Hvernig verður bók til? – Kristján stórþýðandi næstur
Annan veturinn í röð stendur ritlistin fyrir fyrirlestraröðinni „Hvernig verður bók til?“ þar sem höfundar lýsa tilurð bóka sinna. Elísabet Jökulsdóttir flutti fyrsta fyrirlestur haustsins og stráði bókunum sínum á svið Háskólabíós.
Mánudaginn 18. október kemur röðin að stórþýðandanum Kristjáni Árnasyni. Þýðing hans á hinu merka riti Óvíds, Metamorphoses, hefur vakið mikla hrifningu og fyrir hana hreppti hann bæði Menningarverðlaun DV og Íslensku þýðingaverðlaunin. Kristján hefur unnið að verkinu áratugum saman meðfram kennslu við Háskóla Íslands og hyggst fjalla um glímuna við að snara þessu grundvallarriti úr löngu útdauðu tungumáli.
Í umsögn dómnefndar um Íslensku þýðingaverðlaunin segir:„Kristján hefur með þýðingu sinn á Ummyndunum eftir Óvíd fært nútímalesendum fornklassískan sagnaheim á gullaldaríslensku eða eins og þeir Óvíd orða það: Hann hefur „lokið verki sem hvorki bræði Júpíters né eldur né járn né tönn tímans munu fá grandað.““
Kristján er með skemmtilegri fyrirlesurum og hvet ég alla sem áhuga hafa á bókmenntum og þýðingum til að mæta í Háskólabíó kl. 12 á mánudaginn. Frítt inn!