Umsóknarfrestur um nám í ritlist að renna út

Safnrit sem ritlistarnemar gáfu út í fyrra.

Á morgun, 15. apríl, rennur út frestur til þess að sækja um meistaranám í ritlist. Allir sem hafa lokið grunnnámi af einhverju tagi geta sótt um og satt að segja vonumst við eftir því að fá fólk með alls konar bakgrunn inn í námið. Við viljum gjarnan að íslenskir rithöfundar komi ekki allir úr sama farvegi. Okkur vantar t.d. fleiri höfunda með bakgrunn í náttúruvísindum og heilbrigðisvísindum.

Til að sækja um fer fólk á heimasíðu Háskóla Íslands, hi.is. Þar efst til vinstri finnur það flipann „Umsókn um nám“, smellir á hann, velur framhaldsnám og ritlist. Með umsókn þurfa að fylgja allt að 30 síður af frumsömdu efni af einhverju tagi, mega vera nokkrir stuttir textar, ljóð eða kaflar úr lengra verki, jafnvel bland í poka. Einnig þarf að skrifa stutta greinargerð um markmið.

Meiningin með því að bjóða ritlist á meistarastigi er að búa til vettvang þar sem fólk getur einbeitt sér að því að læra til rithöfundar. Námið skiptist annars vegar í ritsmiðjur og hins vegar í lestraráfanga af ýmsu tagi því eins og Gyrðir Elíasson sagði í viðtali á dögunum er nauðsynlegt fyrir rithöfund að lesa.

Ritlist hefur verið kennd á BA-stigi alllengi en það var ekki fyrr en 2008 sem hún var boðin sem aðalgrein. Ritlistarnemar eru þegar farnir að láta til sín taka í íslensku bókmenntalífi. Þeir hafa hreppt nýsköpunarstyrki úr Bókmenntastjóði, gefið út tímarit með furðusögum, tvö safnrit, unnið verðlaun fyrir stuttmyndahandrit, gefið út ljóðabók, efnt til ljóðasýningar, lesið upp hér og þar, sex þeirra komust á textasýninguna í Kringlunni á dögunum og á næstunni mun Forlagið gefa út skáldsöguna Slátt eftir nýútskrifaðan ritlistarnema.