Ragnar Bragason, sem leikstýrði hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttaröðum Næturvaktin, Dagvaktin og Fangavaktin og var jafnframt einn af handritshöfundum, heldur fyrirlestur á vegum ritlistar mánudaginn 1. nóvember.
Í fyrirlestri sínum hyggst Ragnar fjalla um vinnuna að þáttunum, einkum það hvernig spuni var notaður við sköpun leiktexta og hvernig leikarinn varð að meðhöfundi.
Fyrirlesturinn verður haldinn í Háskólabíói, sal 3, á mánudaginn kl. 12. Hann er hluti af fyrirlestraröðinni „Hvernig verður bók til?“ sem ritlist efnir til í samvinnu við Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands. Fyrirlestrar þessir hafa verið vel sóttir og verður gaman að heyra hvað þessi færi leikstjóri hefur fram að færa.
Allir velkomnir.
Kristján Árnason flutti í gær fyrirlestur um þýðingu sína á Ummyndunum Óvíds. Kristján kom víða við og henti m.a. gaman að þeirri goðsögn að hann hefði unnið að verkinu áratugum saman eins og fram kom í kynningu á fyrirlestrinum. Kristján sagðist að vísu hafa byrjað að þýða kafla úr verkinu á námsárum sínum og fengið suma þeirra birta í Eimreiðinni en þar sem hann hefði ekki fengið neinn útgefanda að verkinu öllu hefði hann ekki einhent sér í þýðingarvinnuna fyrr en Forlagið bauð honum útgáfusamning 2004. Þótt hann hefði ekkert á móti goðsögnum, eins og gefur að skilja (Ummyndanir er safn goðsagna), vildi hann leiðrétta þetta enda gætu menn ella haldið að hann hefði ekki gert neitt annað. Eins og kunnugt er kenndi Kristján klassískar bókmenntir við Háskóla Íslands áratugum saman auk þess sem hann bæði þýddi og frumsamdi ýmislegt annað.
Annars vildi Kristján ekki tjá sig mikið um sjálfa glímuna við Ummyndanir, það krefðist þess að hann yrði persónulegur og það væri ekki hans sterka hlið, nokkuð sem hann ætti sammerkt með þýðendum almennt sem vildu lítið láta á sér bera. „Ef þýðandi vekur athygli á sér er það yfirleitt fyrir einhverja bommertu,“ sagði Kristján og henti gaman að kollega sínum sem taldi þýsku samtenginguna „jedoch“ vera mannsnafn. Slíkt gæti hent þýðendur og þá lægju þeir vel við höggi.
Frá og með haustinu 2008 hefur ritlist verið boðin sem aðalgrein til BA-prófs í Íslensku- og menningardeild. Nú er þess vegna komið að því að fyrstu ritlistarnemarnir útskrifist. Rebekka Rafnsdóttir varð fyrst til þess í vor og skrifaði hún lokaverkefni í formi kvikmyndahandrits undir leiðsögn Sigurðar Pálssonar skálds. Nú á haustdögum útskrifast svo Sverrir Norland og Hildur Knútsdóttir. Útskriftarverkefni Hildar er unglingasagan Vetrarfrí, saga af skrímslum sem hertaka Ísland, nokkurs konar innrásarvíkingar. Útskriftarverkefni Sverris er ljóðabókin Með mínum grænu augum sem hann hefur jafnframt gefið út fyrir almennan markað og fengið lofsamlega dóma fyrir.
Þess má geta að vegna mikillar aðsóknar voru ekki teknir inn nýnemar í ritlist nú í haust. Nýir nemar verða hins vegar teknir inn á næsta ári, en þá er stefnt að því að kenna ritlist á meistarastigi.
Annan veturinn í röð stendur ritlistin fyrir fyrirlestraröðinni „Hvernig verður bók til?“ þar sem höfundar lýsa tilurð bóka sinna. Elísabet Jökulsdóttir flutti fyrsta fyrirlestur haustsins og stráði bókunum sínum á svið Háskólabíós.
Mánudaginn 18. október kemur röðin að stórþýðandanum Kristjáni Árnasyni. Þýðing hans á hinu merka riti Óvíds, Metamorphoses, hefur vakið mikla hrifningu og fyrir hana hreppti hann bæði Menningarverðlaun DV og Íslensku þýðingaverðlaunin. Kristján hefur unnið að verkinu áratugum saman meðfram kennslu við Háskóla Íslands og hyggst fjalla um glímuna við að snara þessu grundvallarriti úr löngu útdauðu tungumáli.
Í umsögn dómnefndar um Íslensku þýðingaverðlaunin segir:„Kristján hefur með þýðingu sinn á Ummyndunum eftir Óvíd fært nútímalesendum fornklassískan sagnaheim á gullaldaríslensku eða eins og þeir Óvíd orða það: Hann hefur „lokið verki sem hvorki bræði Júpíters né eldur né járn né tönn tímans munu fá grandað.““
Kristján er með skemmtilegri fyrirlesurum og hvet ég alla sem áhuga hafa á bókmenntum og þýðingum til að mæta í Háskólabíó kl. 12 á mánudaginn. Frítt inn!