Meistaranemar vinna nú að bók sem kemur út í maí.
Hinn 15. apríl rennur út frestur til að sækja um meistaranám í ritlist. Til að að vera gjaldgeng/ur þarf að hafa lágmarkseinkunn úr grunnnámi. Þriggja manna inntökunefnd, skipuð umsjónarmanni námsins og tveimur rithöfundum sem Rithöfundasamband Íslands tilnefnir, velur síðan inn á grundvelli innsendra handrita.
Umsækjendur geta sent inn örsögur, smásögur, kafla úr skáldsögu fyrir börn eða fullorðna, listræna ritgerð, sannsögu, einþáttung, kvikmyndahandrit, ljóð eða annan texta af listrænu tagi; hámark 30 síður. Ljóðskáld sendi 10–12 ljóð. Þá skulu umsækjendur einnig skila inn stuttri greinargerð um áhugasvið sitt og markmið með náminu (ein síða). Frumsamið efni skal setja saman í eitt skjal og láta fylgja rafrænni umsókn í viðhengi.
Meistaranám í ritlist var tekið upp árið 2011. Síðan hafa vinsældir þess verið svo miklar að einungis hefur verið hægt að hleypa tæplega helmingi umsækjenda inn. Þeir sem ekki ná inn í fyrstu atrennu er hvattir til að reyna aftur. Námið er 120 einingar fyrir þá sem hafa bakgrunn í íslensku, ritlist eða bókmenntum en hjá þeim sem ekki hafa neinn slíkan bakgrunn bætast 30 einingar við.
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Háskóla Íslands.
Bryndís Björgvinsdóttir ræðir um bók sína, Hafnfirðingabrandarann, í fyrirlestraröðinni „Hvernig verður bók til?“ í Háskóla Íslands þriðjudaginn 14. apríl.
Fyrir Hafnfirðingabrandarann hreppti Bryndís Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, Fjöruverðlaunin og Íslensku bókmenntaverðlaunin 2014. Áður hafði hún skrifað bókina Flugan sem stöðvaði stríðið og fengið fyrir hana Íslensku barnabókaverðlaunin 2011.
Í umsögn dómnefndar um Fjöruverðlaunin segir m.a. um Hafnfirðingabrandarann:
Bókin er vel skrifuð og skemmtileg, söguþráður frumlegur og listilega fléttaður. Frásagnarstíllinn er ærslafullur og myndrænn og lestrarupplifunin á stundum eins og horft sé á kvikmynd.Frásögniner margradda og þær segja grípandi sögu sem vekur sterka samlíðan með persónunum.
Helsti styrkur sögunnar er hvernig hún fjallar um samskipti kynslóða og dregur upp flóknar sögupersónur af eldri kynslóðinni, persónur sem eru margbrotið og áhugavert fólk. Heimur eldri borgara er gerður merkingarbær og spennandi fyrir ungt fólk og veitt er óvenjuleg innsýn í líf þeirra.
Dómnefnd telur að Hafnfirðingabrandarinn hafi alla burði til að verða sígild unglingabók.
Fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? hefur verið haldið úti af námsgrein í ritlist og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands frá 2009. Þar hafa alls um tuttugu höfundar rætt um tilurð ritverka sinna. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, milli 12 og 13 þriðjudaginn 14. apríl.
Aðgangur ókeypis. Allir velkomnir.