Sigurður Pálsson talar um Utan gátta

Síðasti fyrirlestur misserisins í röðinni Hvernig verður bók til? fer fram fimmtudaginn 31. mars. Þá talar Sigurður Pálsson um leikritið sitt Utan gátta sem sópaði að sér verðlaunum á sínum tíma og gerði höfundinn að leikskáldi ársins.

Í fyrirlestri sínum mun Sigurður fjalla um sköpunarsögu verksins og sérstöðu þess meðal leikverka sinna. Ennfremur víkur hann að spurningunni um sérstöðu allra leiktexta miðað við aðra texta.

Sigurður er fyrir löngu orðinn landsþekktur höfundur. Færri vita kannski að hann hefur kennt ljóðagerð í ritlistarnámi Háskóla Íslands og mun halda því áfram.

Fyrirlestur Sigurðar fer fram í stofu 105 á Háskólatorgi á fimmtudaginn og hefst kl. 12. Ókeypis inn og allir velkomnir. Bene bene.

Sex ritlistarnemar áttu texta á sýningunni í Kringlunni

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Á laugardaginn voru birt úrslit úr textasamkeppni Hugvísindasviðs, Áttu orð?, en til hennar var efnt í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. Allir nemar, kennarar og starfsmenn máttu senda inn efni. Skemmst er frá því að segja að hátt í 200 textar bárust í keppnina og af þeim valdi dómnefnd, skipuð undirrituðum og rithöfundunum Oddnýju Eir Ævarsdóttur og Sigurbjörgu Þrastardóttur, 25 texta til birtingar í Kringlunni. Þrír þeirra voru síðan verðlaunaðir og má lesa þá á vefriti Hugvísindasviðs, Hugrás.

Sex ritlistarnemar áttu verk sem náðu inn á sýninguna í Kringlunni og verður það að teljast dágóð frammistaða. Verðlaunahafinn, Aðalheiður Guðmundsdóttir, sótti einnig ritlistarnámskeið við HÍ á árum áður.

Dómnefnd fann sterkan kjarna og góða viðleitni í öllu efni sem barst. Hið opna þema skilaði textum þar sem fengist er við persónulega reynslu jafnt sem akademíska hugsun og það í ýmsum formum, s.s. ljóðum, smáprósum, örsögum og stuttum einþáttungum. Þó er ljóst að þroska þarf form- og stílvitund meðal háskólamanna og það tökum við einmitt að okkur í ritlistinni.