Þau voru tilnefnd í flokki barna- og ungmennabókmennta. Hildur er önnur frá vinstri.
Í dag var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðalaunanna. Meðal þeirra sem hlutu tilnefningu að þessu sinni er Hildur Knútsdóttir en hún útskrifaðist með BA-próf í ritlist árið 2010. Hildur er tilnefnd í flokki barna- og ungmennabókmennta fyrir bókina Vetrarfrí sem JPV-útgáfa gefur út. Bókin er lauslega byggð á BA-verkefni Hildar sem hún vann undir handleiðslu síðuritara.
Hildur hefur áður sent frá sér bækurnar Slátt, Hola lovers og Spádóminn. Fyrr á árinu gaf hún einnig út bókina Draugaljósið á vegum Námsgagnastofnunar.
Nokkrir höfundar sem hafa sinnt kennslu, leiðsögn eða prófdæmingu fyrir ritlistina hlutu einnig tilnefningu í dag. Það eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson sem fékk tilnefningu til þýðingaverðlaunanna fyrir Nýsnævi, safn ljóðaþýðinga, Auður Jónsdóttir fyrir skáldsöguna Stóri skjálfti, Þórdís Gísladóttir fyrir Randalín, Munda og afturgöngurnar, Hermann Stefánsson fyrir Leiðina út í heim og Silja Aðalsteinsdóttir fyrir þýðingu á Grimmsævintýrum. Gunnar Theodór Eggertsson, sem mun kenna námskeið á vegum ritlistar næsta vetur, fékk jafnframt tilnefningu fyrir bókina Drauga-Dísa.
Ragnar Helgi Ólafsson, meistaranemi í ritlist, fékk í haust Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti verðlaunin en þeim fylgja 700 þúsund krónur. Bókaútgáfan Bjartur gaf bókina út daginn sem verðlaunin voru afhent.
Í umsögn dómnefndar um bókina segir m.a.:
Hún ber vitni góðri myndgáfu höfundar en hann hefur líka eftirtektarverð tök á að klæða þær myndir í orð. Annað einkenni þessarar bókar væri að tefla saman að því er virðist óskyldum hlutum af vissum óhátíðleika. Þetta skapaði ákveðna spennu sem ljær ljóðunum aukna dýpt. Kæruleysið á yfirborðinu leynir á sér. Fjölbreytileiki er líka einn styrkur bókarinnar, hún er margradda í góðum skilningi; tekist er á við heimspekileg viðfangsefni jafnhliða þeim sem stundum eru kölluð hversdagsleg, en eru auðvitað alveg jafn sígild, hér eru prósaljóð og frásagnir jafnframt knöppum og meitluðum ljóðum. Tilfinningin er sú að lífið leyni á sér, ekkert er sem sýnist, lífið er sem næturveiði og því gildir að skyggnast dýpra í hylinn.
Áður hefur Ragnar Helgi sent frá sér bókina Bréf frá Bútan og smásagnasafnið Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur. Ragnar Helgi hefur einnig komið að bókaútgáfu í gegnum forlagið Tunglið.