Sex ritlistarnemar áttu texta á sýningunni í Kringlunni
Á laugardaginn voru birt úrslit úr textasamkeppni Hugvísindasviðs, Áttu orð?, en til hennar var efnt í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. Allir nemar, kennarar og starfsmenn máttu senda inn efni. Skemmst er frá því að segja að hátt í 200 textar bárust í keppnina og af þeim valdi dómnefnd, skipuð undirrituðum og rithöfundunum Oddnýju Eir Ævarsdóttur og Sigurbjörgu Þrastardóttur, 25 texta til birtingar í Kringlunni. Þrír þeirra voru síðan verðlaunaðir og má lesa þá á vefriti Hugvísindasviðs, Hugrás.
Sex ritlistarnemar áttu verk sem náðu inn á sýninguna í Kringlunni og verður það að teljast dágóð frammistaða. Verðlaunahafinn, Aðalheiður Guðmundsdóttir, sótti einnig ritlistarnámskeið við HÍ á árum áður.
Dómnefnd fann sterkan kjarna og góða viðleitni í öllu efni sem barst. Hið opna þema skilaði textum þar sem fengist er við persónulega reynslu jafnt sem akademíska hugsun og það í ýmsum formum, s.s. ljóðum, smáprósum, örsögum og stuttum einþáttungum. Þó er ljóst að þroska þarf form- og stílvitund meðal háskólamanna og það tökum við einmitt að okkur í ritlistinni.