrir mér. Ég held samt að ég myndi aldrei skrifa slíkar setningar og e.t.v. tengjast þær fremur óformlegu málsniði í huga málnotenda – hugsanlega hafa þær í einhverjum tilvikum verið leiðréttar í skóla þótt ég geti ekki fullyrt það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Nýslendingar

Í gær heyrði ég í fyrsta skipti orðið slendingur sem Derek Terell Allen, íslenskukennari hjá Dósaverksmiðjunni, notaði í merkingunni 'nýbúi' í pistli sem hann flutti á Rás eitt. Ég veit ekki hvort Derek hefur búið þetta orð til, eða hvort það hefur verið eitthvað í gangi, en það er a.m.k. ekki í Risamálheildinni og Google finnur engin dæmi um það. Það er augljóst að orðið er myndað með samruna orðanna nýr og Íslendingur – stofni lýsingarorðsins, ný-, er bætt framan við nafnorðið Íslendingur. Það má segja að bæði orðin haldi sér að fullu í þessari sambræðslu því að í-ið er samnýtt – hljóðið er auðvitað það sama þótt það sé skrifað með ý í öðru orðinu en í í hinu. Þetta er því í sjálfu sér gagnsætt og lipurt orð – en er svona orðmyndun góð og gild?

Orðmyndun með sambræðslu er vel þekkt í ýmsum málum, m.a. ensku. Lewis Carroll, höfundur Lísu í Undralandi, bjó til mörg orð af þessu tagi í bullkvæðinu Jabberwocky og kallaði þau „portmanteau words“ (portmanteau er 'hörð, ílöng tvíhólfa ferðataska' og þetta vísar til þess að tveimur orðum er pakkað saman í eitt). En þótt slík orðmyndun sé oft notuð í gamni kemur hún líka fram í orðum sem þykja góð og gild. Eitt elsta og þekktasta dæmið er enska orðið smog sem er sambræðsla úr smoke 'reykur' og fog 'þoka' og var myndað til að lýsa dæmigerðu Lundúnaloftslagi í upphafi 20. aldar. Annað dæmi er brunch sem er sambræðsla úr breakfast og lunch, en þekktasta dæmið í samtímanum er þó Brexit sem er sambræðsla úr Britain og exit.

En þessi orðmyndunaraðferð er ekki mikið notuð í íslensku nema helst í gamni. Á Nýyrðavef Árnastofnunar má finna ýmis slík dæmi, eins og smáhrifavaldur 'áhrifavaldur með smáan hóp fylgjenda' (e. minfluencer, úr micro influencer), kólasveinn úr kóla og jólasveinn, 'ameríski rauði og hvíti jólasveinninn í auglýsingum Coca-Cola-fyrirtækisins', hungramur 'hungraður og gramur' (e. hangry, úr hungry og angry), þunnudagur 'sunnudagur sem eytt er í þynnku', og svörtudagur 'svartur föstudagur' (e. Black Friday). Einnig má nefna smánudagur 'sunnudagur sem fer í vaskinn af því að maður er heltekinn af kvíða yfir því að þurfa að mæta í vinnu á mánudegi en felur í þokkabót í sér smán og lítilleika' (e. smonday, úr Sunday og Monday).

Þetta eru í sjálfu sér ágæt orð mörg hver en kannski ekki líkleg til að komast í almenna notkun frekar en orðið þreykur sem þó hefur komist í íðorðasöfn og er myndað af þoka og reykur, augljóslega með smog sem fyrirmynd. En eitt þekktasta og mest notaða orð málsins, sem oft er tekið sem dæmi um snjalla orðmyndun, er þó af þessu tagi. Það er orðið tölva sem Sigurður Nordal prófessor myndaði og „kvað orðið dregið af orðunum tala og völva“ – með sambræðslu. Það orð sýnir glöggt að sambræðsla af þessu tagi er fullgild orðmyndunaraðferð og þess vegna ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að orðið slendingur fengi þegnrétt í málinu. Mér finnst það í fljótu bragði ágætt orð, en örlög þess ráðast vitanlega meðal málnotenda.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að brenna fyrir eitthvað/einhverju

Sambandið brenna fyrir einhverju er mjög algengt um þessar mundir, og ég fór að skoða það í framhaldi af því að hér var spurt í gær hvernig það væri hugsað. Þá kom í ljós að þrátt fyrir tíðni þess er það ekki að finna í helstu orðabókum, hvorki Íslenskri orðabókÍslenskri nútímamálsorðabók. Merkingin er þó ljós – eitthvað í átt við 'vera einhverjum hjartans mál' eða 'bera eitthvað fyrir brjósti'. Sögnin brenna er líka notuð í ýmsum samböndum skyldrar merkingar, eins og hafa brennandi áhuga á einhverju, vera brennandi í andanum, eitthvað brennur á einhverjum, og einnig er talað um eldhuga. Það er því ekki hægt að segja annað en merkingin í brenna fyrir einhverju sé eðlileg og gagnsæ út frá öðrum samböndum í málinu.

Elsta dæmi sem ég finn um sambandið í þessari merkingu er í Bjarma 1954: „Enn í dag skapar hann nýja menn, sem brenna fyrir því að flytja orð hans og ríki til annarra.“ Næsta dæmi er líka í Bjarma 1961: „Hann kallar oss til starfa meðal kynslóðar vorrar og felur oss hlutverk, sem vér hljótum að brenna fyrir að vinna að.“ Þriðja dæmið er í Morgunblaðinu 1961: „Því að aðeins menn, sem brenna fyrir hinu rétta geta gert sér vonir um að bera sigurorð af þeim, sem berjast fyrir hinu ranga.“ Fjórða dæmi er í Bjarma 1970: „Það er gleðilegt að sjá, að hér eru einnig nokkrir, sem brenna fyrir útbreiðslu Guðs ríkis.“ Athyglisvert er að í öllum þessum dæmum er verið að fjalla um trúarleg efni, sem og í einu dæmi til viðbótar frá síðustu öld, í Bjarma 1997.

Ég finn sem sé aðeins fimm dæmi frá því fyrir aldamót, og 25-30 til viðbótar fram til 2013. En á árunum 2014-2015 verður þetta samband skyndilega mjög algengt og fljótlega eftir það fór sumum að þykja nóg um. Þannig segir Jón Sigurðsson í grein í Skírni 2017: „Núorðið eru menn ekki brennandi í andanum, fullir brennandi áhuga eða eldheitir hugsjónamenn, heldur heyrist oft sagt: ,,Hann brennur fyrir náttúruvernd.“ En tíðni sambandsins í þessari merkingu hefur þó margfaldast síðan 2017 – sennilega eru a.m.k. þúsund dæmi um það í Risamálheildinni frá síðustu fimm árum (útilokað er að nefna nákvæma tölu vegna þess að sambandið brenna fyrir getur líka haft aðrar merkingar). Það er sannarlega hægt að tala um þetta sem tískuorðasamband.

Það er ekki gott að segja hvernig þetta samband kemur upp, og enn óljósara hvers vegna það verður skyndilega svona vinsælt. Í umræðum var bent á að það ætti sér hliðstæðu í dönsku (þar sem það þætti líka ofnotað), brænde for noget sem skýrt er „være meget ivrig og engageret“ eða 'vera mjög ákafur og áhugasamur' og hefur því sömu merkingu og íslenska sambandið. En áhrif dönsku á íslensku eru sáralítil núorðið og einhvern veginn finnst mér ekki líklegt að sprengingu í notkun þess megi rekja til dönsku. Í ensku er einnig til burn for someone or something sem skýrt er „to desire someone or something very much“ eða 'þrá einhvern eða eitthvað mjög mikið' sem er skylt en þó dálítið annað og óvíst að það skýri notkunina í íslensku.

Þótt sambandið sé ekki í orðabókum eins og áður segir kemur það fyrir í Málfarsbankanum sem segir: „Frekar er sagt brenna fyrir einhverju en brenna fyrir eitthvað.“ Vissulega er notað þágufall í elstu dæmunum en þolfall kemur samt fljótlega fram – „Við þurfum hjörtu sem brenna fyrir sannleikann og þekkinguna á Guði“ segir í Bjarma 1997. Í fljótu bragði sýnist mér að þágufallið sé heldur algengara en þolfallið. Val þágufalls fram yfir þolfall gæti því byggst bæði á aldri og tíðni, en í hvorugu er þó grundvallarmunur á föllunum. Það er hins vegar athyglisvert að Málfarsbankinn nefnir aðeins hvoru fallinu er mælt með, en gerir enga athugasemd við notkun sambandsins yfirleitt, enda engin ástæða til að amast við því.

Posted on Færðu inn athugasemd

Nýju verkalýðsfélög ríkisins

Í kverinu Gætum tungunnar segir: „Sagt var: Þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins. Rétt væri: Þeir ganga í verkalýðsfélög ríkisins. Eða: Þeir ganga í hin nýju verkalýðsfélög ríkisins.“ Þetta skýrist af þeirri almennu reglu að (í máli flestra) er ákveðinn greinir ekki hafður á nafnorði sem tekur með sér annað nafnorð í eignarfalli (eignarfallseinkunn – *bókin Jóns). Þótt við getum sagt þeir ganga í nýju verkalýðsfélögin gengur *þeir ganga í nýju verkalýðsfélögin ríkisins ekki, heldur verður að sleppa greininum og þá fáum við þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins. En það leysir samt ekki vandann því að venjulega standa lýsingarorð í veikri beygingu, eins og nýju þarna, aðeins með ákveðnum nafnorðum, eins og verkalýðsfélögin.

Þess vegna er setningin þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins ekki talin rétt í Gætum tungunnar en settar fram tvær tillögur í staðinn. Önnur er þeir ganga í verkalýðsfélög ríkisins – þar er lýsingarorðið haft í sterkri beygingu í stað veikrar, í stað nýju. Eins og áður segir standa lýsingarorð í veikri beygingu venjulega með ákveðnum nafnorðum, þ.e. nafnorðum með ákveðnum greini (nýju verkalýðsfélögin), en lýsingarorð í sterkri beygingu með óákveðnum nafnorðum (ný verkalýðsfélög). Þetta gengur því upp setningafræðilega en gallinn við það er að merkingin er ekki alveg sú sama. Ef sagt er þeir ganga í ný verkalýðsfélög ríkisins er eins og verið sé að kynna þessi félög til sögunnar – þau hafi ekki verið nefnd áður. Það er óheppilegt.

Hinn kosturinn sem nefndur er í Gætum tungunnar er að nota lausan greini í stað þess viðskeytta – þeir ganga í hin nýju verkalýðsfélög ríkisins. Það gengur vissulega upp setningafræðilega því að lausi greinirinn lýtur öðrum lögmálum á því sviði en sá viðskeytti. En í staðinn kemur annar vandi – hætta á stílbroti. Mörður Árnason segir um dæmi af þessu tagi í Málkrókum: „Hugsanlega á hér þátt feimni við lausa greininn, að mönnum finnist ankannalegt að nota hinn – hin – hið framanvið lýsingarorðið og nafnorðið, óþarflega stirt og hátíðlegt. Á því hefur að minnsta kosti borið síðari ár að ritfært fólk og vel máli farið, einkum af yngri kynslóð, forðast þetta stílbrigði, væntanlega af því að það hefur hátíðlegan blæ og getur valdið stirðleika.“

Þetta er alveg rétt og samræmist t.d. því að dæmi um lausan greini í þeim hluta Risamálheildarinnar sem helst sýnir óformlegt málsnið, samfélagsmiðlahlutanum, eru margfalt færri en í öðrum hlutum hennar. En Mörður bendir reyndar á fleiri leiðir en nefndar eru í Gætum tungunnar. Í staðinn fyrir að nota eignarfallseinkunn í útgerðin er nauðsynlegi hluti atvinnulífsins megi setja forsetningarlið og segja nauðsynlegi hlutinn af atvinnulífinu eða snúa orðaröðinni við og segja atvinnulífsins nauðsynlegi hluti – sem hann viðurkennir að vísu að sé „á jaðri venjulegrar íslensku“. En Mörður hallast þó að lausa greininum og segir: „Í réttu samhengi er þetta málform einsog konungur á veldisstóli, og stundum er einskis annars kostur.“

Ég verð að játa að mér finnst enginn kostur góður í þessu. Mér finnst setningar eins og sú sem amast er við í Gætum tungunnar, þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins, ekki fullkomlega eðlilegar, og ekki heldur seldar voru veitingar í nýja mötuneyti skólans, nýju nemendur hefja nám í dag, en eldri á morgun, útgerðin er nauðsynlegi hluti atvinnulífsins og ríkisendurskoðun er góði hirðir opinberra stofnana svo að vitnað sé í dæmi úr Gætum tungunnar og Málkrókum. En mér finnst ekki ganga að nota sterka beygingu í þessum dæmum því að það breytir merkingunni, og mér finnst lausi greinirinn oftast of formlegur. Fyrir utan einhvers konar umorðun er líklega þrátt fyrir allt skást að segja það sem „sagt var“ í Gætum tungunnar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hundruðir

Orðin hundrað og þúsund eru oft spyrt saman sem von er vegna merkingarlegrar hliðstæðu, en á þeim er einn grundvallarmunur – þúsund var þegar í fornu máli til sem bæði kvenkynsorð og hvorugkynsorð og hvort tveggja er fullkomlega viðurkennt í nútímamáli, en hundrað er aðeins viðurkennt sem hvorugkynsorð. Í kverinu Gætum tungunnar segir t.d.: „Sést hefur: Hundruðir manna voru drepnir. Rétt væri: Hundruð manna voru drepin. (Fleirtalan af hundrað er hundruð, en af þúsund ýmist þúsund eða þúsundir.)“ Kvenkynsmyndin hundruðir sem þarna er varað við er þó mjög algeng í nefnifalli og þolfalli fleirtölu – hátt á þriðja þúsund dæma er um hana á tímarit.is og á fimmta þúsund í Risamálheildinni, þar af talsverður hluti úr formlegu málsniði.

Elsta dæmi sem ég finn um kvenkynsfleirtöluna hundruðir er í Lögbergi 1895, og nokkur elstu dæmin eru úr vesturíslensku blöðunum þar sem þessi fleirtala var alla tíð algeng. En í Morgunblaðinu 1916 segir: „Hundruðir þúsunda hraustra ungra manna hafa fallið á vígvellinum fyrir Þýzkaland“, og upp úr því sést slæðingur af dæmum um þessa fleirtölu í íslenskum blöðum þótt hún verði aldrei mjög algeng á prenti enda löngum amast við henni. Elsta dæmi sem ég finn um athugasemd við hana er í Einingu 1954 þar sem vitnað er í erindi Magnúsar Finnbogasonar menntaskólakennara sem sagði: „Ekki hundruðir – heldur hundruð.“ Fjölmörg önnur dæmi má finna, t.d. fjallaði Gísli Jónsson margsinnis um hundruðir í Morgunblaðinu.

Varla leikur vafi á því að kvenkynsfleirtalan hundruðir hefur orðið til fyrir áhrif frá kvenkynsfleirtölunni þúsundir. Það hefði e.t.v. mátt búast við að myndin yrði hundraðir, þ.e. eintalan hundrað væri tekin og bætt við hana fleirtöluendingu kvenkyns, -ir. Vissulega má finna fáein dæmi um hundraðir og Þórunn Guðmundsdóttir sagði t.d. í Morgunblaðinu 1989: „Stundum hefi ég heyrt menn segja; „hundraðir“ í útvarpi. Seinast Bjarna Felixson í gær. Ætti þá eintalan að vera einn „hundruður“ samkvæmt því.“ En venjulega er þó fleirtöluendingu kvenkyns, -ir, bætt við fleirtölumynd hvorugkyns, hundruð. Því má segja að fleirtalan sé táknuð á tvennan hátt í hundruðir, bæði með hljóðbreytingunni a > u og með endingunni -ir.

Í þessu sambandi má benda á að hundrað er aldrei notað í kvenkyni í eintölu (sem ætti þá væntanlega að vera hundruð) – aldrei sagt *ein hundruð. Sama máli gegnir raunar með þúsund – andstætt því sem segir á Vísindavefnum er kvenkyn þess orðs varla til nema í fleirtölu eins og Málfarsbankinn bendir á. Í lesendabréfi í Alþýðublaðinu 1940 var þó spurt: „Hvort er réttara, að segja eitt þúsund eða ein þúsund, eins og t. d. Helgi Hjörvar gerir?“ Hannes á horninu svaraði: „Það mun réttara að segja ein þúsund, því að þúsund er kvenkyns. Það er víst yfirleitt óhætt að reiða sig á íslenzkuna hans Hjörvars.“ Það er þó væntanlega eðlilegt að líta svo á að spurningin snúist um kyn orðsins fremur en hvort eðlilegt sé að nota kvenkynið í eintölu.

En fleira er sérstakt um orðið hundrað. Í Málfarsbankanum segir: „Orðið hundrað er ýmist nafnorð í hvorugkyni (hundrað manna; ég mætti hundruðum manna á leiðinni) eða óbeygjanlegt lýsingarorð (hundrað manns; hundrað menn; ég mætti hundrað mönnum á leiðinni).“ Þetta samræmist því að hægt er að nota manns með hundrað en yfirleitt er eingöngu hægt að nota manns með óbeygjanlegum tölum (átta, tólf, tuttugu o.s.frv.) og tölum sem líta út fyrir að vera óbeygjanlegar (þúsund) eða eru hafðar óbeygðar (milljón). En hundrað er þó ekki óbeygjanlegt með öllu í stöðu lýsingarorðs – þótt það fallbeygist ekki beygist það í tölu, því að sagt er ég mætti tvö hundruð mönnum á leiðinni, alls ekki *tvö hundrað mönnum.

Hegðun talna og töluorða er um margt sérstök og flókin, eins og ég hef t.d. nýlega skrifað um í sambandi við númer – stundum beygjast tölur ekki þótt við því væri að búast út frá setningarlegri stöðu þeirra. En hér er ekki vettvangur til að gera því efni ítarleg skil, og hvað sem því líður er mál til komið að taka fleirtöluna hundruðir í sátt. Hún er eðlileg hliðstæða við þúsundir, á sér meira en hundrað ára sögu í málinu, er mjög algeng, og hefur náð fótfestu í formlegu málsniði eins og sjá má af tíðni hennar í prentuðum dagblöðum. Hún fullnægir öllum skilyrðum sem eðlilegt er að setja fyrir því að teljast málvenja og þar með eru engar forsendur eru til annars en telja hana rétt og eðlilegt mál.